Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Höfundakvöld Blekfjelagsins í Gunnarshúsi 6. desember

Blekfjelagið fagnar fyrsta útgáfuári sínu og býður í tilefni þess til höfundakvölds í Gunnarshúsi mánudaginn 6. desember kl 20. Þar munu höfundar lesa úr verkum sínum og spjalla við gesti um bækurnar og útgáfuferlið. Léttar veitingar verða á boðstólum. 

Anna Stína Gunnarsdóttir, nóvellan Dagbókin (2021)

Ásdís Ingólfsdóttir, nóvellan Haustið 82 (2021)

Berglind Ósk, ljóðsagan Loddaralíðan (2021)

Guðrún Rannveig Stefánsdóttir, unglingabókin Með skuggann á hælunum (2021)

Rebekka Sif Stefánsdóttir, ljóðabókin Jarðvegur (2020)

Sigrún Björnsdóttir, ljóðabókin Loftskeyti (2020)

Sólveig Johnsen, nóvellan Merki (2020)

Stefanía Pálsdóttir, ljóðverkið Blýhjarta (2020) 

Fjöldi gesta verður takmarkaður við 50 manns og biðjum við ykkur að muna að huga að persónulegum sóttvörnum. Hlökkum til að sjá ykkur!


Höfundakvöld í Gunnarshúsi 2. desember – Tígul fjarki

Fjórir ólíkir höfundar leiða saman hesta sína á upplestrarkvöldi í Gunnarshúsi 2. desember kl. 20.00. 
 
Guðrún Sæmundsen kynnir og les upp úr þriðju bók sinni sálfræðitryllinum RÓSA. Sagan er æsispennandi og tekur á  óhugnanlegri atburðarás sem aðalsögupersónan Rósa sogast inn í. Hverjum getur hún treyst? Er henni sjálfri treystandi? 
 
Tómas Ævar Ólafsson kynnir bók sína Umframframleiðsla sem er ljóðræn rannsókn á þeim verkfærum sem nútímasamfélag beitir á innstu kjarna manneskjunnar. Ljóðabálkurinn fylgir leit ljóðmælanda að lausn undan óefni í sálarlífi sínu.
 
Ásdís Ingólfsdóttir les úr nóvellunni Haustið 82. Bókin fjallar um Möggu sem er í erfiðu háskólanámi  en þarf jafnframt að takast á við ýmsa erfiðleika. Þrátt fyrir það ákveður Magga að fara til Bandaríkjanna að heimsækja vinkonu sína í jólafríinu.
 
Ægir Þór Jähnke með Ekkert, elskan, ég er bara að tala við köttinn. Það er ekki ljóðabók. Ekki leikrit. Ekki nóvella. Ekki esseyja. Ekki smásagnasafn. Ekki handrit. Á hinn bóginn er það eitthvað af þessu öllu. Lausamálsfrásögn með sterkri ljóðrænni undiröldu, samþættum með esseyjutónum, sem á köflum daðrar við að vera einleikur.
 
Allir velkomnir!


Meydómur í Gunnarshúsi

Fimmtudaginn 18. nóvember kl 20.00-21.30 í Gunnarshúsi. Hlín Agnarsdóttir segir frá nýútkominni bók sinni Meydómur sem er svokölluð sannsaga. Ormstunga bókaútgáfa gefur út. Fullorðin dóttir skrifar látnum föður sínum bréf sem jafnframt er bréf til meyjarinnar sem hún eitt sinn var. Meydómur er saga af leiðinni sem hún fetar frá sakleysi bernskunnar til uppreisnar unglingsáranna þegar meydómi hennar lýkur. Hlín mun lesa upp úr bókinni ásamt Steinunni Ólafsdóttur leikkonu. Spyrjandi og samtalsfélagi Hlínar verður Þóra Hjörleifsdóttir sem skrifaði bókina Kvika en hún hefur nýlega slegið í gegn í Bandaríkjunum.

Léttar veitingar.


Skáldkvennakvöld í Gunnarshúsi mánudaginn 15. nóvember

Mánudagskvöldið 15. nóvember verður sannkallað skáldkvennakvöld í Gunnarshúsi kl. 20.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir: Ilmreyr – móðurminning. Silja Aðalsteinsdóttir ræðir við Ólínu sem einnig mun lesa úr bókinni. Ilmreyr er aldarspegill og sjálfsævisögulegt verk um lif, ástir og örlög fjögurra kynslóða i ættlegg höfundar. 

Guðrún Ingólfsdóttir: Skáldkona gengur laus. Erindi 19. aldar skáldkvenna við heiminn.“ Í bókinni er fjórum skáldkonum frá 19. öld sleppt lausum úr handritageymslu  Þjóðarbókhlöðunnar“ segir á bókarkápu. Guðrún Nordal ræðir við nöfnu sína um verkið.

Guðrún Steinþórsdóttir: Raunveruleiki hugans er ævintýri. Um er að ræða doktorsritgerð um verk Vigdísar Grímsdóttur þar sem fjallað er um valdar sögur, einkenni þeirra og viðtökur í ljósi hugrænnar bókmenntafræði. Sigrún Margrét Guðmundsdóttir ræðir bókina við Guðrúnu.

Húsið opnar kl. 19.45 – léttar veitingar. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.


Ljóðakvöld í Gunnarshúsi fimmtudaginn 11. nóvember

Anna S. Björnsdóttir og Ragnheiður Lárusdóttir

Fimmtudaginn 11. nóvember klukkan 20 verður ljóðakvöld haldið í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8 í Reykjavík.

Tvær skáldkonur lesa upp úr nýjum ljóðabókum sínum:

Anna S. Björnsdóttir mun lesa úr nýútkominni ljóðabók sinni ANDRÁ, en bókin er 20. ljóðabók Önnu. Hún hefur tekið þátt í og haldið ljóðahátíðir síðastliðin 20 ár, hérlendis og erlendis. Margar bækur Önnu hafa að geyma ljóð á öðrum tungumálum.

Ragnheiður Lárusdóttir er menntaskólakennari og söngkona, hún gaf út sína fyrstu ljóðabók árið 2020 og ber hún heitið 1900 og eitthvað. Handrit að þeirri bók hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og bókin var einnig tilnefnd til Maístjörnunnar. Nú í haust kom svo út önnur bók Ragnheiðar, Glerflísakliður

Auk skáldkvennanna munu Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, Einar Ólafsson, Þór Stefánsson og Þórður Helgason lesa eigin ljóð.

Léttar veitingar verða í boði og skáldin munu bjóða bækur sínar til sölu á staðnum.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Góða skemmtun!


DIMMUKVÖLD Í GUNNARSHÚSI – Fimmtudaginn 4. nóvember kl. 20

Smásögur, skáldsaga og úrvals barnaefni fléttast saman á bókmenntakvöldi útgáfunnar Dimmu. Nafnarnir Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson og Aðalsteinn Emil Aðalsteinsson kynna nýju smásagnasöfnin, Vendipunkta og Svefngarðinn, og þýðendurnir Guðrún Hannesdóttir og Jóhanna Björk Guðjónsdóttir fara um ólíkar slóðir þar sem Asmódeus litliPomperípossa og Kona á flótta birtast hvert með sínum hætti.

Tónlist í anda kvöldsins flytur Þorgerðar Ása Aðalsteinsdóttir. 

Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.  


Ólafur Ormsson látinn

Ólaf­ur Orms­son rit­höf­und­ur lést miðviku­dag­inn 27. októ­ber síðastliðinn, 77 ára gam­all.

Ólaf­ur fædd­ist í Reykja­vík 16. nóv­em­ber 1943.  Hann hóf ung­ur ritstörf. Sat meðal ann­ars í rit­stjórn æsku­lýðssíðu Þjóðvilj­ans og var í hópi út­gef­enda og höf­unda að Lyst­ræn­ingj­an­um og tón­list­ar­tíma­rit­inu TT og stóð að bóka­út­gáfu. Hann er höf­und­ur að ljóðabók­um, skáld­sög­um og smá­sagna­söfn­um. Fyrsta ljóðabók hans, Fáfniskver, kom út á ár­inu 1973. Hann skrifaði skál­dævi­sögu í þrem­ur bind­um, Ævin­týraþorpiðBylt­ing­ar­menn og bóhem­ar og Skálda­speg­ill, sem kom út á ár­un­um 2007 til 2013. Eft­ir hann liggja einnig nokk­ur út­varps­leik­rit og smá­sög­ur sem lesn­ar hafa verið upp í Rík­is­út­varp­inu.


Höfundakvöld með Hauki Ingvarssyni

Í tilefni af útkomu bókarinnar Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu: Orðspor Williams Faulkners í íslensku menningarlífi 1930-1960 eftir Hauk Ingvarsson verður haldin útgáfufögnuður og höfundaspjall kl. 20, miðvikudaginn 3. nóvember.

Haukur ræðir bókina og myndefni hennar og situr fyrir svörum. Einar Kári Jóhannsson stjórnar umræðum.

Viðburðurinn er öllum opin og boðið er upp á léttar veitingar í Gunnarshúsi við Dyngjuveg 8, 104 Reykjavík. Þar tók rithöfundurinn Gunnar Gunnarsson á móti kollega sínum William Faulkner í október 1955, eins og fjallað er um í bókinni.

Um bókina:
Haustið 1955 sótti bandaríski rithöfundurinn og Nóbelsverðlaunahafinn William Faulkner Íslendinga heim. Kalda stríðið var í algleymingi og íslenska þjóðin klofin í afstöðu sinni til herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Faulkner var eindreginn talsmaður stórveldisins í vestri en fangaði hugi og hjörtu Íslendinga þvert á flokkslínur, sósíalistar lýstu honum sem fulltrúa þess besta í bandarískri menningu.

En hver var þessi Faulkner? Og hvernig stóð á vinsældum hans?

Í bókinni er fjallað um landnám módernismans í íslenskum bókmenntum og bandarísku bylgjuna sem reið yfir bókmenntaheiminn á fjórða áratug 20. aldar. Brugðið er nýju og óvæntu ljósi á þátttöku íslenskra hægrimanna í alþjóðlegu menningarstarfi í kalda stríðinu en á bak við tjöldin hélt bandaríska leyniþjónustan um þræði. Við sögu koma Hollywood-kvikmyndir byggðar á verkum Faulkners, erindrekar Bandaríkjastjórnar á Íslandi, aftökur án dóms og laga í Suðurríkjum Bandaríkjanna og íslenskur rithöfundur sem skrifaði skáldsagnaþríleik, innblásinn af Faulkner.

Hér er á ferðinni nýstárleg rannsókn sem byggir á fjölbreyttum heimildum, þar á meðal gögnum af innlendum og erlendum skjalasöfnum. Bókin á erindi til alls áhugafólks um bókmenntir og sögu.

Haukur Ingvarsson er doktor í bókmenntafræði og rithöfundur. Hann er höfundur bókarinnar Andlitsdrættir samtíðarinnar: Síðustu skáldsögur Halldórs Laxness. Árið 2018 hlaut Haukur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabók sína Vistarverur.


Afmælisveisla – Hallberg Hallmundsson

29. október í fyrra hefði Hallberg Hallmundsson (1930-2011), skáld og þýðandi, orðið níræður. Ættingjar hans vildu þá halda minningarstund til heiðurs honum en herra Covid truflaði það. Því var ákveðið að fresta hátíðahöldum um eitt ár.

Samkoman verður sunnudaginn 31. október kl. 14:00 í Gunnars­húsi, Dyngjuvegi 8, 104 Reykjavík (Húsi Rithöfundasambandsins).

Ræðuhöld verða í styttra lagi en þó verður stuttlega minnst á nokkur æviatriði Hallbergs ásamt því að ljóðalestur mun eiga sér stað, bæði á ljóðum Hallbergs og þýðingum hans. 

Léttar veitingar verða í boði. Nokkrar af bókum Hallbergs fást gefins á staðnum. Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.                                                                                         

Umsjón: Árni Blandon


Höfundaheimsóknir í framhaldsskólana hafa fengið byr undir báða vængi

Tuttugu og sex höfundar hafa heimsótt fimmtán framhaldsskóla um allt land.

Hófst sem tilraunaverkefni 

Vorið 2020 hleypti Miðstöð íslenskra bókmennta af stokkunum verkefninu Höfundaheimsóknir í framhaldsskóla. Verkefnið var tilraunaverkefni og til þess gert að kanna þörf og áhuga framhaldsskólakennara og -nemenda á heimsóknum rithöfunda í kennslustundir. Verkefnið fékk fljótt byr undir báða vængi og fyrsta árið sem það var starfrækt nýtti fjöldi framhaldsskóla sér tækifærið til að bjóða höfundi í heimsókn skólanum að kostnaðarlausu, þrátt fyrir ýmis vandkvæði við að útfæra skólaheimsóknir sökum Covid-19.

Hefur sannað gildi sitt

Þótt ekki séu liðin nema tæp tvö ár þá hefur verkefnið þegar sannað sig. Ljóst er að mikil eftirspurn er eftir heimsóknum höfunda í framhaldsskólana en nú þegar hafa alls 26 höfundar farið í tæplega hundrað heimsóknir í alls 15 framhaldsskóla um allt land. Góðar viðtökur og almenn ánægja kennara og nemenda með verkefnið er mikið fagnaðarefni og Miðstöð íslenskra bókmennta vonast til að geta gert höfundaheimsóknir í framhaldsskólana að föstum lið í starfsemi sinni.

Samtöl höfunda og nemenda

Höfundaheimsóknirnar eru skipulagðar með þeim hætti að kennurum gefst kostur á að panta heimsókn frá rithöfundi sem fyrirhugað er að lesa verk eftir þá önnina. Höfundurinn heimsækir nemendur í kennslustund og ræðir við þá um bækur sínar og nemendurnir fá tækifæri til að bera upp spurningar og vangaveltur sínar við höfundinn eftir lesturinn. Markmið verkefnisins er að hvetja nemendur til lestrar og auka skilning þeirra og áhuga á bókmenntum og starfi rithöfunda.

Fjölbreytilegur hópur höfunda 

Meðal höfunda sem tekið hafa þátt í verkefninu eru: Andri Snær Magnason, Anna Hafþórsdóttir, Arnar Már Matthíasson, Auður Ava Ólafsdóttir, Bjarni Fritzson, Dagur Hjartarson, Dóri DNA, Einar Kárason, Eva Björg Ægisdóttir, Fríða Ísberg, Gerður Kristný, Guðrún Eva Mínervudóttir, Gunnar Helgason, Halldór Baldursson, Hildur Knútsdóttir, Jón Gnarr, Kristín Helga Gunnarsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Ragnar Ingi Aðalsteinsson, Ragnar Jónasson, Ragnheiður Gestsdóttir, Ragnhildur Hólmgeirsdóttir, Sigríður Hagalín Björnsdóttir, Sjón, Þóra Hjörleifsdóttir og Þorsteinn Guðmundsson.

Samstarfsverkefni

Verkefnið er unnið í góðu samstarfi Miðstöðvar íslenskra bókmennta við Rithöfundasamband Íslands, Skólameistarafélag Íslands og með styrk frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.