Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Íslensku barnabókaverðlaunin

Er_ekki_i_lagi_72

 

Elísa Jóhannsdóttir hlýtur Íslensku barnabókaverðlaunin 2017 fyrir bók sína Er ekki allt í lagi með þig? Elísa er bókmenntafræðingur að mennt og þetta er fyrsta skáldsaga hennar.

Í umsögn dómnefndar segir: „Er ekki allt í lagi með þig? er skemmtileg og spennandi unglingasaga í hæsta gæðaflokki, sem fjallar á nýstárlegan hátt um einelti frá sjónahóli bæði gerenda og þolenda.“


Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2017

jrg

Jónas Reynir Gunnarsson hlaut í dag Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2017 fyrir ljóðahandritið Stór olíuskip. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri veitti verðlaunin sem nema 700 þúsund krónum. Fyrstu eintök af bókinni komu um leið úr prentun í útgáfu bókaforlagsins Partusar.

Jónas Reynir Gunnarsson er fæddur 1987. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Egilsstöðum og grunn- og meistaranámi í ritlist frá Háskóla Íslands. Jónas hefur birt ljóð í Tímariti Máls og menningar og Stúdentablaði Háskóla Íslands, þar sem hann hlaut fyrsta sæti í árlegri ljóðakeppni blaðsins 2014.

Árið 2015 varð hann hlutskarpastur í leikritunarkeppni sviðslistadeildar Listaháskóla Íslands með verkinu Við deyjum á Mars og sama ár kom út smásagan Þau stara á mig hjá Partusi. Fyrsta ljóðabók Jónasar, Leiðarvísir um þorp, kom einnig út hjá Partusi haustið 2017, sem og fyrsta skáldsaga hans, Millilending. Svo skemmtilega vill til að Jónas mun leiða smiðju skálda í alþjóðlega verkefninu Waters and Harbours in the North sem Bókmenntaborgin Reykjavík stendur fyrir vikuna 16. – 21. október. Skáldin vinna saman að textum sem tengjast hafnarborgum.

Alls barst 51 óbirt ljóðahandrit undir dulnefni. Dómnefndina skipuðu Úlfhildur Dagsdóttir formaður, Þórarinn Eldjárn og Illugi Gunnarsson.


Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar

SS

Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar voru afhent í 10. skiptið þann 26. ágúst. Hlaut Steinunn Siguðardóttir verðlaunin fyrir bók sína „Af ljóði ertu komin.“ Auk ljóðaverðlaunanna voru afhent við sama tilefni Borgfisku Menningarverðlaunin, og komu þau í hlut þjóðlagasveitarinnar Slitinna strengja.

Verðlaunin eru afhent úr Minningarsjóði Guðmundar Böðvarssonar skálds og bónda og konu hans Ingibjargar Siguðardóttur. Yfirlýst hlutverk sjóðsins er að vekja athygli á því sem vel er gert í menningarmálum í Borgarfjaðarhéraði og ljóðlist á Íslandi. Fyrst voru veittar viðurkenningar úr sjóðnum árið 1991, en milli verðlaunaafhendinga hafa liðið 2-4 ár.

Kjarni Steinunnar býr í ljóðinu

Ljóðabók Steinunnar Sigurðardóttur Af ljóði ertu komin kom út haustið 2016 og vísar titillinn í þá staðreynd að Steinunn hóf feril sinn sem ljóðskáld, og líkt og segir í fréttatilkynningu „hefur hún aldrei sagt skilið við þann kjarna höfundarverks síns.“

„Helstu höfundareinkenni Steinunnar hafa löngum verið talin myndrænn stíll, sterkar og frumlegar náttúrulýsingar, undirfurðulegur húmor og léttleiki, þótt sársauki og tregi búi oft að baki. Ljóðin geta verið tvíræð og margræð, ástin og ástarsorgin eru tíðum viðfangsefni skáldsins, dauðinn kom snemma til sögunnar og gerist býsna fyrirferðarmikill í nýjustu bókinni, Af ljóði ertu komin.

Allt er undirbúningur.
Undir það sem ekkert er.
Dauðann, þannig séð.

Steinunn Sigurðardóttir er tvímælalaust í röð fremstu skálda og rithöfunda Íslands með langan og glæsilegan feril að baki.“

Hún hefur notið almennra vinsælda og viðurkenningar, einkum fyrir skáldsögur sínar, hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Hjartastað 1995 og verk hennar hafa verið þýdd á fjölmörg tungumál.

Heilsteyptur flutningur þjóðlaga

Slitnir strengir er fiðlusveit af Akranesi. Skúli Ragnar Skúlason er stjórnandi sveitarinnar og stofnaði hana árið 2001 þegar hann hóf störf sem kennari við Tónlistarskóla Akraness. Nú eru 19 fiðluleikarar í hópnum ásamt þremur meðleikurum. Hópurinn blandar saman hljóðfæraleik, söng og talkór og þykir útkoman vera heilsteyptur flutningur verka sem mest megnis eru þjóðlög af írskum, skoskum og íslenskum uppruna.

Sveitin á að baki fjölmarga tónleika innanlands sem utan, auk samstarfsverkefna með ýmsum tónlistarmönnum. Sveitin hefur gefið út tvær plötur, Milli tveggja heima árið 2007 og Slitna strengi sem kom út í vor. Hópurinn hlaut menningarverðlaun Akranesskaupstaðar árið 2009 og voru útnefnd Bæjarlistamenn Akraness 2016.


Tilnefningar til Ísnálarinnar 2017

Nú liggja fyrir tilnefningar til Ísnálarinnar 2017, en þau verðlaun eru veitt fyrir bestu þýddu glæpasöguna á íslensku, þar sem saman fara góð þýðing og góð saga. Í ár eru tilnefnd þessi verk:

Speglabókin (The Book of Mirrors) eftir E.O. Chirovici í þýðingu Magneu J. Matthíasdóttur.

Hrafnamyrkur (Raven Black) eftir Ann Cleeves í þýðingu Snjólaugar Bragadóttur.

Hjónin við hliðina (The Couple Next Door) eftir Shari Lapena í þýðingu Ingunnar Snædal.

13 tímar (13 uur) eftir Deon Meyer í þýðingu Þórdísar Bachmann.

Löggan (Politi) eftir Jo Nesbø í þýðingu Bjarni Gunnarssonar.

Tilkynnt verður um vinningshafa í nóvember, en þetta er fjórða árið sem verðlaunin verða veitt, en áður hafa hlotið verðlaunin Joël Dicker og Friðrik Rafnsson, Jo Nesbø og Bjarni Gunnarsson og Marion Pauw og Ragna Sigurðardóttir.

Að verðlaununum standa Iceland Noir glæpasagnahátíðin, Hið íslenska glæpafélag og Bandalag þýðenda og túlka. Dómnefnd skipuðu Katrín Jakobsdóttir, Kolbrún Bergþórsdóttir, Jóhann R. Kristjánsson og Ragnar Jónasson.


Arnaldur Indriðason fékk Blóðdropann árið 2017

Arnaldur Indriðason með Blóðdropann

Arnaldur Indriðason með Blóðdropann

Blóðdropinn, íslensku glæpasagnaverðlaunin, var afhentur í 11. sinn 22. júní sl. en Arnaldur Indriðason hlaut verðlaunin fyrir bókina Petsamo (2016). Að sögn Guðrúnar Ögmundsdóttur fulltrúa dómnefndar fellur hún í flokk með allra bestu íslenskum glæpasögum. Petsamo fer sem framlag Íslands í keppnina um bestu norrænu glæpasöguna, Glerlykilinn, en þau verðlaun hefur Arnaldur unnið tvisvar sinnum áður.

Petsamo er þriðja bók Arnaldar í seríunni um lögreglumennina Flóvent og Thorsson. Hinar eru Skuggasund (2013) og Þýska húsið (2015). Sagan gerist árið 1943 í Reykjavík og fjallar um atburði sem gerast eftir að lík rekur á fjörur í Nauthólsvík.

Rithöfundasamband Íslands óskar Arnaldi til hamingju með Blóðdropann 2017!


Guðrún Helgadóttir borgarlistamaður

Guðrún Helgadóttir, rithöfundur, var útnefnd borgarlistamaður Reykjavíkur þann 17. júní sl. Útnefningin  er heiðursviðurkenning til listamanns sem með listsköpun sinni hefur skarað fram úr og markað sérstök spor í íslensku listalífi.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Guðrún Helgadóttir rithöfundur og borgarlistamaður ásamt Elsu Hrafnhildi Yeoman formanni menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar. Mynd: Reykjavíkurborg.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Guðrún Helgadóttir rithöfundur og borgarlistamaður ásamt Elsu Hrafnhildi Yeoman formanni menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar. Mynd: Reykjavíkurborg.

Guðrún gaf út sína fyrstu bók, Jón Odd og Jón Bjarna, árið 1974 og hefur upp frá því verið einn vinsælasti og virtasti barnabókahöfundur Íslands. Guðrún hefur sent frá sér 25 bækur sem þúsundir íslenskra barna hafa alist upp við og notið auk leikhandrita, kvikmynda og sjónvarpsþátta. Helsti styrkur Guðrúnar sem rithöfundar felst að mati gagnrýnenda í þeirri virðingu sem hún ber fyrir börnum jafnframt því að geta séð spaugilegar hliðar á flestum málum. Verk hennar hafa verið þýdd á fjölmörg tungumál í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu. Bækur Guðrúnar hafa hlotið góða dóma heima og erlendis þar sem menn hafa skipað henni á bekk með barnabókahöfundum á borð við Astrid Lindgren og Thorbjörn Egner. Guðrún Helgadóttur hefur þá náðargáfu að geta sett sig í spor barns og sagt frá heiminum eins og það sér hann.  Bækur hennar bera alltaf með sér góðan boðskap og réttur og staða þeirra sem minna mega sín eru henni hjartfólgin.  Guðrún er enn að skrifa fyrir börn á öllum aldri og því er fjársjóður okkar alltaf að stækka.  Árið 2005 kom út safn greina um verk Guðrúnar Helgadóttur eftir ýmsa fræðimenn undir heitinu Í Guðrúnarhúsi.

Lesa meira