Norðurbær er byggður árið 1900 en hefur verið algjörlega endurbyggður. Aðkoma að húsinu er frá Túngötu en það tilheyrir húsaþyrpingunni sem kennd er við Einarshöfn og er í vestanverðu þorpinu rétt við Bakarísstíg sem liggur milli Túngötu og Eyrargötu.
Lýsing
Húsið er 37 m² og í því er anddyri, stofa/eldhús, svefnherbergi og baðherbergi. Verönd er við húsið með borði, tveimur stólum og gasgrilli (geymt í kjallara þegar ekki í notkun). Lítill skriðkjallari er undir húsinu.
Athugið að það þarf ekki lykil að hengilásnum fyrir kjallarann, nóg er að kippa hraustlega í hurðina. Svefnpláss er fyrir 4. Tvíbreitt rúm í svefnherbergi og tvíbreiður svefnsófi í stofu. Yfirdýna fylgir með svefnsófa og liggur hún upprúlluð í horninu við hliðina á sófanum eða á bak við hann. Mikilvægt er að gestir noti dýnuna þegar sófinn er notaður sem rúm til að hlífa sófanum.
Í húsinu er skrifborð ásamt skrifstofustól, borðstofuborð og fjórir stólar. Sængur og koddar eru fyrir fjóra (sumt af því er undir rúminu) og gólftuskur, en sængurföt, handklæði, viskastykki, borðtuskur og tuskur til að þrífa með verða gestir að koma með sjálfir.
Aðstaða
Í eldhúsinu er ísskápur, eldunarhella, örbylgjuofn, brauðrist, vöfflujárn, kaffivél, hraðsuðukanna, borðbúnaður og áhöld fyrir 6 manns. Í baðherberginu er vaskur, salerni og sturta. Í húsinu er sjónvarp, og hægt er að tengjast internetinu með adsl tengingu, þráðlausri eða með netsnúru.
Ætlast er til að gestir skili húsinu af sér hreinu kl. 12 að hádegi síðasta dvalardag og láti skrifstofuna vita ef aðkoma er ekki eins og vera ber. Meðan á dvöl stendur bera gestir ábyrgð á húsinu og öllum húsbúnaði.
Hjá bensínsölunni er stundum rekin lítil verslun með helstu nauðsynjum en henni hefur þó verið lokað af og til og erfitt að treysta á að þar sé opið. Í næsta nágrenni við Norðurbæ er veitingastaðurinn Rauða húsið sem tekur sérstaklega vel á móti gestkomandi rithöfundum. Bókasafn er að Túngötu 40, opið tvisvar í viku.
Leiga
Skrifstofa RSÍ annast útleiguna á Norðurbæ til skuldlausra félagsmanna sambandsins. Húsið er í vikuleigu yfir sumarið (föstudagur til föstudags) og kostar vikan 15.000 kr. Haust, vetur og vor er sólarhringsgjald, 2.000 kr.
Leiga er innheimt með reikningi í heimabanka næstu mánaðarmót eftir að dvöl lýkur. Lykill er í lyklahúsi á staðnum, leyninúmer fæst hjá skrifstofu.
Athugið að þegar húsinu er læst þarf að halda húninum uppi!