Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland

Um RSÍ

Um Rithöfundasamband Íslands

Rithöfundasamband Íslands var stofnað árið 1974. Áður höfðu tvö rithöfundafélög starfað hér á landi um árabil en fyrstu samtök íslenskra rithöfunda voru stofnuð 1928 sem deild innan Bandalags íslenskra listamanna.

Rithöfundasamband Íslands er stéttarfélag rithöfunda. Rétt á félagsaðild eiga íslenskir rithöfundar og erlendir höfundar sem hafa fasta búsetu á Íslandi. Tilgangur félagsins er m.a. að gæta hagsmuna og réttar félagsmanna og að verja frelsi og heiður bókmenntanna. Stjórn Rithöfundasambands Íslands gerir samninga við útgefendur, leikhús, fjölmiðla, stofnanir og aðra aðila sem birta eða hafa afnot af verkum félagsmanna. Einnig setur stjórn félagsins einhliða gjaldskrár þar sem það á við. Rithöfundasamband Íslands er aðili að Bandalagi íslenskra listamanna, Norræna rithöfunda- og þýðendaráðinu, Evrópska rithöfundaráðinu, Baltneska rithöfundaráðinu og Alþjóðlega rithöfundaráðinu. Rithöfundasambandið hefur aðsetur sitt í húsi Gunnars Gunnarssonar skálds við Dyngjuveg 8 í Reykjavík.

Til að gerast félagi í Rithöfundasambandi Íslands þarf að sækja um inngöngu á sérstökum eyðublöðum. Inntökunefnd starfar allt árið og fjallar ítarlega um hverja inntökubeiðni. Enginn getur orðið félagsmaður nema með honum mæli meirhluti inntökunefndar.