Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Ólafur Ormsson látinn

Ólaf­ur Orms­son rit­höf­und­ur lést miðviku­dag­inn 27. októ­ber síðastliðinn, 77 ára gam­all.

Ólaf­ur fædd­ist í Reykja­vík 16. nóv­em­ber 1943.  Hann hóf ung­ur ritstörf. Sat meðal ann­ars í rit­stjórn æsku­lýðssíðu Þjóðvilj­ans og var í hópi út­gef­enda og höf­unda að Lyst­ræn­ingj­an­um og tón­list­ar­tíma­rit­inu TT og stóð að bóka­út­gáfu. Hann er höf­und­ur að ljóðabók­um, skáld­sög­um og smá­sagna­söfn­um. Fyrsta ljóðabók hans, Fáfniskver, kom út á ár­inu 1973. Hann skrifaði skál­dævi­sögu í þrem­ur bind­um, Ævin­týraþorpiðBylt­ing­ar­menn og bóhem­ar og Skálda­speg­ill, sem kom út á ár­un­um 2007 til 2013. Eft­ir hann liggja einnig nokk­ur út­varps­leik­rit og smá­sög­ur sem lesn­ar hafa verið upp í Rík­is­út­varp­inu.


Kristín Bjarnadóttir látin

Kristín Bjarnadóttir, ljóðskáld, leikkona og tangódansari, lést í Gautaborg þann 1. október 73 ára gömul.

Ljóð eftir Kristínu birtust fyrst 1979 í Lesbók Morgunblaðsins og safnritinu Nýgræðingar í Ljóðagerð 1970-1981. Seinna stuttar frásagnir og textar fluttir á sviði og í útvarpi. Hún vann við þáttagerð hjá RÚV, meðal annars þáttaröð um skandinavískar samtíðaskáldkonur, í samvinnu við Nínu Björk Árnadóttur. Hún þýddi ljóðabálkinn Ástarsaga aldarinnar og sviðsútgáfu í samvinnu við Kristbjörgu Kjeld.

Kristín gaf út ljóðsöguna Því að þitt er landslagið (1999), Heimsins besti tangódansari (2005) og Ég halla mér að þér og flýg (2007). Einþáttungur hennar Gættu þín var sýndur í Þjóðleikhúsinu 1987

Kristín átti sæti í stjórn Höfundamiðstöðvarinnar Författarcentrum Väst í Gautaborg allt frá árinu 2010, varaformaður frá 2012 og formaður síðan 2017. Innan höfundamiðstöðvarinnar átti hún frumkvæði að stofnun ljóðahópsins PoPP (poeter orkar poetiska projekt) sem kom til Reykjavíkur sumarið 2017 með upplestrardagskrá í samvinnu við kollega og ljóðskáld í Rithöfundasambandi Íslands. Meðal verkefna sem hún átti frumkvæði að og hafði yfirumsjón með er Waters and Harbours in North  – WHiN, 2017 þar sem Bókmenntaborgin Reykjavík var meðal samvinnuaðila.

Rithöfundasamband Íslands þakkar Kristínu samfylgdina og sendir fjölskyldu hennar og vinum samúðarkveðjur.


Álfrún Gunnlaugsdóttir minning

Álfrún Gunnlaugsdóttir heiðursfélagi í Rithöfundasambandi Íslands er fallin frá. Hún var ekki einungis magnaður höfundur, óumdeilanlega framúrskarandi með einstaka rödd, heldur var hún einnig einn fremsti fræðimaður okkar á sviði bókmennta, vel heima í verkum annarra rithöfunda og framandi menningargeirum.

Álfrún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1958 og hélt ári síðar til náms í rómönskum málum og bókmenntum í Barcelona. Hún lauk licenciatprófi (M.A,) frá Háskólanum í Barcelona (1965), öðlaðist rétt til að verja doktorsritgerð ári síðar við sama skóla, og vann að ritgerðinni við Háskólann í Lausanne í Sviss á árunum 1966 -1970. Doktorsritgerð sína varði hún svo við hinn nýstofnaða Óháða háskóla Katalóníuhéraðs 1970

Hún var lektor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands 1971-77, síðan dósent í sömu grein og prófessor frá 1988 til 2006 þegar hún lét af störfum.

Eftir Álfrúnu liggur fjöldi skáldverka af ýmsu tagi, smásagnasafn og skáldsögur og oft og einatt hlutu verk hennar verðlaun og viðurkenningar, voru tilnefnd til Íslensku bókmennta¬verð¬laun¬anna, Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, hlutu bókmenntaverðlaun DV og Fjöruverðlaun, svo eitthvað sé nefnt, auk þess sem Álfrúnu var veitt viðurkenning Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins.

Álfrún var gerð að heiðursdoktor við Hugvísindasvið Háskóla Íslands árið 2010, og í ávarpi af því tilefni sagði Ástráður Eysteinsson um verk Álfrúnar sem þá voru komin út:

„ … þessar sex bækur búa yfir sterkum höfundareinkennum – í viðfangsefnum, frásagnaraðferðum, persónusköpun og lífssýn. Hér hefur orðið til eitt sérstæðasta höfundarverk íslenskra bókmennta á síðustu áratugum, mótað af samslætti djarfrar framsetningar, tilvistarhyggju og húmanisma. Verk Álfrúnar eru engan veginn öll steypt í sama móti en í þeim öllum er einhver sterkur og seiðandi höfundarkjarni sem við höfum enn ekki gert okkur nema takmarkaða grein fyrir.“

Íslenskir rithöfundar þakka Álfrúnu Gunnlaugsdóttur framlag hennar til íslenskra bókmennta og bókmennta heimsins. Minning hennar mun lengi lifa í þeim glæsilegu verkum sem hún lætur eftir sig.

Karl Ágúst Úlfsson formaður RSÍ


Vilborg Dagbjartsdóttir minning

Vilborg Dagbjartsdóttir skáldkona. Sjaldan segi ég nafn hennar upphátt án þess að titillinn skáldkona fylgi því. Ekki frá því ég fyrst las ljóð hennar í safnhefti um það bil sem ég var að ljúka unglingaskólanámi.

Nú breiðir María ullina sína hvítu

á himininn stóra.

María sem á svo mjúkan vönd

að hirta með englabörnin smáu.

Það hrundu fáein blóm úr vendinum hennar í vor,

þau vaxa síðan við hliðið ljómandi falleg og blá.

Fuglinn sem á hreiður

við lækinn í hlíðinni sunnan við bæinn

er kallaður eftir henni.

Það er Maríuerla.

Þegar ég verð stór og ræ á sjó með pabba

gef ég henni Maríu fyrsta fiskinn minn.

Í kirkjunni er mynd af Maríu

með gull utan um hárið.

Mamma segir að það sé vegna þess

að María á dreng svo undurgóðan.

Ég hafði reyndar oft lesið ljóð sem höfðu vakið hjá mér hugsun og nýjar hugmyndir, en nú olli Vilborg Dagbjartsdóttir skáldkona nýjar gárur í vitundarlífi mínu og ljóðið hennar um Maríu hvarf ekki úr minni. 

Fáeinum árum seinna henti mig það happ að fá að lesa ljóð á sömu samkomu og Vilborg. Þá tókum við tal saman og síðan hlustaði ég agndofa á skáldkonuna fara með ljóðið Morgunverk, þar sem hún segir meðal annars:

Kvöldið eftir bað ég Drottin um rok

í næturhúminu lá ég andvaka

og heyrði kulið vagga greinum plómutrésins

– örlítið hvassara Drottinn minn góður –
bað ég auðmjúk

Hvenær hefur himnafaðirinn skeytt um morgunsult fátæklins?

Enda kom mér ekki í hug að dekstra karlinn

heldur lét það verða mitt fyrsta verk í morgunsárið

að reka sópinn upp í plómutréð

þar sem það slútti yfir vegginn

– ekki samdi Drottinn Jahve boðorðin
handa þjónum vinnukonum eða kvenfólki yfirleitt

Framlag Vilborgar til lífs þessa tiltekna unglings var umtalsvert, en framlagið til íslenskra bókmennta var ekkert minna en magnað og verður seint fullþakkað. Verk hennar eru  ómetanlegar gersemar  sem hún valdi að færa þjóð sinni að gjöf.  Sem ungur höfundur átti ég því láni að fagna að starfa með henni fyrir Rithöfundasamband Íslands snemma á níunda áratug síðustu aldar. Þá vakti það óblendna aðdáun mína hvað hún fylgdist grannt með grasrótinni og var vel heima í verkum yngstu skáldanna. Það var nánast sama hvað nafn bar á góma, titill nýrrar ljóðabókar eða stuttur prósi sem birst hafði í blaði eða tímariti, alltaf vissi Vilborg hvað klukkan sló og gat uppfrætt okkur sem ekki vorum jafnvel með á nótunum. Aðdáun mín á henni stigmagnaðist við samstarf okkar og hefur engan enda tekið.

Nú kveðjum við Vilborgu Dagbjartsdóttur skáldkonu og heiðursfélaga í Rithöfundasambandi Íslands. Hjartans þakkir, kæra Vilborg, fyrir allt það gagn sem þú hefur unnið okkur rithöfundum, okkur lesendum og aðdáendum alls þess sem vel er gert í bókmenntum.

Karl Ágúst Úlfsson formaður Rithöfundasambands Íslands


Vilborg Dagbjartsdóttir skáld og heiðursfélagi RSÍ látin

Vil­borg Dag­bjarts­dótt­ir, skáld­kona og kenn­ari, lést á líkn­ar­deild Land­spít­al­ans, hinn 16. sept­em­ber síðastliðinn, 91 árs að aldri.

Vil­borg fædd­ist á Vest­dals­eyri við Seyðis­fjörð 1930. Hún lauk kenn­ara­prófi frá KÍ 1952, stundaði leik­list­ar­nám 1951-53, nám í bóka­safns­fræði við HÍ 1983 og dvaldi í Skotlandi og Dan­mörku 1953-55. Vil­borg var kenn­ari við Landa­kots­skóla 1952-53 og kenn­ari við Aust­ur­bæj­ar­skóla 1955-2000 er hún lét af störf­um fyr­ir ald­urs sak­ir.

Vil­borg sendi frá sér fjölda ljóða- og barna­bóka en þýddi auk þess hátt á fimmta tug barna- og ung­linga­bóka og rit­stýrði bók­um. Tvær ævi­sög­ur Vil­borg­ar hafa komið út: Mynd af konu, eft­ir Krist­ínu Mar­ju Bald­urs­dótt­ur 2000, og Úr þagn­ar­hyl, eft­ir Þor­leif Hauks­son 2011.

Vil­borg var formaður Rit­höf­unda­fé­lags Íslands, sat í stjórn Stétt­ar­fé­lags ís­lenskra barna­kenn­ara, Rit­höf­unda­sam­bands Íslands og Menn­ing­ar- og friðarsam­taka ís­lenskra kvenna. 

Hún var heiðurs­fé­lagi Rit­höf­unda­sam­bands Íslands frá 1998, heiðurs­launa­hafi Alþing­is til lista­manna og var sæmd ridd­ara­krossi ís­lensku fálka­orðunn­ar fyr­ir fræðslu- og ritstörf árið 2000.

Rithöfundasamband Íslands þakkar Vilborgu samfylgdina og sendir fjölskyldu hennar og vinum samúðarkveðjur.


Álfrún Gunnlaugsdóttir heiðursfélagi látin

Álfrún Gunnlaugsdóttir rithöfundur lést í Reykjavík 15. september s.l. á 84. aldursári.

Álfrún var fædd í Reykjavík 18. mars 1938. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1958 og hélt síðan í bókmenntafræði- og heimspekinám til Katalóníu á Spáni. Hún lauk Lic. en fil. y en letras-prófi frá Universidad de Barcelona árið 1965 og Dr. Phil.-prófi frá Universidad Autónoma de Barcelona árið 1970. Álfrún vann að doktorsritgerð við Háskólann í Lausanne í Sviss 1966-70.  Ritgerðin ber titilinn Tristán en el Norte og kom út hjá Stofnun Árna Magnússonar árið 1978. 

Álfrún var lektor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands 1971-77 og var hún fyrsta konan sem ráðin var í fasta stöðu hjá heimspekideild háskólans. Hún var dósent í sömu grein 1977-87 og prófessor frá 1988 til 2006 þegar hún lét af störfum. Á haustmisseri 2002 gegndi hún einnig stöðu skorarformanns við bókmennta- og málvísindaskor heimspekideildar HÍ.

Álfrún hefur sent frá sér átta skáldverk, fyrst smásagnasafnið Af manna völdum. Tilbrigði við stef 1982 og síðan hafa komið út eftir hana sjö skáldsögur. Álfrún hlaut bókmenntaverðlaun DV 1985 fyrir aðra bók sína, skáldsöguna Þel. Þrisvar hafa skáldsögur hennar verið tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs: Hringsól , Hvatt að rúnum og Yfir Ebrofljótið. Sú síðastnefnda var einnig tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2001 sem og skáldsagan Rán árið 2008. Fyrir Rán hlaut hún bæði Menningarverðlaun DV í bókmenntum og Fjöruverðlaunin. Álfrún hlaut Rithöfundaverðlaun Ríkisútvarpsins árið 2001.

Álfrún hefur þýtt eina skáldsögu úr spænsku  og einnig skrifað greinar í fræðirit. Verk eftir hana hafa verið þýdd á erlend tungumál.

Álfrún gerðist félagi í Rithöfundasambandinu árið 1985. Hún  var gerð að heiðursdoktor við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands 1. desember 2010 og hún var heiðruð með Riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu fyrir framlag til íslenskra bókmennta og kennslu bókmennta á háskólastigi 1. janúar 2018. 

Álfrún var gerð að heiðursfélaga Rithöfundasambands Íslands árið 2014.

Rithöfundasamband Íslands þakkar Álfrúnu samfylgdina og sendir ættingjum hennar og vinum samúðarkveðjur.


Halldóra K. Thoroddsen

Engill
 
Síríus blikaði á suðurhimni, hvítari og skærari en allar hinar. Undir óravíddum hvolfsins lá barn á bakinu. Mjóslegið mannabarn undir kvöldhimni. Kyrrðin magnaði krafshljóðið undan sperrtum útlimum sem teiknuðu vængi og kyrtil í mjúka fönnina. Við hlið engilsins skildi barnið eftir teiknaða hörpu og klöngraðist uppá hæð til að líta verk sitt. Frá lífvana engilmynd og þöglu hljóðfæri lá sporaslóð til höfundar sem starði og beið, hátíðlegur og máttfarinn. Þá gerðist undrið sem hann hafði vænst í barnaskapnum. Engillinn rótaði sér, seildist í hljóðfærið, blakaði vængjum og hóf sig á loft inní svart ómælið. Hvítur sem kyndill. Stakir tónar bárust um festinguna.
Halldóra Kristín Thoroddsen/ 2005 Gangandi vegfarandi
 
Allt getur gerst og allt gerist. Sumt er ótrúlegra en annað og það tók okkur öll langa stund að trúa því að hún Halldóra væri flogin burt. Það eru ríflega 40 ár síðan við hittums í fyrsta sinn. Þá vissi ég ekki að hún væri skáld. Ég var bekkjarbróðir Bauju systur hennar í Leiklistarskólanum og fundum okkar bar helst saman ef yfir einhverju þurfti að gleðjast. Og víst var glaðst. Og hlegið hátt. Seinna störfuðum við Eggert náið saman í nokkur ár og ég datt inn á heimili þeirra Dóru af og til. Og þá var glaðst. Og hlegið hátt. En líka kafað djúpt. Því það var alltaf svo óhemju gaman að hitta Dóru og eiga við hana orð um allt og ekkert. Og þá vissi ég loksins að hún var skáld. Og ég skal viðurkenna að það jók enn á gleðina af að þekkja hana. Um leið og verk hennar tóku að birtast almenningi varð öllum það ljóst að þarna var ný og hressileg rödd á ferðinni. Og með hverju verki jókst henni ásmegin, hún var óheyrilega fyndin á sinn hlýlega hátt, kunni eldklárt að greina samfélag okkar og sögu og afhjúpa þau í orðum sem oft fengu mann til að glenna upp augu í furðu og aðdáun. Mörg slík augnablik átti ég með síðustu bók hennar, Katrínarsögu, sem er óhemju mikilvægt framlag til íslenskra bókmennta, og um leið mjög skörp og nauðsynleg þjóðfélagsrýni.
 
Fyrir hönd íslenskra rithöfunda kveð ég Halldóru með miklum trega og harma að hún skyldi ekki fá að ljúka dagsverki sínu, en þakka um leið þær góðu gjafir sem hún gaf. Fyrir hönd sjálfs mín og míns fólks þakka ég góðar og skemmtilegar stundir. Ykkur öllum votta ég dýpstu samúð, elsku Eggert og fjölskylda.
 
Karl Ágúst Úlfsson


Birgir Sigurðsson – minning

Birgir Sigurðsson rithöfundur er fallinn frá. En verk hans lifa og þær ómetanlegu gjafir sem hann gaf okkur þjóð sinni eru gersemar sem við fáum seint fullþakkað.

Birgir stimplaði sig rækilega inn í íslenskt leikhús- og menningarlíf með leikriti sínu Pétri og Rúnu árið 1972, þá 35 ára að aldri, en áður hafði hann sent frá sér ljóðabækurnar Réttu mér fána og Á jörð ertu kominn. Í Pétri og Rúnu, sem varð hlutskarpast í leikritasamkeppni Leikfélags Reykjavíkur, kvað við ferskan tón í íslenskri leikritun og með verkunum sem í kjölfarið fylgdu, Selurinn hefur mannsaugu, Skáld-Rósu og Grasmaðki tók Birgir af öll tvímæli um að Ísland hafði eignast eitt af öflugustu leikskáldum samtímans. Þegar Dagur vonar var frumsýndur 1987 gat engum blandast hugur um þau ofurtök sem höfundurinn hafði á leikritsforminu, hvort sem litið var á persónusköpun, samskipti leikpersóna eða uppbyggingu og framvindu leiksögunnar.

Verk Birgis eru oft persónuleg og samúð hans með fólkinu sínu, persónunum sem hann leiðir fram, er ótvíræð, auk þess sem sársauki höfundarins skín á stundum í gegnum tilfinningalíf fólksins á sviðinu. Verk hans stíga listilegan dans á mörkum þess ljóðræna og hversdagslega – á mörkum þess grimma og þess blíða – og hann er örlátur á innsæi sitt, bæði vitsmunalegt og tilfinningalegt.

Um þörfina fyrir að skrifa segir Birgir í viðtali við DV árið 2000:

„Maður veit ekki hvaðan þörfin kemur en það ræðst ekki við hana. Ef svo væri þá væri maður líklega í öðru starfi. Þetta er eins og að vera haldinn; það er eins og lagðir hafi verið á mann galdrar; það er engin leið út.“

Eftir Dag vonar birtust leikritin Óskastjarnan, Dínamít og Er ekki nóg að elska?, smásagnasöfnin Frá himni og jörðu og Prívat og persónulega, sagnfræðiritið Svartur sjór af síld og skáldsögurnar Hengiflugið og Ljósið í vatninu.

„Fyrst og fremst gerir maður þetta fyrir sjálfan sig og sinn eigin sannleik.“ segir Birgir í viðtali við Helgarpóstinn í desember 1984,  „Ef svo vill til að einhver eða einhverjir aðrir eru sammála mínum sannleik, þá er það ágætt — en það er ekkert sem rithöfundur á heimtingu á.“

Birgir tók virkan þátt í félagsmálum og réttindabaráttu listamanna á Íslandi. Hann var varaformaður Rithöfundasambands Íslands á árunum 1982 til ’86 og forseti Bandalags íslenskra listamanna frá 1985 – ’87. Á sömu árum var hann einnig í stjórn Listahátíðar.

Í Degi vonar vitnar höfundurinn í ljóð systur sinnar Sigríðar Freyju og leggur þessi orð í munn stúlkunnar Öldu:

Hún var nú stödd hjá tré sem var fegurst allra trjáa. Það var eins og huggun sem sagði að enn væri til fegurð, þrátt fyrir allt. Og hún gaf sig á tal við lífið: „Þú hefur gefið mér margt og sagt mér hvers virði allt er, en eitt met ég mest.“ – Lífið langaði þá til þess að vita, hvað af þess miklu auðæfum væri dýrast. „Fagra líf,“ sagði hún, „ef mér væri ekki gefinn skilningur væri ég eins mikil þögn og dauðinn.“

Íslenskir rithöfundar þakka Birgi hans góðu verk, kveðja hann með virðingu og votta fjölskyldu hans og aðstandendum dýpstu samúð.

f.h. Rithöfundasambands Íslands
Karl Ágúst Úlfsson formaður


Birgir Sigurðsson heiðursfélagi látinn

Birg­ir Sig­urðsson, rit­höf­und­ur og leik­skáld, lést á Land­spít­al­an­um í Foss­vogi 9. ág­úst sl., á 82. ald­ursári.

Birg­ir fædd­ist í Reykja­vík 28. ág­úst 1937. Hann auk kenn­ara­prófi frá KÍ 1961, stundaði tón­list­ar­nám við Tón­list­ar­skól­ann í Reykja­vík í fimm ár og söngnám í Amster­dam 1967. Birg­ir var blaðamaður á Tím­an­um 1961-64 og var kenn­ari og skóla­stjóri í nokkr­um skól­um þar til hann sneri sér al­farið að ritstörf­um árið 1979. Eft­ir Birgi ligg­ur fjöldi rit­verka; leik­rit, skáld­sög­ur, ljóð, þýðing­ar og fræðirit. Þekkt­asta leik­rit Birg­is er án efa Dag­ur von­ar, sem frum­sýnt var 1987, til­nefnt til bók­mennta­verðlauna Norður­landaráðs 1989 og hef­ur verið sýnt víða um heim. Fyrsta leik­ritið, Pét­ur og Rúna, vann 1. verðlaun í sam­keppni Leik­fé­lags Reykja­vík­ur 1972 og vakti mikla at­hygli. Meðal annarra leik­rita hans eru Skáld-Rósa, Sel­ur­inn hef­ur mannsaugu, Grasmaðkur, Óska­stjarn­anog Dína­mít. Birg­ir var heiðurs­fé­lagi Leik­fé­lags Reykja­vík­ur en hann þýddi einnig fjöl­mörg leik­rit, m.a. Barn í garðinum, eft­ir Sam Sheph­ard, Gler­brot,eft­ir Arth­ur Miller, og Kött­ur á heitu blikkþaki, eft­ir Tenn­essee Williams. Þá þýddi hann tvær skáld­sög­ur eft­ir Dor­is Less­ing, Grasið syng­urog Marta Qu­est.

Birg­ir var vara­formaður Rit­höf­unda­sam­bands Íslands 1982-1986, var for­seti Banda­lags ís­lenskra lista­manna 1985-87 og átti m.a. sæti í stjórn Lista­hátíðar og út­hlut­un­ar­nefnd Kvik­mynda­sjóðs. Birg­ir var á þessu ári gerður að heiðurs­fé­laga Rit­höf­unda­sam­bands­ins.

Rithöfundasamband Íslands þakkar Birgi samfylgdina og sendir fjölskyldu hans samúðarkveðjur.


Atli Magnússon þýðandi látinn

Atli Magnússon – mbl.is/?Ein­ar Falur

Atli Magnús­son, þýðandi, rit­höf­und­ur og blaðamaður, er lát­inn, 74 ára að aldri. Atli fædd­ist 26. júlí 1944, hann lést á heim­ili sínu aðfaranótt 14. júní.

Atli starfaði lengst af sem blaðamaður. Meðfram blaðamennsku lagði hann stund á ritstörf og eft­ir hann liggja bæði ævisögur sem og fjöldi úrvalsþýðinga.

Atli rit­stýrði Sjó­manna­dagsblaðinu um nokkurra ára skeið og starfaði sem dag­skrár­full­trúi á rík­is­út­varp­inu. Hann þýddi mörg af stór­virkj­um heims­bók­mennt­anna eins og Meist­ara Jim, Nostromo og Leynierindrekann eft­ir Joseph Conrad, Gats­by og Nótt­in blíð eft­ir F. Scott Fiz­ger­ald, Mrs. Galloway eft­ir Virg­iniu Woolf, Hið rauða tákn hug­prýðinn­ar eft­ir Stephen Cra­ne og Fall kon­ungs eft­ir Johann­es V. Jen­sen.

Atli skrifaði að auki Skært lúðrar hljóma, sögu lúðrasveita á Íslandi, en hann starfaði tæp 30 ár í Lúðrasveit verka­lýðsins.

Rithöfundasamband Íslands þakkar Atla samfylgdina og sendir fjölskyldu hans samúðarkveðjur.