Search
Close this search box.

Félagsmenn og kjör í RSÍ

Rithöfundasamband Íslands er stéttarfélag höfunda og tilgangur félagsins er m.a. að efla samtök íslenskra höfunda, gæta hagsmuna þeirra og réttar í samræmi við alþjóðavenjur, verja frelsi og heiður bókmenntanna og standa gegn hvers kyns ofsóknum á hendur höfundum og hindrunum í starfi þeirra. Öflug samstaða er grundvöllur fyrir því að þoka réttindamálum höfunda áfram.

Á skrifstofu RSÍ er samankomin viðamikil þekking á flestu sem snýr að daglegu amstri höfundarins, við bjóðum félagsmönnum ráðgjöf, lesum yfir samninga, leiðbeinum í samskiptum við útgefendur, framleiðendur eða aðra viðsemjendur, gefum út viðmiðunartaxta og svo mætti lengi telja.

Félagsmenn eru skráðir á póstlista félagsmanna innan RSÍ og fá félagsskírteini sem veitir þeim öll félagsleg réttindi RSÍ svo sem lagalega aðild að samningum RSÍ við Ríkisútvarp, hljóðvarp og sjónvarp, Félag íslenskra bókaútgefenda, Þjóðleikhús, Leikfélag Reykjavíkur og Leikfélag Akureyrar, Bandalag íslenskra leikfélaga, Menntamálastofnun og Hljóðbókasafnið. Þá fylgja skírteininu fríðindi og afsláttur í leikhús, bíó og verslanir.

Rithöfundasambandið heldur úti heimasíðu og facebook-síðu með upplýsingum um samninga, taxta, gestaíbúðir, sjóði, styrki o.fl. Með aðild opnast líka aðgangur að vinnuhúsum sambandsins á Eyrarbakka og Suðursveit sem og möguleiki á að sækja um ferðastyrki.

Samningar og taxtar

Stjórn Rithöfundasambandsins hefur umboð til hagsmunagæslu fyrir félagsmenn gagnvart stjórnvöldum, milliliðalaust, og gerir samninga við ríkisútvarp (hljóðvarp og sjónvarp), bókaútgefendur, Menntamálastofnun, leikhús og aðra aðila sem birta eða hafa afnot af verkum félagsmanna. Alla samninga sem RSÍ gerir fyrir hönd félagsmanna má finna á heimasíðu RSÍ og þar má einnig finna taxta sem uppfærðir eru reglulega skv. samningum. Skrifstofa veitir einnig ráðgjöf varðandi option-, purchase- og handritasamninga sem ekki liggja fyrir staðlaðir.

Höfundamiðstöð Rithöfundasambandsins er kynningarmiðstöð félagsmanna og veitir upplýsingar um rithöfunda, stuðlar að bókmenntakynningum, hefur milligöngu um upplestra og aðstoðar við mótun dagskrár. Höfundamiðstöðin setur einnig einhliða taxta fyrir þjónustu sem hún veitir og ekki liggja fyrir samningar um, sbr. upplestra og kynningar, námskeið, fyrirlestra og þátttöku í pallborðsumræðum.

RSÍ hvetur félagsmenn til að kynna sér vel alla samninga áður en þeir skrifa undir þá, að hafa réttar upplýsingar um samninga, taxta og gjaldskrár og hvetur þá sem eru í vafa til að ráðfæra sig við skrifstofu RSÍ.

Skrifstofa Rithöfundasambands Íslands er opin 10-14 alla virka daga og höfundum er velkomið að leita þangað með fyrirspurnir um hvaðeina sem tengist ritstörfum og réttindum höfunda. RSÍ er aðal upplýsingaveitan um höfundarétt rithöfunda á Íslandi og veitir upplýsingar um réttindi, samninga, taxta og ýmis önnur fagmál. RSÍ er enn fremur eini aðilinn sem heldur utan um rétthafaskrá látinna höfunda og veitir iðulega upplýsingar úr henni. Öll ráðgjöf sem skrifstofa RSÍ veitir stendur félagsmönnum til boða endurgjaldslaust. Framkvæmdastjóri RSÍ er Ragnheiður Tryggvadóttir, verkefnisstjóri RSÍ er Tinna Ásgeirsdóttir og lögfræðingur RSÍ er Sigrún Ingibjörg Gísladóttir. Allir félagsmenn eiga rétt á gjaldfrjálsri ráðgjöf hennar eftir nánar ákveðnum reglum.

Gestaíbúðir fyrir höfunda

Höfundum og þýðendum standa til boða ýmiskonar gestaíbúðir og dvalarsetur hérlendis, á Norðurlöndum og víða um heim. Allar auglýsingar um umsóknarfresti og tilboð eru áframsendar á póstlista félagsmanna en upplýsingar um á fjórða tug rithöfundaíbúða er einnig að finna á heimasíðu RSÍ.

Rithöfundasambandið heldur enn fremur úti tveimur vinsælum vinnu- og orlofshúsum fyrir félagsmenn sína, Norðurbæ á Eyrarbakka og Sléttaleiti í Suðursveit. Nóttin kostar 2.000 kr. og eru húsin í vikuleigu á sumrin en á veturna má leigja þau í allt að 6 vikur í senn. Hægt er að skoða myndir af húsunum, dagatal með yfirliti yfir lausa daga og bóka á heimasíðu RSÍ.

Sjóðir og styrkir

Á heimasíðu RSÍ má sjá yfirlit yfir sjóði sem rithöfundar geta sótt um starfs- eða ferðastyrki í, erlenda sem innlenda, sbr. Launasjóð rithöfunda, handritsstyrki Kvikmyndasjóðs, Starfslaunasjóð sjálfstætt starfandi fræðimanna o.fl. Félagsmenn fá reglulega áminningar um þá umsóknarfresti sem auglýstir eru en sumir sjóðir hafa engan umsóknarfrest og aðrir eru ekki alltaf auglýstir. Við mælum því með að félagsmenn kynni sér vel þá sjóði sem geta nýst þeim við ritstörfin. Allir félagsmenn eru sjálfkrafa skráðir í Bókasafnssjóð og þurfa ekki að sækja sérstaklega um í hann.

Rithöfundasambandið á og rekur Höfundasjóð RSÍ, en úr honum eru veittir styrkir til félagsmanna og annarra starfandi höfunda; ferðastyrkir til félagsmanna sem auglýstir eru tvisvar á ári, á vorin og haustin, og starfsstyrkir til einstaklinga óháð félagsaðild sem auglýstir eru einu sinni á ári, að vori. Auglýsingar eru birtar í miðlum RSÍ. Þriggja manna nefnd annast úthlutun styrkja úr Höfundasjóði.

Gunnarshús – fyrir alla félagsmenn

Skrifstofa RSÍ hefur haft aðsetur sitt í Gunnarshúsi við Dyngjuveg 8 síðan 1997 og þar fer fram fjölbreytt og lífleg starfsemi á vegum sambandsins. Gunnarshús á sér merka sögu en það var síðasti bústaður rithöfundarins Gunnars Gunnarssonar og Franziscu konu hans og er húsið merkur áfangi í sögu byggingarlistar á Íslandi. Reykjavíkurborg afhenti Rithöfundasambandinu húsið til eignar árið 2012.

Í stofum Gunnarshúss er góð aðstaða til funda og samkunda og er húsið lánað eða leigt út til félagsmanna fyrir bókmenntatengda viðburði og félagsstarf sbr. höfundakvöld, útgáfuhóf, námsskeið og fundi ýmissa samtaka og hópa. Enn fremur geta félagsmenn í RSÍ leigt húsið fyrir hófsöm einkasamkvæmi á borð við stórafmæli, skírnarveislur og önnur boð í samráði við skrifstofu RSÍ.

Rithöfundasambandið býður enn fremur góða vinnuaðstöðu í Gunnarshúsi til leigu fyrir félagsmenn í RSÍ á hóflegu verði og getur leigutíminn verið til eins árs í senn með möguleika á endurnýjun samnings eða allt eftir samkomulagi. Tvær til þrjár vinnustofur standa til boða og innifalið er aðgangur að eldhúsi, borðstofu og aðstöðu til fundahalda.

Á haustin hafa verið haldin vikuleg höfundakvöld á fimmtudögum í Gunnarshúsi og hafa höfundar sjálfir bókað þau og skipulagt en skrifstofa aðstoðar við kynningar. Tekist hefur að lyfta jólabókavertíðinni upp úr fari hinna hefðbundnu upplestrarkvölda, og gefa hverri bók og hverjum höfundi meiri tíma og hafa kvöldin verið fjölsótt og umræður líflegar.

Í kjallara Gunnarshúss er þar að auki gestaíbúð ætluð erlendum rithöfundum, þýðendum og öðru bókmenntafólki.

Gunnarshús er því allt í senn, skrifstofa, vinnuaðstaða, gestaíbúð, félagsmiðstöð, fundaaðstaða og veislusalur og stendur öllum félagsmönnum RSÍ til boða!

Samstarfið

Sambandið nýtist félagsmönnum á ýmsa vegu eins og fram kemur hér að ofan en félagsmenn geta líka lagt RSÍ lið. Með því að tilheyra og taka þátt í stórum hagsmunasamtökum fagfólks stuðlar fólk að samstöðu og gefur samningafulltrúum slagkraft og styrk.

Félagsmenn eru hvattir til að taka virkan þátt í starfinu því öflug grasrótarvinna á öllum sérsviðum styrkir innviði og markar stefnu sambandsins. Félagsmenn vinna ýmiss konar sjálfboðastarf fyrir félagið, sitja í stjórn, inntökunefnd RSÍ og öðrum nefndum og stjórnum sem sambandið tilnefnir í. Þau eru orðin óteljandi dæmin um grasrótarstarf sem unnið hefur verið innan RSÍ og skilað hefur árangri fyrir ýmis sérsvið stéttarinnar en stofnun Samtaka íslenskra barna- og unglingabókahöfunda, ljóðaverðlaunin Maístjarnan, höfundakvöldin í Gunnarshúsi og vefritið Höfundurinn eru nýlegustu dæmin um grasrótartillögur sem RSÍ hefur getað lagt lið og stutt með ýmsum hætti.

Ábendingar og góðar tillögur eru ávallt vel þegnar. Stjórn RSÍ ályktar mánaðarlega um hin ýmsu mál og t.a.m. leið ekki nema ár frá því að stungið var upp á sérstökum verðlaunum fyrir bestu ljóðabók ársins og þangað til tillagan var orðin að veruleika. Ef allir félagsmenn eru vakandi vegnar okkur betur.