Search
Close this search box.

Samningur við Leikfélag Reykjavíkur

SAMNINGUR VIÐ LEIKFÉLAG REYKJAVÍKUR

Rithöfundasamband Íslands annarsvegar og Leikfélag Reykjavíkur hinsvegar gera með sér svofelldan samning:

  1. gr. Sýningarréttur
    Leikfélagi Reykjavíkur ber að gera skriflegan samning við höfund jafnskjótt og verk hans hefur verið samþykkt til flutnings. Leikhúsið skal staðfesta móttöku handrits með dagsettri og undirritaðri yfirlýsingu. Leikhúsið skuldbindur sig til að gefa höfundi svar innan 4 mánaða frá því handrit berst leikhúsinu um það hvort leikrit hans verði tekið til sýninga. Leikhúsið hefur sýningarrétt á keyptu leikverki svo lengi sem sýningar eru samfelldar. Við sérstakar aðstæður má þó gera hlé á sýningum allt að 9 mánuðum. Ef sviðsetning verks er ekki hafin innan tveggja ára frá undirritun samnings missir leikhúsið flutningsréttinn, en lágmarkshöfundar- greiðslu skal þó greiða að fullu sbr. 2. gr. innan eins árs.
  1. gr. Höfundagreiðsla
    Við frumflutning leikrits (leikverks) greiðir Leikfélag Reykjavíkur lágmarkshöfundagreiðslu sem er kr. 4.099.809 þegar um fyrsta verk höfundar í leikhúsinu eða sambærilegu atvinnuleikhúsi er að ræða, en annars kr. 4.191.974 og greiðist sem hér segir:

A. Fullbúið verk.
Helmingur lágmarksgreiðslunnar greiðist við undirritun samnings, 30% við fyrstu æfingu og 20% strax eftir frumsýningu.

B. Verk í smíðum.
Fyrir verk í smíðum greiðist

– 1/8 af lágmarkshöfundarlaunum þegar leikhúsið semur við leikskáld um að vinna að verki byggðu á hugmynd eða verklýsingu
– 1/8 einum mánuði eftir fyrstu greiðslu
– 1/8 við skil á drögum að verkinu
– 1/8 við skil á fullbúnu handriti
– 2/8 við fyrstu æfingu
– 2/8 strax eftir frumsýningu.

C. Höfnun
Ef fullbúnu verki er hafnað, heldur leikskáldið þeim greiðslum sem þegar hafa verið inntar af hendi.

Höfundargreiðsla er verktakagreiðsla nema um annað sé samið sérstaklega.

  1. gr. Viðbótargreiðsla
    Fyrir einstakar sýningar, eftir að 10.000 aðgöngumiðar hafa selst, greiðist mánaðarlega eftir á 12% af andvirði seldra aðgöngumiða umfram það. Ef um er að ræða söngleik með hækkuðu miðaverði, er eftir sem áður miðað við venjulegt miðaverð.
  1. gr. Endurflutningur
    Lágmarkstrygging fyrir endurflutning skal nema a.m.k. helmingi þeirrar upphæðar sem tilgreind er í 2. grein. Það telst vera frumflutningur leikverks ef það hefur ekki áður verið sýnt hérlendis í atvinnuleikhúsi eða sjónvarpi. Sé um endurflutning að ræða greiðir leikhúsið pr. sýningu þá upphæð sem tilgreind er í 3. grein og með sömu skilmálum eftir að 10.000 aðgöngumiðar hafa verið seldir.
  1. gr. Stutt leikverk
    Leikrit sem er 70 mínútur eða lengra telst vera heils kvölds verk og sömuleiðis barnaleikrit sem er 60 mínútur eða lengra. Ef fleiri en eitt stutt leikrit mynda heils kvölds sýningu skiptast höfundarlaunin milli höfunda í hlutfalli sem tilgreina skal í samningi. Sé um að ræða stutt verk eða einþáttung, sem leikhúsið sýnir með lækkuðu aðgöngumiðaverði, mega greiðslur skv. 2. grein lækka hlutfallslega. 
  1. gr. Tilraunaverk og leiksmiðjuverkefni
    Í sérstökum tilvikum, þegar um tilraunaverk eða leiksmiðjuverkefni er að ræða, skal höfundur fá greitt í hlutfalli við framlag sitt til verkefnisins. Greiðsla til höfundar skal þó aldrei nema lægri upphæð en ¼ lágmarkshöfundargreiðslu sbr. 2. gr. Þegar um leiksögu er að ræða, t.d. fyrir spuna eða danssýningu, skal greiðsla til höfundar aldrei vera lægri en 1/8 af lágmarkshöfundargreiðslu.
  1. gr. Þóknun fyrir þýðingar
    Fyrir afnotarétt þýðinga eftir félaga í Rithöfundasambandi Íslands greiðir Leikfélag Reykjavíkur:

    Venjulegt heils kvölds leikrit: kr. 690.980
    Leikrit, sem krefst meiri vinnu af þýðanda vegna málsfars, stíls eða lengdar: kr. 1.036.471
    Leikrit í bundnu máli: kr. 1.381.964

    Lágmarksgjald fyrir þýðingar fellur allt í gjalddaga þegar þýðandi hefur skilað verki sínu til leikhússins. Þegar 15.000 aðgöngumiðar hafa verið seldir greiðir leikhúsið þýðandanum aukaþóknun að upphæð kr. 142.380,-. Fyrir endurflutning leikrits skal þýðandi fá helming ofangreindra greiðslna.

  1. gr. Staðfærslur
    Ef þýðing felur í sér staðfærslu, þ.e. aðlögun efnis að öðrum aðstæðum en felast í frumtexta, skal þóknun aldrei vera lægri en B liður 6. greinar kveður á um. Ef um verulega staðfærslu er að ræða, þ.e. endursamning efnisins að hluta, skal greiða aukalega 12% af B. lið 7. greinar.
  1. gr. Leikgerðir
    Leikhúsið skal í öllum tilfellum greiða full höfundarlaun fyrir leikgerðir (sbr. grein 2). Það telst vera leikgerð ef annarri tegund bókmenntaverka er breytt í leikrit. Höfundagreiðsla skiptist milli frumhöfundar og leikgerðarhöfundar samkvæmt hlutfalli sem samið er um sérstaklega. Höfundur leikgerðar skal þó aldrei fá minna en sem nemur 50% af lágmarkshöfundagreiðslu. Hafi réttur frumhöfundar fallið úr gildi, rennur hlutfall hans af höfundarlaununum til leikgerðar­höfundarins í hverju tilviki.
  1. gr. Sýningar í sjónvarpi
    Leikhúsið áskilur sér rétt til að semja við framleiðendur sjónvarpsefnis um sýningu í sjónvarpi á uppfærslum leikhússins að höfðu samráði við höfund.
  1. gr. Myndefni úr sýningu
    Leikhúsið skal láta höfundi í té a.m.k. 10 góðar ljósmyndir úr sýningunni af myndum þeim sem teknar hafa verið vegna kynningar á verkinu. Auk þess skal höfundur eiga rétt á afriti til einkanota af myndbandsupptöku eða annarri sambærilegri upptöku sem gerð hefur verið af endanlegri sviðssetningu verksins. Heimilt er höfundi að nota allt að 90 sekúndna samfelldan kafla úr slíkri upptöku til kynningar á höfundarverki sínu. 
  1. gr. Breytingar á launaviðmiðun
    Allar greiðslur í samningi þessum taka á samningstímanum mið af breytingum sem verða á launavísitölu frá og með 1. janúar 2019 samkvæmt útreikningi Hagstofu Íslands og skulu uppfærðar í janúar ár hvert.
  1. gr. Gildistími
    Samningur þessi er gerður í tveimur samhljóða eintökum og heldur hvor aðili sínu. Hann gildir frá undirskriftardegi til 1. apríl 2019. Við undirritun samnings þessa fellur fyrri samningur aðila sama efnis úr gildi þeirra á milli. Samningurinn endurnýjast sjálfkrafa um eitt ár í senn, hafi hvorugur aðila látið í ljós skriflega ósk um endurskoðun hans tveimur mánuðum áður en gildis­tíminn rennur út.
  1. gr. Annað
    Rísi mál út af samningi þessum má reka það fyrir Bæjarþingi Reykjavíkur og skuldbinda aðilar sig til að mæta með innanbæjarfyrirvara.

 

Reykjavík, 20.4.2018.
Með fyrirvara um samþykki félagsfunda.

Svo samþykkt á aðalfundi Rithöfundasambands Íslands 26. apríl 2018.