Search
Close this search box.

Samningur við Námsgagnastofnun

Námsgagnastofnun – Pdf-skjal

Námsgagnastofnun og Rithöfundasamband Íslands gera hér með eftirfarandi
SAMNING
er fjallar um greiðslu ritlauna til höfunda eða umboðsaðila þeirra fyrir afnot af
ritverkum í lesbókum og öðrum safnritum gefnum út af Námsgagnastofnun, sbr. 17.gr.
höfundalaga frá 29. maí 1972.

1.gr.
Fyrir afnot ritverka greiðir Námsgagnastofnun Rithöfundasambandinu, eða þeim er
það tilvísar, svo sem hér segir:
a) Fyrir laust mál, frumsamið, greiðist kr. 619,- fyrir hverja meðalsíðu og byrjaða
blaðsíðu. Meðalsíða telst blaðsíða sem á eru 2.160 letureiningar. Þegar einingafjöldi á
síðu er annar skal umreikna hann í meðalsíðu. Fyrir þýðingar greiðast 50% af
ritlaunum fyrir frumsamið efni.
b) Fyrir frumsamið ljóð, allt að 20 ljóðlínur, greiðist kr. 1.237,- Fyrir hverja ljóðlínu
umfram, greiðist kr. 52,- Fyrir þýdd ljóð greiðast sömu ritlaun.

2.gr.
Greiðslur samkvæmt 1.gr. eru miðaðar við allt að 5.000 prentuð eintök bókar í
frumútgáfu, samkvæmt prentseðli. Sé upplag meira breytast greiðslur í samræmi við
það. Fyrir endurútgáfu greiðast sömu ritlaun.
Verði almennar kaupgjaldshækkanir á samningstímabilinu skal hækka ofangreind
ritlaun um jafnmarga hundraðshluta og laun samkvæmt 63. launaflokki starfsmanna
ríkisins, 5. þrepi hafa hækkað á sama tímabili.

3.gr.
Í marsmánuði ár hvert sendir Námsgagnastofnun Rithöfundasambandinu skýrslu og
prentseðla um bækur með gjaldskyldu efni, samkvæmt samningi þessum, sem hún
hefur gefið út á almanaksárinu á undan. Ef Rithöfundasambandið gerir ekki
athugasemd við skýrsluna fyrir apríllok sama ár skoðast hún samþykkt. Ritlaun fyrir
efnið teljast þá gjaldfallin og skulu greidd innan eins mánaðar frá því skýrslan var
samþykkt. Gjaldfallin ritlaun miðast við kaupgjald þess mánaðar þegar greiðsla fer
fram.

4.gr.
Skylt er Námsgagnastofnun að fá leyfi höfundar til að birta eftir hann efni samkvæmt
samningi þessum og sýna honum af því eina próförk. Höfundur skal jafnan fá eintak
af bók þar sem birt er efni eftir hann. Rithöfundasambandinu er skylt að hafa
milligöngu um þessi atriði.

5.gr.
Námsgagnastofnun greiðir Rithöfundasambandinu árlega upphæð sem nemur 20% af
greiðslum til höfunda, samkvæmt samningi þessum, sem þóknun fyrir milligöngu og
þjónustu vegna þessa samnings.

6.gr.
Nú kemur fram að Námsgagnastofnun er lögskylt að greiða fyrir umræddan
höfundarétt verka til annarra höfunda en þeirra sem Rithöfundasambandið hefur
umboð fyrir og skal þá Rithöfundasambandið greiða rétthöfum tilskilið gjald
samkvæmt samningi þessum.

7.gr.
Námsgagnastofnun er skylt að geta þess í bókum sínum hvaðan efni eftir íslenska
höfunda er tekið í bækurnar. Einnig skal höfundar og þýðanda jafnan getið í
efnisyfirliti bókar.

8.gr.
Samningur þessi tekur ekki til efnis sem frjálst er til útgáfu, sbr. IV. kafla
höfundarlaga frá 29. maí 1972

9.gr.
Um allt annað efni en hér að ofan greinir, frumsamið eða þýtt, skulu gilda samningar
Rithöfundasambands Íslands við Félag íslenskra bókaútgefenda.

10.gr.
Samningur þessi tekur gildi 1. desember 1985. Hann endurnýjast sjálfkrafa um eitt ár í
senn hafi hvorugur aðili látið í ljós skriflega ósk um endurskoðun hans, fyrir 1. maí ár
hvert.

11.gr.
Samningur þessi er gerður í tveimur samhljóð eintökum og heldur hvor aðili sínu.

Reykjavík, 6. desember 1985
Með fyrirvara um samþykki félagsfundar,
f.h. stjórnar Rithöfundasambands Íslands

Vilborg Dagbjartsdóttir
Hjörtur Pálsson
Olga Guðrún Árnadóttir
Andrés Indriðason

F.h. Námsgagnastofnunar,
Ásgeir Guðmundsson

Vitundarvottar:
Sigríður Sigurðard.
Rannveig G. Ágústsd.