Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Meydómur í Gunnarshúsi

Fimmtudaginn 18. nóvember kl 20.00-21.30 í Gunnarshúsi. Hlín Agnarsdóttir segir frá nýútkominni bók sinni Meydómur sem er svokölluð sannsaga. Ormstunga bókaútgáfa gefur út. Fullorðin dóttir skrifar látnum föður sínum bréf sem jafnframt er bréf til meyjarinnar sem hún eitt sinn var. Meydómur er saga af leiðinni sem hún fetar frá sakleysi bernskunnar til uppreisnar unglingsáranna þegar meydómi hennar lýkur. Hlín mun lesa upp úr bókinni ásamt Steinunni Ólafsdóttur leikkonu. Spyrjandi og samtalsfélagi Hlínar verður Þóra Hjörleifsdóttir sem skrifaði bókina Kvika en hún hefur nýlega slegið í gegn í Bandaríkjunum.

Léttar veitingar.


Skáldkvennakvöld í Gunnarshúsi mánudaginn 15. nóvember

Mánudagskvöldið 15. nóvember verður sannkallað skáldkvennakvöld í Gunnarshúsi kl. 20.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir: Ilmreyr – móðurminning. Silja Aðalsteinsdóttir ræðir við Ólínu sem einnig mun lesa úr bókinni. Ilmreyr er aldarspegill og sjálfsævisögulegt verk um lif, ástir og örlög fjögurra kynslóða i ættlegg höfundar. 

Guðrún Ingólfsdóttir: Skáldkona gengur laus. Erindi 19. aldar skáldkvenna við heiminn.“ Í bókinni er fjórum skáldkonum frá 19. öld sleppt lausum úr handritageymslu  Þjóðarbókhlöðunnar“ segir á bókarkápu. Guðrún Nordal ræðir við nöfnu sína um verkið.

Guðrún Steinþórsdóttir: Raunveruleiki hugans er ævintýri. Um er að ræða doktorsritgerð um verk Vigdísar Grímsdóttur þar sem fjallað er um valdar sögur, einkenni þeirra og viðtökur í ljósi hugrænnar bókmenntafræði. Sigrún Margrét Guðmundsdóttir ræðir bókina við Guðrúnu.

Húsið opnar kl. 19.45 – léttar veitingar. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.


Ljóðakvöld í Gunnarshúsi fimmtudaginn 11. nóvember

Anna S. Björnsdóttir og Ragnheiður Lárusdóttir

Fimmtudaginn 11. nóvember klukkan 20 verður ljóðakvöld haldið í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8 í Reykjavík.

Tvær skáldkonur lesa upp úr nýjum ljóðabókum sínum:

Anna S. Björnsdóttir mun lesa úr nýútkominni ljóðabók sinni ANDRÁ, en bókin er 20. ljóðabók Önnu. Hún hefur tekið þátt í og haldið ljóðahátíðir síðastliðin 20 ár, hérlendis og erlendis. Margar bækur Önnu hafa að geyma ljóð á öðrum tungumálum.

Ragnheiður Lárusdóttir er menntaskólakennari og söngkona, hún gaf út sína fyrstu ljóðabók árið 2020 og ber hún heitið 1900 og eitthvað. Handrit að þeirri bók hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og bókin var einnig tilnefnd til Maístjörnunnar. Nú í haust kom svo út önnur bók Ragnheiðar, Glerflísakliður

Auk skáldkvennanna munu Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, Einar Ólafsson, Þór Stefánsson og Þórður Helgason lesa eigin ljóð.

Léttar veitingar verða í boði og skáldin munu bjóða bækur sínar til sölu á staðnum.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Góða skemmtun!


DIMMUKVÖLD Í GUNNARSHÚSI – Fimmtudaginn 4. nóvember kl. 20

Smásögur, skáldsaga og úrvals barnaefni fléttast saman á bókmenntakvöldi útgáfunnar Dimmu. Nafnarnir Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson og Aðalsteinn Emil Aðalsteinsson kynna nýju smásagnasöfnin, Vendipunkta og Svefngarðinn, og þýðendurnir Guðrún Hannesdóttir og Jóhanna Björk Guðjónsdóttir fara um ólíkar slóðir þar sem Asmódeus litliPomperípossa og Kona á flótta birtast hvert með sínum hætti.

Tónlist í anda kvöldsins flytur Þorgerðar Ása Aðalsteinsdóttir. 

Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.  


Höfundakvöld með Hauki Ingvarssyni

Í tilefni af útkomu bókarinnar Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu: Orðspor Williams Faulkners í íslensku menningarlífi 1930-1960 eftir Hauk Ingvarsson verður haldin útgáfufögnuður og höfundaspjall kl. 20, miðvikudaginn 3. nóvember.

Haukur ræðir bókina og myndefni hennar og situr fyrir svörum. Einar Kári Jóhannsson stjórnar umræðum.

Viðburðurinn er öllum opin og boðið er upp á léttar veitingar í Gunnarshúsi við Dyngjuveg 8, 104 Reykjavík. Þar tók rithöfundurinn Gunnar Gunnarsson á móti kollega sínum William Faulkner í október 1955, eins og fjallað er um í bókinni.

Um bókina:
Haustið 1955 sótti bandaríski rithöfundurinn og Nóbelsverðlaunahafinn William Faulkner Íslendinga heim. Kalda stríðið var í algleymingi og íslenska þjóðin klofin í afstöðu sinni til herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Faulkner var eindreginn talsmaður stórveldisins í vestri en fangaði hugi og hjörtu Íslendinga þvert á flokkslínur, sósíalistar lýstu honum sem fulltrúa þess besta í bandarískri menningu.

En hver var þessi Faulkner? Og hvernig stóð á vinsældum hans?

Í bókinni er fjallað um landnám módernismans í íslenskum bókmenntum og bandarísku bylgjuna sem reið yfir bókmenntaheiminn á fjórða áratug 20. aldar. Brugðið er nýju og óvæntu ljósi á þátttöku íslenskra hægrimanna í alþjóðlegu menningarstarfi í kalda stríðinu en á bak við tjöldin hélt bandaríska leyniþjónustan um þræði. Við sögu koma Hollywood-kvikmyndir byggðar á verkum Faulkners, erindrekar Bandaríkjastjórnar á Íslandi, aftökur án dóms og laga í Suðurríkjum Bandaríkjanna og íslenskur rithöfundur sem skrifaði skáldsagnaþríleik, innblásinn af Faulkner.

Hér er á ferðinni nýstárleg rannsókn sem byggir á fjölbreyttum heimildum, þar á meðal gögnum af innlendum og erlendum skjalasöfnum. Bókin á erindi til alls áhugafólks um bókmenntir og sögu.

Haukur Ingvarsson er doktor í bókmenntafræði og rithöfundur. Hann er höfundur bókarinnar Andlitsdrættir samtíðarinnar: Síðustu skáldsögur Halldórs Laxness. Árið 2018 hlaut Haukur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabók sína Vistarverur.


Jón Hjartarson hlýtur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2021

Jón Hjartarson hlaut í gær Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2021 fyrir ljóðahandritið Troðningar. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri veitti verðlaunin sem nema einni milljón króna. Fyrstu eintök af bókinni komu um leið út hjá JPV útgáfu.

Jón Jóhann Hjartarson er fæddur árið 1942 á Hellissandi. Hann útskrifaðist sem kennari frá Kennaraskóla Íslands 1965 og lauk leikaraprófi frá Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur 1968. Hann var fastráðinn leikari um margra ára skeið hjá Leik­fé­lagi Reykja­víkur og lék í kringum 80 hlut­verk á ferlinum. Jón lék einnig leikið með ýmsum leik­hópum, s.s. Grímu, Litla leik­fé­laginu, Litla leik­húsinu, auk þess sem hann lék í fjöl­mörgum kvik­myndum sem og sjón­varps- og út­varps­verkum.

Jón hefur samið fjölda leik­rita bæði fyrir börn og full­orðna, auk barna- og ung­linga­bóka. Fyrsta leik­rit hans, Af­mælis­boðið, er frá 1969. Hann hefur bæði leik­stýrt verkum sínum og annarra hjá at­vinnu­leik­húsum og á­huga­leik­hópum. Síðasta bók hans er ung­menna­bókin Auga í fjallinu sem kom út hjá Skruddu árið 2017.

Jón sagði við athöfnina í gær að hann hafi löngum dáð þjóðskáldin og eins atómskáldin. „Ég dái þá höfunda sem nú fást við ljóð. Og mér sýnist íslensk ljóðagerð dafna býsna vel sem er gott. Ljóðið ratar til sinna og setur veruleikann svolítið úr skorðum sem er hollt“, sagði Jón. 

Í dómnefnd sátu Sif Sigmarsdóttir, Guðrún Sóley Gestsdóttir og Eyþór Árnason. Í umsögn dómnefndar segir: „Troðningar eftir Jón Hjartarson er kraftmikið verk um hið óvænta í hinu augljósa, fegurðina í hversdagsleikanum og mikilfengleika þess smáa. Í bókinni fer Jón um víðan völl. En hvort sem yrkisefnið er náttúran, sagan eða samtíminn er sjónarhornið ávallt óvænt. Þekkt minni eru færð í nýjan búning. Kímnar hvunndagsmyndir eru dregnar upp innan um vísanir í stórskáldin. Hið hversdagslega verður ljóðrænt, hið háfleyga hversdagslegt,“

Rithöfundasamband Íslands óskar Jóni innilega til hamingju með verðlaunin!


RSÍ hefur hlotið félagsaðild að CEATL

Rithöfundasamband Íslands hlaut á dögunum ingöngu í CEATL – Evrópsk samtök samtaka bókmenntaþýðenda.

CEATL eru alþjóðleg samtök stofnuð 1993 í þeim tilgangi að skapa sameiginlega vettvang fyrir samtök bókmenntaþýðenda víðs vegar í Evrópu til að skiptast á upplýsingum og skoðunum og sameina krafta sína til þess að bæta starfsumhverfi og stöðu bókmenntaþýðenda. Samtökin eflast með hverju árinu og núorðið eiga tæplega fjörutíu þýðendasamtök frá rúmlega 30 Evrópulöndum félagsaðild að CEATL.

Yfirlýst markmið samtakanna eru tvenns konar. Annars vegar að safna og halda til haga upplýsingum um stöðu bókmenntaþýðinga og -þýðenda í aðildarlöndunum og skiptast á upplýsingum um ýmis álitaefni. Hitt yfirlýst markmið samtakanna er að fylgjast með þróun laga, reglna og viðskiptahátta og gæta hagsmuna og réttinda bókmenntaþýðenda innan Evrópu og vera aðildarsamtökum innan handar við að styrkja stöðu og tryggja réttindi bókmenntaþýðenda í hverju aðildarlandi um sig.


Höfundakvöld í Gunnarshúsi 21. október – Ingibjörg Hjartardóttir

Fimmtudaginn 21. október verður fjallað um nýjustu skáldsögu Ingibjargar Hjartardóttur, Jarðvísindakona deyr, sem kom út í byrjun sumars.

Sagan gerist í Selvík, afskekktu þorpi á einu virkasta jarðskjálftasvæði landsins. Eftir dapurlegt tímabil í sögu byggðarlagsins, með miklu atvinnuleysi, horfir nú loks til betri vegar því erlendur auðkýfingur ætlar að reisa þar eitt stærsta kísilver í heimi. Hjól atvinnulífsins hafa þegar tekið að snúast því fátt sem skyggir á gleði þorpsbúa þegar fyrsta skóflustungan að verinu er tekin – ekki einu sinni hörmulegt slys sem varð á svæðinu aðeins nokkrum dögum áður þegar 32 ára gömul jarðvísindakona úr Reykjavík lést eftir að hafa ekið út af veginum skammt utan við þorpið. En þetta bílslys vekur forvitni Margrétar Guðmundsdóttur, sjálfskipaðs kvenspæjara, sem nýorðin er ekkja og komin af léttasta skeiði. Hún fer að rannsaka tildrög slyssins og linnir ekki látum fyrr en sannleikurinn liggur fyrir.   Á yfirborðinu virðist þetta vera sakamálasaga í léttum dúr en undir niðri er þetta háalvarleg samfélagsgagnrýni þar sem pólitískir og efnahagslegir hagsmunir svífast einskis.

Höfundakvöldið hefst kl 20:00 í Gunnarshúsi. Spyrill verður Björg Árnadóttir rithöfundur og ritlistakennari.

Léttar veitingar í boði. Allir velkomnir.


Höfundakvöld 2021 hefjast í kvöld

Rithöfundasambandið vekur athygli á því að nú er að hefjast röð höfundakvölda í Gunnarshúsi þar sem höfundar kynnar nýjar bækur haustsins. Líkt og undanfarin ár verða bókmenntaviðburðir í Gunnarshúsi í október og fram í byrjun desember. Kvöldin eru með ýmsu sniði enda móta þátttakendur þau eftir sínu höfði. Hver viðburður verður auglýstur sérstaklega þegar nær dregur.

Á sviðsbrúninni – ný bók um leiklist og menningarpólitík 

Í kvöld, fimmtudaginn 14. október kl. 20.00, verður fjallað um bók Sveins Einarssonar Á sviðsbrúninni sem Ormstunga gefur út. Bókin skiptist í fjóra meginkafla; þar er fjallað um að vinna í sjónvarpi og hvaða stefnu má fylgja en lítið hefur verið skrifað um þau mál áður; þar er rætt um á hverju verkefnaval í leikhúsi grundvallast, um sögu óperuflutnings á Íslandi allt frá 1951 og loks um ýmis verkefni á vettvangi sviðslista sem blasa við. Höfundakvöldið hefst kl. 20.00 og situr Sveinn þar fyrir svörum. Spyrlar eru Brynhildur Guðjónsdóttir Borgarleikhússtjóri og Stefán Baldursson leikstjóri og fyrrverandi Þjóðleikhússtjóri. Ókeypis er á kynninguna að vanda, en léttar veitingar bornar fram.


Ljósvakasjóður – umsóknarfrestur til 5. nóvember

Bætur vegna eintakagerðar til einkanota skv. 11.gr. höfundalaga

Rithöfundasamband Íslands (RSÍ) tekur við greiðslum frá Innheimtumiðstöð rétthafa (IHM). Greiðslurnar renna í Ljósvakasjóð sem úthlutar til höfunda og þýðenda leiktexta og annarra skáldverka í samræmi við reglur þessar. Hagþenkir annast úthlutanir til rétthafa fræðslu- og heimildaefnis eftir eigin reglum.

Réttur til greiðslu er bundinn því að viðkomandi verki hafi verið útvarpað, hafi verið gert aðgengilegt almenningi þannig að hver og einn geti fengið aðgang að verkinu á þeim stað, á þeirri stundu og með þeim búnaði er hann sjálfur kýs eða hafi verið gefið út á hljóðriti eða myndriti. Rétturinn nær til frumsaminna og þýddra verka, þ.m.t. leikins hljóðvarps- og sjónvarpsefnis, kvikmynda, stakra þátta eða þáttaraða, leikinna atriða, útvarpssagna, ljóða, brota úr verkum og annarra skáldverka. Séu fleiri en einn höfundur að sama verki, skiptist réttur til úthlutunar eftir samkomulagi þeirra.

Réttur til úthlutunar er án tillits til félagsaðildar.

Skráning í Ljósvakasjóð: Leitað er eftir skráningarupplýsingum rétthafa, sem telja sig eiga rétt til úthlutunar skv. 2. gr. Skráningarupplýsingum skal skilað á þar til gerðu umsóknarareyðublaði. Athugið að greitt er út skv. 2. gr. eftir skýrslum frá sjónvarps- og útvarpsstöðvum. Þeir sem þegar hafa skilað skráningu og/eða fengið greitt úr sjóðnum þurfa ekki að skrá sig aftur.

Úthlutun skv. 5. gr. B: Rétthafagreiðslur skv. sérstökum umsóknum. Um slíka úthlutun geta sótt; þýðendur skjátexta, rétthafar að styttri verkum, brotum úr verkum, stökum ljóðum sem og frumhöfundar skáldverka sem leikgerðir, þættir eða kvikmyndir hafa verið gerðar eftir.  Í umsóknum um greiðslur skv. þessum lið skal rökstyðja og gera grein fyrir notkun á einstökum verkum á umsóknartímabili. Úthlutað er á grundvelli mats úthlutunarnefndar. Umsóknareyðublað.

Umsóknarfrestur vegna úthlutunar fyrir birt efni 2020 er til 5. nóvember 2021.Ekki er tekið við umsóknum eftir þann tíma.