Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Bók­mennt­ir mik­il­væg­ar sam­fé­lag­inu

Yfir 90% þjóðar­inn­ar telja ís­lensk­ar bók­mennt­ir mik­il­væg­ar sam­fé­lag­inu og 83,4% eru já­kvæð gagn­vart störf­um rit­höf­unda hér á landi.

Þetta kem­ur fram í könn­un sem MMR hef­ur gert fyr­ir Rit­höf­unda­sam­band Íslands. Könn­un­in sýn­ir nokk­urn mun á af­stöðu fólks eft­ir efna­hag og mennt­un og þá eru kon­ur öllu já­kvæðari gagn­vart bók­mennt­un­um en karl­ar. 1.430 manns svöruðu spurn­ing­um MMR.

Spurt var í fyrsta lagi: Hversu sam­mála eða ósam­mála ertu eft­ir­far­andi full­yrðingu: „Íslensk­ar bók­mennt­ir eru mik­il­væg­ar fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag.“  Þá var spurt: Al­mennt séð, hversu já­kvæð(ur) eða nei­kvæð(ur) ertu gagn­vart störf­um ís­lenskra rit­höf­unda?

Könn­un­in var gerð dag­ana 15.-26. des­em­ber sl.


ÁSKORUN TIL STJÓRNVALDA FRÁ RSÍ OG ÞOT VEGNA PISA

Rithöfundasamband Íslands og Bandalag þýðenda og túlka harma sorglegar niðurstöður PISA-prófanna þar sem lesskilningur hrapar enn meðal skólabarna og hratt dregur sundur milli pilta og stúlkna. Menn hafa borið fyrir sig áhrif frá ensku í gegnum tölvuleiki og annað efni ætlað börnum og unglingum sem þau hafa greiðan aðgang að. Það er þó ljóst að þessi áhrif væru sýnu minni ef mun meira væri til af þýddu og frumsömdu barnaefni fyrir alla miðla. Einnig hefur á undanförnum árum verið búið afar illa að skólabókasöfnum sem hafa víða verið í langvarandi svelti hjá fátækum sveitarfélögum. Stórauka þarf innkaup á lesefni fyrir börn og unglinga til skóla- og héraðsbókasafna.

Umfjöllun undanfarið um ástand læsis meðal skólabarna hefur varpað ljósi á það hve illa ráðamenn búa að íslenskum börnum og Menntamálastofnun er þar ekki undanskilin. Öflug útgáfa á þýddu og frumsömdu fræðslu- og kennsluefni fyrir börn og unglinga á öllum skólastigum er mikilvæg fyrir fámenna þjóð til að styrkja innlent fræðastarf og auðga íslenska tungu af hugtökum og íðorðum á öllum sviðum.

RSÍ og ÞOT skora á stjórnvöld að setja á fót margþætta neyðaráætlun foreldra, skólastofnana, félagasamtaka, fyrirtækja, menningarstofnana, sveitarfélaga og stjórnvalda með forsætisráðuneyti og forsetaembætti í fylkingarbrjósti. Í þessa neyðaráætlun þarf að leggja fjármagn sem er ekki táknrænt heldur raunverulegt og sýnilegt. Rithöfundasamband Íslands og Bandalag þýðenda og túlka telja að einungis með öflugu átaki og tafarlausum aðgerðum stjórnvalda sé hægt að sporna við þessari nöturlegu þróun og bjarga íslenskri tungu frá niðurlægingu og úreldingu sem óhjákvæmilega hlýtur að verða ef ekki er spyrnt við fótum. Við minnum á góðan árangur Norðmanna sem hafa sérstakan innkaupasjóð til að tryggja að allir íbúar hafi greiðan aðgang að nægu og fjölbreyttu nýju lesefni á bókasöfnum um allt land. Bækur þurfa ekki einasta að vera mun aðgengilegri fyrir börn og unglinga á skóla- og almenningsbókasöfnum með öflugri innkaupum, heldur þurfa þær að vera skattfrjálsar. Ný ríkisstjórn þarf að afnema virðisaukaskatt af bókum hið allra fyrsta og sýna þannig í verki að lesefni sé nauðsynjavara sem á að vera öllum aðgengileg, óháð efnahag.

Íslensk tunga á undir högg að sækja. Hér á landi er fjöldinn allur af fagfólki, þar á meðal rithöfundar, þýðendur og útgefendur, sem er reiðubúið að leggjast á árar með yfirvöldum til að bæta ástandið. Rithöfundasamband Íslands og Bandalag þýðenda og túlka lýsa sig fús til að vera væntanlegri ríkisstjórn innan handar við verkefni sem gætu skilað góðum árangri. Læsi er höfuðverkfæri mennskunnar, grunnurinn að samfélagslegum skilningi og á að vera forgangsmál hjá stjórnvöldum á öllum tímum.


Jæja í september

Jæja, félagar. Þá eru nú haustverkin hafin í Gunnarshúsi. Einhverjir eru búnir að sækja um starfslaun. Margir hafa skilað inn handriti til útgáfu eða birtingar og aðrir eru á lokasprettinum. Sumir eru með handrit í bígerð. Eins og gengur. Þeir sem sóttu snemma um starfslaun tóku væntanlega eftir nýjum reit í umsókninni þar sem umsækjanda var gert að semja greinargerð sem sérlega væri ætluð til opinberrar birtingar ef með þyrfti. RSÍ, ásamt BÍL, gerði alvarlegar athugasemdir við þennan nýja lið og dró Stjórn listamannalauna þessa kröfu til baka úr umsókninni.

Skáld í skólum eru að hefja flugið og grunnskólayfirvöld eru duglega að bóka höfundaheimsóknir. Davíð Stefánsson hefur stjórnað verkefninu í ár, ásamt Tinnu Ásgeirsdóttur verkefnisstjóra RSÍ. Þetta haustið er lögð áhersla á skapandi skrif og skapandi hugsun og við bendum félagsmönnum á að kynna sér verkefnið á heimasíðu félagsins: https://rsi.is/hofundamidstod/skald-i-skolum/

Að baki er afar gagnlegur framhalds-aðalfundur sem haldinn var til að ljúka við að manna stjórn RSÍ. Það tókst vel og rækilega því þeir Hermann Stefánsson og Davíð Stefánsson tóku sæti í stjórn og er þá fullt stjórnarhúsið og valinn maður í hverju rúmi.  Útgefendur heimsóttu félagsmenn í Gunnarshús og ræddu stöðuna á útgáfumarkaði. Sitt sýndist hverjum, en ljóst að mun meira sameinar höfunda og útgefendur en sundrar þeim.

Verkefnin eru mörg . Við höldum áfram að berjast gegn virðisaukaskatti á bókum og munum ekki linna látum fyrr en sú ómenningarlega skattpíning leggst af í sjálfu bókmenntalandinu.

Stjórn og bústýrur RSÍ funduðu nýverið með menntamálaráðherra. Slíkir fundir hafa verið reglubundnir, enda mikilvægt að forsvarsmenn sambandsins eigi stöðugt samtal við menningarmálayfirvöld. Að mati viðstaddra var fundurinn gagnlegur. Stjórnarmenn lýstu áhyggjum vegna virðisaukaskattsins. Fram kom að undanfarin ár hefur orðið mikill samdráttur í bóksölu og þá ekki síst eftir að hækkunin tók gildi. Ráðherra deildi þessum áhyggjum og sagði baráttunni alls ekki lokið.  Á fundinum var einnig rætt um mikilvægi þess að standa vörð um Bókasafnssjóð og auka framlög í hann. Vinna við að koma sjóðnum í stöðugra umhverfi stendur enn í ráðuneytinu og stjórn RSÍ mun fylgja því eftir. Ráðherra upplýsti á fundinum að miklar líkur væru á því að frumvarp um innheimtumiðstöð gjalda, IHM, yrði að lögum í haust og er það mikið fagnaðarefni.Þá var rætt um að styðja við skrif fyrir börn og ungmenni með ýmsum aðferðum. Sumsé, góður fundur með ráðherra og þótt hann hverfi til annarra verka höldum við áfram að hamra járnið og vinna með nýjum ráðherra og því ágæta fólki sem áfram starfar í menntamálaráðuneytinu.

Þá höfum við undanfarið verið að skoða hljóðbókasamninginn í samráði við lögmenn, enda löngu tímabært að endurskoða hann með hliðsjón af breyttu landslagi. Sú vinna heldur áfram og við upplýsum félagsmenn um gang mála.

Síðla í október mun RSÍ standa að málþingi um gildi orðlistar í samstarfi við Reykjavík Bókmenntaborg. Það verður jafnframt afmælishátíð Bókmenntaborgar og höfundar eru hvattir til að fjölmenna.

Það er mikið að gera á stóru heimili. Gunnarshús iðar af lífi. Allar vinnustofur eru í fullri notkun og Sögufélagið hefur hreiðrað um sig í Norðurstofu á neðri hæð. Þá er ys og þys á skrifstofunni þar sem þær Ragnheiður og Tinna spila tvíhendis. Í vetur verða höfundakvöld í stofunni á fimmtudagskvöldum. Sú nýbreytni verður að nú skipuleggja höfundar kvöldin sín sjálfir en RSÍ aðstoðar við að auglýsa eftir leiðum sambandsins. Að lokum viljum við minna á að Höfundasjóður auglýsir til umsóknar ferðastyrki höfunda. Umsóknarfrestur er til fyrsta október. Kæru félagar, þetta er nú svona það helsta að sinni. Gangi ykkur vel við ritverkin.

Bestu kveðjur,

Kristín Helga

 


Ekki semja af ykkur!

Rithöfundasambandið minnir á gildandi samninga félagsins. Við viljum brýna fyrir höfundum að vísa í og nota þá samninga sem RSÍ hefur gert við viðsemjendur og eru aðgengilegir á vefsíðu okkar. Ef um annars konar samninga er að ræða er mikilvægt að félagsmenn sæki aðstoð til skrifstofu RSÍ og þiggi þá ráðgjöf sem þar er í boði og byggir á áralangri reynslu og þekkingu á samningamálum.


Fundur fólksins 2016

DefaultRithöfundasambandið minnir á Fund fólksins sem fer fram í Norræna húsinu 2.-3. september. Höfundaréttur listamanna og það hvernig listamenn geta lifað af listinni verður eitt af umfjöllunarefnum fundarins og á föstudeginum kl. 13-14 verður opinn umræðufundur um hvernig höfundarétturinn er varinn í breyttu tækniumhverfi. Fullrúar allra þingflokka á Alþingi taka þátt ásamt Jakobi Magnússyni, formanni STEFs, Helgu Sigrúnu Harðardóttur, framkvæmdastjóra FJÖLÍS, Ragnari Th Sigurðssyni formanni MYNDSTEFs, Ragnheiði Tryggvadóttur framkvæmdastjóra RSÍ og Tómasi Þorvaldssyni lögmanni SÍK. Fundarstjóri verður Kolbrún Halldórsdóttir, forseti BÍL

Fundur fólksins á facebook.


Jæja …

Jæja, kæru félagar,

áfram miðar allt til góðs og öflugur félagsfundur að baki. Takk fyrir hann og fyrir stuðning og samstöðu. Fyrir fundinum lá að taka afstöðu til tillagna frá starfshópi á vegum BÍL og var eftirfarandi ályktun einróma samþykkt:

Gunnarshúsi, 31. mars, 2016.

Félagsfundur Rithöfundasambands Íslands samþykkir að fara að tillögum starfshóps BÍL varðandi tilnefningar í úthlutunarnefnd starfslauna rithöfunda. Stjórn RSÍ skal velja uppstillingarnefnd samkvæmt tillögum starfshóps BÍL. Uppstillingarnefndinni er svo falið að tilnefna einstaklinga í úthlutunarnefnd starfslauna rithöfunda.

Með þessum breytingum eiga tilnefningar til úthlutunarnefnda að vera hafnar yfir vafann. Á fundinum ræddum við um það fjölmiðlafárviðri sem árlega skellur á vegna starfslauna til listamanna og þá sérstaklega hvernig rithöfundar verða fyrir heiftúðugum árásum, umfram aðra listamenn. Fundarmenn voru sammála um að seint yrði breyting á því, en þó væri orðið brýnt að leggja í upplýsingaferð, miðla og fræða um ritlistina, gildi og vægi í menningarsamfélagi sem glímir við að viðhalda einu af smæstu tungumálum veraldar. Sú upplýsingaveita er langhlaup sem leggjum í með okkar helstu samstarfsaðilum úr bókmenntaheiminum og það starf er þegar hafið. Upplýsing og samtal er enda eina leiðin til að efla menningarvitund fólks. Fundurinn hvatti til þess að RSÍ beiti sér áfram fyrir því að fjölga starfslaunum því ljóst megi vera af umræðunni á liðnum vetri að launasjóður rithöfunda sé alltof lítill og löngu orðið tímabært að stækka hann og bæta við nýliðalaunum. Enn og aftur, takk fyrir fína fundinn. Samtalið eflir og brýnir mannskapinn.

Og það er í mörg horn að líta í Gunnarshúsi. Samningaviðræður við RÚV eru í farvatninu og má búast við tíðindum af þeim vettvangi með haustinu. Vinnustofur Gunnarshúss eru nú fullmannaðar og fyrir kemur að höfundar sitji hér við skriftir fram á nætur. Norðurstofan, sem áður var bílskúr hússins, er nú komin í langtímaleigu. Sögufélagið hefur tekið rýmið á leigu og flytur inn nú um mánaðamót með sína starfssemi. Aðalfundur RSÍ er handan við hornið, þann 28. apríl, og ég hvet alla til að mæta, nota tækifærið til að hitta kollegana og ræða málin.
Bestu kveðjur,
Kristín Helga


Jæja frá formanni

Jæja … Þá er að tæpa á því helsta frá því síðast.

Fjölmiðlafárið um listamannalaunin hélt eitthvað áfram, stóð í ríflega tvær vikur. Rithöfundar eru árlega í fremstu víglínu og taka á sig gusur. Myndbirtingar minntu sumar á villta vestrið, einhverjir tjargaðir og fiðraðir á samfélagsmiðlatorginu og þar víða leyfilegt að sparka, bíta og klóra. Það er hollt að skoða aðeins þessa atburðarrás, læra kannski af henni, bæta umhverfið og undirbúa okkur fyrir næsta ár svo þróunin megi verða þannig að við lendum miklu frekar árlega í upplýstri umræðu um listirnar og gildi ritlistar og áhrif hennar á samtímann og umhverfið. Umræðan nú var heiftarlegri en áður. Hamrað var á rangfærslum við úthlutun ritlauna í fyrirsögnum hjá frjálsa og óháða fjölmiðlarisanum. Ýjað var að spillingu og sjálftöku. Engu máli skiptu upplýsingar um rétta verkferla, enda hringdi ekki einn einasti fréttamaður af þessum miðlum í stjórn og starfsfólk RSÍ á meðan á þessu stóð.

Lesa meira