Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Sviðslistir í brennidepli – Framtíð leikritunar á Íslandi

Umræðukvöld um framtíð leikritunar á Íslandi í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8,
mánudaginn 27. mars kl. 20.15.

Frummælendur:
Hrafnhildur Hagalín listrænn ráðunautur Borgarleikhússins
Símon Birgisson handrits- og sýningadramatúrg Þjóðleikhússins
Friðrik Friðriksson leikari og framkvæmdastjóri Tjarnarbíós
Bjarni Jónsson leikskáld

Hlín Agnarsdóttir rithöfundur og leikstjóri stjórnar umræðum

Hægt er að taka leið 14 nánast upp að dyrum á Gunnarshúsi.

Slide1


80 ára útgáfuafmæli Aðventu – nýjar útgáfur, málstofa og upplestrar

Um þessar mundir eru liðin 80 ár frá því að skáldasaga Gunnars Gunnarssonar Aðventa kom í fyrsta sinn út hjá Reclam í Þýskalandi og Gyldendal í Danmörku. Sagan af Benedikt og eftirleit hans á Mývatnsöræfum með sínum trygglyndu félögum, Eitli og Leó er klassísk og tímalaus. Á síðustu árum hefur hún verið þýdd á ný tungumál og kemur til að mynda út fyrir þessi jól á hollensku, ítölsku, arabísku og norsku.

Er Benedikt kominn til byggða? – málstofa í Gunnarshúsi

Í tilefni útgáfuafmælisins efna Gunnarsstofnun og Rithöfundasamband Íslands til málstofu um söguna að kvöldi miðvikudags 7. desember á Dyngjuvegi 8 í Reykjavík. Málstofan hefur yfirskriftina Er Benedikt kominn til byggða? Þar munu fjórir fræðimenn fjalla um söguna frá ólíkum sjónarhornum. Þeir eru: Jón Yngvi Jóhannsson bókmenntafræðingur, Halla Kjartansdóttir þýðandi og kennari, Trausti Jónsson veðurfræðingur og Hjalti Hugason guðfræðingur. Að loknum stuttum framsögum mun Vésteinn Ólason prófessor emeritus stýra umræðum. Málstofan hefst kl. 20.00 og er öllum opin.

Aðventa lesin  víða um land þann 11. desember

Síðastliðin áratug hefur Gunnarsstofnun í samvinnu við aðra staðið fyrir upplestri á Aðventu í desember, bæði hérlendis og erlendis. Aðventa verður að þessu sinni lesin á þremur stöðum sunnudaginn 11. des. Í Reykjavík les Gunnar Helgason rithöfundar söguna á Dyngjuvegi 8 hjá Rithöfundasambandinu. Á Akureyri les Pétur Halldórsson fyrrum útvarpsmaður í setustofu Icelandair Hótel Akureyri og á Skriðuklaustri hljómar önnur góðkunnug útvarpsrödd en þar les Gunnar Stefánsson söguna. Upplesturinn hefst á öllum stöðunum kl. 14.


Höfundar í Gunnarshúsi – Auður Ava Ólafsdóttir ,Kristín Ómarsdóttir, Sigurbjörg Þrastardóttir

3skaldkonur

Kristín Ómarsdóttir rithöfundur tekur á móti tveimur taugatrekktum höfundum jólabókaflóðsins, Auði Övu Ólafsdóttur og Sigurbjörgu Þrastardóttur, og segir þeim að þetta verði allt í lagi. Auður og Sigurbjörg lesa úr bókunum Ör og Óttaslegni trompetleikarinn og aðrar sögur. Þess á milli mun Kristín spyrja þær spurninga sem einungis dýralæknar kunna rétt svör við. Sjálf mun Kristín lesa brot úr bókmenntum framtíðarinnar.
Þungar veitingar verða á boðstólnum en kona í Drápshlíð hefur boðist til að baka stríðstertu.

Veislan fer fram fimmtudaginn 24. nóvember í Gunnarshúsi við Dyngjuveg, húsi Rithöfundasambands Íslands. Frítt inn. Húsið opnar klukkan 17. Dagskrá hefst kl. 17.30 og varir í klukkustund.

„Bestu stundirnar í lífi mínu eru þegar ég ligg einn uppi á heiði, ofan
í svefnpoka, með byssuna eldsnemma morguns, og bíð eftir að fuglarnir vakni. Maður þegir og horfir á hjarnið. Það er eins og að vera innan í kvenmannslegi. Maður er öruggur. Maður þarf ekki að fæðast. Maður þarf ekki að koma út.“
–úr Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur

Auður Ava Ólafsdóttir skrifar skáldsögur, leikrit og ljóð. Hún er líka textahöfundur popphljómsveitarinnar Milkywhale.

Kristín Ómarsdóttir skrifar skáldsögur, ljóð og leikrit. Hún ritar ennfremur höfundaviðtöl í Tímarit Máls og menningar.

Sigurbjörg Þrastardóttir skrifar ljóð, leikrit og skáldsögur. Hún flytur einnig fasta pistla í útvarpsþættinum Víðsjá.


Höfundakvöld í Gunnarshúsi – Guðrún Guðlaugsdóttir, Páll Kristinn Pálsson og Sigurjón Magnússon.

gudrun_auglysing_dios_mynddsc02848-1img_9976

Guðrún Guðlaugsdóttir, Páll Kristinn Pálsson og Sigurjón Magnússon lesa upp og spjalla um nýútkomnar skáldsögur sínar í Gunnarshúsi að Dyngjuvegi 8 í Reykjavík fimmtudagskvöldið 17. nóvember nk. kl. 20.00.

Dauðinn í opna salnum er þriðja bókin í sakamálabálki Guðrúnar Guðlaugsdóttur um blaðamanninn Ölmu Jónsdóttur, þroskaðrar konu á tímamótum í lífi sínu. Áður hafa komið út Beinahúsið (2014) og Blaðamaður deyr (2015). „Á Ólympíumóti í bridge á Rhodos verður skyndilega niðamyrkur í opnum spilasal þar sem Alma Jónsdóttir blaðamaður horfir á viðureign Ítala og Íslendinga. Í myrkum salnum gerast óhugnanlegir atburðir. Leikurinn berst heim til Íslands og fyrr en varir er Alma farin að rannsaka dauðsföll sem tengjast bridgeheiminum.“

Ósk er ellefta bók Páls Kristins Pálssonar. Þetta er þroskasaga sem gerist á síðari hluta síðustu aldar. „Óskar Pétursson greinist á miðjum fertugsaldri með alvarlegan sjúkdóm. Frá barnæsku hefur hann búið yfir djúpstæðu leyndarmáli og við að horfast í augu við dauðann fyllist hann knýjandi þörf fyrir að sannleikurinn komi fram í dagsljósið. Hann hefst því handa við að skrifa sín eigin eftirmæli.“

Sonnettan er áttunda skáldsaga Sigurjóns Magnússonar, sem vakti strax mikla athygli með fyrstu sögu sinni Góða nótt, Silja árið 1997. „Er alþekkt sonnetta Snorra Hjartarsonar – Land, þjóð og tunga – andstæð fjölmenningu á Íslandi? Um það er deilt innan menntaskólans þar sem Tómas kennir. Deilurnar leiða til þess að hann hrekst úr starfi. Sumarið eftir fer hann ásamt eiginkonu sinni Selmu í frí til Spánar. Þau hafa fjarlægst hvort annað, en Tómas vonar að fríið geti snúið þeirri þróun við. Á Spáni kynnast þau fólki af ýmsu þjóðerni. Þar eru líka nokkrir Íslendingar – og Tómasi verður fljótlega ljóst að skuggi sonnettu-deilunnar er lengri en hann óraði fyrir.“

Dagskráin hefst kl. 20.00. Boðið upp á léttar veitingar. Allir velkomnir.