Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland

Sjóðir

Launasjóður rithöfunda

Sjóðurinn starfar samkvæmt lögum um listamannalaun og hefur þriggja manna stjórn listamannalauna yfirumsjón með sjóðnum. Launasjóður rithöfunda veitir árlega starfslaun og styrki sem svara til 555 mánaðarlauna. Þriggja manna nefnd, sem menntamálaráðherra skipar árlega samkvæmt tillögum stjórnar Rithöfundasambands Íslands, úthlutar fé úr Launasjóði rithöfunda.
Rétt til greiðslu úr sjóðnum hafa íslenskir rithöfundar. Heimilt er að greiða úr sjóðnum fyrir þýðingar á íslensku. Starfslaunaþegar skulu skila skýrslu um störf sín á starfslaunatímanum eigi síðar en ári eftir að honum lýkur. Þeir skulu ekki gegna föstu starfi meðan á starfslaunatímanum stendur. (Fullt starf í skilningi þessara laga miðast við 67% starf eða meira. Þeir sem njóta starfs­launa í sex mánuði eða lengur skulu því ekki gegna öðru starfi sem telst meira en þriðjungur úr stöðugildi meðan þeir fá greidd starfslaun enda hindri það ekki listamanninn í því að sinna því verkefni sem starfslaunin voru veitt til.)
Auglýst er eftir umsóknum að hausti og er miðað við að úthlutun fari fram fyrir 1. mars ár hvert.
Umsóknareyðublöð og nánari upplýsingar fást hjá Rannís.

Handritsstyrkir Kvikmyndasjóðs

Styrkir úr Kvikmyndasjóði eru einungis veittir íslenskum framleiðslufyrirtækjum og einstaklingum sem hafa kvikmyndagerð að meginstarfi. Vilyrði fyrir styrki úr Kvikmyndasjóði opnar oft dyr að annarri fjármögnun og því er æskilegt að sækja um með góðum fyrirvara. Afgreiðsla umsókna tekur að jafnaði 8-10 vikur. Fáist jákvætt svar við umsókn er gefið út vilyrði fyrir styrk. Athugið að allar nánari upplýsingar um fyrirkomulag styrkja er að finna á heimasíðu Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og í reglugerð um Kvikmyndasjóð. Reglugerðina má nálgast hér.

Þrenns konar handritsstyrki standa til boða en umsækjendur þurfa að fylla út viðeigandi umsóknareyðublað sem finna má með því að smella á eftirfarandi hlekki: Handritsstyrkir fyrir leiknar kvikmyndir, handritsstyrkir fyrir leikið sjónvarpsefni og handritsstyrkir fyrir heimildamyndir.

Hagþenkir – starfsstyrkir til ritstarfa

Hagþenkir veitir höfundum starfsstyrki til að vinna að ritun fræðirita og kennslugagna hvort sem verkin eru gefin út á prenti eða rafrænu formi. Starfsstyrkir eru veittir til ritstarfa en ekki til útgáfu, kynningar eða annars kostnaðar við útgáfu fræðirita og kennslugagna. Sérstök áhersla skal lögð á að styrkja höfunda til að ljúka verkum sem eru hafin eða langt komin. Einnig er heimilt að veita höfundi styrk vegna verks sem er lokið. Ekki skal veita styrki til lokaverkefna í háskólanámi, s.s. meistara- eða doktorsritgerða. Rétt til að sækja um starfsstyrki hafa félagsmenn í Hagþenki og aðrir höfundar fræðirita og kennslugagna. Reglur og umsóknareyðublöð má finna á heimasíðu Hagþenkis.

Starfslaunasjóður sjálfstætt starfandi fræðimanna

Sjóðurinn starfar skv. reglum um Starfslaunasjóðinn, sjá nánar á heimasíðu Rannís.
Hægt er að sækja um styrki til að vinna að ritun fræðirita og –greina, handbóka, orðabóka og víðamikils upplýsingaefnis á íslensku í ýmsu formi. Umsækjendur sækja um starfslaun til 3, 6, 9 eða 12 mánaða í senn og skal tilgreina starfslaunatímabil á umsóknareyðublaði. Heimilt er að veita sama einstaklingi starfslaun vegna afmarkaðra verkefna til lengri tíma en 12 mánaða, en þó aldrei lengur en til 36 mánaða. Þegar sótt er um áframhaldandi starfslaun skal endurnýja umsókn árlega. Framlag Starfslaunasjóðs sjálfstætt starfandi fræðimanna skal miðast við 300.000 kr. á mánuði

Miðstöð íslenskra bókmennta

Hlutverk Miðstöðvar íslenskra bókmennta er að efla bókmenningu á Íslandi m.a. með því að veita styrki til útgáfu íslenskra ritverka og þýðinga erlendra bókmennta á íslensku. Jafnframt er hlutverk Miðstöðvarinnar að kynna íslenskar bókmenntir hér á landi og erlendis og stuðla að aukinni útbreiðslu þeirra.

Miðstöð íslenskra bókmennta hóf starfsemi í ársbyrjun 2013. Við stofnun hennar sameinuðust fyrrum Bókmenntasjóður sem starfað hafði frá árinu 2008 og verkefnið Sögueyjan Ísland (Sagenhaftes Island) sem hélt utan um heiðursþátttöku Íslands á Bókasýningunni í Frankfurt 2011. Heimasíða.

Norræna menningargáttin

Norræna menningargáttin/Kulturkontakt Nord veitir árlega ýmsa styrki á sviði menningarmála. Sjá nánar hér.

Styrkir Reykjavíkurborgar

Reykjavíkurborg veitir ár hvert félagasamtökum, fyrirtækjum og einstaklingum styrki til starfsemi og þjónustu sem fellur að hlutverki sveitarfélagsins eða telst á annan hátt í samræmi við stefnumörkun, áherslur og forgangsröðun borgaryfirvalda. Að hausti ár hvert eru auglýstir til umsóknar styrkir úr borgarsjóði með fjögurra vikna umsóknarfresti. Fagráð fer yfir umsóknirnar og tekur ákvörðun um úthlutun fyrir árslok hvers árs. Nánari upplýsingar hjá Reykjavíkurborg.

Dansk- íslenski samvinnusjóðurinn

Sjóðurinn var efldur á 50 ára afmæli lýðveldisins. Veitir m.a. styrki til vinnu- og námsdvalar í Danmörku. Umsóknarfrestur rennur út 15. apríl og 15. október ár hvert. Umsóknum ber að skila til á sérstökum eyðublöðum til Fondet for Dansk-Islandsk Samarbejde, konsulent Per Fischer, c/o Udenrigsministeriet, Asiatisk Plads 2, 1448 København K. Sími: 0045-70 20 40 76, fax: 0045-0045-70 20 40 78, post@fdis.dk
http://www.fdis.dk/

Dansk- íslenski sjóðurinn

Sjóðnum er ætlað að styrkja menningartengsl Danmerkur og Íslands, íslenskt vísinda- og rannsóknastarf svo og nemendur á háskólastigi. Umsóknir skulu sendar Dansk-Islandsk Fond, Sankt Annæ Plads 5, DK-1250 København K. á umsóknareyðublöðum sem þar fást. Sími: 0045-33148276
http://www.ask.hi.is/id/1201

Menningarsjóður Íslands og Finnlands

Stofnaður 1974. Sjóðnum er ætlað að styrkja menningartengsl Íslands og Finnlands. Styrkirnir eru fyrst og fremst veittir einstaklingum, en í sérstökum tilfellum kemur stuðningur við samtök og stofnanir til greina. Umsóknarfrestur rennur út 31. mars ár hvert. Umsóknareyðublöð fást hjá Menntamálaráðuneytinu og þar er einnig tekið við umsóknum. Æskilegt er að umsóknir séu ritaðar á sænsku, dönsku, finnsku eða norsku. Styrkir til að sækja norrænar eða alþjóðlegar ráðstefnur koma að jafnaðu ekki til greina. www.hanaholmen.fi.

Letterstedtski sjóðurinn

Hefur m.a. það hlutverk að efla norræn tengsl í vísindum, verkmennt og listum. Styrkir eru m.a. veittir til dvalar við háskóla í öðru Norðurlandaríki, til ráðstefnuhaldara og til útgáfu á eða kaupum á bókum og ritum með samnorrænu efni. Íslandsdeild sjóðsins veitir ferðastyrki til vísinda- og fræðimanna. Umsóknarfrestur vegna ferðastyrkja rennur út 1. mars ár hvert en vegna annarra styrkja 1. mars og 15. sept. Umsóknir um ferðastyrki skulu sendar ritara Íslandsdeildar Letterstedtska sjóðsins, Þór Magnússyni, Bauganesi 26, 101 Reykjavík. Umsóknir um aðra styrki skulu sendar stjórn Letterstedtska föreningen, Box 34037, SE-100 26 Stockholm, Svíþjóð. Sjá nánar á heimasíðu http://www.letterstedtska.org/.

IHM sjóður Rithöfundasambands Íslands

Innheimtumiðstöð gjalda starfar samkvæmt 11. gr. höfundalaga, þar sem segir að gjald skuli lagt á auð mynd- og hljóðbönd við innflutning.

Reglur RSÍ um ráðstöfun greiðslna frá Innheimtumiðstöð gjalda – IHM

Reglurnar taka til þeirra tekna sem RSÍ og Hagþenkir fá í sameiningu úthlutað frá Innheimtumiðstöð gjalda – myndbandageira – og af minni og stærri geisladiskum, auk tekna vegna hljóðbandageira og vörslufjár vegna erlends Kapalsjónvarps. Reglurnar eru settar til 5 ára í senn með það að leiðarljósi að úthlutun nái sem best til þeirra sem eiga sannanlegan rétt. Skrifstofa RSÍ tekur við greiðslum frá IHM og greiðir sameiginlegan kostnað við úthlutun af óskiptum tekjum.

1. Ársreikningar RSÍ skulu bera með sér tekjur frá IHM og ráðstöfun þeirra.

2. Tekjum þessum að frádregnum kostnaði skv. góðum reikningsskilavenjum skal ráðstafað með einstaklingsbundnum úthlutunum einu sinni á ári. RSÍ sér um úthlutanir til höfunda leikins efnis, höfunda annarra skáldverka og þýðenda, en Hagþenkir annast úthlutanir til höfunda fræðslu- og heimildaefnis eftir eigin reglum.

3. Rétt til úthlutunar úr myndbanda- og geisladiskageira eiga rithöfundar, leikskáld, þýðendur, handritshöfundar og aðrir höfundar ritverka, sem flutt hafa verið í sjónvarpi síðasta almanaksár fyrir úthlutun. Vægi og fjöldi umsókna ráði nokkru um skiptingu úthlutana, en þær skulu þó vera sem næst eftirfarandi hlutföllum.

a) Höfundar leikins efnis og annarra skáldverka 60%
b) Höfundar fræðslu- og heimildaefnis 30%
c) Þýðendur 10%

4. Stjórn RSÍ skipar 3ja manna nefnd til 3ja ára í senn, sem úthlutar til höfunda leikins efnis og annarra skáldverka og þýðenda sbr. 3. gr. þessara reglna. Einn nefndarmanna skal jafnframt eiga aðild að Félagi leikskálda og handritshöfunda. Nefndin annast úthlutanir samkvæmt umsóknum og notar þar til gert punktakerfi til grundvallar. Ákvarðanir skulu færðar í fundargerð.
Forsenda reglna þessara er samkomulag við stjórn Hagþenkis um að það félag skipi 3ja manna nefnd sem úthlutar tekjum skv. staflið b) í 3. gr. til höfunda fræðslu- og heimildaefnis. Samráð skal haft við RSÍ um einn mann í þeirri nefnd..

5. Auglýsa skal eftir umsóknum um úthlutun einu sinni á ári og skal auglýsing birt í a.m.k. einu dagblaði, í Fréttabréfi RSÍ og vefsíðum. Í auglýsingu skal þess getið að um úthlutun geti sótt allir þeir sem telja sig eiga rétt skv. 3. gr., án tillits til félagsaðildar. Með umsóknum skal fylgja yfirlit um birt verk umsækjanda í sjónvarpi á síðasta almanaksári fyrir úthlutun.

6. Við úthlutun úr myndbanda- og geisladiskageira skal þess gætt að úthluta að jafnaði ekki meiru en sem nemur ¾ af tekjum vegna liðins árs, svo hægt sé að verða við einstaka kröfum sem kunna að koma fram síðar. Að fjórum árum liðnum skal það fé sem umfram hefur orðið miðað við hvert almanaksár, enda hafi engar kröfur borist um frekari úthlutanir, renna í Framkvæmdasjóð RSÍ.

7. Tekjur RSÍ úr hljóðbandageira IHM renna óskiptar í Orlofshúsasjóð RSÍ.

8. Vörslufé það sem RSÍ tekur við frá IHM vegna erlends Kapalsjónvarps rennur að 2/3 hlutum til RSÍ og 1/3 hluta til Hagþenkis. Þeir fjármunir skulu geymdir í fjögur ár til að mæta hugsanlegum kröfum erlendra rétthafa. Að fjórum almanaksárum liðnum rennur féð óskert í Framkvæmdasjóð RSÍ.

Höfundasjóður og greiðslur frá Fjölís

  1. Ársreikningar RSÍ skulu bera með sér tekjur frá FJÖLÍS og ráðstöfun þeirra.
  2. Tekjum þessum skal ráðstafað með eftirfarandi hætti:
   • Varasjóður 15%
   • Orlofshúsasjóður 15%
   • Frádreginn kostnaður skv. góðum reikningsskilavenjum
   • Eftirstöðvar renna óskiptar í Höfundasjóð RSÍ

  Stjórn og skrifstofa RSÍ annast umsýslu varasjóðs og orlofshúsasjóðs.

  Um Höfundasjóð RSÍ gildir eftirfarandi:

  Tekjur Höfundasjóðs eru, eins og áður segir, 70% af greiðslum frá Fjölís, og aðrar tekjur.Árlega skulu allt að 50% af árlegum hagnaði RSÍ frá fyrra ári renna til Höfundasjóðs.* Ekki er heimilt að tæma Höfundasjóð. Einungis má úthluta 90% af árstekjum sjóðs ár hvert. Styrkir eru veittir félagsmönnum og öðrum rithöfundum. Skrifstofa RSÍ leggur árlega til hlutfallsskiptingu í ljósi tekna:

  1. Verkefnastyrkir án umsókna. Stjórn RSÍ annast úthlutun. Að hámarki 20%.
  2. Verkefnastyrkir eftir umsóknum
  3. Ferðastyrkir eftir umsóknum

  Úthlutunarreglur:

  1. Á aðalfundi eru kjörnir þrír menn í úthlutunarnefnd og mega þeir ekki vera úr hópi stjórnarmanna sambandsins. Úthlutunarnefnd er kjörin til eins árs í senn og annast úthlutun verkefna- og ferðastyrkja eftir umsóknum. Enginn situr þó lengur í nefndinni en 3 ár samfleytt. Nefndarmenn sækja sjálfir ekki um styrki það tímabil sem þeir sitja í nefnd.
  2. Við úthlutun verkefnastyrkja skal hafa hliðsjón af ritstörfum höfunda og útgefnum verkum án tillits til félagsaðildar.
  3. Sá hluti tekna Höfundasjóðs sem kemur ekki frá Fjölís (aðrar tekjur) er eyrnamerktur félagsmönnum RSÍ. Rétt til að sækja um hafa þeir sem hafa verið félagsmenn í RSÍ í a.m.k. eitt ár og eru skuldlausir við félagið.
  4. Við úthlutun úr Höfundasjóði skal miðað við vægi bókmenntagreinar og niðurstöður úr könnunum á ljósritun í skólum eftir því sem unnt er. Fræðirit, kennslugögn og viðlíka ritverk veita ekki rétt til úthlutunar úr Höfundasjóði enda veitir Hagþenkir – félag höfunda fræðirita og kennslugagna viðtöku því fé sem greitt er fyrir ljósritun á þess háttar efni.
  5. Auglýsa skal eftir umsóknum um verkefnastyrki einu sinni á ári og umsóknum um ferðastyrki tvisvar á ári. Auglýsingar skulu birtar í miðlum RSÍ.
  6. Styrkir sem ekki eru sóttir eða ekki næst að úthluta renna aftur í eign Höfundasjóðs.

* Tillaga samþykkt á aðalfundi RSÍ 27. apríl 2017.