Höfundakvöld hafa verið haldin á haustmánuðum í Gunnarshúsi síðan 2014. Félagsmenn í RSÍ geta sjálfir pantað Gunnarhús og skipulagt höfundakvöld í samráði við kollega sína. Hefðin hefur verið sú að á fimmtudagskvöldum mæta höfundar, einn eða fleiri, ásamt spyrli og spjalla um bækur sínar, lesa aðeins úr þeim, og svo gefst áhorfendum kostur á að spyrja spurninga. Markmiðið með höfundakvöldunum er að lyfta jólabókavertíðinni upp úr fari hinna hefðbundnu upplestrarkvölda og gefa hverri bók og hverjum höfundi meiri tíma.
