Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Ekki semja af ykkur!

Rithöfundasambandið minnir á gildandi samninga félagsins. Við viljum brýna fyrir höfundum að vísa í og nota þá samninga sem RSÍ hefur gert við viðsemjendur og eru aðgengilegir á vefsíðu okkar. Ef um annars konar samninga er að ræða er mikilvægt að félagsmenn sæki aðstoð til skrifstofu RSÍ og þiggi þá ráðgjöf sem þar er í boði og byggir á áralangri reynslu og þekkingu á samningamálum.

Strax í byrjun september verður haldinn félagsfundur um málefni sem varða streymisveitur á borð við hljóðbókaveituna Storytel. Við viljum brýna fyrir félagsmönnum að hafa samband við skrifstofu áður en gengið er til samninga við slíkar veitur.


Opið bréf og áskorun á menntamálaráðherra frá Hagþenki, Myndstefi og Rithöfundasambandi Íslands

Eftirfarandi stéttar- og fagfélög kalla eftir svörum frá menntamálaráðherra hið fyrsta vegna úthlutunar úr Bókasafnssjóði þar sem brotið er gróflega á rétti félagsmanna okkar. Höfundar sem eiga rétt á afnotagreiðslum fyrir verk sín úr sjóðnum fá þær ekki á réttum tíma þetta vorið þar sem ráðuneytið afgreiðir ekki skipun úthlutunarnefndar, þrátt fyrir margítrekaða kröfu okkar um að gengið verði í það verk hið fyrsta.

Það á að vera afar einfalt að afgreiða skipunina, enda liggja fyrir tillögur frá fagaðilum þess efnis. Skrifstofa RSÍ greiðir út úr sjóðnum til allra réttahafa. Peningarnir eru tilbúnir, upplýsingar og gögn liggja fyrir og hafa gert um mánaðarbil, en allt strandar á ráðuneytinu.

Sjöhundruð höfundar áttu von á greiðslum úr Bókasafnssjóði nú í mánaðarlok og eru mjög margir orðnir ævareiðir enda verið að svíkja fólk um greiðslur fyrir afnot af verkum sínum, fjármuni sem láglaunastétt gerir ráð fyrir í sínu heimilisbókhaldi. Það verður að teljast forkastanlegt að draga fólk með þessum hætti á lögbundnum greiðslum. Þarna eru tekjur sem höfundar þessa lands ganga að vísum ár hvert, enda búið að nota verk þeirra og lögbundið að greiða fyrir. Samkvæmt úthlutunar- og starfsreglum sem samþykktar eru af menntamálaráðuneyti skal úthlutun lokið fyrir fyrsta júní ár hvert.

Við krefjumst þess að ráðherra og starfsfólk hans virði okkur svars og gefi skýringar á þessu framferði hið fyrsta.

Kristín Helga Gunnarsdóttir, formaður RSÍ

Jón Yngvi Jóhannsson, formaður Hagþenkis

Ragnar Th. Sigurðsson, formaður Myndstefs


Fundur um málefni Hljóðbókasafns

Það var góð mæting á hádegisfund um málefni Hljóðbókasafns í Gunnarshúsi í dag. Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður RSÍ, skýrði frá lagaumhverfi safnsins og þeim lagabreytingum sem í vændum eru. Þóra Sigríður Ingólfsdóttir, forstöðumaður, og Einar Hrafnsson voru gestir okkar frá Hljóðbókasafni. Þau gerðu grein fyrir starfssemi safnsins og því breytta tækniumhverfi sem safnið er að taka í gagnið í ár, en það mun takamarka mjög möguleika á misnotkun. Félagsmenn lögðu fram spurningar og viðruðu áhyggjur sínar af efnisnotkun Hljóðbókasafnsins. Þetta var upplýsandi fundur og gott veganesti fyrir forystu RSÍ í viðræðum sem framundan eru við Menntamálaráðuneyti um samning vegna Hljóðbókasafnsins.


Umsögn RSÍ vegna þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun 2018 – 2022

Rithöfundasamband Íslands lýsir áhyggjum af umhverfi og smæð Bókasafnssjóðs höfunda, en úr honum greiðast afnotagjöld fyrir ritverk til almenningsútlána.

1) Bókasafnssjóður höfunda hefur aldrei náð þeirri stærð sem honum var ætlað, en hann er afar mikilvægur, sérlega fyrir barnabókahöfunda.

2) RSÍ hvetur stjórnvöld til að styrkja innkaup til almennings- og skólabókasafna í landinu. Um leið og hávær umræða er um læsi í samfélaginu þá eru innkaup á nýju efni sáralítil fyrir grunnskólana, en víða eru sameinuð skóla- og hérðasbókasöfn. Menntamálayfirvöld þurfa að koma hér að með öflugum og skipulegum hætti til að stórauka aðgengi almennings, sérlega barna og ungmenna, að nýjum ritverkum. Lestur er vart hægt að auka nema með auknu aðgengi að lesefni. Leikskólar kaupa ekki skipulega inn bækur og þar er engin innkaupaskylda eða fjárstuðningur. Á sama tíma hafa stjórnvöld skuldbundið sig til að sjá til þess að barnabækur séu samdar og þeim dreift með löggildingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Íslenskur bókamarkaður er örmarkaður sem ber sig ekki og styðja þarf bæði við höfunda og útgefendur svo hægt sé að gefa út fjölbreytt og vandað efni og efla þannig hugsun og tungumál.

3) Rithöfundasamband Íslands hvetur stjórnvöld til að fjölga starfslaunum í launasjóði rithöfunda svo efla megi stétt atvinnuhöfunda, og skilgreina auk þess viðmið fyrir listamannalaun, sem ekki eru fyrir hendi lengur. Listamenn eru í lægstu launaþrepum og launasjóður á sér engin viðmið.

4) RSÍ hvetur stjórnvöld til að hafa kjark og menningarlegan metnað til að afnema virðisaukaskatt af bókum, en skatturinn er að sliga örmarkað í samfélagi sem kennir sig þó enn við bókmenntir.

5) Rithöfundasambandið hvetur einnig til þess að RÚV ofh fái stóraukinn stuðning til að standa undir merkjum og sinna mikilvægu hlutverki í þágu menningar.
Stjórn RSÍ:
Kristín Helga Gunnarsdóttir, formaður
Vilborg Davíðsdóttir, varaformaður
Hallgrímur Helgason
Bjarni Bjarnason
Margrét Tryggvadóttir
Vilhelm Anton Jónsson
Sigurlín Bjarney Gísladóttir


Bók­mennt­ir mik­il­væg­ar sam­fé­lag­inu

Yfir 90% þjóðar­inn­ar telja ís­lensk­ar bók­mennt­ir mik­il­væg­ar sam­fé­lag­inu og 83,4% eru já­kvæð gagn­vart störf­um rit­höf­unda hér á landi.

Þetta kem­ur fram í könn­un sem MMR hef­ur gert fyr­ir Rit­höf­unda­sam­band Íslands. Könn­un­in sýn­ir nokk­urn mun á af­stöðu fólks eft­ir efna­hag og mennt­un og þá eru kon­ur öllu já­kvæðari gagn­vart bók­mennt­un­um en karl­ar. 1.430 manns svöruðu spurn­ing­um MMR.

Spurt var í fyrsta lagi: Hversu sam­mála eða ósam­mála ertu eft­ir­far­andi full­yrðingu: „Íslensk­ar bók­mennt­ir eru mik­il­væg­ar fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag.“  Þá var spurt: Al­mennt séð, hversu já­kvæð(ur) eða nei­kvæð(ur) ertu gagn­vart störf­um ís­lenskra rit­höf­unda?

Könn­un­in var gerð dag­ana 15.-26. des­em­ber sl.


ÁSKORUN TIL STJÓRNVALDA FRÁ RSÍ OG ÞOT VEGNA PISA

Rithöfundasamband Íslands og Bandalag þýðenda og túlka harma sorglegar niðurstöður PISA-prófanna þar sem lesskilningur hrapar enn meðal skólabarna og hratt dregur sundur milli pilta og stúlkna. Menn hafa borið fyrir sig áhrif frá ensku í gegnum tölvuleiki og annað efni ætlað börnum og unglingum sem þau hafa greiðan aðgang að. Það er þó ljóst að þessi áhrif væru sýnu minni ef mun meira væri til af þýddu og frumsömdu barnaefni fyrir alla miðla. Einnig hefur á undanförnum árum verið búið afar illa að skólabókasöfnum sem hafa víða verið í langvarandi svelti hjá fátækum sveitarfélögum. Stórauka þarf innkaup á lesefni fyrir börn og unglinga til skóla- og héraðsbókasafna.

Umfjöllun undanfarið um ástand læsis meðal skólabarna hefur varpað ljósi á það hve illa ráðamenn búa að íslenskum börnum og Menntamálastofnun er þar ekki undanskilin. Öflug útgáfa á þýddu og frumsömdu fræðslu- og kennsluefni fyrir börn og unglinga á öllum skólastigum er mikilvæg fyrir fámenna þjóð til að styrkja innlent fræðastarf og auðga íslenska tungu af hugtökum og íðorðum á öllum sviðum.

RSÍ og ÞOT skora á stjórnvöld að setja á fót margþætta neyðaráætlun foreldra, skólastofnana, félagasamtaka, fyrirtækja, menningarstofnana, sveitarfélaga og stjórnvalda með forsætisráðuneyti og forsetaembætti í fylkingarbrjósti. Í þessa neyðaráætlun þarf að leggja fjármagn sem er ekki táknrænt heldur raunverulegt og sýnilegt. Rithöfundasamband Íslands og Bandalag þýðenda og túlka telja að einungis með öflugu átaki og tafarlausum aðgerðum stjórnvalda sé hægt að sporna við þessari nöturlegu þróun og bjarga íslenskri tungu frá niðurlægingu og úreldingu sem óhjákvæmilega hlýtur að verða ef ekki er spyrnt við fótum. Við minnum á góðan árangur Norðmanna sem hafa sérstakan innkaupasjóð til að tryggja að allir íbúar hafi greiðan aðgang að nægu og fjölbreyttu nýju lesefni á bókasöfnum um allt land. Bækur þurfa ekki einasta að vera mun aðgengilegri fyrir börn og unglinga á skóla- og almenningsbókasöfnum með öflugri innkaupum, heldur þurfa þær að vera skattfrjálsar. Ný ríkisstjórn þarf að afnema virðisaukaskatt af bókum hið allra fyrsta og sýna þannig í verki að lesefni sé nauðsynjavara sem á að vera öllum aðgengileg, óháð efnahag.

Íslensk tunga á undir högg að sækja. Hér á landi er fjöldinn allur af fagfólki, þar á meðal rithöfundar, þýðendur og útgefendur, sem er reiðubúið að leggjast á árar með yfirvöldum til að bæta ástandið. Rithöfundasamband Íslands og Bandalag þýðenda og túlka lýsa sig fús til að vera væntanlegri ríkisstjórn innan handar við verkefni sem gætu skilað góðum árangri. Læsi er höfuðverkfæri mennskunnar, grunnurinn að samfélagslegum skilningi og á að vera forgangsmál hjá stjórnvöldum á öllum tímum.


Jæja í september

Jæja, félagar. Þá eru nú haustverkin hafin í Gunnarshúsi. Einhverjir eru búnir að sækja um starfslaun. Margir hafa skilað inn handriti til útgáfu eða birtingar og aðrir eru á lokasprettinum. Sumir eru með handrit í bígerð. Eins og gengur. Þeir sem sóttu snemma um starfslaun tóku væntanlega eftir nýjum reit í umsókninni þar sem umsækjanda var gert að semja greinargerð sem sérlega væri ætluð til opinberrar birtingar ef með þyrfti. RSÍ, ásamt BÍL, gerði alvarlegar athugasemdir við þennan nýja lið og dró Stjórn listamannalauna þessa kröfu til baka úr umsókninni.

Skáld í skólum eru að hefja flugið og grunnskólayfirvöld eru duglega að bóka höfundaheimsóknir. Davíð Stefánsson hefur stjórnað verkefninu í ár, ásamt Tinnu Ásgeirsdóttur verkefnisstjóra RSÍ. Þetta haustið er lögð áhersla á skapandi skrif og skapandi hugsun og við bendum félagsmönnum á að kynna sér verkefnið á heimasíðu félagsins: https://rsi.is/hofundamidstod/skald-i-skolum/

Að baki er afar gagnlegur framhalds-aðalfundur sem haldinn var til að ljúka við að manna stjórn RSÍ. Það tókst vel og rækilega því þeir Hermann Stefánsson og Davíð Stefánsson tóku sæti í stjórn og er þá fullt stjórnarhúsið og valinn maður í hverju rúmi.  Útgefendur heimsóttu félagsmenn í Gunnarshús og ræddu stöðuna á útgáfumarkaði. Sitt sýndist hverjum, en ljóst að mun meira sameinar höfunda og útgefendur en sundrar þeim.

Verkefnin eru mörg . Við höldum áfram að berjast gegn virðisaukaskatti á bókum og munum ekki linna látum fyrr en sú ómenningarlega skattpíning leggst af í sjálfu bókmenntalandinu.

Stjórn og bústýrur RSÍ funduðu nýverið með menntamálaráðherra. Slíkir fundir hafa verið reglubundnir, enda mikilvægt að forsvarsmenn sambandsins eigi stöðugt samtal við menningarmálayfirvöld. Að mati viðstaddra var fundurinn gagnlegur. Stjórnarmenn lýstu áhyggjum vegna virðisaukaskattsins. Fram kom að undanfarin ár hefur orðið mikill samdráttur í bóksölu og þá ekki síst eftir að hækkunin tók gildi. Ráðherra deildi þessum áhyggjum og sagði baráttunni alls ekki lokið.  Á fundinum var einnig rætt um mikilvægi þess að standa vörð um Bókasafnssjóð og auka framlög í hann. Vinna við að koma sjóðnum í stöðugra umhverfi stendur enn í ráðuneytinu og stjórn RSÍ mun fylgja því eftir. Ráðherra upplýsti á fundinum að miklar líkur væru á því að frumvarp um innheimtumiðstöð gjalda, IHM, yrði að lögum í haust og er það mikið fagnaðarefni.Þá var rætt um að styðja við skrif fyrir börn og ungmenni með ýmsum aðferðum. Sumsé, góður fundur með ráðherra og þótt hann hverfi til annarra verka höldum við áfram að hamra járnið og vinna með nýjum ráðherra og því ágæta fólki sem áfram starfar í menntamálaráðuneytinu.

Þá höfum við undanfarið verið að skoða hljóðbókasamninginn í samráði við lögmenn, enda löngu tímabært að endurskoða hann með hliðsjón af breyttu landslagi. Sú vinna heldur áfram og við upplýsum félagsmenn um gang mála.

Síðla í október mun RSÍ standa að málþingi um gildi orðlistar í samstarfi við Reykjavík Bókmenntaborg. Það verður jafnframt afmælishátíð Bókmenntaborgar og höfundar eru hvattir til að fjölmenna.

Það er mikið að gera á stóru heimili. Gunnarshús iðar af lífi. Allar vinnustofur eru í fullri notkun og Sögufélagið hefur hreiðrað um sig í Norðurstofu á neðri hæð. Þá er ys og þys á skrifstofunni þar sem þær Ragnheiður og Tinna spila tvíhendis. Í vetur verða höfundakvöld í stofunni á fimmtudagskvöldum. Sú nýbreytni verður að nú skipuleggja höfundar kvöldin sín sjálfir en RSÍ aðstoðar við að auglýsa eftir leiðum sambandsins. Að lokum viljum við minna á að Höfundasjóður auglýsir til umsóknar ferðastyrki höfunda. Umsóknarfrestur er til fyrsta október. Kæru félagar, þetta er nú svona það helsta að sinni. Gangi ykkur vel við ritverkin.

Bestu kveðjur,

Kristín Helga