Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland

Lög RSÍ

Lög Rithöfundasambands Íslands

 1. grein
  Rithöfundasamband Íslands er stéttarfélag rithöfunda.

2.grein
Aðalskrifstofa Rithöfundasambands Íslands, heimilisfang og varnarþing er í Reykjavík.

 1. grein
  Tilgangur Rithöfundasambands Íslands er að efla samtök íslenskra rithöfunda, gæta hagsmuna þeirra og réttar í samræmi við alþjóðavenjur, verja frelsi og heiður bókmenntanna og standa gegn hvers kyns ofsóknum á hendur rithöfundum og hindrunum í starfi þeirra. Rithöfundasamband Íslands tekur ekki þátt í baráttu stjórnmálaflokka né hlutast til um listastefnur, stjórnmálaskoðanir eða trúarbrögð.
 2. grein
  Rétt á félagsaðild eiga íslenskir rithöfundar og erlendir höfundar sem hafa fasta búsetu á Íslandi. Félagar geta orðið:1) Höfundar sem birt hafa tvö bókmenntaverk, frumsamin eða þýdd, sem teljast hafa ótvírætt listrænt og/eða fagurfræðilegt gildi,
  2) höfundar sem birt hafa tvö fræðirit, frumsamin eða þýdd, er teljast hafa ótvírætt fræðslu- og menningargildi,
  3) höfundar sem samið hafa eða þýtt tvö leikrit eða handrit sem sviðsett hafa verið í leikhúsi eða sjónvarpi, flutt í hljóðvarpi eða kvikmynduð, þótt þau hafi ekki komið út á bók,
  4) sjónvarpsþýðendur sem hafa þýðingar að aðalstarfi,
  5) höfundar annars efnis sem inntökunefnd metur fullnægjandi til inngöngu.Á aðalfundi séu kjörnir þrír menn í inntökunefnd og mega þeir ekki vera úr hópi stjórnarmanna sambandsins. Inntökunefnd sé kjörin til eins árs í senn. Enginn sitji þó lengur í nefndinni en 3 ár samfleytt. Inntökunefnd starfi allt árið og fjalli ítarlega um hverja inntökubeiðni í þeirri röð sem þær berast. Enginn getur orðið félagsmaður nema með honum mæli meirihluti inntökunefndar. Félagsmenn eru bundnir af samþykktum og gerðum samningum Rithöfundasambands Íslands.
 3. grein
  Stjórn Rithöfundasambands Íslands skipa fimm aðalmenn og tveir til vara. Kjörtímabil stjórnarmanna er 2 ár. Stjórnarkjöri skal lýst á aðalfundi. Formaður og varaformaður skulu kosnir sérstaklega, síðan aðrir stjórnarmenn. Aðalfundur skal auglýstur í fréttamiðlum sambandsins með 8 vikna fyrirvara hið minnsta. Skrifleg tilkynning um framboð til stjórnarstarfa skal hafa borist skrifstofu RSÍ eigi síðar en 5 vikum fyrir aðalfund. Allir félagar eru kjörgengir nema heiðursfélagar og þeir sem eru á aukaskrá svo sem segir í 13. grein laga þessara.
  Stjórn skal kosin rafrænt. Kjörfundur hefst tveimur vikum fyrir aðalfund og lýkur á miðnætti fyrir aðalfund. Eftir að kjörfundi lýkur skulu niðurstöður kosninga tilkynntar á aðalfundi. Á aðalfundi skal kjósa tvo skoðunar­menn reikninga sambandsins og mega þeir ekki vera úr hópi stjórnarmanna. Um kosningu í nefndir eða einstaklinga til sérstakra starfa fer eftir ákvörðun fundarstjóra nema tillögur um annan hátt hljóti stuðning fundarins.Nú hljóta tveir menn jafna atkvæðatölu og skal þá varpað hlutkesti milli þeirra. Ef stjórn RSÍ eða varastjórn er ekki fullmönnuð er stjórn heimilt að boða til aukaaðalfundar í því skyni að bæta þar úr. Um framkvæmd slíks aukaaðalfundar gilda að öðru leyti sömu reglur og um aðalfund, m.a. hvað varðar boðun, kjörgengi, kjör o.s.frv.
 4. grein
  Aðalfund Rithöfundasambands Íslands skal halda árlega í vetrarlok, þó aldrei síðar en 1. júní. Á aðalfundi skýrir formaður frá starfi Rithöfundasambandsins á liðnu ári. Reikningar sambandsins skulu árlega endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda og félagslegum skoðunarmönnum og síðan sendir mennta­málaráðuneyti. Þeir skulu lagðir fyrir aðalfund til afgreiðslu.
 5. grein
  Stjórn Rithöfundasambandsins gerir samninga við ríkisútvarp (hljóðvarp og sjónvarp), bókaútgefendur, Námsgagnastofnun, leikhús og aðra aðila sem birta eða hafa afnot af verkum félagsmanna.
 6. grein
  Stjórn sambandsins ræður sér framkvæmdastjóra sem stjórnar daglegum rekstri sambandsins. Hann er sambandsstjórn til aðstoðar við samningagerð, annast fjárreiður sambandsins, bókhald, bréfaskriftir og annað sem hér að lýtur.
 7. grein
  Auk aðalfundar skal sambandið halda eigi færri en tvo almenna fundi á ári. Eru slíkir fundir ályktunarhæfir um atriði sem snerta hagsmuni stéttarinnar og allt annað er viðkemur félagsmönnum, hafi þeir verið boðaðir með viku fyrirvara. Stjórn Rithöfundasambandsins skal ávallt kveðja saman félagsfund ef tíu félagsmenn æskja þess og tilgreina ástæðu.
 8. grein
  Aðalfundur Rithöfundasambands Íslands hefur heimild til að kjósa Rithöfundasambandi Íslands heiðursfélaga sem verði ævilangt undanþeginn félagsgjöldum. Þarf 3/4 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi til að kjör heiðursfélaga sé lögmætt. Tillögu um heiðursfélaga skal senda stjórn sambandsins eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir aðalfund og komi hún því aðeins til álita að stjórnin sé henni meðmælt.
 9. grein
  Rithöfundasamband Íslands er aðili að Bandalagi íslenskra listamanna. Stjórnarmenn RSÍ eru gjaldgengir fulltrúar í stjórn BÍL. Stjórn getur valið staðgengil úr röðum félagsmanna í forföllum. Stjórn RSÍ sækir jafnframt aðalfundi Bandalags íslenskra listamanna.
  Til að rifta aðild sambandsins að bandalaginu þarf 3/4 greiddra atkvæða á aðalfundi.
 10. grein
  Breytingar á lögum Rithöfundasambands Íslands verða ekki gerðar nema á lögmætum aðalfundi og þó því aðeins að 2/3 fundarmanna gjaldi þeim jáyrði sitt. Allar tillögur um lagabreytingar, svo og aðrar veigamiklar tillögur sem bera skal upp til atkvæða á félagsfundi, skulu boðaðar í dagskrá fundarins.
 11. grein
  Aðalfundur ákveður árgjöld sambandsins. Nöfn þeirra félagsmanna, sem 1. mars hafa ekki greitt árgjald fyrra árs, skulu sett á aukaskrá. Félagar á aukaskrá hafa ekki atkvæðisrétt á sambandsfundum né heldur kjörgengi í stjórn eða önnur trúnaðarstörf fyrir sambandið. Þeir félagsmenn, sem ekki hafa greitt árgjaldið í tvö ár samkvæmt framansögðu, falla sjálfkrafa út af félagaskrá og verða ekki félagsmenn á ný fyrr en þeir hafa greitt skuld sína.Stjórn sambandsins er þó heimilt að veita félagsmönnum eftirgjöf eða ívilnun á árgjöldum ef efnahagslegar ástæður valda vanskilunum. Félagsmenn skulu undanþegnir árgjaldi sjötugir og upp frá því enda hafi þeir verið félagar í Rithöfundasambandinu í a.m.k. fimm ár. Skylt er að taka skriflega úrsögn félagsmanna til greina.
 12. grein
  Lög þessi öðlast þegar gildi. (Lögin svo breytt samþykkt á aðalfundi 28. apríl 2016).