Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland

Útgáfusamningur

Útgáfusamningur – Pdf-skjal

Útgáfusamningur

Undirritaðir______________________________________________________________________________________________________

í samningi þessum nefndur höfundurinn og

_____________________________________________________________________________________________________________________

í samningi þessum nefndur útgefandinn, gera með sér með þeim skilmálum sem að neðan greinir svofelldan samning um útgáfu verksins ____________________________________________________________________________________________________________________

Áætlaður útgáfudagur verksins er _____________________

Lágmarks eintakafjöldi fyrstu útgáfu er _____________________

Handrit skal afhent eigi síðar en _____________________

Höfundarlaun eru greidd skv. 12. og 13. gr. samningsins.

Fyrirframgreiðsla höfundarlauna er ákveðin _____________________

Áætlað heildsöluverð verksins er _____________________

___Útgefandi /___ Höfundur fer með sölu erlendra útgáfuréttinda, sbr. 1. gr. e.

___Útgefandi /___ Höfundur fer með rétt til útgáfu með áskriftarfyrirkomulagi. Fari höfundur með rétt til útgáfu með áskriftarfyrirkomulagi mun hann ekki gefa bókina út í áskriftarstreymi, eða semja um útgáfu hennar við annan en útgefanda, á meðan útgáfusamningur þessi er í gildi. Fari útgefandi með rétt til útgáfu með áskriftarsamkomulagi gildir 13. gr. útgáfusamnings þessa um höfundalaun vegna raf- og hljóðbóka sem dreift er með áskriftarfyrirkomulagi en sé hljóðbók sem útgefandi hefur ekki sjálfur kostað framleiðslu á, dreift með áskriftarsamkomulagi af þriðja aðila, skulu höfundalaun nema ______% af greiðslum sem útgefandi fær frá þriðja aðila.

Í samningi þessum skal áskriftarfyrirkomulag þýða sala/dreifing verka sem fram fer með þeim hætti að kaupendur greiða fast mánaðargjald í áskrift og öðlast þá aðgang að tilteknum fjölda verka án þess að greitt sé sérstaklega fyrir hvert eintak sem kaupandinn fær aðgang að í gegnum áskrift sína.

Samningurinn er gerður í tvíriti og heldur hvor aðili frumriti.

Rísi ágreiningur vegna samningsins skulu aðilar samnings reyna að komast að samkomulagi.  Að öðrum kosti má reka mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

 

Staður og dagsetning                           ________________________________

 

Undirskrift höfundar.                                     Undirskrift útgefanda.

 

__________________________________       ___________________________________

A. GILDISSVIÐ ÚTGÁFUSAMNINGSINS

1. gr. Veitt réttindi

a. Almenn ákvæði
Höfundurinn afsalar sér hér með til útgefandans í þeim mæli og með þeim skilmálum, sem greindir eru hér á eftir, einkarétti til að framleiða og gefa út í bókarformi það verk sem samningur þessi tekur til. Afsalið tekur til réttar til að hagnýta verkið í bókarformi í frumútgáfu og endurútgáfu. Útgefandanum er heimilt að vista verkið á rafrænan hátt. Þá er útgefandanum heimilt að heimila þriðja aðila aðgang að hluta verksins á rafrænan hátt enda sé það gert í auglýsingar- og/eða kynningarskyni og án endurgjalds til útgefanda. Hér með talið eru frí afnot hlustanda þegar viðskiptamaður áskriftarveitu, ef samningur þessi tekur til hennar, sem miðlar hljóðbókum fær aðgang að hluta af verki vegna kynningar verksins. Höfundurinn skal eiga rétt á upplýsingum um aðgang þriðja aðila að verkinu. Komi til þess að höfundur semji um leikgerð eða kvikmynd eftir verkinu skal tilkynna útgefanda skriflega um slíka samninga þegar þeir eru gerðir og um áætlaðan frumsýningardag þegar hann hefur verið ákveðinn.

b. Safnrit
Óski höfundurinn að taka verkið eða hluta þess upp í safnrit hjá öðrum útgefanda getur hann, ef umfang framlagsins í safnritið er ekki meira en ákveðið er í 17. gr. höfundarlaga, gert það hvenær sem er að því er varðar safnrit til kennslu, en að því er varðar önnur safnrit þremur árum eftir lok þess árs er fyrsta útgáfa venjulegrar útgáfu kom út. Óski höfundurinn í öðrum tilvikum eftir því að taka hluta af verki upp í safnrit, skal hann afla samþykkis útgefandans meðan útgáfurétturinn varir. Útgefandinn má ekki binda samþykki sitt skilyrði um fjárhagslega hagsmuni. Vilji útgefandinn taka verkið upp í safnrit, skal hann gera sérstakan samning um það við höfundinn.

c. Hljóðbækur
Sé ekki um annað samið hefur útgefandinn rétt til útgáfu verksins á hljóðbók;  útgáfu á geisladiski, rafrænt eintak sem hala má niður, eintak sem selt er í streymi til kaupanda og  útgefanda eða þjónustu sem útgefandi semur við. Höfundi er við gerð samningsins heimilt að banna að verkinu verið miðlað með áskriftarfyrirkomulagi og komi til þess getur hvorki útgefandi né höfundur dreift verkinu með þeim hætti á meðan útgáfusamningur þessi er í gildi. Haft skal samráð við höfundinn um lestur verksins sem og um mögulegar styttingar á verkinu. Höfundi skal boðið að hlusta á innlestur verksins áður en það er gefið út. Hafi útgefandi ekki nýtt sér þann rétt innan 18 mánaða frá útgáfudegi prentaðrar bókar getur höfundur óskað skriflega eftir útgáfu hljóðbókar. Bregðist útgefandi ekki formlega við erindinu innan þriggja mánaða og gefi bókina út og eða komi henni í dreifingu samkvæmt heimildum að ofan, fellur útgáfuréttur hljóðbókar og dreifingar efnisins á hljóðbók til höfundar.

Höfundarlaun skulu reiknast af heildsöluverði samkvæmt 12. gr. og greiðast samkvæmt 13. gr. Um höfundareintök gilda ákvæði 18. gr. Útgefanda er heimilt að gefa út hljóðbók hjá þriðja aðila en er í slíku tilviki ábyrgur fyrir efndum gagnvart höfundinum, s.s. greiðslu höfundarlauna.

d. Rafræn útgáfa
Útgefandi hefur rétt til útgáfu verksins á rafrænu formi. Hafi útgefandi ekki nýtt sér þann rétt innan 18 mánaða frá útgáfudegi prentaðrar bókar getur höfundur óskað skriflega eftir rafrænni útgáfu. Bregðist útgefandi ekki formlega við erindinu innan þriggja mánaða fellur rafrænn útgáfuréttur til höfundar. Verkið skal gefið út óbreytt frá prentaðri útgáfu, en útgefandi getur þó gert á því tæknilegar breytingar sem kunna að vera nauðsynlegar vegna rafrænnar sölu og dreifingar. Útgefandinn er ábyrgur fyrir því að verja verkið gegn afritun eins og frekast er kostur. Útgefandi skal láta höfundi í té rafrænt eintak verksins. Höfundarlaun skulu reiknast af heildsöluverði skv 12. grein og greiðast samkvæmt 13. gr.

e. Útgáfur á erlendum málum
Fari útgefandi með sölu erlendra útgáfuréttinda er honum heimilt að hafa forgöngu að því að kynna verkið erlendum útgefendum með útgáfu í huga. Í því skyni er honum heimilt að láta þýða einstaka kafla úr bókinni í samráði við höfundinn og senda erlendum forlögum. Kostnað sem af þessu leiðir skal útgefandi bera. Komi til samnings um erlenda útgáfu samkvæmt grein þessari skal fjórðungur umsaminna ritlauna fyrir útgáfuna koma í hlut útgefanda.

f. Önnur réttindi
Öll önnur réttindi yfir verkinu sem ekki eru undanskilin samkvæmt ákvæðum samnings þessa tilheyra höfundinum.

2. gr. Upplag, prentun og útgáfur

Útgefandinn hefur rétt til að láta framleiða og gefa verkið út í upplagi sem ákveðið er að framan og prenta í ákveðnum eintakafjölda í samráði við höfund ef því verður við komið. Útgefandi skal hverju sinni tilkynna höfundi um nýja prentun eða útgáfu og upplag. Um nýja prentun er að ræða ef verkið er gefið út óbreytt hvað varðar texta, umbrot og/eða útlit. Verði um síðari útgáfur að ræða hefur útgefandinn forgangsrétt að þeim, sbr. 11. gr. samnings þessa. Í hverri nýrri útgáfu/prentun skal greina um hvaða útgáfu/prentun sé að ræða. Sé byrjað að vinna að nýrri útgáfu er útgefandanum skylt að gefa höfundinum kost á að gera breytingar á verkinu sem ekki hafa í för með sér hlutfallslega mikinn kostnað né breyta eðli verksins. Ný prentun eða útgáfa þarf að vera að lágmarki 50 eintök.

3. gr. Gildistími útgáfusamnings

Útgáfusamningurinn gildir til loka sjöunda árs frá síðustu útgáfu/prentun eða – svo sem síðar greinir – þar til samningnum er sagt upp eða útgáfusamningurinn fellur niður vegna þess að verkið selst upp eða er eyðilagt. Heimilt er með sérstöku samkomulagi að framlengja útgáfuréttinn til lengri tíma en greint er í 1. mgr. en þó aldrei lengur en í fimm ár í senn. Þegar útgáfurétturinn fellur niður, falla öll réttindi skv. samningnum aftur til höfundarins eða þess sem á höfundarréttinn. Uppgjörskylda útgefandans skv. samningi þessum helst án tillits til niðurfalls útgáfuréttarins. Óski höfundurinn síðar eftir að gefa verkið út á nýjan leik, ber honum fyrst að bjóða útgefandanum það skriflega. Hafi útgefandinn ekki gefið skriflegt svar innan mánaðar fellur tilboðið úr gildi. Ef útgefandinn lýsir ekki vilja til að gefa verkið út á nýjan leik eða ef tilboð um nýja útgáfu leiðir ekki til nýs útgáfusamnings ber höfundinum ekki lengur skylda til að bjóða upprunalegum útgefanda síðari útgáfur.

4. gr. Einkaréttur útgefandans

Frá og með dagsetningu samnings þessa til útgáfudags verksins er höfundinum óheimilt að birta eða láta birta á prenti, flytja í útvarpi eða sjónvarpi eða á öðrum vettvangi kafla úr handriti bókarinnar, nema fyrir liggi leyfi útgefandans. Höfundurinn hefur ekki rétt til að gefa verkið út á íslensku í bókarformi fyrr en hann hefur endurheimt útgáfuréttinn. Ekki er heimilt án skriflegs leyfis útgefandans að birta verkið í heild eða hluta þess í dagblöðum eða tímaritum á Íslandi fyrstu tvö árin eftir útgáfudag ritverksins. Sama gildir um flutning verksins í heild í útvarpi. Höfundinum er þó heimilt að:

  1. a) Taka verkið upp í heildarútgáfu eða úrval verka sinna þegar liðin eru tíu ár frá því að fyrsta útgáfa verksins kom út, en þó mega aldrei líða minna en tvö ár frá síðustu útgáfu. Þessi tveggja ára takmörkun tekur ekki til skólaútgáfu. Um ljóð skulu gilda fimm ár frá fyrstu útgáfu.
  2. b) Gera samning um að hlutar verksins séu teknir upp í safnrit í samræmi við það, sem nánar greinir í b. lið 1. gr.

5. gr. Framsal útgáfuréttar

Útgefandinn má ekki framselja útgáfuréttinn skv. samningi þessum til annars útgefanda án samþykkis höfundarins nema um sé að ræða framsal eða eigendaskipti á öllu forlaginu eða hluta af því. Við framsal útgáfuréttar er framseljandi áfram ábyrgur fyrir því að staðið sé við samninginn. Þó getur höfundurinn neitað að samþykkja framsal til útgáfufyrirtækis sem ekki telst jafn mikils virt og útgáfufyrirtæki það sem hyggst framselja útgáfuréttinn eða hefur reynst hafa einhverja stjórnmálalega, viðskiptalega eða trúarlega tilhneigingu sem höfundurinn sættir sig ekki við.

B. HANDRIT OG PRÓFARKIR

6. gr. Skil á handriti

Fullgert handrit afhendist við undirskrift samnings þessa eða fyrir þann tíma sem að framan greinir. Við afhendingu skal handritið vera á tölvutæku formi. Að öðru leyti skal handritið vera þannig að ekki falli aukakostnaður á útgefandann vegna ófullnægjandi frágangs og framsetningar. Hafi handritið ekki verið afhent fyrir umsaminn tíma og í fyrrgreindu ástandi skal útgefandinn gefa höfundinum frest í minnst fjórtán daga og getur síðan rift samningnum, hafi handriti ekki verið skilað að fresti liðnum. Sé samningi rift af framangreindum ástæðum á útgefandinn rétt til bóta úr hendi höfundar fyrir sannanlega útlagðan kostnað. Rafrænt afrit af endanlegum texta verksins skal útgefandi afhenda höfundi eigi síðar en á útgáfudegi verksins.

7. gr. Prófarkalestur

Höfundinum er rétt og skylt án sérstaks endurgjalds að lesa fyrstu próförk af hverri útgáfu, sem ekki er prentuð eftir varðveittu prentskjali. Fari hann fram á að lesa fleiri prófarkir skal honum það heimilt endurgjaldslaust. Að öðru leyti sér útgefandinn um prófarkalestur. Breyti höfundurinn, eftir að verkið hefur verið brotið um, verkinu í svo ríkum mæli, að hafi í för með sér meira en 10% aukinn kostnað við umbrot getur útgefandinn krafist þess að höfundurinn greiði það sem fram yfir þau 10% er. Slíka kröfu skal gera eigi síðar en þremur mánuðum eftir að prófarkir hafa verið afhentar. Ef höfundurinn skilar ekki próförkum innan þriggja vikna skal líta svo á að hann samþykki þær og útgefandanum er þá heimilt að láta prenta verkið eftir að innsláttarvillur hafa verið leiðréttar.

8. gr. Breytingar á handriti, uppsetning og útlit

Eftir að handrit hefur verið samþykkt til útgáfu getur höfundurinn ekki án samþykkis útgefandans gert slíkar breytingar á verkinu að eðli þess eða stærð breytist verulega við það. Vilji höfundurinn engu að síður gera slíkar breytingar, á útgefandinn ekki rétt á því að gefa verkið út í óbreyttu ástandi, en getur hins vegar rift samningnum. Sé samningi rift af framangreindum ástæðum á útgefandinn rétt á bótum úr hendi höfundarins fyrir sannanlega útlagðan kostnað við gerð bókarinnar.

Útgefandinn ákveður uppsetningu og útlit bókarinnar í samráði við höfundinn. Hafi höfundurinn sérstakar óskir fram að færa varðandi fyrrgreind atriði skal hann koma þeim á framfæri við útgefandann við afhendingu handrits.

C. ÚTGÁFA OG DREIFING

9. gr. Útgáfuskylda

Útgefandinn skuldbindur sig til, ef ekki er um annað samið, að gefa verkið út í síðasta lagi átján mánuðum eftir að höfundurinn afhenti fullgert handrit. Verði á þessu vanefndir hefur höfundurinn rétt til að rifta samningi þessum. Útgáfurétturinn fellur þá aftur til höfundarins, sem hefur rétt til að halda þeim greiðslum sem hann hefur fengið sem höfundarlaun fyrir verkið. Hafi dráttur valdið höfundinum sannanlegu tjóni, sem ekki er að fullu bætt með þeim höfundarlaunum, er hann hefur þegar fengið greidd, á hann að auki rétt til skaðabóta.

10. gr. Dreifing verksins

Útgefandinn skuldbindur sig til þess að sjá um kynningu verksins og dreifingu á markaði á tíðkanlegan hátt og að öðru leyti með hliðsjón af eðli verksins.

11. gr. Nýjar útgáfur og ný prentun

Þegar verkið er uppselt eða útgefandinn hefur ekki prentað verkið að nýju eða notað rétt sinn til að gefa verkið út í nýrri útgáfu, getur höfundurinn skriflega krafið útgefandann um að taka afstöðu til þess hvort hann hyggst gefa verkið út eða endurprenta það. Hafi útgefandinn ekki undirritað skuldbindingu innan þriggja mánaða um að gefa verkið út í nýrri útgáfu frá því að honum barst ósk um það, er höfundinum heimilt að rifta samningnum. Fellur þá jafnframt niður annar réttur útgefandans. Verkið telst uppselt þegar í mesta lagi fimmtíu eintök eru eftir í birgðum, óháð því hvar þau liggja.

D. FJÁRHAGSLEGIR SKILMÁLAR

12. gr. Almenn ákvæði um höfundarlaun

Höfundarlaun skal ákveða sem hundraðshluta af heildsöluverði útgefanda. Með heildsöluverði er átt við það verð, án virðisaukaskatts, sem útgefandi tilkynnir viðskiptamönnum sínum á hverjum tíma. Heildsöluverð getur verið með tvennum hætti:

a) Þegar um er að ræða bækur sem seldar eru í bókabúðum eða hjá öðrum hefðbundnum söluaðilum bóka: Heildsöluverð bóka frá forlagi til endurseljanda án vsk.

b) Þegar um er að ræða bækur seldar í farandsölu eða símasölu á vegum útgefanda: Smásöluverð bóka án vsk. að frádregnum 30% sölulaunum.

Heimilt er útgefanda að veita smásölum afslátt af heildsöluverði og/eða lækka verð bóka sem seldar eru í farandsölu eða símasölu, enda ráðist afslátturinn af viðskiptalegum hagsmunum samningsaðila. Höfundarlaun samkvæmt lið a) miðast þá við heildsöluverð að frádregnum afslætti og höfundarlaun samkvæmt lið b) af lækkuðu verði án vsk. að frádregnum 30% sölulaunum. Útgefandi ákveður heildsöluverð bókarinnar. Þegar um er að ræða tvo eða fleiri sem eiga rétt til þóknunar (t.d. samtalsbækur) skal kveða á um það í samningnum við báða (alla) aðila hvert þóknunarhlutfall hvers sé. Þegar um er að ræða myndskreytta útgáfu er heimilt að lækka höfundarlaun í sama hlutfalli og nemur umfangi af prentfleti bókarinnar allt að 50%. Skerðingarákvæði þetta á því aðeins við að umfang myndskreytingar nemi minnst 7% af prentfleti bókar. Ef myndskreyting er meira en 50% af prentfleti bókarinnar skal semja um þóknun sérstaklega.

13. gr. Höfundarlaun eftir sölu

Höfundarlaun skulu nema 23% af heildsöluverði innbundinna bóka, jafnt í hörðum sem mjúkum spjöldum, af fyrstu 7000 eintökunum en 25% af seldum eintökum eftir það. Höfundarlaun af bókum sem koma út í hefðbundinni kilju skulu nema 18% af fyrstu 3500 eintökunum en 23% af seldum eintökum eftir það. Höfundarlaun af hljóðbókum sem seldar eru í eintakasölu skulu nema 23% af heildsöluverði. Sé hljóðbók dreift með áskriftarfyrirkomulagi fyrir milligöngu þriðja aðila skulu höfundarlaun reiknast þannig að hlutur höfundar er 23% af greiðslum sem útgefandi fær frá þriðja aðila sem miðlar þegar útgefinni hljóðbók þar sem útgefandi hefur sjálfur kostað framleiðslu hljóðbókar. Hafi hljóðbók ekki verið gefin út og hafi útgefandi heimild til að ráðstafa réttindum af verkinu til þriðja aðila sem geri eintak af verkinu sjálfur og miðli því með áskriftarfyrirkomulagi skal gilda sú prósenta sem aðilar samningsins hafa samið um sérstaklega. Höfundarlaun af rafbókum skulu nema 25% af heildsöluverði af fyrstu 2200 eintökunum og 28% af seldum eintökum eftir það. Um rafbækur sem dreift er með áskriftarfyrirkomulagi, sé um það samið, skal að öðru leyti hið sama gilda og að ofan greinir um hljóðbækur.

Komi verkið út á fyrri árshelmingi getur höfundur á haustdögum óskað eftir söluyfirliti, sem nái amk til 1. september sama ár. Sé tilefni til, koma höfundur og útgefandi sér saman um milliuppgjör á þessum tíma, og greiðslu höfundarlauna skv. því eftir nánara samkomulagi. Á sama hátt getur höfundur óskað eftir söluyfirliti vegna ársins á undan þegar bókaskilum er að fullu lokið, en þó eigi fyrr en 20. mars. Sé tilefni til, koma höfundur og útgefandi sér saman um milliuppgjör á þessum tíma, og greiðslu höfundarlauna skv. því eftir nánara samkomulagi.

Gengið er út frá því að hluti höfundarlauna sé greiddur fyrirfram, eigi síðar en við útgáfu. Fyrirframgreiðslu höfundarlauna má skipta í þrjár jafnar mánaðargreiðslur.

14. gr. Réttur útgefanda til verðbreytinga

Útgefanda er heimilt hverju sinni að breyta  heildsöluverði bókarinnar, og söluverði í farand- eða símasölu, í því skyni að hámarka sölutekjur af verkinu. Útgefandi skal ævinlega hafa sameiginlega hagsmuni höfundar og útgefanda að leiðarljósi við verðbreytingar.

15. gr. Uppgjör

Fyrir hvert almanaksár er útgefandanum skylt að láta höfundinum í té uppgjör, í síðasta lagi hinn 1. júní næsta ár og greiða höfundarlaun skv. því. Uppgjörið skal vera greinilegt í alla staði og undirritað af útgefanda. Þar skuli koma fram upplýsingar um birgðir við lok síðasta almanaksárs, fjöldi seldra eintaka sundurliðað eftir útgáfuformum, sundurliðun tekna vegna sölu með áskriftarfyrirkomulagi, nettóinnkoma ársins og upphæð höfundarlauna.

16. gr. Réttur höfundarins til eftirlits

Ef höfundurinn hefur í síðasta lagi þremur mánuðum eftir móttöku uppgjörs óskað skriflega eftir því, skal útgefandi senda honum staðfestingu löggilts endurskoðanda sem sýni hvort uppgjörið er gert á réttan hátt og í samræmi við bókhald útgefandans, enda beri höfundurinn allan kostnað af ráðstöfun þessari nema í ljós komi ágallar á fyrra uppgjöri. Sé þriðja aðila falin dreifing verksins eins og t.d. með áskriftarfyrirkomulagi skal tryggja að afla megi sambærilegra upplýsinga um dreifingu verksins.

17. gr. Staðfesting á eintakafjölda

Útgefandanum er skylt við uppgjör að láta höfundinum í té skriflega yfirlýsingu eða afrit reikninga prentsmiðju og bókbandsstofu, sem annast hefur gerð bókarinnar, um prentaðan, heftan og bundinn eintakafjölda, sbr. 37. gr. höfundarlaga. Sé þriðja aðila falin dreifing verksins eins og t.d. með áskriftarfyrirkomulagi skulu við uppgjör fylgja sambærilegar upplýsingar.

18. gr. Eintök höfundar

Af fyrstu prentútgáfu fær höfundur 25 eintök án endurgjalds. Af hverri nýrri útgáfu, þar með talið hljóðútgáfu eða prentun fær höfundur 10 eintök án endurgjalds. Óski höfundur þar fyrir utan að kaupa eintök af verkinu greiðir hann heildsöluverð.

19. gr. Frjáls eintakanot útgefandans

Af hverri útgáfu hefur útgefandi rétt til að nota 10% (tíu prósent) af 1000 eintökum sem höfundar- og kynningareintök, 8% (átta prósent) af 1500, 7% (sjö prósent) af 2000 og 2% (tvö prósent) af öllum eintökum umfram 2000.

20. gr. Förgun

Útgefanda er heimilt að farga þeim eintökum af bókinni sem hann á í birgðum þegar liðin eru tvö ár frá útgáfudegi bókarinnar. Útgefandi skal tilkynna höfundi slíka ákvörðun skriflega eigi síðar en tveimur mánuðum áður en hún kemur til framkvæmda. Óski höfundurinn eftir því skulu honum látin í té án endurgjalds allt að 50 eintök af bókinni sem honum er þó óheimilt að selja. Útgefandi má auðkenna þessi eintök sérstaklega. Komi til förgunar samkvæmt ákvæði þessu fellur útgáfusamningurinn þegar úr gildi. Jafnframt er útgefanda heimilt að farga hluta birgða eftir að tvö ár eru liðin frá útgáfudegi bókar. Skal slík ákvörðun tilkynnt höfundi skriflega og förgun fara fram á sannanlegan hátt þannig að ekki verði ágreiningur um fjölda þeirra eintaka sem fargað var. Förgun á hluta af upplagi hefur ekki áhrif á réttindi og skyldur aðila samkvæmt útgáfusamningi þessum og má ekki hafa áhrif á mögulega markaðssetningu og sölumöguleika verksins.

21. gr. Lok uppgjörsskyldu

Skyldu útgefandans til að afhenda uppgjör og til að greiða höfundarlaun lýkur frá og með því uppgjörstímabili þegar eintakafjöldi í birgðum er kominn í fimmtíu eintök eða minna.

E. ÖNNUR ATRIÐI

22. gr. Merking

Í öllum eintökum verksins skal vera höfundaréttartákn það, sem lýst er í grein III. í Alþjóðasamningnum um höfundarétt (Genfarsáttmálanum) ásamt nafni höfundarins og ártali fyrstu útgáfu. Merkingin skal vera svohljóðandi:

© Nafn höfundar eða rétthafa, fyrsta útgáfuár, 2., 3., o.s.frv. útgáfa.

Bók þessa má ekki afrita með neinum hætti, svo sem ljósmyndun, prentun, hljóðritun eða á annan sambærilegan hátt, að hluta eða í heild, án skriflegs leyfis höfundar og útgefanda.

Prentunarstaður og ár.

Merkingunni skal þannig fyrir komið og á þeim stað að hún gefi ljóst til kynna hver sé eigandi höfundaréttarins. Einnig skal merking segja til um hver séu réttindi útgefandans.

23. gr. Undanþága á fresti

Fresti þá sem tilgreindir eru í samningi þessum má lengja vegna óviðráðanlegra atvika, sem samningsaðilum verður ekki kennt um, svo sem eldsvoða, verkfalls eða verkbanns, náttúruhamfara, styrjaldar eða annarra sambærilegra atvika.

Útgáfusamningur ágúst 2018