Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Steinunn Kristjánsdóttir hlýtur Viðurkennningu Hagþenkis 2017

Viðurkenning Hagþenkis var veitt þann 28. febrúar í Þjóðarbókhlöðunni við hátíðlega athöfn en hana hlaut Steinunn Kristjánsdóttir fyrir ritið, Leitin að klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir, sem Sögufélag og Þjóðminjasafn Íslands gáfu út. Í ályktunarorðum Viðurkenningaráðsins segir um ritið: Umfangsmikil og vel útfærð rannsókn sem varpar nýju ljósi á sögu klausturhalds á Íslandi. Frásagnarstíll höfundar gefur verkinu aukið gildi. Viðurkenningin felst í árituðu skjali og 1.250.000 kr. Sverrir Guðjónsson tónlistarmaður  flutti tónlist. Í viðurkenningarráð Hagþenkis sátu: Auður Styrkársdóttir, Guðný Hallgrímsdóttir, Helgi Björnsson, Henry Alexander Henrysson og Sólrún Harðardóttir.

Lesa meira


Auður Ava Ólafsdóttir og Sigurður Pálsson tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2018

Tilkynnt var um tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2018. Alls eru þrettán verk tilnefnd og tilnefndar bækur frá Íslandi eru Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur og Ljóð muna rödd eftir Sigurð Pálsson. Rithöfundasambandið óskar Auði Övu og fjölskyldu Sigurðar innilega til hamingju með tilnefningarnar!

Kristín Jóhannesdóttir og Auður Ava Ólafsdóttir

Kristín Jóhannesdóttir og Auður Ava Ólafsdóttir

Lesa meira um tilnefnd verk.


Ísnálin: Hrafnamyrkur besta þýdda glæpasagan 2017

snjolaug

Ísnálina 2017 hljóta rithöfundurinn Ann Cleeves og þýðandinn Snjólaug Bragadóttir fyrir glæpasöguna Hrafnamyrkur (Raven Black).

Hrafnamyrkur er fyrsta bókin í syrpu sem gerist á Hjaltlandseyjum og það var mat dómnefndar að í bókinni færi saman mjög spennandi og vel uppbyggð glæpasaga frá einum fremsta glæpasagnahöfundi Bretlands og afburðagóð íslensk þýðing frá afar reyndum þýðanda.

Snjólaug Bragadóttir tók við verðlaununum, en Ann Cleeves átti ekki heimangengt.

Þetta er fjórða árið sem verðlaunin eru veitt. Að verðlaununum standa Iceland Noir glæpasagnahátíðin, Hið íslenska glæpafélag og Bandalag þýðenda og túlka.

Dómnefnd skipa Katrín Jakobsdóttir, Kolbrún Bergþórsdóttir, Jóhann R. Kristjánsson og Ragnar Jónasson.

Ljósmynd: Snjólaug Bragadóttir tók við Ísnálinni 2017 í Gunnarshúsi í gær.


Tíu framúrskarandi rit tilnefnd til Viðurkenningar Hagþenkis

Hagthenkir2018Til­kynnt var 1. febrúar sl. hvaða tíu bæk­ur eru til­nefnd­ar til Viður­kenn­ing­ar Hagþenk­is, fé­lags höf­unda fræðirita og kennslu­gagna, fyr­ir árið 2017. Hagþenk­ir hef­ur frá ár­inu 1986 veitt viður­kenn­ingu fyr­ir fræðirit, náms­gögn eða aðra miðlun fræðilegs efn­is til al­menn­ings.

Viður­kenn­ing Hagþenk­is 2017 verður síðan veitt við hátíðlega at­höfn í Þjóðar­bók­hlöðunni um mánaðamót fe­brú­ar og mars og felst í sér­stöku viður­kenn­ing­ar­skjali og 1.250.000 kr. Á Degi bók­ar­inn­ar þann 23. apríl standa Hagþenk­ir og Borg­ar­bóka­safnið að fyr­ir kynn­ingu á til­nefnd­um bók­um í sam­starfi við höf­unda þeirra.

Viður­kenn­ing­ar­ráð Hagþenk­is er skipað fimm fé­lag­mönn­um til tveggja ára i senn og í því eru: Auður Styr­kárs­dótt­ir, Guðný Hall­gríms­dótt­ir, Henry Al­ex­and­er Henrys­son, Helgi Björns­son og Sól­rún Harðardótt­ir

Hagþenk­ir hef­ur frá ár­inu 1986 veitt viður­kenn­ingu fyr­ir fræðirit, náms­gögn eða aðra miðlun fræðilegs efn­is til al­menn­ings. Árið 2006 var tek­in upp sú nýbreytni að til­nefna tíu höf­unda og bæk­ur er til greina kæmu.

Eft­ir­far­andi höf­und­ar og bæk­ur eru til­nefnd í staf­rófs­röð höf­unda:

Aðal­heiður Jó­hanns­dótt­ir. Inn­gang­ur að skipu­lags­rétti – lag­arammi og réttar­fram­kvæmd. Há­skóla­út­gáf­an. „Heild­stætt rit um flók­inn heim skipu­lags­rétt­ar. Hand­bók sem gagn­ast bæði lærðum og leik­um,“ seg­ir í um­sögn ráðsins.
Ásdís Jó­els­dótt­ir. Íslenska lopa­peys­an – upp­runi, saga og hönn­un. Há­skóla­út­gáf­an. „Margþætt rann­sókn í tex­tíl­fræði sem lýs­ir sam­spili hand­verks, hönn­un­ar og sögu prjónaiðnaðar í fal­legri út­gáfu.“
Eg­ill Ólafs­son og Heiðar Lind Hans­son. Saga Borg­ar­ness I og II. – Byggðin við Brákarpoll og Bær­inn við brúna. Borg­ar­byggð og Opna. „Áhuga­verð saga sem á sér skýr­an sam­hljóm í þróun Íslands­byggðar al­mennt, studd ríku­legu og fjöl­breyttu mynd­efni.“

Hjálm­ar Sveins­son og Hrund Skarp­héðins­dótt­ir. Borg­in – heim­kynni okk­ar. Mál og menn­ing.  „Fróðleg hug­vekja og fram­lag til þjóðfé­lagsum­ræðu um skipu­lag, lífs­hætti og um­hverf­is­mál í borg­ar­sam­fé­lagi.“

Stefán Arn­órs­son. Jarðhiti og jarðarauðlind­ir. Hið ís­lenska bók­mennta­fé­lag. „Ein­stak­lega ít­ar­legt rit um auðlind­ir í jörðu og brýn áminn­ing um að huga að sjálf­bærni við nýt­ingu nátt­úru­auðæfa.“

Stefán Ólafs­son og Arn­ald­ur Sölvi Kristjáns­son. Ójöfnuður á Íslandi – skipt­ing tekna og eigna í fjölþjóðlegu sam­hengi. Há­skóla­út­gáf­an. „Skýr og aðgengi­leg grein­ing á þróun eigna og tekna á Íslandi og mis­skipt­ingu auðs í alþjóðleg­um sam­an­b­urði.“

Stein­unn Kristjáns­dótt­ir. Leit­in að klaustr­un­um – klaust­ur­hald á Íslandi í fimm ald­ir. Sögu­fé­lag og Þjóðminja­safn Íslands. „Um­fangs­mik­il og vel út­færð rann­sókn sem varp­ar nýju ljósi á sögu klaust­ur­halds á Íslandi. Frá­sagn­ar­stíll höf­und­ar gef­ur verk­inu aukið gildi.“

Unn­ur Jök­uls­dótt­ir. Und­ur Mý­vatns – um fugla, flug­ur, fiska og fólk. Mál og menn­ing. „Óvenju hríf­andi frá­sagn­ir af rann­sókn­um við Mý­vatn og sam­bandi manns og nátt­úru.“

Úlfar Braga­son. Frelsi, menn­ing, fram­för – um bréf og grein­ar Jóns Hall­dórs­son­ar. Há­skóla­út­gáf­an. „Næm lýs­ing á sjálfs­mynd, vænt­ing­um og viðhorf­um vest­urfara við aðlög­un þeirra að sam­fé­lagi og menn­ingu Norður-Am­er­íku.“

Vil­helm Vil­helms­son. Sjálf­stætt fólk – vist­ar­band og ís­lenskt sam­fé­lag á 19. öld. Sögu­fé­lag. „Aðgengi­legt og vel skrifað rit sem sýn­ir hvernig vinnu­fólk fyrri tíma gat haft áhrif á bága stöðu sína með hvers­dags­legu and­ófi og óhlýðni.“


Íslensku bókmenntaverðlaunin

verðlaunin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Verðlaun voru veitt í þremur flokkum.

Áslaug Jónsdóttir, Rakel Helmsdal og Kalle Güettler hlutu verðlaun í flokki barna- og ungmennabóka fyrir bókina Skrímsli í vanda.

Í umsögn dómnefndar um bókina segir að hún sé litríkt og fallegt verk sem taki á viðfangsefni sem snertir okkur inn að kviku. „Skrímsli í vanda er marglaga saga fyrir alla aldurshópa, sem sómir sér vel í hinum glæsilega skrímslabókaflokki.“

Kristín Eiríksdóttir hlaut verðlaun í flokki fagurbókmennta fyrir skáldsöguna Elín, ýmislegt.
Í umsögn dómnefndar um bók Kristínar segir að hún sé vandlega úthugsuð og margslungin skáldsaga, „sem te‏flir fínlega saman ólíkri veruleikaskynjun persónanna í áhrifaríkri frásögn af hverfulu eðli minninga.“

Unnur Jökulsdóttir hlaut verðlaun fyrir bókina Undur Mývatns: um fugla, flugur, fiska og fólk í flokki fræðirita og bóka almenns efnis.

Í umsögn dómnefndar um bók Unnar segir að hún sé einstætt listaverk sem  „miðlar fræðilegri þekkingu með ástríðu fyrir lífskraftinum og persónulegri sýn á það sem fyrir augu ber, jafnt óvægna grimmd sem blíðustu fegurð.“

Íslensku bókmenntaverðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk og eru kostuð af Félagi íslenskra bókaútgefenda.

Fjögurra manna lokadómnefnd valdi verkin úr hópi fimmtán bóka sem tilnefndar voru til verðlaunanna í desember á síðasta ári þegar fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokki. Lokadómnefnd skipuðu Helga Ferdinandsdóttir, Hulda Proppé, Sigurjón Kjartansson og Gísli Sigurðsson, sem var jafnframt var formaður nefndarinnar. Hér má sjá hvaða bækur voru tilnefndar til verðlaunanna í ár.


Ljóðstafur Jóns úr Vör 2018

ljodstafur2018_1

Frá vinstri: Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, Henrik Hermannsson sigurvegari í ljóðakeppni grunnskólanna 2018, Ásdís Óladóttir í dómnefnd, Sindri Freysson handhafi Ljóðstafs Jóns úr Vör 2018, Anton Helgi Jónsson formaður dómnefndar, Karen E. Halldórsdóttir formaður Lista- og menningarráðs og Bjarni Bjarnason sem einnig er í dómefnd ljóðakeppnanna.

Sindri Freysson fékk afhentan Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóðið Kínversk stúlka les uppi á jökli á Ljóðahátíð Kópavogs 21. janúar.

Kínversk stúlka les uppi á jökli

Í þessu landi

leynast engir brautarpallar

með þokuskuggum að bíða tvífara sinna

Engar mystískar næturlestir

sniglast gegnum myrkrið á hraða draumsins

Engir stálteinar syngja

fjarskanum saknaðaróð

 

Í þessu landi

situr rúta föst á jökli

Hrímgaðar rúður

Framljósaskíma að slokkna

Frosin hjól að sökkva

Andgufa sofandi farþega

setur upp draugaleikrit

 

Og á aftasta bekk

les kínversk stúlka

um lestargöng sem opnast og lokast

einsog svart blóm

 

Alls bárust 278 ljóð í keppnina að þessu sinni. Í öðru sæti var Hrafnhildur Þórhallsdóttir með ljóð sitt Elegía en Valgerður Benediktsdóttir hlaut þriðja sætið fyrir ljóðið Íshvarf. Þá fengu átta ljóð viðurkenningar.

Lesa meira


Fjöruverðlaunin 2018

Fjöruv

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru afhent við hátíðlega athöfn í Höfða 15. janúar 2018.

Verðlaunin hlutu:

Í flokki fagurbókmennta:

Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur

Í flokki barna- og unglingabókmennta:

Vertu ósýnilegur, flóttasaga Ishmaels eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:

Undur Mývatns – um fugla, flugur, fiska og fólk eftir Unni Jökulsdóttur

Þetta í tólfta sinn sem Fjöruverðlaunin eru veitt og í fjórða sinn síðan borgarstjóri Reykjavíkur, bókmenntaborgar UNESCO, gerðist verndari verðlaunanna og bauð Dagur B. Eggertsson gesti velkomna og afhenti verðlaunahöfum blóm. Verðlaunahafar fá verðlaunagripi gerða af listakonunni Koggu og gjafabréf fyrir dvöl á Kolkuósi í Skagafirði.

Lesa meira