Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Ritunarþing 11. apríl

Þann 11. apríl nk. standa Félag fagfólks á skólasöfnum, Háskóli Íslands, Kennarasamband Íslands, Menntamálastofnun, Rithöfundarsamband Íslands, Samtök móðurmálskennara og Sögur – Samtök um barnamenningu saman að málþingi til að vekja athygli á ritun í grunnskólum. 


Frítt verður á þingið og veitingar í boði. Allir velkomnir!

Ritunarþing


Áríðandi skilaboð vegna höfundarréttar

Erindi þetta er vegna bréfs fulltrúa Storytel Iceland til félagsmanna RSÍ.

Þegar Storytel á Íslandi opnaði fyrir tæpri viku kom í ljós að þar voru gerð aðgengileg í áskrift verk margra íslenskra höfunda og þýðenda sem aldrei höfðu gefið til þess leyfi eða skrifað undir samninga þar um. Fulltrúi Storytel hafði áður sent RSÍ drög að samningi alþjóðafyrirtækisins til yfirlestrar en ljóst var að ekki var hægt að mæla með að höfundar undirrituðu samninginn óbreyttan heldur þyrftu að fara fram viðræður um breytingar á samningnum til að RSÍ gæti mælt með honum. Um þetta var fulltrúa Storytel kunnugt. RSÍ telur eðlilegast að stéttarfélagið sé sá aðili sem semji við áskriftarveitu á borð við Storytel og lítur RSÍ svo á að þær samningaviðræður hafi verið í burðarliðnum þegar Storytel opnaði í síðustu viku.

Í hefðbundnum útgáfusamningi eins og flestir rithöfundar skrifa undir og er milli FÍBÚT (Félags íslenskra bókaútgefenda) og Rithöfundasambandsins felst EKKI og hefur aldrei falist streymisréttur í áskrift. Þessi afstaða RSÍ hefur legið fyrir allan tímann og sá RSÍ ástæðu til að senda bréf til FÍBÚT í októberbyrjun og ítreka afstöðu sambandsins. Fulltrúi Storytel á Íslandi hefur haft þær upplýsingar um margra mánaða skeið.

RSÍ ítrekar að það er afstaða sambandsins að áskriftarstreymisréttur tilheyri rithöfundum hafi þeir ekki sérstaklega samið um framsal hans. Enn fremur er ástæða til að minna rétthafa á að þeim ber engin skylda til að semja um framsal réttarins til útgefenda, áskriftarveitu eða annarra aðila hafi þeir ekki hug á því.

Lögmaður RSÍ fer með þessi mál fyrir hönd félagsins. Hafið endilega samband við skrifstofu RSÍ með tölvupósti, símtali eða heimsókn í Gunnarshús þar sem skrifstofa RSÍ getur farið vandlega yfir málið með hverjum og einum.

Sýnum samstöðu og stöndum vörð um höfundarréttinn,

Stjórn og starfsfólk RSÍ


Frá stjórn RSÍ

Vegna áskriftarveitunnar Storytel sem farin er af stað hérlendis þá vill stjórn RSÍ árétta eftirfarandi: það er afstaða RSÍ að áskriftarstreymi hafi aldrei nokkurn tíma verið hluti af framseldum réttindum í útgáfusamningi Rithöfundasambandsins og Félags íslenskra bókaútgefenda. Um hann þurfi að semja sérstaklega og hefur það enn ekki verið gert í útgáfusamningi RSÍ og FÍBÚT. Rithöfundasambandið telur engan vafa á því að samningur RSÍ og FÍBÚT feli í sér eintakagerð og eintakasölu, einnig hvað varðar hljóð- og rafbækur, en EKKI heimild útgefenda til útgáfu hljóð- og rafbóka í áskriftarstreymi.

Í útgáfusamningi RSÍ og FÍbút, 1. grein c. um hljóðbækur segir „Sé ekki um annað samið hefur útgefandinn rétt til útgáfu verksins á hljóðbók“ og seinna í sömu grein: „Höfundarlaun skulu reiknast af heildsöluverði samkvæmt 12. gr. og greiðast samkvæmt 13. gr. Um höfundareintök gilda ákvæði 18. gr. Útgefanda er heimilt að gefa út hljóðbók hjá þriðja aðila en er í slíku tilviki ábyrgur fyrir efndum gagnvart höfundinum, s.s. greiðslu höfundarlauna.“ Enn fremur er skýrt tekið fram í 1. grein f. að „Öll önnur réttindi yfir verkinu sem ekki eru undanskilin samkvæmt ákvæðum samnings þessa tilheyra höfundinum“.

Ef höfundur á efni inn á Storytel en hefur ekki samið sérstaklega um það og heldur ekki falið útgefanda sínum að semja um áskriftarstreymisrétt, þá er það afstaða RSÍ að um brot á höfundarrétti sé að ræða.

RSÍ hefur falið lögmanni félagsins, Sigríði Rut Júlíusdóttur, að fara með þetta mál fyrir hönd sambandsins og svarar hún fyrir það opinberlega að svo stöddu.

 


Ályktun

Stjórnir Rithöfundasambands Íslands og Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugangna, lýsa áhyggjum sínum af því að innbundnar bækur verði ekki lengur prentaðar hér á landi en stærsta prentsmiðja landsins, Oddi, mun hætta prentun innbundinna bóka á næsta ári. Við það mun mikil fagþekking glatast sem erfitt getur reynst að ná upp aftur.

Það er mikið hagsmunamál fyrir höfunda að bækur séu prentaðar á Íslandi. Íslenskur bókamarkaður er um margt sérstakur og mesta sölutímabilið stutt. Ljóst er að erfiðara verður að endurprenta bækur en áður og hætt við að vinsælar bækur seljist upp löngu fyrir jól. Þá er líklegt að fyrirkomulagið leiði til meiri sóunar þar sem útgefendur munu líklega láta prenta fleiri eintök af hverjum titli þegar framleiðslutíminn er lengri. Það er vafamál hvort þjóð sem hættir að prenta sínar eigin bækur geti með réttu kallað sig bókaþjóð.


Svör stjórnmálaflokkanna við spurningum stjórnar RSÍ

Hér verða birt, eftir því sem þau berast, svör flokkanna. Þegar hafa svarað: Píratar, Dögun, Flokkur fólksins, Alþýðufylkingin, Vinstrihreyfingin grænt framboð, Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Björt framtíð. Miðflokkurinn er hlynntur því að afnema virðisaukaskatt á bókum, bíður forsvarsmönnum RSÍ að hitta þau eftir kosningar og vísar til heimasíðu sinnar  www.midflokkurinn.is/kosningastefna/ þar sem lesa má stefnu flokksins.

Björt framtíð
Hvert er ykkar viðhorf til virðisaukaskatts á bókum?
Björt framtíð telur virðisaukaskatt á bókum fráleita enda eigi stjórnmálamenn að ráðast í margþættar aðgerðir til að styrkja íslensku og íslenska menningararfleifð.

Hvað viljið þið gera til bjargar íslenskri tungu og bókmenntum í landinu?
Björt framtíð vill taka upp annars konar mælikvarða en hagvaxtarlega þegar kemur að menningu og listum. Líta verður til fleiri þátta mannlífsins s.s. sjálfbærni og almennrar hagsældar til að leggja mælistiku á íslenska tungu og bókmenntir. Móta þarf heildstæða menningarstefnu og í framhaldi aðgerðaráætlun í samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Björt framtíð vill tryggja aðgengi að íslenskum bókmenntum með því að semja við höfunda og útgefendur um aðgengi að honum á netinu, eftir atvikum með takmörkunum á því efni sem er markaðslega söluvænlegt. Við viljum einnig fella niður virðisaukaskatt á bókum.

Hvernig má tryggja aðgengi barna að nýjum íslenskum bókum?
Fyrsta skrefið er að tryggja öfluga og fjölbreytta barnabókaútgáfu með margvíslegu sniði, þ.e. bæði á pappír og stafrænu formi. Með samstarfi ríkis og sveitarfélaga þarf einnig að tryggja aðgengi í gegnum skóla, bókasöfn og hvetja með markvissum hætti til lesturs.


Sjálfstæðisflokkurinn
Hvert er ykkar viðhorf til virðisaukaskatts á bókum?
Sjálfstæðisflokkurinn er almennt fylgjandi því að draga úr álögum á vörur og þjónustu. Það á jafnt við um bækur og annarskonar vörur.

Hvað viljið þið gera til bjargar íslenskri tungu og bókmenntum í landinu?
Það er mikilvægt að standa vörð um sess íslenskunnar  enda fara vaxandi áhrif tölvutækni á daglegt líf fólks ekki fram hjá neinum. Íslensk menning og tunga er það sem gerir okkur að þjóð og við þurfum að sjá til þess að staða tungunnar haldi sessi sínum í heimi upplýsingatækni og gervigreindar. Íslenskan á að verða fullgilt tungumál í stafrænum heimi. Það hversu vel við hlúum að tungu okkar mun ráða úrslitum um stöðu hennar í framtíðinni og því er mikilvægt að hrinda í framkvæmd fyrirliggjandi verkáætlun um máltækni fyrir íslensku sem unnin var að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins.

Hvernig má tryggja aðgengi barna að nýjum íslenskum bókum?
Forsenda þess að börn geti notið bókmennta er að þau séu fær um að lesa sér til gagns. Samhliða átaki í því að auka lestrarfærni og læsi ungs fólks á Íslandi þarf að tryggja fjölbreytt aðgengi að upplýsandi, fræðandi og áhugaverðum bókmenntum. Börn eru sérstaklega móttækileg fyrir hvers konar tækninýjungum. Mörg hver verja orðið töluverðum tíma í notkun snjalltækja. Með aðstoð þeirra eiga þau í samskiptum, sækja sér upplýsingar og nálgast fróðleik. Mikilvægt er að mæta börnum á vettvangi snjalltækjanna með aukinni útgáfu rafrænna bóka. Auka þarf útgáfu barnabóka og efla skólabókasöfn í samráði við sveitarfélög þannig að úrval og gæði bókmennta á skólabókasöfnum mæti nútíma kröfum.


Framsóknarflokkurinn
Hvert er ykkar viðhorf til virðisaukaskatts á bókum?
Framsóknarflokkurinn hefur ítrekað tekið frumkvæði í málum sem snerta Íslenska málverndarstefnu. Þar má m.a. nefna afnám virðisaukaskatts á bækur. Bókaútgáfa er einn af hornsteinum samfélagsins og gegnir mikilvægu hlutverki í menningu okkar og skiptir öllu máli í að halda tungumálinu lifandi. Starfsemi bókaútgáfufyrirtækja hefur vissa sérstöðu sem atvinnugrein um allan heim. Í flestum tilvikum eru þær drifnar áfram af ástríðu og hugsjón. Tekjur af metsölubókum og sísölubókum eru gjarnan nýttar til að gefa út bækur sem eiga sér færri trygga lesendur. Íslensk bókaútgáfa hefur um alllangt skeið verið mjög öflug og fjölbreytileg, og sérstaða hennar er mikil á heimsvísu því hér eru seldar fleiri bækur á hvern íbúa en annars staðar, en að sama skapi er markaðurinn ákaflega smár. Bóksala hefur hins vegar dregist saman um rúm 31% frá árinu 2008 og má segja að um hrun sé að ræða. Þegar svona aðstæður koma upp, þá ber stjórnvöldum að nýta stjórnvaldstæki sín, eins og skattkerfið, og bregðast við. Ein leið er að afnema bókaskatt. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins lagði fram frumvarp á lokadegi síðasta þings um afnám bókaskatts. Bækur eru almennt í lægra skattþrepi meðal þjóða heims og íslensk bókaútgáfa nýtur mun minni beinna styrkja en margar aðrar listgreinar. Gera má ráð fyrir að á móti lækkun tekna ríkissjóðs vegna afnáms virðisaukaskatts af bóksölu muni önnur jákvæð hagræn áhrif koma fram eins og aukin velta í bókaútgáfu sem mun skapa fleiri störf í samfélaginu. Þá eru ótalin önnur jákvæð áhrif af því að efla bókaútgáfu, svo sem aukinn fjölbreytileiki með auknu framboði af bókum ásamt því að styðja við íslenska tungu sem seint verður metið til fjár.

Hvað viljið þið gera til bjargar íslenskri tungu og bókmenntum í landinu?
Framsóknarmenn leggja áherslu á að Íslendingar eru bókaþjóð. Markmið stjórnvalda á að vera að tryggja rithöfundum, útgefendum og þeim sem starfa að útgáfu bóka sem tryggastan atvinnugrundvöll, ásamt því að stuðla að góðu aðgengi að bókum og bókmenntum fyrir alla. Lestur er snar þáttur í málþroska barna og undirstaða alls náms og kröftug barnabókaútgáfa því mikilvæg en öflug námsbókaútgáfa á öllum skólastigum skiptir sömuleiðis miklu máli. Einnig þarf að tryggja sérstaklega að íslensk máltækni fái það fjármagn sem þarf til að byggja upp nauðsynleg hjálpartæki svo íslenskan verði einnig það tungumál sem við notað í stafrænum heimi snjalltækja og tækninýjunga.

Hvernig má tryggja aðgengi barna að nýjum íslenskum bókum?
Framsóknarflokkurinn hefur markað sér skýra stefnu um styrkingu íslenskrar tungu og lagt fram tillögur til að styðja betur við íslenska bókmenntastefnu. Menntun, skólar og bækur eru lykill að framförum og því mikilvægt að efla allt er viðkemur skapandi skrifum, lestri og útgáfu. Læsi er forsenda þekkingar og lykill að sjálfsvirðingu. Niðurstöður PISA-rannsóknar frá 2015 sýna að Ísland kemur lakast út á Norðurlöndunum í stærðfræðilæsi, lesskilningi og vísindalæsi og er auk þess undir OECD-meðaltali. Ljóst er að þessi árangur í PISA-rannsókninni er óásættanlegur. Íslensk tunga á undir högg að sækja. Öflug útgáfa á frumsömdu og þýddu fræðslu- og kennsluefni á öllum skólastigum er nauðsynleg til að styrkja innlent fræðastarf og auðga íslenska tungu af hugtökum og íðorðum á öllum sviðum.


Samfylkingin
Hvert er ykkar viðhorf til virðisaukaskatts á bókum?
Samfylkingin telur rétt að virðisaukaskattur á bækur sé 0% og formaðurinn, Logi Einarsson, var meðflutningsmaður á frumvarpi um málið. Við erum meðvituð um að bókaútgáfa á örmarkaði er viðkvæm og eðlilegt að veita henni meiri stuðning en nú er enda er öflug bókaútgáfa hornsteinn í menningu þjóðarinnar og undirstaða læsis.

Hvað viljið þið gera til bjargar íslenskri tungu og bókmenntum í landinu?
Auk þess að afnema skatt á bækur vill Samfylkingin ráðast í gerð aðgerðaráætlunar í samræmi við íslenska menningarstefnu sem samþykkt var á Alþingi 2013 í víðu samráði við fulltrúa menningarlífsins, sveitarfélaga og annarra. Íslenska er örtungumál sem nauðsynlegt er að styðja sérstaklega. Það gerum við einkum með því að styrkja íslenska fjölmiðlun, kvikmyndagerð, íslenska dagskrá og sér í lagi íslenskar bókmenntir og þýðingar. Mikilvægt er að tryggja stöðu tungumálsins í skólakerfinu á öllum skólastigum. Í breyttum heimi þar sem tæknin verður sífellt stærri hluti af daglegu lífi þarf að tryggja að íslenskan verði gjaldgeng í hinni stafrænu veröld.

Hvernig má tryggja aðgengi barna að nýjum íslenskum bókum?
Stórefla þarf ritun íslenskra barnabók og dreifingu þeirra í gegnum skólakerfið þar sem við náum til allra barna. Líta ber til Norðurlandanna er kemur að stuðningi við barnabókaútgáfu og dreifingu bókmennta til barna. Samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem hefur verið lögfestur hér á landi skal ríkið tryggja að barnabækur séu skrifaðar og þeim sé dreift. Þá skortir innkaupaviðmið á skólabókasöfnum þar sem sumir skóla standa mynduglega að skólasöfnum en í öðrum er bókasafnið í mýflugumynd. Þetta misrétti þarf að laga til að tryggja öllum börnum aðgang að bókum sem endurspegla uppruna þeirra, samfélag og samtíma. Þá þarf að stórefla þýðingar barnabóka og tryggja að mögulegt sé að gefa út bækur sem standa ekki undir sér á markaði. Allar kynslóðir íslenskra barna þurfa að eiga sínar barnabókmenntir því án bókmenntauppeldis verða engir lesendur í framtíðinni. 


Vinstrihreyfingin grænt framboð
Hvert er ykkar viðhorf til virðisaukaskatts á bókum?
Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur að afnema eigi virðisaukaskatt á bókum. Afnám virðisaukaskatts á bókum styður við bókaútgáfu, íslenska tungu og menningu. Öflug bókaútgáfa er ein af forsendum fyrir því að íslenskan lifi og ein af meginstoðum blómlegs menningarlífs og félagslegra innviða samfélagsins.

Hvað viljið þið gera til bjargar íslenskri tungu og bókmenntum í landinu?
Það er mikilvægt að bregðast strax við stöðu íslenskrar tungu með raunhæfum og metnaðarfullum aðgerðum. Það þarf að tryggja að tækni sé aðgengileg á íslensku og það þarf að bæta stöðu lista, menningar og skapandi greina innan stjórnsýslunnar og menntakerfisins. Styðja þarf betur við bókaútgáfu, bæði með afnámi virðisaukaskatts á bækur og með öflugri stuðningi við rithöfunda í gegnum sjóðakerfið. Tryggja þarf skólabókasöfnum fé til innkaupa svo öll börn hafi aðgengi að bókum. Þá er einnig mikilvægt að hlúa vel að móðurmálskennslu og útvega lesefni á móðurmáli fyrir þau börn sem hafa ekki íslensku sem fyrsta mál, því gott vald á móðurmáli er forsenda annars tungumálanáms.

Vinstihreyfingin – grænt framboð fagnar því að loksins eigi að ráðast í aðgerðir á sviði máltækni en ítrekar að mikilvægt er að auka nú þegar við menntun á þessu sviði.

Hvernig má tryggja aðgengi barna að nýjum íslenskum bókum?
Vinstrihreyfingin – grænt framboð ítrekar að tryggja þarf gott aðgengi barna að fjölbreyttum bókum. VG leggur ríka áherslu á að skólabókasöfn séu styrkt mynduglega og að safnakosturinn sé fjölbreyttur og styðji við áhugasvið og nám barna. Þá þarf einnig að efla útgáfu frumsaminna og þýddra barnabóka á íslensku. Það þarf að tryggja betur rekstrarumhverfi útgáfu barnabóka, sem oft borgar sig ekki, með því að barnabækur séu styrktar í sjóðakerfinu.


Alþýðufylkingin:
Hvert er ykkar viðhorf til virðisaukaskatts á bókum?
Alþýðufylkingin vill afnema skatt á bækur og aðrar nauðsynjar.

Hvað viljið þið gera til bjargar íslenskri tungu og bókmenntum í landinu?
Alþýðufylkingin vill að íslenska ríkið kosti ókeypis íslenska orðabók á internetinu. Líka að það borgi það sem það kostar að íslenska verði raunhæfur valkostur í hinum stafræna heimi. Bókmenntir í landinu eru nú ekki á flæðiskeri staddar. Við erum ekki með einhver snjallræði til að bjarga þeim. En við viljum hafa opinberan stuðning við menningu, enda skapar hann eins konar burðargrind sem önnur menning getur vaxið utan í.

Hvernig má tryggja aðgengi barna að nýjum íslenskum bókum?
Til að byrja með eiga þær að vera ódýrar og höfundar þeirra eiga að hafa efni á að vinna við að skrifa þær. En kannski er aðalatriðið að þau læri í skólanum að njóta bóka. Við viljum að íslenskukennsla leggi meiri áherslu á það að njóta íslenskunnar, leika sér með hana, hafa gaman af henni o.s.frv. enda er það sennilega sterkari rótfesta heldur en utanbókarlærdómur.


Flokkur fólksins:
Flokkur fólksins vill standa vörð um íslenska tungu og íslenska menningu, þar á meðal bókmenntaarf Íslendinga og bókmenntalega nýsköpun í landinu.

Hvert er ykkar viðhorf til virðisaukaskatts á bókum?
Flokkur fólksins gerir sér grein fyrir að sótt er á um að lækkaður verði virðisaukaskattur á bækur. Með hliðsjón af stuðningi við íslenska tungu vill flokkurinn auka eftir mætti stuðning stjórnvalda við bókmenntir í  þessu tilliti.

Hvað viljið þið gera til bjargar íslenskri tungu og bókmenntum í landinu?
Flokkur fólksins vill renna stoðum undir íslenska tungu og bókmenningu. Standa verður vörð um viðunandi starfslaun rithöfunda ásamt stuðningi við þýðingar á erlendum bókum. Efla þarf íslenskunám á öllum skólastigum og gæta að því að aðalnámsskrá tryggi fullnægjandi kennslu í íslensku í skólum. Búa verður vel að íslenskum fræðum sem kennslu- og rannsóknargrein. Þá leggur Flokkur fólksins áherslu á átak í máltækni, þar á meðal að tölvuforrit, sem mikið eru notuð í daglegu lífi, séu gædd vönduðum þýðingum á íslenska tungu.

Hvernig má tryggja aðgengi barna að nýjum íslenskum bókum?
Flokkur fólksins telur að hækka mætti fjárframlög til almenningsbókasafna og skólabókasafna með það að markmiði að gera kleift að bjóða ávallt upp á nægilegan fjölda af nýjum frumsömdum og þýddum bókum til að nýtist börnum að fullu. Til greina kemur að auka kröfur námsskráa um lestur bókmenntaverka.


Dögun:
Hvert er ykkar viðhorf til virðisaukaskatts á bókum?
Ætti að lækka virðisaukann til þess að efla lestur barna og ungmenna, auk foreldra þeirra því það læra börnin sem fyrir þeim er haft.

Hvað viljið þið gera til bjargar íslenskri tungu og bókmenntum í landinu?
Auka aðgengi að rafbókum og útgáfu þeirra, efla notkun íslensku í tæknimiðlun

Hvernig má tryggja aðgengi barna að nýjum íslenskum bókum?Hvetja börnin til þess að nýta sér í meira mæli bókasöfn og rafbækur í m.a. spjaldtölvum.


Píratar:
Hvert er ykkar viðhorf til virðisaukaskatts á bókum?
Við viljum afnema virðisaukaskatt á bækur.

Hvað viljið þið gera til bjargar íslenskri tungu og bókmenntum í landinu?
Efla opinn og frjálsan hugbúnað á íslensku þannig að tæki framtíðarinnar geti notast við tungumálið. Það þarf að skoða sérstaklega þátt erlendra efnisveita, styðja við textun á erlendu efni. Sérstaklega þarf að skoða aðgengi að íslensku efni á netinu og láta það þróast með áhorfsvenjum ungs fólks.

Hvernig má tryggja aðgengi barna að nýjum íslenskum bókum?
Með því að setja peninga í skólabókasöfn í stað þess að setja þá í herferðir sem ganga meira út á sýndarmennsku en að auka raunverulegt læsi. Öflug skólabókasöfn eiga að hafa nægt úrval af nýjustu bókunum og greiða höfundum fyrir að koma og lesa upp fyrir börn.Ályktun frá stjórn Rithöfundasambands Íslands um tjáningarfrelsið.

Stjórn Rithöfundasambands Íslands fordæmir lögbann sýslumannsins í Reykjavík á fjölmiðlana Stundina og Reykjavík Media. Yfirvöldum í lýðræðissamfélagi ber skylda til að standa vörð um tjáningarfrelsið. Málfrelsi og frelsi einstaklinga og fjölmiðla til tjáningar og umfjöllunar er hornsteinn siðmenningar og lýðræðis.
Valdbeiting gegn tjáningarfrelsi er aðför gegn lýðræðinu. Við hörmum að slíkt geti gerst í okkar upplýsta landi og skorum á sýslumann að afturkalla lögbann sitt.

Lifi tjáningarfrelsið!
Stjórn Rithöfundasambands Íslands


Framtíð bókmennta og íslenskrar tungu – opinn fundur með frambjóðendum allra flokka

Félag íslenskra bókaútgefenda og Rithöfundasamband Íslands bjóða frambjóðendum allra flokka til fundar og pallborðsumræðna um stöðu íslenskra bókmennta og tungumáls. Stjórnandi er Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Fundurinn verður haldinn miðvikudaginn 18. október næstkomandi í Þjóðmenningarhúsinu kl. 10:00, árdegis.

Blikur eru á lofti í bókaútgáfu, örtungan er í útrýmingarhættu og skóla- og héraðsbókasöfn eru svelt af nýjum bókakosti um leið og útlánum fer fækkandi. Barnabókaútgáfan stendur í járnum og útgáfa námsgagna fyrir framhaldsskóla er langt undir þolmörkum. Rætt verður um virðisaukaskatt á bækur, aðgerðir til bjargar íslenskri tungu og bókmenntum og aðgengi að nýjum íslenskum bókum – svo fátt eitt sé nefnt sem brennur á þessari grunngrein menningar og menntunar.

Unnendur íslenskrar tungu og bókmennta fjölmennið!


Slide1.JPG


BarnabókinSíung- samtök barnabókahöfunda standa fyrir ráðstefnu um barnabókina i Ráðhúsinu kl. tvö í dag. Ráðstefnan ber yfirskriftina ,,Barnabókin er svarið.“

Neyðaráætlun fyrir íslenska tungu
Höfum eitt á hreinu, svo það sé sagt, skrifað og lesið upphátt. Íslendingum þykir heilt yfir ekkert sérlega vænt um tungumálið sitt. Þeir bera litla virðingu fyrir því, ýta því til hliðar og eðlilega er þá þetta tungumál á hröðu undanhaldi. Íslenskan er vanrækt og vannærð örtunga í útrýmingarhættu og hvergi virðist neyðaráætlun sjáanleg. Til samanburðar við risastóru nágrannalöndin má geta þess að Norðmenn skilgreina norsku sem örtungu í útrýmingarhættu og fylgja sérlegri aðgerðaráætlun til að viðhalda og bjarga norskri tungu og bókmenntum.

Gröf íslenskra fræða
Hvað veldur þessu virðingarleysi fyrir þjóðararfinum? Er þetta ekki latína norðursins sem þó er enn töluð? Kannski finnst okkur þetta tungumál skilgreina okkur sem smælki í alþjóðlega samhenginu, gera okkur pínulítil og púkaleg á torgum stórþjóða. Fyrir vikið er íslenskunni ekkert sérstaklega hampað hér í heimalandinu, nema kannski þennan dag í nóvember þegar hann Jónas fæddist. Merki vanrækslunnar eru víða og hróplegasta táknið er gröf íslenskra fræða. Pyttur sem sýnir táknrænt viðmót þjóðar til móðurmáls. Þar í forinni liggur sorglega sjálfsmyndin. Okkar Louvre og Lundúnarturn sem á að varðveita gersemarnar. Og af því að mörg okkar skilja fyrirbærin betur ef hægt er að tengja þau viðskiptahagsmunum þá liggja ónýtt tækifæri í því að sýna ekki gestum, okkur sjálfum og skólabörnum þúsund ára gamlar bækur á tungumáli sem enn er talað. En líklega er tungumálið of svipað súrefni í notkun. Það er bara þarna og við söknum þess ekki fyrr en það er horfið. Kjörnir fulltrúar og viðskiptajöfrar leggja sumir til að íslenskunni verði sleppt í stórvægilegum daglegum skýrslugerðarverksmiðjum stjórnmála- og viðskipta til að auðvelda, spara og stytta boðleiðir. Tungumál eru eins og landslag og þegar eitt hverfur myndast eyðimörk með uppfoki.

Felum tungumálið
En um leið flæða hingað ferðamenn sem aldrei fyrr. Við keppumst við að þýða allt viðmót til ferðamannsins, felum tungumálið og tökum á móti gestum á syngjandi amerísku svo heimstungan enska ber ekki einu sinni keim af íslensku. Kveðjuorðin okkar eru lítt notuð og á undraverðum tíma hefur tekist að skapa fullkomið enskt viðmót við ferðamönnum. ,,Börn eru svo tvítyngd nú til dags,“ segja þá einhverjir. En staðreyndin er sú að algengara er að börn sitji uppi með tvö hálfmál ef þau eru ekki sterk í sínu móðurmáli. ,,Svona er þetta allsstaðar,“ segja þá aðrir. En, nei, þetta er alls ekki svona allsstaðar. Yfirferð um Evrópu sýnir virðingu og væntumþykju á heimavöllum gagnvart frönsku, þýsku, flæmsku, svissnesku. Og það er ljúft að heyra tungumál á framandi stað, glíma jafnvel við það sjálfur og sjá það, heyra það og fá í fangið. Það er hluti af því að ferðast og upplifa. Tungumál er hljóðmynd hvers lands.

Barnabókin er svarið
Við eigum ekki kastala og hallir, bara þetta tungumál sem er okkar stóri þjóðararfur. Við skattpínum bókaútgáfu, getum ekki gefið út myndskreyttar barnabækur og fjársveltum öll skóla- og héraðsbókasöfn landsins í innkaupum á nýju efni fyrir börn. Ef við viljum lesa áfram á þessu tungumáli, hugsa og skilgreina okkur út frá því verðum við að grípa til aðgerða líkt og norðmenn og fleiri þjóðir hafa gert. Barnabókin er grunnliturinn í stóru myndinni. Hún er grunnurinn að læsi þeirra sem taka við kefli og halda áfram. Læsi er lykill að tungumáli og það er margsannað að því færara sem barn er á sínu móðurmáli þeim mun sterkara verður það í öðrum tungumálum. Við þurfum neyðaráætlun til bjargar íslenskri tungu og bókmenntum. Stjórnvöld bera þessa ábyrgð. Barnabókin er svarið og þeir sem stýra þjóðarheimilinu þurfa að hanna menningaráætlun fyrir tungumál og bókmenntir og fylgja henni fast og strax.

Kristín Helga Gunnarsdóttir