Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Umsögn stjórnar RSÍ um frumvarp um stuðning við útgáfu bóka á íslensku

Stjórn RSÍ hefur nú skilað umsögn um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur um stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Umsögnina og aðrar umsagnir sem borist hafa má lesa á vef allsherjar- og menntamálanefndar. https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalin/erindi/?ltg=149&mnr=176

 


Ekki semja af ykkur!

Rithöfundasambandið minnir á gildandi samninga félagsins. Við viljum brýna fyrir höfundum að vísa í og nota þá samninga sem RSÍ hefur gert við viðsemjendur og eru aðgengilegir á vefsíðu okkar. Ef um annars konar samninga er að ræða er mikilvægt að félagsmenn sæki aðstoð til skrifstofu RSÍ og þiggi þá ráðgjöf sem þar er í boði og byggir á áralangri reynslu og þekkingu á samningamálum.


Skýrsla starfshóps um bókmenningarstefnu

downloadKristján Þór Júlíusson þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra skipaði sl. haust starfshóp um gerð bókmenningarstefnu þar sem íslensk bókaútgáfa og aðstæður hennar yrðu skoðaðar.

Í skýrslunni eru settar fram tillögur að aðgerðum sem ætlað er að styrkja íslenska bókaútgáfu, efla höfunda og tryggja börnum aðgang að góðum bókum og námsefni.

Skýrslan er aðgengileg hér á vef stjórnarráðsins.


Ritunarþing 11. apríl

Þann 11. apríl nk. standa Félag fagfólks á skólasöfnum, Háskóli Íslands, Kennarasamband Íslands, Menntamálastofnun, Rithöfundarsamband Íslands, Samtök móðurmálskennara og Sögur – Samtök um barnamenningu saman að málþingi til að vekja athygli á ritun í grunnskólum. 


Frítt verður á þingið og veitingar í boði. Allir velkomnir!

Ritunarþing


Áríðandi skilaboð vegna höfundarréttar

Erindi þetta er vegna bréfs fulltrúa Storytel Iceland til félagsmanna RSÍ.

Þegar Storytel á Íslandi opnaði fyrir tæpri viku kom í ljós að þar voru gerð aðgengileg í áskrift verk margra íslenskra höfunda og þýðenda sem aldrei höfðu gefið til þess leyfi eða skrifað undir samninga þar um. Fulltrúi Storytel hafði áður sent RSÍ drög að samningi alþjóðafyrirtækisins til yfirlestrar en ljóst var að ekki var hægt að mæla með að höfundar undirrituðu samninginn óbreyttan heldur þyrftu að fara fram viðræður um breytingar á samningnum til að RSÍ gæti mælt með honum. Um þetta var fulltrúa Storytel kunnugt. RSÍ telur eðlilegast að stéttarfélagið sé sá aðili sem semji við áskriftarveitu á borð við Storytel og lítur RSÍ svo á að þær samningaviðræður hafi verið í burðarliðnum þegar Storytel opnaði í síðustu viku.

Í hefðbundnum útgáfusamningi eins og flestir rithöfundar skrifa undir og er milli FÍBÚT (Félags íslenskra bókaútgefenda) og Rithöfundasambandsins felst EKKI og hefur aldrei falist streymisréttur í áskrift. Þessi afstaða RSÍ hefur legið fyrir allan tímann og sá RSÍ ástæðu til að senda bréf til FÍBÚT í októberbyrjun og ítreka afstöðu sambandsins. Fulltrúi Storytel á Íslandi hefur haft þær upplýsingar um margra mánaða skeið.

RSÍ ítrekar að það er afstaða sambandsins að áskriftarstreymisréttur tilheyri rithöfundum hafi þeir ekki sérstaklega samið um framsal hans. Enn fremur er ástæða til að minna rétthafa á að þeim ber engin skylda til að semja um framsal réttarins til útgefenda, áskriftarveitu eða annarra aðila hafi þeir ekki hug á því.

Lögmaður RSÍ fer með þessi mál fyrir hönd félagsins. Hafið endilega samband við skrifstofu RSÍ með tölvupósti, símtali eða heimsókn í Gunnarshús þar sem skrifstofa RSÍ getur farið vandlega yfir málið með hverjum og einum.

Sýnum samstöðu og stöndum vörð um höfundarréttinn,

Stjórn og starfsfólk RSÍ


Frá stjórn RSÍ

Vegna áskriftarveitunnar Storytel sem farin er af stað hérlendis þá vill stjórn RSÍ árétta eftirfarandi: það er afstaða RSÍ að áskriftarstreymi hafi aldrei nokkurn tíma verið hluti af framseldum réttindum í útgáfusamningi Rithöfundasambandsins og Félags íslenskra bókaútgefenda. Um hann þurfi að semja sérstaklega og hefur það enn ekki verið gert í útgáfusamningi RSÍ og FÍBÚT. Rithöfundasambandið telur engan vafa á því að samningur RSÍ og FÍBÚT feli í sér eintakagerð og eintakasölu, einnig hvað varðar hljóð- og rafbækur, en EKKI heimild útgefenda til útgáfu hljóð- og rafbóka í áskriftarstreymi.

Í útgáfusamningi RSÍ og FÍbút, 1. grein c. um hljóðbækur segir „Sé ekki um annað samið hefur útgefandinn rétt til útgáfu verksins á hljóðbók“ og seinna í sömu grein: „Höfundarlaun skulu reiknast af heildsöluverði samkvæmt 12. gr. og greiðast samkvæmt 13. gr. Um höfundareintök gilda ákvæði 18. gr. Útgefanda er heimilt að gefa út hljóðbók hjá þriðja aðila en er í slíku tilviki ábyrgur fyrir efndum gagnvart höfundinum, s.s. greiðslu höfundarlauna.“ Enn fremur er skýrt tekið fram í 1. grein f. að „Öll önnur réttindi yfir verkinu sem ekki eru undanskilin samkvæmt ákvæðum samnings þessa tilheyra höfundinum“.

Ef höfundur á efni inn á Storytel en hefur ekki samið sérstaklega um það og heldur ekki falið útgefanda sínum að semja um áskriftarstreymisrétt, þá er það afstaða RSÍ að um brot á höfundarrétti sé að ræða.

RSÍ hefur falið lögmanni félagsins, Sigríði Rut Júlíusdóttur, að fara með þetta mál fyrir hönd sambandsins og svarar hún fyrir það opinberlega að svo stöddu.