Search
Close this search box.

Einkaleg kvöldstund í Gunnarshúsi fimmtudaginn 9. des.

Fimmtudaginn 9. des kl. 20:00 lesa Eva Rún Snorradóttir, Kristín Ómarsdóttir og Valgerður Ólafsdóttir upp úr nýútkomnum bókum sínum.

Eva Rún Snorradóttir kynnir og les upp úr bókinni Óskilamunir, smásagnasafni sem kom út í haust. Óskilamunir eru sögur um ástir sem finnast og tapast, hvernig sársauki mótar okkur, um allt það sem brotnar en ekki síst brotin sem enginn vitjar. Hvernig við leitum með veiku ljósi að leið í gegnum þetta ævarandi grímuball sem lífið er. Hversdagslegar og prívat sögur um lesbískar ástir.

Kristín Ómarsdóttir kynnir og les upp úr bókinni Borg bróður míns, sem fjallar um hömlur og auðmýkt, kröfur og uppgjöf, sveigjanleika, orðleysi og vanmátt og veiklunda hugrekki, sögurnar gerast meira og minna í borg – sem má þekkja og ímynda sér – inn í minnstu einingum borgar: herbergjum og eldhúsum og stofum og í fjörum og kirkjugörðum og á víðavangi. Þetta er óbeint framhald Einu sinni sagna, sem samið var af tvölfalt yngri höfundi.

Valgerður Ólafsdóttir kynnir og les upp úr bókinni Konan hans Sverris: Hildur er laus úr erfiðu hjónabandi og styrkur hennar eykst dag frá degi. Hún lítur til baka og hugsar um mynstrin sem við lærum svo rækilega að á endanum vefjast þau um háls okkar eins og níðþungir hlekkir. Konan hans Sverris er saga um ofbeldi og eftirsjá en einnig um þrautseigju og sátt.

Bækurnar eru allar gefnar út hjá Benedikt bókaútgáfu. Hægt að fá áritaðar bækur. Notaleg stemmning. Piparkökur og mandarínur.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email