Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Ísnálin 2019

Sjöunda september, var Ísnálin 2019 afhent í Borgarbókasafninu, en hún er veitt fyrir bestu þýðingu á glæpasögu. Friðrik Rafnsson hlaut verðlaunin að þessu sinni, fyrir þýðingu sína „Þrír dagar og eitt líf“ eftir Pierre Lemaitre (Útgefandi: JPV útgáfa).

Auk Bandalags þýðenda og túlka standa Hið íslenska glæpafélag og Þýðingasetur Háskóla Íslands að verðlaununum.

Tilnefnd auk Friðriks voru:
Einar Örn Stefánsson, fyrir þýðingu sína „Stúlkan með snjóinn í hárinu“ eftir Ninni Schulman (Ugla útgáfa)
Elín Guðmundsdóttir, fyrir þýðingu sína „Mínus átján gráður“ eftir Stefan Ahnhem (Ugla útgáfa)
Nanna B. Þórsdóttir, fyrir þýðingu sína „Líkblómið“ eftir Anne Mette Hancock (JPV útgáfa)
Þórdís Bachmann, fyrir þýðingu sína „Glerstofan“ eftir Ann Cleeves.

Við óskum tilnefndum og verðlaunahafa innilega til hamingju!


Lilja Sigurðardóttir fær Blóðdropann 2019

Lilja Sigurðardóttir hlaut Blóðdropann 2019 fyrir skáldsögu sína Svik, en verðlaunin eru veitt ár hvert fyrir bestu íslensku glæpasöguna,

Þetta er annað árið í röð sem Lilja hlýtur verðlaunin, en í fyrra hlaut hún þau fyrir bókina Búrið, lokabók í þríleik.

Dómnefnd verðlaunanna í ár skipuðu Kristján Atli Kristjánsson, Páll Kristinn Pálsson og Vera Knútsdóttir. Í umsögn þeirra um verðlaunabókina segir:

Dómnefnd Blóðdropans las spennubækur þær er gefnar voru út á árinu 2018 og var á einu máli að um væri að ræða mjög farsælt og sterkt ár fyrir glæpaunnendur. Flóra íslensku glæpasögunnar hefur styrkst og dafnað undanfarin ár, eins og úrval sagna ársins 2018 bar vitni um og vill dómnefnd óska höfundum, útgefendum og lesendum glæpasagna til hamingju með uppskeruna.

Dómnefnd var þó á einu máli um að Svik eftir Lilju Sigurðardóttur stæði upp úr á sterku ári. Sagan er hörkugóður pólitískur spennutryllir og ferskur andblær í íslenska glæpasagnahefð sem hefur ekki oft tekið á spillingu í íslenskum stjórnmálum. Helsta vægi sögunnar er margslungin fléttan sem nýtur sín í öruggum höndum höfundar. Þá prýðir söguna ríkulegt persónugallerý sem segja má að sé stærsti kostur Lilju, en hún er sérstaklega góð í að skapa sannfærandi persónur sem auðvelt er að hrífast með. Svik sver sig í ætt við skandinavísk ættmenni sín á sviði glæpabókmennta, er í senn vel skrifuð og æsispennandi. Þetta er annað árið í röð sem Lilja hlýtur Blóðdropann en hún vann í fyrra fyrir skáldsöguna Búrið. Svik verður tilnefnd sem framlag Íslands til Glerlykilsins sem besta norræna glæpasagan og verður það einnig annað árið í röð sem hún er tilnefnd til þeirra verðlauna.


Haraldur Jónsson borgarlistamaður Reykjavíkur 2019

Haraldur Jónsson, Dagur B. Eggertsson og Pawel Bartoszek

Haraldur Jónsson, myndlistarmaður og rithöfundur, var útnefndur borgarlistamaður Reykjavíkurborgar 2019 við hátíðlega athöfn í Höfða þann 17. Júní sl. Útnefningin  er heiðursviðurkenning til listamanns sem með listsköpun sinni hefur skarað fram úr og markað sérstök spor í íslensku listalífi. Pawel Bartoszek, formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs sagði Harald vel að titlinum kominn. „. Hann hefur undanfarin 30 ár markað afgerandi spor í íslenska listasögu. Leiðarstef í verkum Haraldar er skynjun mannsins á umhverfi sínu og ekki síður skynjun okkar á okkur sjálfum sem fyrirbærum í umhverfinu. Hann hefur með einstökum hætti og af einurð skoðað tengsl vitundarinnar eins og hún birtist okkur sem farvegur ytra áreitis og innra lífs.“

Haraldur Jónsson er fæddur í Helsinki þann 23. apríl 1961. Eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1980 lá leið hans til Frakklands þar sem hann stundaði nám í frönskum bókmenntum og menningarsögu við Paul Valéry háskólann í Montpellier og síðan myndlist við háskólann í Aix en Provence 1982-1983. Hann nam við Myndlistaskólann í Reykjavík og Myndlista-og handíðaskólann þaðan sem hann útskrifaðist 1987. Haraldur lauk Meisterschüler gráðu frá Listaakademíunni í Düsseldorf í Vestur –Þýskalandi árið 1990 og var styrkþegi Parísarborgar við Institut des Hautes Études en Arts Plastiques í París, Frakklandi 1991-1992. Verk Haraldar hafa verið sýnd á öllum helstu sýningarstöðum hér á landi og einnig alþjóðlega.

Haraldur hefur haldið tugi einkasýninga og tekið þátt í ótal samsýningum um víða veröld. Verk hans eru í eigu helstu opinberu safna á Íslandi sem og í einkasöfnum í Evrópu og Bandaríkjunum. Ferill hans er fjölbreyttur og miðlarnir ólíkir en rauði þráðurinn er tilraun til þess að eima tilveruna. Í þrjá áratugi hefur Haraldur skoðað hvernig við greinum umhverfi okkar, vinnum úr upplifun, tjáum okkur og eigum í samskiptum hvert við annað. Hver eru tengsl manns og rýmis, vitundar og umhverfis?

Haraldur hefur sent frá sér bækur og þýðingar og fyrsta bók hans, stundum alltaf, kom út hjá bókaforlaginu Bjarti 1995 og verkið Fylgjur árið 1998. Það hlaut Menningarnæturverðlaun Reykjavíkurborgar og var einnig tilnefnt til Menningarverðlauna DV í bókmenntum. Árið 2001 gaf Bjartur út verk hans EKKI, ástarsaga.

Meðal þýðinga eftir Harald eru Hugmyndabókin sem kom út hjá Sölku árið 2008 og TSOYL kom út hjá bókaforlaginu Útúrdúr árið 2010. Haraldur hefur einnig skrifað útvarpsleikrit og kvikmyndahandrit og flutti Útvarpsleikhúsið verk hans Mannlaus íbúð árið 1997.

Rithöfundasamband Íslands óskar Haraldi innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Lesa meira.


Nýræktarstyrkir 2019

Fimmtudaginn 6. júní, veitti Miðstöð íslenskra bókmennta tveimur nýjum höfundum Nýræktarstyrki fyrir verk þeirra, en hvor styrkur nemur 500.000 kr. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti styrkina við athöfn í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins.

Nýræktarstyrkir eru veittir árlega vegna skáldverka höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum, óháð aldri, og til að hvetja þá til frekari dáða á þeirri braut. Átt er við skáldverk í víðri merkingu; sögur, ljóð, leikrit og fleira.

Nýræktarstyrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta 2019 hljóta eftirtalin verk og höfundar:

IMG_4617

Í gegnum þokuna

Barnabók

Höfundur: Auður Stefánsdóttir (f. 1983) er með BA gráðu í íslensku og meistaragráðu í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands og kennsluréttindi á framhaldsskólastigi. Auður er íslenskukennari í framhaldsskóla og er í meistaranámi í ritlist við Háskóla Íslands meðfram kennslu.

Umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið:

Í gegnum þokuna er fantasíubók fyrir börn um baráttu góðs og ills, dauðann og lífið. Höfundur tekur á viðkvæmu málefni á fágaðan hátt og fléttar saman við spennandi atburðarás á flöktandi mörkum raunveruleika og ímyndunar. Textinn er skýr og aðgengilegur, lýsingar á handanheiminum hugmyndaríkar og margar skemmtilegar skírskotanir í hvernig er að vera krakki á Íslandi í dag.”

IMG_4629

Afkvæni

Smásagnasafn

Höfundur: Kristján Hrafn Guðmundsson (f. 1979) er bókmenntafræðingur með kennsluréttindi og kennir íslensku, heimspekisamræðu og kvikmyndalæsi í grunnskóla. Kristján þýddi bók Haruki Murakami Það sem ég tala um þegar ég tala um hlaup og hafði umsjón með menningarumfjöllun DV 2007–2010.

Umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið:

Afkvæni er safn smásagna sem eiga það sameiginlegt að gerast í hversdagslegum íslenskum samtíma. Sögurnar eru grípandi, persónulýsingar skarpar og textinn er skrifaður á blæbrigðaríku máli. Smávægilegum atvikum er gjarnan lýst á spaugilegan hátt; andrúmsloftið er létt og leikandi en um leið tekst höfundi að miðla samspili gleði og alvöru af sérstakri næmni.”

Að vali styrkhafa standa bókmenntaráðgjafar Miðstöðvar íslenskra bókmennta, sem í ár eru þau Þórdís Edda Jóhannesdóttir og Bergsteinn Sigurðsson.

Tólfta úthlutun Nýræktarstyrkja – á sjötta tug höfunda hafa hlotið viðurkenninguna

Þetta er í tólfta sinn sem Nýræktarstyrkjum er úthlutað, en alls hafa á sjötta tug höfunda hlotið þessa viðurkenningu frá upphafi. Meðal höfunda sem hlotið hafa Nýræktarstyrki á liðnum árum eru Fríða Ísberg fyrir Slitförina, Benný Sif Ísleifsdóttir fyrir Grímu, Þorvaldur Sigurbjörn Helgason fyrir Gangverk, Júlía Margrét Einarsdóttir fyrir Drottninguna á Júpíter, Dagur Hjartarson fyrir Eldhafið yfir okkur, Kristín Ragna Gunnarsdóttir fyrir Úlf og Eddu, Halldór Armand Ásgeirsson fyrir Vince Vaughn í skýjunum og Sverrir Norland fyrir bókina Kvíðasnillingarnir, svo einhver séu nefnd.

Umsóknum um Nýræktarstyrki hefur fjölgað verulega frá því þeim var fyrst úthlutað árið 2008 hjá Bókmenntasjóði, forvera Miðstöðvar íslenskra bókmennta, en þá bárust 9 umsóknir og 5 styrkir voru veittir, hver að upphæð 200.000 kr. Fjölgun umsókna hefur verið samfelld síðan og í ár og í fyrra var metfjöldi, eða 58 umsóknir, og styrkupphæð hefur hækkað og er nú 500.000 kr.

Verkin sem sótt var um fyrir eru af ýmsum toga s.s. skáldsögur, ljóð, barna- og ungmennabækur, ævisögur og smásögur og eru höfundarnir á öllum aldri. Í ár hljóta viðurkenninguna smásagnasafn og barnabók.


Hátíðarræða til ljóðsins

Eva Rún Snorradóttir hlaut Maístjörnuna 2018 fyrir ljóðabók sína Fræ sem frjóvga myrkrið þann 20. maí sl. Verðlaunahafinn flutti þakkarræðu til ljóðsins við hátíðlega athöfn í Landsbókasafni-Háskólabókasafni:

Hátíðarræða til ljóðsins

Hjartans þakkir til þín ljóð. Takk fyrir fyrir að hlaupast undan skilgreiningum. Vera í fullkomnu látleysi þínu ofar þeim hafið, stærra en öll mörk, rammar, rök og vissa. Takk fyrir áhættuna. Takk að upphefja misskilning, stjórnleysi og uppnám. Takk fyrir að koma þér upp skrifstofu í maganum á okkur, í sjónum innra með okkur. Hjálpa okkur undan oki hugsunar og heilans. Takk fyrir sannleika sem er eldri en allt en hverfur um leið og þú gómar hann, eins og tyggjókúla ofan í botnlanga.

Takk fyrir að leyfa okkur að elta þig út í helbera óvissu og taka okkur þannig á óvæntar, ófyrirséðar slóðir. Sýna okkur hversu miklum víðáttum af ókönnuðu landslagi þú býrð yfir. Leyfa okkur að spegla okkar innri víðáttur í þessu flæmi þínu. Takk fyrir að vera félagsráðgjafi, sjúkraliði, símalína til ókannaðra hyldýpa. Takk fyrir að vera gróft, blítt, grimmt, ógeðfellt og skilningsríkt um leið.

Takk fyrir að fela þig. Koma aftan að okkur. Breyta um mynd. Takk fyrir niðursoðna snákinn sem þú sendir okkur í draumi. Takk fyrir ljósverurnar á hafsbotni sem lýsa sjálfa sig upp, í algjöru tímalausu myrkri. Takk fyrir vitlaust númer um miðja nótt. Takk fyrir að rugga okkur í svefn. Fyrir að vera tómur veggur á innri grafhýsum okkar, sem við getum skrifað á, til að sefa okkur. Takk fyrir að vera það eina sem við vitum fyrir víst, að verður til staðar fyrir okkur, þegar Snæfellsjökull er horfinn. Takk fyrir raddirnar. Takk fyrir hlustunina. Fyrir samtalið. Fyrir sársaukann. Fyrir mistökin og sáttina. Takk fyrir alla lyklana sem við vitum að þú geymir á hafsbotni. Takk fyrir að hrista okkur upp, líkamlega. Hrista af okkur eitthvað sem við vissum ekki að við værum að losna við fyrr en löngu síðar. Getum ekki sett orð á það. Það er líka allt í lagi því þú geymir það. Þannig getur þú unnið, umbreytt myrkri í orku. Þú umbreytir af reisn og hógværð, án þess að gera sjálft neitt mál úr því. Enginn þarf einu sinni að merkja það á þér. Þú vinnur eins og jörðin, móðir okkar. Breytir þungri orku í súrefni. Tekur við áföllum, sérð okkur fyrir áföllum eins og foreldri. Takk fyrir að vera leið til að takast á við lífið og dauðann og allt þar á milli. Takk fyrir að hjálpa okkur að afmiðja veröld okkar og komast undan okkur sjálfum. Við þurfum sannarlega á þér að halda. Takk.