Andri Snær Magnason hlýtur viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins fyrir ritstörf. Í rökstuðningi úthlutunarnefndar segir meðal annars:
„Viðurkenningar Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins eru fyrstu og elstu rithöfundarverðlaun okkar Íslendinga og þær eru veittar fyrir ævistarf höfundar, frekar en einstök verk. Ævistarf Andra Snæs er ef til vill ekki orðið stórt í blaðsíðum talið, en gæðin hafa verið þeim mun meiri. Trúlega hefur enginn íslenskra nútímahöfunda verið þýddur á fleiri tungumál, og öll hans stærri bókmenntaverk, hvert og eitt einasta, eru margverðlaunuð bæði hér heima og erlendis. Verða þær viðurkenningar ekki allar taldar upp hér, en sérstaklega má geta þess að Sagan af bláa hnettinum var fyrsta barnabókin til að fá íslensku bókmenntaverðlaunin og hlaut Andri Snær hin virtu Kairos lista- og menningarverðlaun fyrir Draumalandið árið 2009 – og er hann eini rithöfundurinn fram til þessa sem hefur hlotið þessa viðurkenningu.“
Andri Snær flutti af því tilefni ávarp. Þar segir hann meðal annars að tímaþjófar úti í heimi hafi krakað til sín stórum hluta af frítíma okkar en það sé verra ef mennskan og traustið hverfi samtímis úr samfélaginu.
Rithöfundasamband Íslands óskar Andra Snæ til hamingju með viðurkenninguna.
Myndasöguhöfundurinn Elísabet Rún var valin úr hópi umsækjenda um dvöl í La Rochelle á vegum sendiráðs Frakklands á Íslandi, Centre Intermondes de la Rochelle, Rithöfundasambands Íslands, Alliance Française de Reykjavik og Institut Français.
Umsóknir um dvöl i La Rochelle voru opnar rithöfundum og myndasöguhöfundum og þurftu þeir að sækja um fyrir 4. desember síðastliðinn. Í nóvember 2020 kom bandaríski myndasöguhöfundurinn Dan Christensen á vegum sömu listamannaskipta og hélt meðal annars fyrirlestra í Myndlistaskóla Reykjavíkur á meðan hann dvaldist í Gunnarshúsi.
Elísabet Rún er ungur myndasöguhöfundur og teiknari frá Reykjavik með diplómu í teikningu frá Myndlistaskólanum í Reykjavik og í myndasöguteikningu frá ÉESI í Angouleme, Frakklandi.
Elísabet mun dvelja í mánuð í La Rochelle í júní 2021 og fær ferðastyrk frá RSÍ og gistingu og vinnustofu í boði Centre Intermonde de la Rochelle og Institut Francais.
Af árlegri fjárveitingu Alþingis fyrir afnot á bókasöfnum er úthlutað til rithöfunda, þýðenda, myndhöfunda og annarra rétthafa, samkvæmt útlánum og afnotum verka þeirra á bókasöfnum. Um úthlutun gilda lög nr. 91/2007 með síðari breytingum og reglur nr. 323/2008.
Tilnefningar til Íslensku þýðingaverðlaunanna kynntar í Kiljunni á RÚV þann 16. desember.
Að verðlaununum stendur Bandalag þýðenda og túlka í samstarfi við Rithöfundasamband Íslands og Félag íslenskra bókaútgefenda. Þau eru veitt fyrir bestu þýðingu á bókmenntaverki og er tilgangur þeirra að vekja athygli á ómetanlegu framlagi þýðenda til íslenskrar menningar.
Sjö þýðingar eru tilnefndar að þessu sinni, en alls bárust 86 bækur frá 21 útgáfu. Í dómnefnd sitja Guðrún H. Tulinius, Þórður Helgason og Elísabet Gunnarsdóttir, sem jafnframt er formaður nefndarinnar.
Tilnefndir þýðendur eru:
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, fyrir þýðingu sína 43 smámunir eftir Katrin Ottarsdóttir. Dimma gefur út.
Guðrún Hannesdóttir, fyrir þýðingu sína Dyrnar eftir Magda Szabó. Dimma gefur út.
Heimir Pálsson, fyrir þýðingu sína Leiðin í Klukknaríki eftir Harry Martinson. Ugla útgáfa gefur út.
Magnús Sigurðsson, fyrir þýðingu sína Berhöfða líf úrval ljóða eftir Emily Dickinson. Dimma gefur út.
Sigrún Eldjárn, fyrir þýðingu sína Öll með tölu eftir Kristin Roskifte. Vaka-Helgafell gefur út.
Þórarinn Eldjárn, fyrir þýðingu sína Hamlet eftir William Shakespeare. Vaka-Helgafell gefur út.
Þórdís Gísladóttir, fyrir þýðingu sína Álabókin eftir Patrik Svensson. Benedikt útgáfa gefur út.
Ár hvert kýs starfsfólk bókaverslana á Íslandi bestu bækur ársins. Verðlaunin voru tilkynnt í Kiljunni þann 16. desember sl.
Fræðibækur og handbækur
1. Konur sem kjósa eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur, Kristínu Svövu Tómasdóttur, Ragnheiði Kristjánsdóttur og Þorgerði H. Þorvaldsdóttur. 2. Spænska veikin eftir Gunnar Þór Bjarnason. 3. Fuglinn sem gat ekki flogið eftir Gísla Pálsson.
Þýddar barnabækur
1. Múmínálfarnir: Stórbók 3 eftir Tove Jansson í þýðingu Guðrúnar Jarþrúðar Baldvinsdóttur. 2. Ísskrímslið eftir David Walliams í þýðingu Guðna Kolbeinssonar. 3. Þar sem óhemjurnar eru eftir Maurice Sendak í þýðingu Sverris Norland.
Íslenskar barnabækur
1. Grísafjörður eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur. 2. Íslandsdætur eftir Nínu Björk Jónsdóttur. 3. Herra Bóbó, Amelía og ættbrókin eftir Yrsu Sigurðardóttur.
Ævisögur
1. Berskjaldaður eftir Gunnihildi Örnu Gunnarsdóttur. 2. Herra hnetusmör: Hingað til eftir Sóla Hólm. 3. Káinn eftir Jón Hjaltason.
Ungmennabækur
1. Skógurinn eftir Hildi Knútsdóttur. 2. Vampírur, vesen og annað tilfallandi eftir Rut Guðnadóttur. 3. Dóttir hafsins eftir Kristínu Björgu Sigurvinsdóttur.
Ljóð
1. Sonur grafarans eftir Brynjólf Þorsteinsson. 2. Taugaboð á háspennulínu eftir Arndísi Lóu Magnúsdóttur. 3. Við skjótum títuprjónum eftir Hallgrím Helgason.
Þýdd skáldverk
1. Beðið eftir barbörunum eftir J.M. Coetzee í þýðingu Rúnars Helga Vignissonar og Sigurlínu Davíðsdóttur. 2. Litla land eftir Gael Faye í þýðingu Rannveigar Sigurgeirsdóttur. 3. Sumarbókin eftir Tove Jansson í þýðingu Ísaks Harðarsonar.
Íslensk skáldverk
1. Snerting eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. 2. Herbergi í öðrum heimi eftir Maríu Elísabetu Bragadóttur. 3. Dauði skógar eftir Jónas Reyni Gunnarsson.
Besta bókakápan
1. Blóðberg, hönnuð af Alexöndru Bühl. 2. Konur sem kjósa, hönnuð af Snæfríði Þorsteins. 3. Herbergi í öðrum heimi, hönnuð af Halla Civelek.
Árlegum upplestri á Aðventu Gunnars Gunnarssonar verður streymt á netinu að þessu sinni. Lesari verður Ólafur Darri Ólafsson leikari sem í haust hreif landsmenn með sér í hlutverki annars Benedikts í þáttaröðinni um Ráðherrann. Í þáttunum var óspart vísað í sögu Gunnars og Ólafur Darri er því ekki óvanur að vera í för með þeim Leó og Eitli.
Gunnarsstofnun og Rithöfundasamband Íslands hvetja fólk til að koma sér vel fyrir þriðja sunnudag í aðventu með heitt súkkulaði og smákökur og njóta þessarar perlu íslenska bókmennta.
Lesturinn fer í loftið kl. 13.30 sunnudaginn 13. des. og má hlusta á hann hér:
Rithöfundurinn Gerður Kristný hlaut þann 16. nóvember s.l. Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Þau eru árlega veitt einstaklingi sem hefur með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu eða riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar.
„Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar minna okkur á margbreytileika miðlunar íslenskunnar. Íslenskan er allskonar, hún er okkar mál og mun ekki dafna á safni heldur þróast sem verkfærið sem við notum alla daga, til að orða hugsanir okkar, til frjórra samskipta og til þess að skapa. Ég óska Gerði Kristnýju hjartanlega til hamingju með verðlaunin og þakka henni fyrir fjölbreytt framlag til íslenskunnar og íslenskra bókmennta,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Úr greinargerð verðlaunanefndar: „… Við veitingu verðlaunanna að þessu sinni er tekið mið af fjölhæfni verðlaunahafans, en hún hefur skrifað fjölda bóka bæði fyrir börn og fullorðna, verk hennar hafa verið sett upp á leiksviði, ljóð hennar sungin auk þess sem hún hefur kennt í fjölmörgum ritsmiðjum fyrir börn. Rödd Gerðar Kristnýjar er mikilvæg í íslensku samfélagi ekki aðeins vegna þess hvernig hún segir hlutina heldur líka vegna alls þess sem hún hefur að segja.“
Um störf Gerðar Kristnýjar: Gerður lauk B.A.-prófi í frönsku og almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Hún var ritstjóri Mannlífs á árunum 1998 til 2004 en hefur síðan haft ritstörf að aðalatvinnu. Hún skrifar verk fyrir lesendur á öllum aldri og hefur sent frá sér skáldsögur, ljóð og leikrit auk annars efnis. Hún hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar, þar á meðal Bókaverðlaun barnanna árið 2003 fyrir Mörtu Smörtu, Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness 2004 fyrir skáldsöguna Bátur með segli og allt og Blaðamannaverðlaun Íslands fyrir Myndina af pabba – Sögu Thelmu 2005. Árið 2007 var ljóðabók hennar Höggstaður tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, ljóðabókin Sálumessa einnig árið 2018 en Gerður hlaut verðlaunin árið 2010 fyrir ljóðabókina Blóðhófni. Unglingasaga Gerðar, Garðurinn, hlaut Vestnorrænu barnabókaverðlaunin árið 2010 og þá hlaut hún Bókmenntaverðlaun starfsfólk bókaverslana í flokki ljóðabóka fyrir Sálumessu 2018.
Nýjasta verk Gerðar er barnabókin Iðunn & afi pönk sem kom út á dögunum.
Ljóð og smásögur Gerðar hafa aukinheldur birst í kennslubókum fyrir grunn- og framhaldsskóla, auk þess sem ljóð hennar og smásögur eru í ýmsum safnritum og tímaritum, íslenskum sem erlendum.
Viðurkenning á degi íslenskrar tungu Mennta- og menningarmálaráðherra veitti einnig sérstaka viðurkenningu á degi íslenskrar tungu, að tillögu ráðgjafarnefndarinnar, og hlaut hana Félag ljóðaunnenda á Austurlandi. Magnús Stefánsson formaður tók við viðurkenningunni fyrir hönd félagsins.
Úr greinargerð nefndarinnar: „ … Félag ljóðaunnenda á Austurlandi hefur með félagsstarfi sínu hlúð að grasrótinni í íslenskum skáldskap, aukið við flóru íslenskra góðskálda og haldið í heiðri minningu eldri skálda sem nú eru gengin. Félag ljóðaunnenda hefur sýnt að á Austurlandi er ekki aðeins, eyjaval, eins og Jónas Hallgrímsson orti heldur líka skáldaval. Af þeim sökum fær Félag ljóðaunnenda á Austurlandi sérstaka viðurkenningu fyrir störf í þágu íslensks máls á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. “
Ráðgjafarnefnd verðlaunanna var að þessu sinni skipuð dr. Ingunni Ásdísardóttur sem jafnframt var formaður, dr. Hauki Ingvarssyni og Katrínu Olgu Jóhannesdóttur viðskiptafræðingi. Sjá nánar um Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar
Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna voru kynntar í bókmenntaþættinum Kiljunni á RÚV. Tilnefnt er í þremur flokkum. Flokki fræðirita og bóka almenns efnis, flokki barna- og ungmennabóka og flokki skáldverka.
Verðlaunin verða veitt um mánaðamótin janúar-febrúar á komandi ári og eru eftirfarandi höfundar tilnefndir.
Fræðibækur og rit almenns efnis: Erla Hulda Halldórsdóttir, Kristín Svava Tómasdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir Konur sem kjósa – aldarsaga Útgefandi: Sögufélag Umsögn dómnefndar: „Bókin er afrakstur mikilvægrar og vandaðrar fræðilegrar rannsóknar á jafnréttisbaráttunni á Íslandi í 100 ár, en einnig á stjórnmála- og menningarsögunni. Uppsetning bókarinnar er áhugaverð og hönnunin nýstárleg þar sem fjöldi ljósmynda, veggspjalda og úrklippa eru notaðar til að glæða söguna lífi.“
Gísli Pálsson Fuglinn sem gat ekki flogið Útgefandi: Mál og menning Umsögn dómnefndar: „Aldauða dýrategunda hefur ekki verið gefinn mikill gaumur til þessa hér á landi. Því er mikill fengur að þessari bók, sem beinir sjónum okkar m.a. að útrýmingarhættu og margvíslegum umhverfisvanda sem við stöndum frammi fyrir. Geirfuglabækur tveggja breskra fræðimanna sem héldu í Íslandsleiðangur 1858 og höfundur hefur rannsakað í þaula varpa nýju ljósi á sögu og örlög síðustu geirfuglanna við strendur landsins.“
Kjartan Ólafsson Draumar og veruleiki – Um Kommúnistaflokkinn og Sósíalistaflokkinn Útgefandi: Mál og menning Umsögn dómnefndar: „Verkið er yfirgripsmikið og varpar áhugaverðu ljósi á stjórnmála- og stéttasögu vinstri manna hér á landi á 20. öldinni af miklu innsæi og hreinskilni. Um er að ræða tímamótarit þar sem nýjar og áður óaðgengilegar heimildir eru nýttar.“
Pétur H. Ármannson Guðjón Samúelsson húsameistari Útgefandi: Hið íslenska bókmenntafélag Umsögn dómnefndar: „Vandað og löngu tímabært ritverk um fyrsta Íslendinginn sem lauk háskólaprófi í byggingarlist á síðustu öld. Líf Guðjóns Samúelssonar húsameistara var helgað starfi hans og list. Saga hans og ævistarfsins er vel og skilmerkilega rakin í bókinni. Höfundur byggir á víðtækum rannsóknum sínum og djúpum skilningi á viðfangsefninu. Fjölmargar myndir og uppdrættir prýða bókina.“
Sumarliði R. Ísleifsson Í fjarska norðursins : Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár Útgefandi: Sögufélag Umsögn dómnefndar: „Höfundi tekst að færa lesendum efni rannsóknar sinnar á mjög aðgengilegan og skýran hátt, þar sem hann varpar ljósi á rúmlega 1000 ára viðhorfasögu gagnvart íbúum þessara eyja. Bókin er glæsilegt og eigulegt rit, fallega hönnuð og vel myndskreytt.“
Dómnefnd skipuðu: Einar Örn Stefánsson, formaður dómnefndar, Björn Pétursson og Jóhanna Kristín Jóhannesdóttir.
Barna- og ungmennabækur: Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir Blokkin á heimsenda Útgefandi: Mál og menning Umsögn dómnefndar: „Frumleg og athyglisverð bók. Fyndin og áreynslulaus frásögn með snjöllum lausnum sem bera hugmyndaauðgi höfunda glöggt vitni. Mikilvægi samheldni og vináttu eru ákveðið meginstef í sögu sem deilir með sterkum hætti á neysluhyggju Vesturlanda. Loftslagsváin er alltumlykjandi en sterkum boðskapnum er aldrei þröngvað upp á lesandann heldur er hann borinn snyrtilega fram með húmor í aðalhlutverki.“
Hildur Knútsdóttir Skógurinn Útgefandi: JPV útgáfa Umsögn dómnefndar: „Djúp og afar vel skrifuð spennusaga um úthugsaða ævintýraveröld sem höfundur hefur lagt mikla vinnu í að skapa og gera trúverðuga, með heillandi vangaveltum um vísindin og hið yfirnáttúrulega. Lesandinn er rækilega minntur á hvernig nútíma lifnaðarhættir gætu leitt mannkynið á glapstigu, án þess að boðskapurinn yfirtaki skemmtilega og oft æsispennandi atburðarás.“
Kristín Björg Sigurvinsdóttir Dulstafir – Dóttir hafsins Útgefandi: Björt – Bókabeitan Umsögn dómnefndar: „Áhrifarík bók þar sem höfundur dregur upp ljóslifandi mynd af fullsköpuðum ævintýraheimi. Sorg og missi eru gerð falleg skil sem og leitinni að hugrekki og innri styrk. Frásögnin er örugg, lýsandi og afar myndræn en þó skilur höfundur eftir rými til túlkunar og lesturs á milli línanna. Framhaldsins verður beðið með eftirvæntingu.“
Lóa H. Hjálmtýsdóttir Grísafjörður Útgefandi: Salka Umsögn dómnefndar: „Hlý og afar skemmtileg saga, raunsæ en þó með heillandi ævintýrablæ. Saga um hversdagsleikann með öllum sínum áskorunum og fólkið sem skiptir okkur mestu máli, en líka vináttu úr óvæntri átt, hjálpsemi og það að engum er alls varnað. Vandaðar myndir höfundar bæta heilmiklu við söguna ásamt fallegum frágangi og sniðugum fylgihlutum.“
Yrsa Sigurðardóttir Herra Bóbó, Amelía og ættbrókin Útgefandi: Veröld Umsögn dómnefndar: „Heilsteypt og drepfyndin bók þar sem einstakt hugmyndaflug fær að blómstra. Óhefðbundinn sögumaður nýtur sín afar vel í bráðsniðugum lýsingum höfundar á tilfinningalífi hans og sýn á heiminn. Skemmtileg ærslasaga með klassískan boðskap um gildi sannrar vináttu. Einfaldar en stórskemmtilegar myndir falla vel að textanum og gera söguna enn betri.“
Dómnefnd skipuðu: Hrund Þórsdóttir, formaður dómnefndar, Einar Eysteinsson og Katrín Lilja Jónsdóttir.
Skáldverk: Arndís Þórarinsdóttir Innræti Útgefandi: Mál og menning Umsögn dómnefndar: „Í þessari fyrstu ljóðabók Arndísar Þórarinsdóttur er að finna leiftrandi lýsingarnar á meitluðum og frumlegum efnistökum sem skilja mikið eftir sig.“
Auður Ava Ólafsdóttir Dýralíf Útgefandi: Benedikt bókaútgáfa Umsögn dómnefndar: „Heimspekilegar vangaveltur um lífið, dauðann og mannskepnuna sem dýrategund einkennir þessa sjöundu skáldsögu Auðar Övu Ólafsdóttur. Persónusköpunin í þessum fallega texta er bæði heillandi og eftirminnileg.“
Elísabet Jökulsdóttir Aprílsólarkuldi Útgefandi: JPV útgáfa Umsögn dómnefndar: „Aprílsólarkuldi er tilfinningarík og ljóðræn frásögn um föðurmissi, ást, sorg og geðveiki. Næmni Elísabetar Jökulsdóttur sem sést hefur í ljóðum hennar skilar sér í vel í skáldsagnaforminu.“
Jónas Reynir Gunnarsson Dauði skógar Útgefandi: JPV útgáfa Umsögn dómnefndar: „Jónas Reynir Gunnarsson tæpir á helstu málum samtímans í þessari þriðju skáldsögu sinni. Fjallað er á margræðan hátt um tengsl náttúru og manns, innri átök hans og hið óumflýjanlega í tilverunni.“
Ólafur Jóhann Ólafsson Snerting Útgefandi: Veröld Umsögn dómnefndar: „Í Snertingu eftir Ólaf Jóhann Ólafsson er dregin upp sannfærandi mynd af samfélaginu og aðstæðum fólks af ólíkum uppruna. Nútíð og fortíð er listilega fléttað saman þannig að úr verður skáldsaga sem skiptir máli.“
Dómnefnd skipuðu: Jóhannes Ólafsson, formaður dómnefndar, Guðrún Lilja Magnúsdóttir og Hildur Ýr Ísberg.
Tilkynnt hefur verið hvaða bækur eru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna (sís og trans) og trans, kynsegin og intersex fólks á Íslandi. Dómnefndir hafa tilnefnt bækur í þremur flokkum: fagurbókmenntir, barna- og unglingabókmenntir sem og fræðibækur og rit almenns eðlis.
Fjöruverðlaunin voru afhent í fyrsta sinn vorið 2007 og hafa verið veitt árlega síðan. Verðlaununum er ætlað að vekja athygli á og hampa bókum kvenna. Í ljósi COVID-19 faraldursins og samkomutakmarka var horfið frá hefðundinni tilnefningahátíð en vonast er til að hægt verði að afhenda verðlaunin, samkvæmt venju, við hátíðlega athöfn í snemma árs 2021.
Eftirfarandi höfundar og bækur hluti tilnefningar: Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis
Íslenskir matþörungar – ofurfæða úr fjörunni eftir Eydísi Mary Jónsdóttur, Hinrik Carl Ellertsson, Karl Petersson og Silju Dögg Gunnarsdóttur Konur sem kjósa: Aldarsaga eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur, Kristínu Svövu Tómasdóttur, Ragnheiði Kristjánsdóttur og Þorgerði H. Þorvaldsdóttur Þættir úr sögu lyfjafræðinnar á Íslandi frá 1760 eftir Hilmu Gunnarsdóttur
Í flokki barna- og unglingabókmennta
Sjáðu eftir Áslaugu Jónsdóttur Iðunn og afi pönk eftir Gerði Kristnýju Vampírur, vesen og annað tilfallandi eftir Rut Guðnadóttur
Í flokki fagurbókmennta:
Aprílsólarkuldi eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur Hetjusögur eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur Undir Yggdrasil eftir Vilborgu Davíðsdóttur
Rökstuðningur dómnefnda: Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis: Íslenskir matþörungar, ofurfæða úr fjörunni eftir Eydísi Mary Jónsdóttur, Hinrik Carl Ellertsson, Karl Petersson og Silju Dögg Gunnarsdóttur
Íslenskir matþörungar, ofurfæða úr fjörunni, varpar ljósi á þann fjársjóð sem finnst við strendur Íslands. Bókin kynnir lesandann fyrir þeirri vannýttu matarkistu sem býr í fjörunni og kennir honum að þekkja matþörunga, safna þeim og matreiða. Efni bókarinnar er komið vel til skila, ekki bara með aðgengilegum texta heldur er hún einnig ríkulega skreytt fallegum myndum sem gera bæði uppskriftum og leiðbeiningum um tínslu góð skil. Bókin er góð og tímabær viðbót við þann bókaflokk sem fjallar um íslenska náttúru og nýtingu hennar og kynnir vannýtta auðlind einstaklega vel.
Konur sem kjósa: Aldarsaga eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur, Kristínu Svövu Tómasdóttur, Ragnheiði Kristjánsdóttur og Þorgerði H. Þorvaldsdóttur
Konur sem kjósa er aldarsaga íslenskra kvenna sem fullgildra borgara. Í gegnum ellefu sneiðmyndir af íslensku samfélagi, afmarkaðar við eitt kosningaár á hverjum áratug frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt, fær lesandinn djúpa og marglaga innsýn í veröld íslenskra kvenna. Höfundar skyggnast bak við mýtuna um að íslenskar konur séu fegurstar og sjálfstæðastar allra kvenna og taka til umfjöllunar hvernig lagalegt og félagslegt jafnrétti kynjanna þróaðist á Íslandi. Fjallað er um hvernig konur sigruðust á þeim hindrunum sem blöstu við, til dæmis baráttuna um launajafnrétti, lífeyri eða aðgengi að salernisaðstöðu á vinnustöðum. Í þessari mikilvægu bók um sögu íslenskra kvenna stígur fram margradda kór sem er vissulega ekki sammála um allt, en er þó samstíga í baráttunni fyrir iðkun borgararéttinda.
Þættir úr sögu lyfjafræðinnar á Íslandi frá 1760 eftir Hilmu Gunnarsdóttur
Þættir úr sögu lyfjafræðinnar á Íslandi frá 1760 er vandað yfirlitsrit íslenskrar lyfjasölu og lyfjafræði allt frá því að fyrsta apótekið var stofnað í Nesi. Einnig er innlendum félagsmálum lyfjafræðinga og menntun þeirra gerð góð skil. Bókin er listilega skrifuð þar sem vönduð sagnfræðileg heimildavinna um þróun greinarinnar er sett í bráðskemmtilegt samhengi við ríkjandi tíðaranda svo lesandinn líður í gegnum frásögnina eins og spennandi reyfara sem erfitt er að leggja frá sér. Þetta rit má ekkert áhugafólk um íslenska heilbrigðis- og samfélagssögu láta framhjá sér fara.
Í flokki barna- og unglingabókmennta: Sjáðu eftir Áslaugu Jónsdóttur
Í Sjáðu! eftir Áslaugu Jónsdóttur fylgja lesendur tveimur kátum krökkum um ævintýraveröld þar sem sumt er kunnuglegt en annað framandi. Leiðsögnin er í bundnu máli, leikandi og létt. Skemmtileg orð kallast á við fjörlegar og litríkar myndir sem gefa ímyndunaraflinu undir fótinn. Framvinda frásagnarinnar er mest í myndunum og þar má sjá fleira en nefnt er í vísunum. Hér er boðið upp á gefandi samveru og samtöl foreldra og ungra barna, skemmtun og mikilvæga málörvun. Sjáðu! er kærkomin harðspjaldabók fyrir yngstu börnin sem þurfa að venjast við vandaðar bækur frá fyrstu tíð. Allur frágangur er til fyrirmyndar og bókin hæfir vel litlum höndum.
Iðunn og afi pönk – Gerður Kristný
Iðunn og afi pönk lýsir veröld ellefu ára stelpu í Mosfellsbæ. Atburðarásin hverfist um afa hennar, dularfullt reiðhjólshvarf og grunsamlegar stelpur í hverfinu. Ekki er allt sem sýnist, ekki pönkið heldur. Trú afa á frelsi og umburðalyndi fólks gagnvart sjálfu sér og öðrum, eflir Iðunni og á erindi við lesendur. Gerður Kristný skrifar af leikandi húmor, með skáldlegri hrynjandi og smitandi ást á tungumálinu.
Vampírur, vesen og annað tilfallandi eftir Rut Guðnadóttur
Vampírur, vesen og annað tilfallandi er fyrsta barnabók Rutar Guðnadóttur. Í sögunni er fjallað um þrjár vinkonur sem allar kljást við erfiðleika, hver á sínu sviði. Sagan er að mestu leyti raunsæ frásögn um líf þriggja stúlkna og vandamál þeirra í skóla og einkalífi en færir sig svo aðeins inn á svið fantasíunnar í lokin, í vel heppnaðri blöndu. Bókin er vel skrifuð og persónusköpun er frumleg og sannfærandi. Rut tekst að koma alls kyns málefnum unglinga nútímans inn í þessa vel fléttuðu og húmorísku frásögn. Spennandi nýliðaverk frá höfundi sem á eftir að láta að sér kveða.
Í flokki fagurbókmennta: Aprílsólarkuldi eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur
Það er ekki heiglum hent að takast á við föðurmissi, ástina og geðhvörf þannig að lesandinn fylgist með spenntur og áhyggjufullur um leið og samúðin fyllir hjarta hans. Þetta geir Elísabet Jökulsdóttir afar vel í bók sinni Aprílsólarkulda. Þetta er sjálfsævisögulegt verk um glímu við fortíðina þar sem sambandsleysi, söknuður, bóhemalíf og óheftur sköpunarkraftur takast á og leiða til mikilla átaka innan sem utan líkamans. Hér er skáldskapur á ferð sem veitir innsýn í heim níunda áratugarins um leið og hann fjallar um leitina að sjálfsskilningi, ást og umhyggju.
Hetjusögur eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur
Hetjusögur eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur er ljóðabálkur sem geymir afar frumlega endurvinnslu á ritinu Íslenskar ljósmæður sem kom út á sjöunda áratugnum. Þær hundrað ljósmæður sem þar segir frá ganga í endurnýjun lífdaga í ljóðum Kristínar Svövu. Það er sem opnist gátt inn í horfinn tíma þaðan sem streyma lýsingar af hetjudáðum þessara ljósmæðra sem létu hvorki ófærð né veðurofsa hamla för sinni. Enn fremur er hin góða, fórnfúsa kona dregin mjög skýrum dráttum. Kristín Svava sækir í orðfæri fyrrnefndrar bókar og finnur því nýstárlegan búning. Þessi meðferð á efninu er vel heppnuð og skilar sér í margslungnum og mögnuðum texta.
Undir Yggdrasil eftir Vilborgu Davíðsdóttur
Í Undir Yggdrasil leiðir Vilborg Davíðsdóttir lesandann heima á milli, frá Íslandi og austur um haf og frá miðaldaheiminum sem hún hefur áður tekist á við yfir í handanheima norrænu goðafræðinnar. Efnistökin eru nútímaleg og úrvinnslan á sagnaarfinum vönduð svo úr verður söguleg skáldsaga sem á erindi við nútímalesendur. Bókin gefur innsýn í líf bæði kvenna og annarra aukapersóna Íslendingasagnanna. Þorgerður Þorsteinsdóttir er heillandi aðalpersóna og eins og aðrar persónur bókarinnar bæði heildsteyp og mannleg. Bókin heldur lesandanum fram á síðustu blaðsíðu enda er frásögnin meistaralega fléttuð.
Í dómefndum sitja: Barna- og unglingabókmenntir:
Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, lektor í íslensku Guðrún Jóhannsdóttir, bókmenntafræðingur Hildur Ýr Ísberg, íslensku- og bókmenntafræðingur Fræðibækur og rit almenns eðlis: