Search
Close this search box.

Fyrir verkkaupa

Vilt þú fá höfunda eða þýðendur til að lesa upp úr verkum sínum, spjalla um bókmenntir og lestur eða taka að sér önnur bókmenntatengd verkefni?

Það er algjört grundvallaratriði að greidd séu laun fyrir vinnu. Verkkaupar skulu alltaf ganga út frá því að greiða sanngjarna þóknun fyrir störf sem þeir biðja höfunda eða þýðendur um að inna af hendi.

Hér má sjá viðmiðunartaxta Höfundamiðstöðvar RSÍ.

Mikilvægt er að greiða fyrir þá sérþekkingu og sérhæfingu sem verið er að fara fram á. Höfundar verða að fá greitt fyrir þann tíma sem þeir eyða í vinnuna rétt eins og allar aðrar starfsstéttir. Mikilvægt er að verkkaupar geri ráð fyrir launum höfunda í fjárhagsáætlun fyrir verkefni/viðburð.

Sé höfundur beðinn um að lesa upp eða spjalla á samkomu eða fyrir smærri hópa þá er það EKKI sjálfvalin leið höfundarins til markaðssetningar. Það á að vera sjálfsagt mál að greiða fyrir það sem maður pantar. Sú regla gildir í öðrum starfsstéttum og á að sjálfsögðu líka við um höfunda.

Verkkaupi og höfundur semja um sanngjarna þóknun fyrir verk. Best fer á að verkkaupi taki skýrt fram til hvers er ætlast af höfundi. Gera þarf ráð fyrir að greiða fyrir undirbúning og tímann sem fer í viðburðinn eða verkefnið.

Samningur skal vera skriflegur, t.a.m. með tölvupósti. Taka skal fram hvort útgjöld (ferðir og uppihald) eru innifalin í þóknun eða hvort verkkaupi greiðir þau sér. Höfundurinn bókar og tekur frá tíma fyrir verkið og hann þarf að undirbúa sig fyrir öll verkefni. Ef verkkaupi afbókar á síðustu stundu þarf hann samt sem áður að greiða fyrir undirbúning. Gott er að semja fyrirfram um hvað skal gera ef annar hvor aðilinn þarf að afbóka.

Samkomulag um þóknun fer fram á milli verkkaupa og höfundar. Við getum útskýrt hvernig lágmarkstaxtarnir eru reiknaðir og við útskýrum gjarnan af hverju höfundar geta ekki unnið frítt. Þú nærð tali af okkur í rsi@rsi.is