Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Vorvindar IBBY 2021

Íslandsdeild IBBY veitti þann 19. september sínar árlegu viðurkenningar fyrir framlög til barnamenningar, Vorvinda, við athöfn í Borgarbókasafninu Grófinni. Vorvindum er ætlað að vekja athygli á verkum og starfsemi sem hleypir ferskum og endurnærandi vindum inn í íslenska barnamenningu og því sem vel er gert innan barnamenningar.

Að þessu sinni voru Vorvindahafarnir fjórir

Arndís Þórarinsdóttir, rithöfundur, fékk viðurkenningu fyrir að hafa síðastliðinn áratug sannað sig sem einn okkar fremsti barnabókahöfundur. Hún hefur einnig skipað stóran sess á sviði barnabókmennta með lestarhvatningu ýmiskonar og er öflug talskona barnabókmennta í umræðunni á Íslandi.

Áslaug Jónsdóttir, mynd- og rihöfundur hlaut Vorvinda fyrir framlag hennar til bókmennta fyrir yngstu kynslóðina. Þá sérstaklega fyrir myndversið Sjáðu! þar sem lesendur fylgja börnum um ævintýralega veröld í bundnu máli með fallegum myndlýsingum.

Kristín Ragna Gunnarsdóttir rit- og rithöfundur hlaut viðurkenningu fyrir að miðla goðsögum til barna í gegnum bækur sínar og myndlýsingar sem og með töfrandi og fræðandi barnasýningum.

„7. bekkur mælir með” og Gunnhildur Lilja Sigmundsdóttir. Nemendur og foreldrar í Fossvogsskóla hljóta Vorvinda fyrir bókaklúbb og tímaritsútgáfu. „7. bekkur mælir með”. Þriðja veturinn í röð eru nemendur í 7. bekk í Fossvogsskóla með bókaklúbb og gefa jafnframt út tímarit með bókaumsögnum sínum. Blaðið kemur út mánaðarlega og er dreift til allra í árgangnum.

Rithöfundasamband Íslands óskar öllum viðurkenningahöfum innilega til hamingju með Vorvindana!

Lesa meira!


Vilborg Dagbjartsdóttir skáld og heiðursfélagi RSÍ látin

Vil­borg Dag­bjarts­dótt­ir, skáld­kona og kenn­ari, lést á líkn­ar­deild Land­spít­al­ans, hinn 16. sept­em­ber síðastliðinn, 91 árs að aldri.

Vil­borg fædd­ist á Vest­dals­eyri við Seyðis­fjörð 1930. Hún lauk kenn­ara­prófi frá KÍ 1952, stundaði leik­list­ar­nám 1951-53, nám í bóka­safns­fræði við HÍ 1983 og dvaldi í Skotlandi og Dan­mörku 1953-55. Vil­borg var kenn­ari við Landa­kots­skóla 1952-53 og kenn­ari við Aust­ur­bæj­ar­skóla 1955-2000 er hún lét af störf­um fyr­ir ald­urs sak­ir.

Vil­borg sendi frá sér fjölda ljóða- og barna­bóka en þýddi auk þess hátt á fimmta tug barna- og ung­linga­bóka og rit­stýrði bók­um. Tvær ævi­sög­ur Vil­borg­ar hafa komið út: Mynd af konu, eft­ir Krist­ínu Mar­ju Bald­urs­dótt­ur 2000, og Úr þagn­ar­hyl, eft­ir Þor­leif Hauks­son 2011.

Vil­borg var formaður Rit­höf­unda­fé­lags Íslands, sat í stjórn Stétt­ar­fé­lags ís­lenskra barna­kenn­ara, Rit­höf­unda­sam­bands Íslands og Menn­ing­ar- og friðarsam­taka ís­lenskra kvenna. 

Hún var heiðurs­fé­lagi Rit­höf­unda­sam­bands Íslands frá 1998, heiðurs­launa­hafi Alþing­is til lista­manna og var sæmd ridd­ara­krossi ís­lensku fálka­orðunn­ar fyr­ir fræðslu- og ritstörf árið 2000.

Rithöfundasamband Íslands þakkar Vilborgu samfylgdina og sendir fjölskyldu hennar og vinum samúðarkveðjur.


Álfrún Gunnlaugsdóttir heiðursfélagi látin

Álfrún Gunnlaugsdóttir rithöfundur lést í Reykjavík 15. september s.l. á 84. aldursári.

Álfrún var fædd í Reykjavík 18. mars 1938. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1958 og hélt síðan í bókmenntafræði- og heimspekinám til Katalóníu á Spáni. Hún lauk Lic. en fil. y en letras-prófi frá Universidad de Barcelona árið 1965 og Dr. Phil.-prófi frá Universidad Autónoma de Barcelona árið 1970. Álfrún vann að doktorsritgerð við Háskólann í Lausanne í Sviss 1966-70.  Ritgerðin ber titilinn Tristán en el Norte og kom út hjá Stofnun Árna Magnússonar árið 1978. 

Álfrún var lektor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands 1971-77 og var hún fyrsta konan sem ráðin var í fasta stöðu hjá heimspekideild háskólans. Hún var dósent í sömu grein 1977-87 og prófessor frá 1988 til 2006 þegar hún lét af störfum. Á haustmisseri 2002 gegndi hún einnig stöðu skorarformanns við bókmennta- og málvísindaskor heimspekideildar HÍ.

Álfrún hefur sent frá sér átta skáldverk, fyrst smásagnasafnið Af manna völdum. Tilbrigði við stef 1982 og síðan hafa komið út eftir hana sjö skáldsögur. Álfrún hlaut bókmenntaverðlaun DV 1985 fyrir aðra bók sína, skáldsöguna Þel. Þrisvar hafa skáldsögur hennar verið tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs: Hringsól , Hvatt að rúnum og Yfir Ebrofljótið. Sú síðastnefnda var einnig tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2001 sem og skáldsagan Rán árið 2008. Fyrir Rán hlaut hún bæði Menningarverðlaun DV í bókmenntum og Fjöruverðlaunin. Álfrún hlaut Rithöfundaverðlaun Ríkisútvarpsins árið 2001.

Álfrún hefur þýtt eina skáldsögu úr spænsku  og einnig skrifað greinar í fræðirit. Verk eftir hana hafa verið þýdd á erlend tungumál.

Álfrún gerðist félagi í Rithöfundasambandinu árið 1985. Hún  var gerð að heiðursdoktor við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands 1. desember 2010 og hún var heiðruð með Riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu fyrir framlag til íslenskra bókmennta og kennslu bókmennta á háskólastigi 1. janúar 2018. 

Álfrún var gerð að heiðursfélaga Rithöfundasambands Íslands árið 2014.

Rithöfundasamband Íslands þakkar Álfrúnu samfylgdina og sendir ættingjum hennar og vinum samúðarkveðjur.


Orðstír 2021

Verðlaunahafar ásamt forsetahjónunum.

Orðstír – heiðursverðlaun fyrir þýðendur íslenskra bókmennta á erlendar tungur, var veitt þann 10. september af forseta Íslands.

Verðlaunahafarnir í ár eru Tina Flecken og Tone Myklebost.

Þýðingar þessara tveggja mikilvirku kvenna hafa ratað til ótal lesenda á þýsku og norsku málsvæðunum, kynnt þá fyrir íslenskum bókmenntum og þar með opnað dýrmætar dyr milli landa og menningarheima. Báðar hafa þær eftirtektarvert vald á stíl og blæbrigðum ólíkra skálda og bókmenntagreina. Þær eru einkar vel að Orðstír komnar.

Verðlaunin eru veitt annað hvert ár í tengslum við Bókmenntahátíð í Reykjavík og eru þau afhent af forseta Íslands.
Verðlaunin falla í skaut einstaklinga sem hafa þýtt verk úr íslensku á annað mál með vönduðum hætti og með þeim árangri að aukið hafi hróður íslenskrar menningar á erlendum vettvangi. Heiðursviðurkenningunni ORÐSTÍR, sem merkir bókstaflega heiður eða sæmd (tír) orðsins, er ætlað að vekja athygli á því ómetanlegu starfi sem þýðendur inna af hendi, ásamt því að vera þakklætisvottur og hvatning til þeirra þýðenda sem viðurkenninguna hljóta hverju sinni. Verðlaunin voru fyrst veitt árið 2015.

Að ORÐSTÍR standa Miðstöð íslenskra bókmennta, Bandalag þýðenda og túlka, Íslandsstofa, embætti forseta Íslands og Bókmenntahátíð í Reykjavík. Í stjórn að þessu sinni sátu fyrir hönd þessara aðila þau Salka Guðmundsdóttir, Guðrún C. Emilsdóttir, Kristjana Rós Guðjohnsen, Örnólfur Thorsson og Stella Soffía Jóhannesdóttir.


Ferðastyrkir – opið fyrir umsóknir

Rithöfundasamband Íslands veitir félagsmönnum ferðastyrki til utanlandsferða úr Höfundasjóði RSÍ. Rétt til að sækja um ferðastyrk hafa þeir sem hafa verið félagsmenn í RSÍ í a.m.k. eitt ár og eru skuldlausir við sambandið.  Úthlutað er eftir úthlutunarreglum og sótt er um á rafrænu eyðublaði á heimasíðu RSÍ.

Hægt er að sækja um fyrir ferðum sem þegar hafa verið farnar ef sótt er um innan þriggja mánaða frá ferðalokum. Einnig eru veittir styrkir til ferða sem farnar eru allt að níu mánuðum eftir umsóknarfrest.

Alla jafna eru veittir tíu ferðastyrkir við hverja úthlutun. Ef ekki næst að úthluta tíu styrkjum að þessu sinni verða þeir sem eftir standa veittir í næstu úthlutunum vor og haust 2022.

Opið er fyrir umsóknir og umsóknarfrestur er t.o.m. 1. október 2021.


Bókmenntahátíð í Reykjavík 8.-11. september

Það er loksins komið að því! Alþjóðlega bókmenntahátíðin í Reykjavík verður sett miðvikudaginn 8. september með pompi og prakt og stendur til laugardagsins 11. september. Blásið verður til mikillar veislu í ár og verður sannkölluð og verðskulduð hátíð lesenda, höfunda, útgefenda og annars bókmenntafólks.

Hátíðin hefur verið haldin að jafnaði annað hvert ár allt frá árinu 1985 og er því haldin í fimmtánda sinn þetta árið. Von er á fjölda höfunda, en líka útgefendum og blaðafólki sem koma víðs vegar að til þess að taka þátt, hitta lesendur, fylgjast með nýjum vendingum í bókaheiminum og taka púlsinn á spennandi íslenskum höfundum.

Galdur Bókmenntahátíðar í Reykjavík felst ekki hvað síst í nálægð lesenda og höfunda. Hátíðin er þeirra og hér gefst höfundum einstakt tækifæri að hitta fyrir lesendur sína og fyrir lesendur að hitta höfunda. Höfundar sem tekið hafa þátt í Bókmenntahátíð í Reykjavík í gegnum tíðina hafa talað um þessa nánd við áhugasama lesendur sem einn af hápunktum Íslandsheimsóknar sinnar.

Sem fyrr er ókeypis inn á alla viðburði hátíðarinnar og þeir öllum opnir. Dagskráin, sem fer fram í Iðnó, Norræna húsinu og víðar, verður kynnt nánar á samfélagsmiðlum og heimasíðu þegar nær dregur, en óhætt er að halda því fram að allir lesendur geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Verið hjartanlega velkomin!

Bókmenntahátíð í Reykjavík nýtur stuðnings frá Reykjavíkurborg, Bókmenntaborg UNESCO, Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Norræna húsinu, Félagi íslenska bókaútgefenda, Miðstöðvar íslenskra bókmennta auk annarra.


Halla Þórlaug Óskarsdóttir hlýtur Maístjörnuna 2020

Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn veita verðlaun fyrir ljóðabók sem kom út á árinu 2020. Verðlaunin, sem bera heitið Maístjarnan, voru afhent í fimmta sinn við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni í dag 8. júní.

Maístjörnuna fyrir ljóðabók ársins 2020 hlýtur Halla Þórlaug Óskarsdóttir fyrir bókina

Þagnarbindindi

Halla Þórlaug Óskarsdóttir handhafi Maístjörnunnar 2020

Í umsögn dómnefndar um verðlaunabókina segir:

Þagnarbindindi er áhrifarík ljóðsaga sem sver sig í ætt við ýmis eftirtektarverð verk frá síðasta áratug, jafnt innlend sem erlend, þar sem konur skrifa á hugdjarfan og hispurslausan hátt um sára og erfiða reynslu. Hér tekst skáldið meðal annars á við ástarsorg, móðurmissi og móðurhlutverkið og nær að draga upp margræða mynd af reynsluheimi ungrar konu sem er að stíga inn í fullorðinsárin og takast á við áföll og samskiptaerfiðleika. Útkoman er eftirminnileg bók sem sker sig úr, þökk sé eftirminnilegu myndmáli, óvenjulegri byggingu og frumlegum texta sem rambar á mörkum dagbókarskrifa, brotakenndrar frásagnar, ljóðtexta og ritgerðar. 

Halla Þórlaug Óskarsdóttir er fædd í Reykjavík 1988 og alin upp í Þingholtunum. Hún lauk BA prófi úr myndlist við Listaháskóla Íslands 2012 og MA prófi úr ritlist við Háskóla Íslands árið 2014. Halla Þórlaug hefur starfað sem dagskrárgerðarmaður á Rás 1, sem umsjónarmaður Víðsjár, Tengivagnsins og Bókar vikunnar auk þess að fjalla um einstaka bækur í þættinum Orð um bækur. Fyrir ljóðsögu sína Þagnarbindindi hlaut Halla nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta árið 2020. Halla Þórlaug hefur samið verk fyrir leiksvið og útvarp; Ertu hér? í samvinnu við Ásrúnu Magnúsdóttur, sviðsverk á dagskrá Borgarleikhússins 2021. Hún pabbi, í samvinnu við Trigger Warning, sviðsverk sýnt í Borgarleikhúsinu 2017 og Svefngrímur, útvarpsleikrit flutt á Rás 1 2016

Gjaldgengar voru allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2020 sem skilað var í skylduskil til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og fékk dómnefnd þær til umfjöllunar. Dómnefnd skipa Sverrir Norland fyrir hönd Rithöfundasambandsins og María Logn Kristínardóttir Ólafs­dótt­ir fyrir hönd Landsbókasafnsins. Maístjarnan er einu verðlaun á Íslandi sem veitt eru fyrir útgefna ljóðabók. Verðlaununum er ætlað að vekja sérstaka athygli á blómlegri ljóðabókaútgáfu á Íslandi sem og mikilvægi þess að ljóðabókum sé skilað í skylduskil til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og varðveitist þannig sem hluti af menningararfi þjóðarinnar. Verðlaunafé er 350 þúsund krónur. Frumkvæði að stofnun Maístjörnunnar átti Kári Tulinius, skáld og rithöfundur.

Tilnefndar voru bækurnar:

Taugaboð á háspennulínu eftir Arndísi Lóu Magnúsdóttur. Útgefandi: Una útgáfuhús.
Draumstol eftir Gyrði Elíasson. Útgefandi: Dimma.
Þagnarbindindi eftir Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur. Útgefandi: Benedikt.
Kyrralífsmyndir eftir Lindu Vilhjálmsdóttur. Útgefandi: Mál og menning.
1900 og eitthvað eftir Ragnheiði Lárusdóttur. Útgefandi: Bjartur.

Rithöfundasamband Íslands óskar Höllu Þórlaugu innilega til hamingju með verðlaunin!


Ályktun aðalfundar Rithöfundasambands Íslands 27. maí 2021 um aðför Samherja að fréttaflutningi, málfrelsi og stéttabaráttu.

Aðalfundur Rithöfundasambands Íslands fordæmir þá ljótu aðför að mál- og tjáningarfrelsi sem og æru rithöfunda og fréttafólks sem opinberast hefur síðustu daga í fréttum af Samherja og þeim vinnubrögðum sem þar eru stunduð.

Það er með öllu ólíðandi að stundaðar séu ofsóknir, njósnir og skæruhernaður gegn fréttamönnum, rithöfundum og öðrum sem taka þátt í opinberri umræðu í samfélaginu.

Eitt af hlutverkum Rithöfundasambands Íslands er að standa vörð um tjáningarfrelsið og verja frelsi og heiður ritlistarinnar. Félagsmenn líta það því alvarlegum augum þegar stórfyrirtæki og stjórnendur þess, sem hafa hagnast gríðarlega á því að nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar, nota fé og mannauð til að ráðast gegn og gera tilraunir til að grafa undan skrifandi stéttum, svo sem rithöfundum og fjölmiðlafólki, og þar með lýðræðinu sem grundvallast á frjálsri og óheftri umræðu.

Aðalfundur RSÍ fordæmir einnig tilraunir Samherja til að hafa áhrif á forystu í Blaðamannafélagi Íslands og stjórnmálahreyfingum.


Skýrsla formanns á aðalfundi 27. maí 2021

Kæru félagar

Af ýmsum ástæðum, en þó aðallega einni, er vonum styttra síðan við hittumst síðast á aðalfundi, en hann fór fram 24. september á síðasta ári. Ekki ætla ég að kvarta yfir því, enda þykir mér yfirleitt mikið ánægjuefni þegar rithöfundar koma saman og ráða ráðum sínum. En fyrir vikið verður skýrsla formanns ef til vill heldur efnisminni en endranær og ég á ekki von á að margir harmi það.  Eitt og annað hefur þó borið við og ljúft og skylt að stikla á því helsta eins og lög gera ráð fyrir.  Áður en að því kemur er þó rétt að minnast látinna félaga. Frá síðasta aðalfundi hafa þrír félagar okkar látist, þeir Jóhann Hjálmarsson, Ingimar Erlendur Sigurðsson og Haraldur Sigfús Magnússon. Ég vil biðja fundarmenn að rísa úr sætum og votta þeim virðingu með einnar mínútu þögn.

Rithöfundasamband íslands er stéttarfélag allra skrifandi stétta og fyrir vikið er hlutverk þess að gæta hagmsuna allra hópa og einstaklinga sem fást við ritstörf á Íslandi, einkum félagsmanna sinna, en einnig þeirra sem til okkar leita með álitamál sem snerta höfundarétt og  kjör þeirra sem starfa við skriftir. Þessi hagsmunagæsla hefur verið nokkuð fyrirferðarmikil frá síðasta aðalfundi. Sambandið hefur haft afskipti af þónokkrum málum og gert sitt besta til að rétta hlut þeirra höfunda sem hallað hefur á í viðskiptum við þá sem gefa út efni þeirra á margvíslegu formi.

Um nokkurt skeið höfum við einkum beint sjónum okkar að sómafyrirtækinu RÚV ohf. og meðferð þess á höfundaréttarvörðu efni. Forsaga málsins er sú að nokkrir höfundar vöktu athygli okkar á að þær góðu vinnureglur sem RÚV viðhafði hér á árum áður virtust ekki lengur vera hafðar í hávegum og höfundar lentu ítrekað í því að þurfa sjálfir að ganga eftir greiðslum fyrir endurflutning á verkum sínum. Þegar leitað var eftir skýringum á þessu voru öll svör frá RÚV á þá leið að um misskilning væri að ræða og hugsanlega tilfallandi óhöpp. Vissulega getur alltaf orðið misskilningur og einstaka mistök eru eflaust óhjákvæmileg þegar jafn viðamikil starfsemi er annars vegar, en þó vildum við ekki láta okkur þessi svör nægja. Þess vegna völdum við þrjú verk, nánast af handahófi, og spurðumst fyrir um greiðslur fyrir endurflutning á þeim í sjónvarpi. Í ljós koma að í öllum tilfellum hafði orðið misbrestur á uppgjöri við höfunda. Þetta var sem sagt ekki bara misskilningur okkar eða óheyrilega ólíkleg mistök starfmanns RÚV, heldur eitthvað aðeins meira. Í beinu framhaldi kölluðum við eftir upplýsingum um allar endursýningar í sjónvarpi frá 2007, en það var einmitt árið sem rekstrarformi Ríkisútvarpsins var breytt og það varð að opinberu hlutafélagi.

Eftir nokkra yfirlegu hér á Dyngjuveginum sendum við athugasemdir og spurningar til RÚV í 16 liðum, þar sem dregið var í efa að farið hefði verið eftir samningum þegar efnið var endurtekið. Í ljós kom að í um það bil helmingi þessara mála höfðu höfundar ekki fengið greitt samkvæmt samningum án þess að hafa afsalað sér rétti sínum. Í hinum tilfellunum höfðu þeir ýmist selt ótakmarkaðan rétt, eða fallist á, ýmist í símtölum eða tölvupóstum, að RÚV mætti endurflytja efni þeirra endurgjaldslaust. Þetta var oftast nær gert í tilefni af afmæli Ríkisútvarpsins, og höfundum tjáð að ef þeir færu fram á greiðslu yrði efnið líklega ekki flutt. Flestir höfðu þá litið þannig á að skárra væri að fá verkin endurflutt í sjónvarpi, þó að engin greiðsla kæmi fyrir, en að láta þau rykfalla í hillum í Efstaleitinu.

RÚV hefur nú viðurkennt þessi fjölmörgu mistök og hafist handa við að greiða út það sem það skuldar viðkomandi höfundum. Um er að ræða hátt á annan tug höfunda, sem ýmist eru félagsmenn RSÍ eða ekki, og heildarupphæðin sem RÚV þarf að standa skil á nemur um það bil 10 milljónum samanlagt.

Í ljósi þessarar reynslu vil ég hvetja alla höfunda til að láta okkur hjá RSÍ vita ef þeir hafa grun um að hallað sé á rétt þeirra. Einnig er rétt að benda á hvað það hefur í raun í för með sér þegar menn selja framleiðanda allan og ótakmarkaðan rétt að verkum sínum, en sú virðist vera krafa framleiðenda í síauknum mæli. Vitaskuld er ekki hægt að banna fólki að gera slíka samninga, en séu þeir gerðir er rétt að allar upphæðir hækki til mikilla muna, þar sem í raun er verið að selja miklu meiri verðmæti en samningar RSÍ við viðkomandi útgefanda eða framleiðanda gera ráð fyrir.

Að lokum vil ég svo lýsa þeirri skoðun minni að það sé í hæsta máta óeðlilegt að fyrirtæki á borð við RÚV fari fram á þann „vinargreiða“ að listamenn afsali sér rétti til greiðslu fyrir flutning á verkum sínum. Með því móti er Ríkisútvarpið að skreyta sig með fjöðrum sem það hefur betlað af eigendum höfundaréttar.

Ég kemst ekki hjá því að víkja aftur að RÚV seinna í þessari skýrslu, en ætla að hvíla ykkur ögn og víkja máli mínu að öðru.

RSÍ starfar náið með öðrum samtökum listamanna. Ég tel það afar mikilvægt að listamenn sýni samstöðu og gæti hagsmuna sinna í sameiningu hvernig sem árar, en þó hefur það sjaldan verið jafnbrýnt og þessa mánuði sem heimsfaraldurinn hefur herjað á okkur. Stjórn Bandalags íslenskra listamanna hefur fundað reglulega frá síðasta aðalfundi eins og rétt er og skylt. Hér er óþarft að segja fréttir af því hvernig Covid hefur tekið ráðin af okkur og skaðað illa menningarstarfsemi í landinu. Bandalagið hefur staðið sig með miklum ágætum við að gæta hagsmuna listamanna sem þjóðfélagshóps og beitt sér af krafti til að bæta lífskjör þeirra á þessum flóknu tímum. Hitt er önnur saga, hvernig stjórnvöldum og stjórnkerfinu hefur tekist að rétta hlut þeirra sem orðið hafa fyrir alvarlegum skakkaföllum. Þar má í fjölmörgum tilfellum gera miklu betur.

Með því að vera sýnilegt og beita sér sterkt fyrir hag listamanna við hvert tækifæri hefur BÍL tekist að vekja skilning þeirra sem með peningavaldið fara, að minnsta kosti að einhverju marki. Mánaðalaunum listamanna, þar á meðal rithöfunda, fjölgaði umtalsvert á þessu ári í gegnum starfslaunakerfið og það er okkar einlægur vilji og ásetningur að sú þróun haldi áfram, þó að hún ein og sér dugi vitaskuld ekki til að halda uppi því menningarlífi sem þjóðin á skilið.

Auk samstarfsins innan BÍL hafa formenn þeirra samtaka listamanna sem eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta gagnvart fyrirtækjum á borð við RÚV og Íslensku óperuna haft með sér samráð og samflot, því eins og liggur í hlutarins eðli höfum við sameinuð ólíkt meiri slagkraft heldur en eitt og eitt.

Samstarf Rithöfundasambandsins við Félag leikskálda og handritshöfunda hefur tekist með miklum ágætum undanfarin misseri. Félögin hafa sameinast um samningagerð við kvikmyndaframleiðendur fyrir hönd handritshöfunda og nú liggja fyrir drög að rammasamningi, sem við vonumst til að geta lagt til grundvallar samningaviðræðum um leið og færi gefst. RSÍ og FLH hafa einnig sameinast innan IHM og gert með sér samkomulag um að RSÍ gæti  hagsmuna félagsmanna í báðum félögum þegar kemur að úthlutunum úr sjóðum IHM.

RSÍ hefur einnig átt frumkvæði að samstarfi við Leikminjasafn og Landsbókasafn um skráningu leikhandrita og leiðir til að gera þau aðgengileg almenningi í gegnum landskerfi bókasafna. Þessi vinna er á frumstigi, en lofar góðu eftir því sem best verður séð.

Af erlendu samstarfi er það að frétta að frá síðasta aðalfundi hefur það farið fram í gegnum fjarskiptabúnað, ýmist skriflega eða í lifandi mynd og tali. Heimsfaraldurinn hefur sorfið misilla að listamönnum víða um heim, og sums staðar nánast komið þeim á kné. Þann 14. maí síðastliðinn var haldinn ársfundur aðlþjóðasamtakanna International Authors Forum, þar sem fulltrúar 83 samtaka rithöfunda báru saman bækur sínar um ástandið í heimalöndum sínum, en einnig áhyggjur af mannréttindum víða um heim og stöðu höfundaréttar. Ársfundur Evrópusamtakanna European Writers Council verður síðan haldinn 7. júní næstkomandi, að sjálfsögðu í tölvuheimum, og ég á von á að þar kveði við svipaða tóna.

Formaður átti á þessu ári sæti í starfshópi um íslenska menningarstefnu til ársins 2030. Skipun í starfshópinn bar ákaflega brátt að og vinnan var hröð og snörp svo ekki sé meira sagt og fór öll fram á fjarfundum, eins og gefur að skilja. Þegar hópurinn hafði skilað af sér var unnið plagg af ráðuneytisfólki, sem nú er einhvers staðar statt í kerfinu og væntanlega á leið í þinglega meðferð. Í stefnunni eru mörg og fögur markmið sem snerta fjölbreytileika, menningararf, höfundarétt, aðgengi og sjálfbærni, svo eitthvað sé nefnt. Ég hvet alla til að kynna sér þessa stefnu og hafa skoðun á henni. Aftur á móti vantar algjörlega í stefnuna aðgerðaáætlun. Það er algjörlega hulið hvernig eigi að ná þessum markmiðum, sem flestir geta vafalaust verið sammála um að öll séu góð, göfug og nauðsynleg til að halda uppi öflugu og mannvinsamlegu menningarlífi. Takmarkið liggur sem sagt fyrir, en ekki hitt, hver eigi að bera ábyrgð á því að það náist. Á sú ábyrgð eingöngu að hvíla á herðum listamanna og menningarstofnana, burtséð frá því hvernig stjórnvöld halda á málum hverju sinni? RSÍ gerði alvarlega athugasemd við þetta, en ekki er ennþá ljóst hvort hún breyti einhverju.

Frá því við sáumst síðast hefur verulegur árangur náðst í einu af baráttumálum RSÍ, þar sem bókasafnssjóður er annars vegar. Sjóðurinn hefur nú stækkað um 52% og eins og staðan er um þessar mundir koma 197,4 milljónir króna til úthlutunar úr honum á ári. Að auki tókst loksins að fá Hljóðbókasafn Íslands fellt undir sjóðinn, svo útlán úr því ágæta safni eru nú loksins metin til fjár og skila sér til höfunda til jafns við útlán úr öðrum bókasöfnum. Bókasafnsjóður er deilisjóður og er allur greiddur út til rétthafa á hverju ári. Bókasöfn hafa vissulega verið lokuð um lengri eða skemmri tíma í þeirri ótíð sem ríkt hefur undanfarið, en það kemur ekki í veg fyrir að greiðslur berist fyrir öll útlán.

RSÍ á aðild að nokkrum viðurkenningum á störfum og verkum íslenskra rithöfunda. Í janúar veitti Andri Snær Magnason viðtöku úthlutun úr Rithöfundasjóði RÚV. Í rökstðningi úthlutunarnefndar segir meðal annars: „Viðurkenningar Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins eru fyrstu og elstu rithöfundarverðlaun okkar Íslendinga og þær eru veittar fyrir ævistarf höfundar, frekar en einstök verk. Trúlega hefur enginn íslenskra nútímahöfunda verið þýddur á fleiri tungumál, og öll stærri bókmenntaverk (Andra Snæs), … eru margverðlaunuð bæði hér heima og erlendis.“

Ljóðaverðlaunin Maístjarnan eru veitt í samstarfi RSÍ og Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns, en gjaldgengar til tilnefningar eru allar ljóðabækur sem út komu árið á undan. Af sérstökum ástæðum verður Maístjarnan ekki veitt fyrr en í júni, en tilnefndar til verðlaunanna eru ljóðabækurnar Taugaboð á háspennulínu eftir Arndísi Lóu Magnúsdóttur, Draumstol eftir Gyrði Elíasson, Þagnarbindindi eftir Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur, Kyrralífsmyndir eftir Lindu Vilhjálmsdóttur og  1900 og eitthvaðeftir Ragnheiði Lárusdóttur.

Víkjum þá stuttlega að samningamálum. Samninganefnd RSÍ við RÚV tókst loks eftir lengri mæðu en ég nenni að rekja hér að draga sambærilega nefnd Ríkisútvarpsins að samningaborði, en fyrir okkar hönd sitja í nefndinni Sigríður Rut Júlíusdóttir, Sindri Freysson og Ottó Geir Borg. Tveir fundir hafa verið haldnir, en vegna þess hvað þetta ferli er orðið langt er orðið tímabært að endurskoða vissa hluti í upprunalegum samningsdrögum með hagsmuni höfunda í huga, en það eru einkum hlutir sem snúa að nýtilkomnum miðlunarleiðum á höfundaréttarvörðu efni. Fulltúrar okkar í nefndinni eru bjarstýnir á að skriður sé að komast á þessa vinnu og að langþráðir samningar séu í sjónmáli.

Samninganefnd þýðenda innan RSÍ er starfandi og undirbúningur undir samningaviðræður við FÍBÚT er hafinn, en enginn samningafundur enn verið boðaður. Í nefndinni sitja fyrir okkar hönd Sigríður Rut, Magnea Matthíasdóttir og Halla Kjartansdóttir.

Nýlega var gerður samningur á milli RÚV og Storytel um miðlun á gömlu efni Ríkisútvarpsins í gegnum streymisveitu síðarnefnda fyrirtækisins. RSÍ hefur farið fram á að fá að sjá þessa samninga, en verið synjað um það bæði hjá RÚV og Storytel. Við höfum því falið lögfræðingi okkar að krefjast þess með formlegum hætti að okkur verði afhentir þessir samningar. Ástæðan er sú að ekki verður betur séð en að RÚV geri þessa samninga sem útgefandi og ætli þar með að eigna sér 77% af öllum streymistekjum þeirra verka sem afhent verða Storytel. Við getum ekki með nokkru móti fallist á að RÚV geti talist útgefandi hljóðbókar, þó að fyrirtækið hafi upptöku af tilteknu verki í vörslu sinni, sem aðeins er heimilt að flytja einu sinni í útvarp samkvæmt samningum. Enginn höfundur eða erfingi höfundaréttar sem vitað er um hefur framselt streymisrétt sinn til RÚV. RÚV hefur hins vegar ekki ennþá viljað gangast við því að brotið sé á rétti höfunda með þessum samningum. Þess vegna þykir okkur full ástæða til að fara rækilega í saumana á þessu máli.

Rithöfundasamband Íslands rekur Höfundamiðstöð, en eitt helsta verkefni hennar undanfarin ár hefur verið Skáld í skólum, þar sem höfundar af ýmsu tagi heimsækja grunnskóla um land allt til að kynna nemendum ritlist og hvetja þá til skapandi hugsunar. Þetta skólaár voru um það bil 50 viðburðir áætlaðir þar sem 6 höfundar hugðust heimsækja skólabörn landsins, en margumræddur heimsfaraldur olli því að flestum þessara innlita var aflýst, en í örfáum tilifellum var hægt að bjóða uppá sýndarheimsóknir með aðstoð tækninnar. Það verða því sömu skáld sem halda munu merki okkar á lofti næsta vetur.

Hér á Dyngjuvegi 8 er þjónustumiðstöð fyrir rithöfunda og aðra eigendur höfundaréttar. Enn og aftur vil ég hvetja félagsmenn í Rithöfundasambandinu til að leita aðstoðar og álits á hverjum þeim málum sem snerta rétt og kjör höfunda. Eins og mörg af þeim dæmum sýna sem ég hef nefnt í þessar skýrslu er ástæða til að vera vel á verði, því réttur okkar er því miður alltof oft fótum troðinn. Eitt stærsta og mikilvægast verkefnið hlýtur þó að vera að standa vörð um tjáningarfrelsið. Það á vel við á þeim tímum sem við lifum, þar sem bæði stjórnmálamenn og stórfyrirtæki virðast líta svo á að þeir listamenn sem hljóti starfslaun eigi ekki rétt á að setja fram annað en réttar skoðanir á þjóðlfélagsmálum, ella skuli þeir hafa verra af.

En  heimsóknir hingað í Gunnarshús þurfa ekki eingöngu að tengjast vandamálum, hingað eru allir félagsmenn okkar velkomnir til skrafs um daginn og veginn, lífið og listina, því samtöl okkar á milli eru dýrmæt í sjálfum sér. Ég þakka öllum sem sáu ástæðu til að sitja þennan aðalfund og óska okkur öllum góðs og kraftmikils starfsárs.

Kærar þakkir,

Karl Ágúst Úlfsson formaður


Sigrún Pálsdóttir hlýtur EUPL-verðlaunin 2021

Tilkynnt var um þá 13 verðlaunahafa sem hljóta Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins 2021 við rafræna athöfn í dag.

Sigrún Pálsdóttir hlýtur verðlaunin fyrir bók sína Delluferðin (2019), útgefandi JPV.

Í rökstuðningi dómnefndar segir:

Delluferðin er skrifuð af listfengi höfundar sem hefur náð gríðarlegu valdi á bæði formi og stíl. Hér er sögð saga stúlkunnar Sigurlínu Brandsdóttur sem heldur heimili fyrir föður og bróður í Reykjavík undir lok 19. aldar. Faðir hennar hefur umsjón með fornminjasafni sem er til húsa í Alþingishúsinu og auk þess að sjá um heimilið er dóttirin hægri hönd föður síns við vinnuna. Fyrir röð tilviljanna leggur hún af stað út í heim þar sem svo ótrúleg ævintýri bíða hennar að jafnvel má segja að skáldverkið stökkvi milli bókmenntagreina og úr sögulegri skáldsögu yfir í melódrama. Hér er sannarlega ekki á ferðinni hefðbundinn þroskasaga heldur er miskunnarlaus snúið upp á allar hefðir. Frásögnin er knöpp, engu er ofaukið og hálfkveðnar vísur æsa upp lyst lesandans sem þarf að hafa sig allan við til þess að halda í við söguna sem rúllar áfram án afláts, nemur aldrei staðar, kemur sífellt á óvart og skýtur að lokum öllum væntingum um hefðbundin sögulok ref fyrir rass. Menningarleg sjálfsmynd þjóðar er hér í mótun, þjóðar sem rétt fyrir aldamótin 1900 var ein sú vanþróaðasta og fátækasta í Evrópu. Hvernig fá atburðir sögulegt gildi? Hvernig verða menningarverðmæti til? Hér er allt undir; þjóðararfurinn og þeir brauðfætur sem söguleg sýn hvers samfélags stendur á, en einnig stéttarskipting, staða konunnar, staða Íslands, staða erlends vinnuafls í New York undir lok 19. aldar og síðast en ekki síst skáldsagan sjálf.

Skáldverkið er í senn frumlegt og nútímalegt en um leið afskaplega aðgengilegt og skemmtilegt.

Í dómnefnd sátu: Elín Edda Pálsdóttir, Helga Ferdínandsdóttir, Maríanna Clara Lúthersdóttir, Tinna Ásgeirsdóttir og Þorgeir Tryggvason.

Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins eru veitt þátttökuríkjum Creative Europe, menningaráætlun Evrópusambandsins. Verðlaunin eiga að hampa framúrskarandi hæfileikafólki sem er að þreifa sig áfram á bókmenntavellinum, 13 höfundum að þessu sinni. Áður hafa þau Ófeigur Sigurðsson, Oddný Eir Ævarsdóttir og Halldóra Thoroddsen hlotið verðlaunin fyrir Íslands hönd. Verðlaunin vekja athygli á menningarauði evrópskra samtímabókmennta sem og tungumálum og menningu álfunnar, en tungumálastefna Evrópusambandsins snýst ekki síst um að vernda fjölbreytileika evrópskra tungumála.

Rithöfundasamband Íslands óskar Sigrúnu innilega til hamingju með verðlaunin!