Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland

Höfundasjóður

Höfundasjóður RSÍ er sjóður sem veittir eru styrkir úr til félagsmanna og annarra starfandi höfunda. Úr Höfundasjóði eru veittir ferðastyrkir sem auglýstir eru tvisvar á ári, á vorin og haustin, og verkefnastyrkir til einstaklinga sem auglýstir eru einu sinni á ári, að vori. Auglýsingar eru birtar í miðlum RSÍ. Þriggja manna nefnd annast úthlutun styrkja úr Höfundasjóði. Við úthlutun verkefna- og ferðastyrkja skal hafa hliðsjón af ritstörfum höfunda og miðað skal við vægi bókmenntagreinar og niðurstöður úr könnunum á ljósritun í skólum eftir því sem unnt er. Fræðirit, kennslugögn og viðlíka ritverk veita ekki rétt til úthlutunar úr höfundasjóði enda veitir Hagþenkir – félag höfunda fræðirita og kennslugagna viðtöku því fé sem greitt er fyrir ljósritun á þess háttar efni. Opnað er fyrir umsóknir þremur vikum áður en umsóknarfrestur rennur út.

Úthlutunarnefnd Höfundasjóðs RSÍ 2021-2022

Bjarni Bjarnason, Olga Guðrún Árnadóttir og Þórdís Gísladóttir.

Ferðastyrkir – úthlutunarreglur

Ferðastyrkir – umsóknareyðublað

Reglur um Höfundasjóð og greiðslur frá Fjölís

 1. Ársreikningar RSÍ skulu bera með sér tekjur frá FJÖLÍS og ráðstöfun þeirra.
 2. Tekjum þessum skal ráðstafað með eftirfarandi hætti:
  • Varasjóður 15%
  • Orlofshúsasjóður 15%
  • Frádreginn kostnaður skv. góðum reikningsskilavenjum
  • Eftirstöðvar renna óskiptar í Höfundasjóð RSÍ

Stjórn og skrifstofa RSÍ annast umsýslu varasjóðs og orlofshúsasjóðs.

Um Höfundasjóð RSÍ gildir eftirfarandi:

Tekjur Höfundasjóðs eru, eins og áður segir, 70% af greiðslum frá Fjölís, og aðrar tekjur.Árlega skulu allt að 50% af árlegum hagnaði RSÍ frá fyrra ári renna til Höfundasjóðs.* Ekki er heimilt að tæma Höfundasjóð. Einungis má úthluta 90% af árstekjum sjóðs ár hvert. Styrkir eru veittir félagsmönnum og öðrum rithöfundum. Skrifstofa RSÍ leggur árlega til hlutfallsskiptingu í ljósi tekna:

 1. Verkefnastyrkir án umsókna. Stjórn RSÍ annast úthlutun. Að hámarki 20%.
 2. Verkefnastyrkir eftir umsóknum
 3. Ferðastyrkir eftir umsóknum

Úthlutunarreglur:

 1. Á aðalfundi eru kjörnir þrír menn í úthlutunarnefnd og mega þeir ekki vera úr hópi stjórnarmanna sambandsins. Úthlutunarnefnd er kjörin til eins árs í senn og annast úthlutun verkefna- og ferðastyrkja eftir umsóknum. Enginn situr þó lengur í nefndinni en 3 ár samfleytt. Nefndarmenn sækja sjálfir ekki um styrki það tímabil sem þeir sitja í nefnd.
 2. Við úthlutun verkefnastyrkja skal hafa hliðsjón af ritstörfum höfunda og útgefnum verkum án tillits til félagsaðildar.
 3. Sá hluti tekna Höfundasjóðs sem kemur ekki frá Fjölís (aðrar tekjur) er eyrnamerktur félagsmönnum RSÍ. Rétt til að sækja um hafa þeir sem hafa verið félagsmenn í RSÍ í a.m.k. eitt ár og eru skuldlausir við félagið.
 4. Við úthlutun úr Höfundasjóði skal miðað við vægi bókmenntagreinar og niðurstöður úr könnunum á ljósritun í skólum eftir því sem unnt er. Fræðirit, kennslugögn og viðlíka ritverk veita ekki rétt til úthlutunar úr Höfundasjóði enda veitir Hagþenkir – félag höfunda fræðirita og kennslugagna viðtöku því fé sem greitt er fyrir ljósritun á þess háttar efni.
 5. Auglýsa skal eftir umsóknum um verkefnastyrki einu sinni á ári og umsóknum um ferðastyrki tvisvar á ári. Auglýsingar skulu birtar í miðlum RSÍ.
 6. Styrkir sem ekki eru sóttir eða ekki næst að úthluta renna aftur í eign Höfundasjóðs.
 • Tillaga samþykkt á aðalfundi RSÍ 27. apríl 2017.
 • Félagsmenn geta ekki sótt um starfs- eða ferðastyrki á meðan þeir eiga sæti í stjórn RSÍ. Bókun stjórnar 13. apríl 2018.