Search
Close this search box.

Verðlaunahafar Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Blóðdropans

Verðlaunahafar Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Blóðdropans ásamt forsetahjónunum, menningarmálaráðherra og formanni FÍBÚT.

Íslensku bókmenntaverðlaunin og Íslensku glæpasagnaverðlaunin Blóðdropinn voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þann 24. febrúar.

Pedro Gunnlaugur Garcia hlaut bókmenntaverðlaunin í flokki skáldverka fyrir verk sitt Lungu. Útgefandi er Bjartur.

„Lungu er breið fjölskyldusaga margra kynslóða úr ólíkum heimshornum, sem færist smám saman inn á okkar tímaskeið hér á landi en teygir sig líka til framtíðar þegar kynslóðirnar safnast saman í sýndarveruleika sem kallast á við sjálfa alheimssöguna. Hér er sleginn nýr tónn í íslenskri skáldsagnagerð með töfrandi frásagnargleði sem fer áreynslu- og hispurslaust á milli dýpstu tilfinninga og átaka til ævintýralegra gleðistunda með goðsagnakenndu ívafi – þannig að jafnvel mestu hörmungarnar njóta góðs af gleðinni. Sambönd elskenda og kynslóða eru brotin og löskuð en sögur og minningar megna að lýsa upp örlagastundir í lífi þeirra, sýna lesandanum sjálfan lífsneistann og fanga oft kjarnann í langri ævi,“ segir í umsögn dómnefndar.

Arndís Þórarinsdóttir hlaut verðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka fyrir Kollhnís. Útgefandi er Mál og menning.

Úr umsögn dómnefndar: „Kollhnís segir frá því hvernig ungur drengur upplifir umhverfi sitt og fjölskylduaðstæður sem hann ræður illa við eftir að litli bróðir hans greinist með einhverfu. Sagan er skrifuð af miklu stílöryggi og tekur á erfiðum málum með hæfilegri glettni sem gerir það bæði bærilegt og skemmtilegt að fylgjast með því hvernig sýn fullorðinna afhjúpar þá mynd sem drengurinn gerir sér af þeim sem hann dáist að og tengist vináttu- og tilfinningaböndum – í krafti einlægni sinnar. Samtöl eru sannfærandi og styðja vel við hvernig snúið er upp á ranghugmyndir um fullkomnun og velgengni annarra — sem kallast á við þá viðleitni að feta hina beinu lífsins braut að skilgreindum markmiðum með sviðsettri sjálfsmynd á samfélagsmiðlum.“

Ragnar Stefánsson hlaut bókmenntaverðlaunin í flokki fræðibóka og rita almenns efnis fyrir verkið Hvenær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarðskjálfta. Útgefandi er Skrudda.

Hvenær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarðskjálfta geymir afrakstur ævilangrar glímu við rannsóknir sem hafa beinst að því hvernig spá megi fyrir um jarðskjálfta. Hér eru dregnar saman niðurstöður alþjóðlegrar þekkingarleitar sem skilaði loks þeim árangri að hægt var að spá fyrir um stóran skjálfta á Suðurlandi. Sagan á bak við þennan heimsögulega árangur er sögð með aðgengilegum hætti, vel skrifuðum texta, upplýsandi kortum og skýringarmyndum, án þess að slakað sé á fræðilegum kröfum; uppgötvunarferlinu er haldið til haga og þess gætt að sýna öllum sem að því hafa komið örlæti. Hér getur hvert mannsbarn séð hvernig vísindaleg þekking verður til – á sviði sem varðar almenning miklu – og því er verkið líklegt til að laða ungt fólk að vísindum,“ segir í umsögn dómnefndar.

Blóðdropann hlaut Skúli Sigurðsson fyrir bókina Stóri bróðir. Útgefandi er Drápa.

Úr umsögn dómnefndar: „Stóri bróðir er haganlega saman sett saga um ofbeldisglæpi og vandlega undirbyggða hefnd með löngum aðdraganda sem flett er ofan af eftir því sem dýpt frásagnarinnar eykst. Fjölbreytt persónusköpun og markviss notkun ólíkra sjónarhorna eykur bæði á spennuna og skýrir hvernig hægt er að réttlæta óhæfuverk fyrir sjálfum sér (og jafnvel láta þau yfir sig ganga án þess að segja frá þeim). Um leið verða knýjandi innri ástæður hefndarinnar trúverðugar. Vel er haldið utan um hina mörgu og saman fléttuðu söguþræði í bland við breiða samfélagslýsingu og afhjúpun á stofnanatengdu ofbeldi gagnvart drengjum – sem á stóran þátt í óhugnaðinum og áhrifamætti sögunnar.“

Rithöfundasamband Íslands óskar höfundunum innilega til hamingju með verðlaunin!

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email