Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Stjórnarkjör

Á aðalfundi Rithöfundasambandsins í gærkvöldi var stjórnarkjör.

Laus voru embætti tveggja meðstjórnenda og eins varamanns. Í framboði til meðstjórnanda voru Margrét Tryggvadóttir, Óskar Magnússon og Vilhelm Anton Jónsson. Í framboði til varamanns voru Halla Gunnarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir.

169 atkvæð bárust og féllu svo, til meðstjórnanda; Margrét Tryggvadóttir 140 atkvæði, Óskar Magnússon 53 atkvæði, Vilhelm Anton Jónsson 114 atkvæði. Til varamanns; Halla Gunnarsdóttir 66 atkvæði, Sigurlín Bjarney Gísladóttir 100 atkvæði.

Rétt kjörnir stjórnarmenn 2017 – 2019 eru því, meðstjórnendurnir Margrét Tryggvadóttir og Vilhelm Anton Jónsson og varamaðurinn Sigurlín Bjarney Gísladóttir. Auk þeirra sitja áfram í stjórn Kristín Helga Gunnarsdóttir formaður, Vilborg Davíðsdóttir varaformaður, Hallgrímur Helgason meðstjórnandi og Bjarni Bjarnason varamaður


Maístjarnan – ný ljóðabókaverðlaun

Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn hafa stofnað til nýrra ljóðabókaverðlauna sem bera heitið Maístjarnan og verða veitt árlega 18. maí, á degi ljóðsins. Það er Rithöfundasambandinu og Landsbókasafninu sönn ánægja að ýta Maístjörnunni úr vör. Verðlaunin eru einu verðlaun á Íslandi sem eingöngu eru veitt fyrir útgefna íslenska ljóðabók og eru löngu tímabær viðurkenning á útgefnum ljóðabókum. Fram að þessu hafa einungis verið veitt sérstök verðlaun fyrir stök ljóð og handrit að ljóðabókum og þrátt fyrir að útgefnar ljóðabækur séu gjaldgengar til annarra verðlauna hafa þær oftar en ekki orðið út undan við tilnefningar og verðlaunaveitingar.

Verðlaununum er ætlað að hvetja skáld til að yrkja og koma ljóðum sínum í útgáfu en frumkvæði að stofnun Maístjörnunnar (og nafngift!) átti Kári Tulinius, skáld og rithöfundur. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Rithöfundasambandið tóku tillögu hans fagnandi og leggur Rithöfundasambandið árlega til verðlaunafé að upphæð 350.000 kr. Allar íslenskar ljóðabækur sem komið hafa út á almanaksárinu á undan og skilað hefur verið til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns eru gjaldgengar til verðlaunanna og fær dómnefnd þær til umfjöllunar.

Fyrstu tilnefningar til Maístjörnunnar voru kynntar við athöfn í Gunnarshúsi 25. apríl sl. Við sama tækifæri undirrituðu Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir, landsbókavörður, og Kristín Helga Gunnarsdóttir, formaður Rithöfundasambandsins samning milli Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafns og Rithöfundasambands Íslands.


Maístjarnan – ný ljóðabókaverðlaun – tilnefningar

Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn hafa stofnað til nýrra ljóðabókaverðlauna sem bera heitið Maístjarnan og verða veitt árlega héðan af. Fyrstu tilnefningar til Maístjörnunnar voru kynntar við athöfn í Gunnarshúsi í dag. Tilnefndir eru:

  • Eyþór Árnason fyrir Ég sef ekki í draumheldum náttfötum, Reykjavík: Veröld
  • Magnús Sigurðsson fyrir Veröld hlý og góð: ljóð og prósar, Reykjavík: Dimma
  • Sigurður Pálsson fyrir Ljóð muna rödd, Reykjavík: JPV
  • Sigurlín Bjarney Gísladóttir fyrir Tungusól og nokkrir dagar í maí, Reykjavík: Mál og menning
  • Þórdís Gísladóttir fyrir Óvissustig, Reykjavík: Benedikt

Tilnefndar bækur eru allar til sýnis í anddyri Þjóðarbókhlöðunnar.

Ljósmynd: Ólafur J. Engilbertsson

Ljósmynd: Ólafur J. Engilbertsson

Gjaldgengar voru allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2016 sem skilað var til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og fékk dómnefnd þær til umfjöllunar. Dómnefnd skipa Ármann Jakobsson fyrir hönd Rithöfundasambandsins og Áslaug Agnarsdóttir fyrir hönd Landsbókasafnsins. Maístjarnan er einu verðlaun á Íslandi sem veitt eru fyrir útgefna íslenska ljóðabók. Verðlaununum er ætlað að hvetja skáld til að yrkja og koma ljóðum sínum í útgáfu.  Frumkvæði að stofnun Maístjörnunnar átti Kári Tulinius, skáld og rithöfundur. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Rithöfundasambandið tóku tillögu hans fagnandi og við tilnefningarathöfn var undirritaður samningur um verðlaunin.

 

Verðlaunin8stjarna9 verða veitt í fyrsta sinn við athöfn í Þjóðarbókhlöðunni 18. maí, á degi
ljóðsins. Verðlaunafé er 350 þúsund krónur.

 


Halldóra K. Thoroddsen hlýtur Bókmenntaverðlaun ESB í ár fyrir Tvöfalt gler

Halldóra K. Thoroddsen, rithöfundur Ljósmynd: Ásdís Thorodssen

Halldóra K. Thoroddsen, rithöfundur Ljósmynd: Ásdís Thorodssen

Rithöfundurinn Halldóra K. Thoroddsen hlýtur Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins í ár fyrir skáldsögu sína Tvöfalt gler (2016). Í bókinni leitar Halldóra á nýjar slóðir bæði í efnistökum og stíl, og veitir meðal annars innsýn í viðfangsefni sem sjaldan er fjallað um í íslenskum bókmenntum, ástarlíf eldra fólks. Bókin veltir upp áhugaverðri spurningum sem sjaldan er orðuð: Hvenær erum við of gömul til að verða ástfangin? Annað mikilvægt efni bókarinnar er rofið milli kynslóða. En Tvöfalt gler fjallar öðrum þræði um hvernig kynslóðirnar hafa einangrast hver frá annarri og bernskan og ellin orðið út undan í samfélaginu.

Í myndheimi bókarinnar er fléttað saman beittu innsæi og tilfinningaþrungnum lýsingum sem falla vel að efni sögunnar og skapa jafnvægi sem hentar frásögninni fullkomlega. Höfundi tekst einkar vel að fanga stórar tilfinningar í ljóðrænum og nákvæmum lýsingum, hvert orð er gaumgæfilega valið út frá merkingu og formi,“ segir í umsögn dómnefndar: „Tvöfalt gler er stór saga sögð í fáum orðum. Hún fjallar um tilvist okkar og tilgang, er barmafull af kvenlegri visku og skarpri innsýn í líf og dauða.“

Halldóra Kristín Thoroddsen er fædd 1950 og er menntaður kennari en einnig útskrifuð frá Myndlista og handíðaskólanum. Hún hefur numið sálfræði við Kaupmannahafnarháskóla og myndlist í Englandi. Bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi gefur bókina út.

Tibor Navracsics, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins í menningar- og menntamálum, mun afhenda verðlaunin við hátíðlega athöfn í Brussel þann 23. maí.

Nánar um verðlaunin.

Lesa meira


Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar

höfðiHandhafar barnabókaverðlauna Reykjavíkur 2017; Linda Ólafsdóttir, Halla Sverrisdóttir og Ragnheiður Eyjólfsdóttir ásamt Degi B. Eggertssyni borgarstjóra.

Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar 2017 voru afhent við hátíðlega athöfn í Höfða síðasta vetrardag..

Í flokki frumsaminna barnabóka komu verðlaunin í hlut Ragnheiðar Eyjólfsdóttur fyrir Skuggasögu – Undirheima, en hún er seinni hluti Skuggasögu – Arftakinn sem hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin á árinu 2015. Vaka Helgafell gaf út.

Halla Sverrisdóttir hlaut verðlaunin fyrir þýðingu sína á Innan múranna eftir bandarísku skáldkonuna Nove Ren Suma. Bókaútgáfan Björt gaf bókina út.

Verðlaun fyrir bestu myndskreytingu barnabókar sem kom út á árinu 2016 fékk Linda Ólafsdóttir fyrir Íslandsbók barnanna. Þetta er annað árið í röð sem Linda hlýtur þessi verðlaun fyrir myndskreytingu. Iðunn gaf bókina út.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar í Höfða, en þau hafa verið afhent árlega frá árinu 1973.

Í umsögn dómnefndar um verðlaunabækurnar segir;
„Í Skuggasögu – Undirheimum skapar Ragnheiður Eyjólfsdóttir úthugsað ævintýri og sækir innblástur í minni og hugmyndir úr þjóðtrú, goðsögum og fantasíum. Í þessari mögnuðu og hröðu spennusögu fylgir lesandinn Sögu sem hefur verið í útlegð í mannheimum alla sína bernsku en er nú komin til álfheima til að mæta örlögum sínum.

Innan múranna er óvenjuleg en einstaklega fallega ljóðræn saga um erfið málefni eins og jafningjaþrýsting, einelti, kúgun og grimmd. Höllu Sverrisdóttur tekst afar vel að snúa sérstökum stíl bandarísku skáldkonunnar Nova Ren Suma á milli mála.

Íslandsbók barnanna sameinar fróðleik og skemmtun á töfrandi og aðgengilegan hátt. Myndheimurinn sem Linda Ólafsdóttir dregur upp og texti bókarinnar klæða hvort annað einstaklega vel og sameinast í riti sem er bæði tímalaust og tímabært. “

Við verðlaunaafhendinguna í Höfða léku nemendur í Allegró Suzuki tónlistarskólanum og sigurvegarar úr Stóru upplestrarkeppninni lásu upp úr verðlaunabókunum.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar þjóna þeim tilgangi að vekja athygli á gildi góðra bókmennta í uppeldisstarfi og á metnaðarfullri útgáfu barnabóka. Valnefnd var að þessu sinni skipuð Brynhildi Björnsdóttur formanni, Jónu Björgu Sætran borgarfulltrúa, Gunnari Birni Melsted grunnskólakennara, Davíð Stefánssyni fulltrúa Rithöfundasambands Íslands og Þórdísi Aðalsteinsdóttur fulltrúa Sambands íslenskra myndlistarmanna.