Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Auður Ava fær bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir Ör

aua

Tilkynnt var um verðlaunin á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs í Ósló í Noregi.

Skáldsagan Ör segir frá Jónasi Ebeneser, 49 ára fráskildum, valdalausum og gagnkynhneigðum karlmanni. Jónas sér fátt framundan í lífi sínu annað en að binda enda á það. Af tillitssemi við sína nánustu, einkum einkadótturina Guðrúnu Vatnalilju, ákveður hann að fara úr landi til að fullkomna ákvörðun sína og hann tekur með sér borvél.

Áður hefur Norðurlandaráð verðlaunað Ólaf Jóhann Sigurðsson (1976), Snorra Hjartarson (1981), Thor Vilhjámsson (1988), Fríðu Á. Sigurðardóttur (1992), Einar Má Guðmundsson (1995), Sjón (2005) og Gyrði Elíasson (2011).

Ör er fimmta skáldsaga Auðar Övu Ólafsdóttur. Hún er listfræðingur að mennt. Árið 1998 sendi hún frá sér sína fyrstu skáldsögu, Upphækkuð jörð. Bókin þótti óvenjuleg bæði hvað varðar efni og efnistök. Önnur skáldsaga hennar, Rigning í nóvember, leit dagsins ljós sex árum síðar. Hún vakti mikla athygli fyrir sína þriðju, Afleggjarann, sem kom út árið 2007.

Auður hefur bæði skrifað leikrit og sent frá sér eina ljóðabók auk þess sem hún hefur skrifað söngtexta fyrir hljómsveitina Milky Whale. Bækur Auðar hafa einnig verið gefnar út í öðrum löndum og hafa átt góðu gengi að fagna, einkum á Ítalíu, Spáni og í Frakklandi.


Ljóðstafur Jóns úr Vör

JúrV

Lista- og menningarráð Kópavogs efnir í átjánda sinn til ljóðasamkeppninnar um Ljóðstaf Jóns úr Vör. Ljóðunum skal skilað í fjórum eintökum undir dulnefni ekki síðar en 7. desember. Með hverju ljóði þarf að fylgja lokað umslag merkt dulnefninu sem inniheldur upplýsingar um nafn, símanúmer og netfang skáldsins. Einungis umslög sem tilheyra vinnings- og viðurkenningarljóðum verða opnuð en öllum öðrum gögnum eytt. Athugið að ljóðin mega ekki hafa birst áður.

Ljóðstafurinn verður afhentur ásamt viðurkenningum sunnudaginn 20. janúar 2019 við hátíðlega athöfn í Salnum.

Utanáskrift er: Ljóðstafur Jóns úr Vör, Menningarhúsin í Kópavogi, Digranesvegi 1, 200 Kópavogur.


Haukur Ingvarsson hlýtur b​​​ókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2018

Haukur Ingvarsson, rithöfundur og ljóðskáld, að lokinni afhendingu ásamt Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, starfandi borgarstjóra, Þórarni Eldjárn, sem átti sæti í dómnefnd og Úlfhildi Dagsdóttur, formanni dómnefndar.dsc01822

Haukur Ingvarsson er fæddur árið 1979. Hann lauk meistaraprófi í íslenskum bókmenntum árið 2005 og hefur síðan fengist við ritstörf og dagskrárgerð í útvarpi. Hann leggur nú stund á doktorsnám í íslenskum bókmenntum og skrifar um viðtökur Williams Faulkner á Íslandi.
Fyrsta ljóðabók Hauks, Niðurfall og þættir af hinum dularfulla Manga, kom út 2005 og í kjölfarið komu fræðibókin Andlitsdrættir samtíðarinnar: Síðustu skáldsögur Halldórs Laxness (2009) og skáldsagan Nóvember 1976 (2011).

Alls bárust 60 óbirt ljóðahandrit undir dulnefni. Dómnefndina skipuðu Úlfhildur Dagsdóttir formaður, Þórarinn Eldjárn og Börkur Gunnarson.

Í niðurstöðu dómnefndar segir: ,, Í ljóðabók Hauks Ingólfssonar eru margar Vistarverur. Orðið sjálft, vistarvera, gefur til kynna tilfinningu fyrir stað og íbúa auk þess að vísa til tilvistarinnar sjálfrar og stöðu verunnar í henni. Allt þetta kemur saman í ljóðunum en þau einkennast af vangaveltum um tengsl hins efnilega og hins andlega, með áherslu á samfellu þessa.
Þannig verða byggingar og skip framlenging af sjálfi ljóðmælanda, minningar og draumar taka á sig áþreifanlega mynd í hinum ýmsu vistarverum og veruleikinn sjálfur er jafnframt bundin upplifunum og tengslum við stað og stundir. Ljóðmælandi er á stundum líkt og einskonar draugur í eigin tilveru, hann veltir fyrir sér stöðu sinni í umhverfi sínu og sjálfsmynd og gluggar í stórar spurningar jafnt sem smáar.


Viltu verða verðlaunahöfundur?

Rithöfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson stofnuðu í fyrra til sérstakra glæpasagnaverðlauna sem nefnast Svartfuglinn í samvinnu við útgefanda sinn, Veröld. Eva Björg Ægisdóttir hlaut verðlaunin í ár fyrir sögu sína Marrið í stiganum sem kom út í apríl. Bókin fór strax í efsta sæti á mestölulista Eymundsson og hefur verið á metsölulistanum síðan. Verðlaunin eru veitt fyrir handrit að áður óbirtri glæpasögu og er við það miðað að sagan komi út hjá Veröld í upphafi Viku bókarinnar í apríl ár hvert. Verðlaunin nema 500.000 krónum auk hefðbundinna höfundarlauna samkvæmt rammasamningi Félags íslenskra bókaútgefenda og Rithöfundasambands Íslands. Einnig býðst þeim sem sigur ber úr býtum samningur við umboðsmanninn David H. Headley en tímaritið Bookseller útnefndi hann sem einn af 100 áhrifamestu mönnum breskrar bókaútgáfu árið 2015.

Yrsa og Ragnar skipa dómnefndina ásamt Bjarna Þorsteinssyni, útgáfustjóra Veraldar. Handitum skal skilað í þríriti til Veraldar að Víðimel 38, 107 Reykjavík, fyrir 1. janúar næstkomandi. Þau eiga að vera merkt dulnefni en rétt nafn höfundar fylgi með í lokuðu umslagi. Höfundurinn má ekki hafa gefið út glæpasögu áður. Þegar dómnefndin hefur lokið störfum sínum verður haft samband við verðlaunahöfundinn. Handritunum sem bárust í keppnina verður síðan eytt.

Yrsa og Ragnar segjast með þessum verðlaunum vilja hvetja höfunda til að spreyta sig á þessu bókmenntaformi, greiða þeim leið til útgáfu og stuðla að því að fleiri skrifi bækur á íslenskri tungu. Jafnframt vonast þau til að verðlaunin hjálpi nýjum höfundum að komast að hjá erlendum bókaforlögum.

svartfuglinn.w

Lesa meira


Nýræktarstyrkir 2018

nyraektarstyrkjaafhending-2018

Benný Sif Ísleifsdóttir, Þorvaldur S. Helgason og Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra.

Miðvikudaginn 30. maí, veitti Miðstöð íslenskra bókmennta tveimur nýjum höfundum Nýræktarstyrki til að styðja við útgáfu á verkum þeirra, en hvor styrkur nemur 400.000 kr. Benný Sif Ísleifsdóttir hlaut styrk fyrir skáldsöguna Gríma og Þorvaldur S. Helgason fyrir ljóðabókina Gangverk. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti styrkina við athöfn í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins.

Þetta er í ellefta sinn sem Nýræktarstyrkjum er úthlutað, en alls hafa rúmlega fimmtíu höfundar hlotið þessa viðurkenningu frá upphafi. Meðal höfunda sem hlotið hafa Nýræktarstyrki á liðnum árum eru Fríða Ísberg, Arngunnur Árnadóttir, Bergur Ebbi Benediktsson, Bryndís Björgvinsdóttir, Dagur Hjartarson, Halldór Armand Ásgeirsson, Kristín Ragna Gunnarsdóttir, Sigurlín Bjarney Gísladóttir og Sverrir Norland.

Nýræktarstyrkir eru veittir árlega til útgáfu á skáldverkum höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum og hvetja þá með því til frekari dáða á þeirri braut. Átt er við skáldverk í víðri merkingu; sögur, ljóð, leikrit og fleira.

Lesa meira.


Ræða Kristínar Ómarsdóttur við afhendingu Maístjörnunnar

Þetta verður löng ræða sem endar aldrei

Bestu þakkir kæra Landsbókasafn og bestu þakkir Rithöfundasamband Íslands fyrir að veita kóngulóm í sýningarglugga hina yndislegu og fallegu Maístjörnu, takk. Hér niðri á Þjóðdeild vann ég nokkrar umferðir í handritinu, fyrir rúmu ári, tók út ljóð og orti önnur. Takk fyrir aðstöðuna. Hér er gott að vera, lesa og skrifa.

Á Landsbókasafnið við Hverfisgötu kom ég fyrst átján ára og gerði mér ekki grein fyrir hvað lokkaði mig, hverfi ég í huganum þangað veit ég nú að það voru þögnin, lyktin, andaktin, hljóðin þegar stóll var færður til, þegar bókavörðurinn sem sat í hásæti í öðrum salarendanum og las, mjór, í fallegri vestispeysu, stóð upp og hvarf bakvið, þar leit út fyrir að vera hlið inní draum. Hvíslið, lágværar raddir karlkyns. Skúffurnar með spjöldunum sem ég nennti ekki að fletta, kunni aldrei að fletta í, gat ekki lært það, praktískt hef ég fundið á mér að fljótlega þyrfti maður ekki að kunna það. Mjóa konan í fatahenginu sem brosti, hvert smáatriði fatahengisins, síminn á veggnum eða súlunni þar sem maður gat hringt í vin – ég gat kortlagt alla almenningssíma á Stór Reykjavíkursvæðinu á sama tímabili, hvaða sjoppur seldu aðgang að síma og seldu ekki aðgang og tíkallana á símtölunum. Gólfflísarnar og klósettið sem var einsog hvítt garðhýsi eða lystihús.

Þegar ég var 18 nítján ára skólastúlka var ég njósnari (af guðsnáð) – starf sem mér hefði hugnast jafn vel og ritstörf alla vega í órum mínum – á meðan ég las skólabækur njósnaði ég um Einar Kárason sem sat gjarnan við sama borðið yfir hvítu þykku handriti með ritvélastöfum á, ég öfundaði hann – mig langaði að vera með þykkt handrit fyrir framan mig en ég sá ekki fram á að geta samið jafn ótrúlega margar blaðsíður. Græni liturinn í salnum verður alltaf einn uppáhaldslita.

Ég var örugglega óprúttinn njósnari, kunni ekki að skammast mín, átti erfitt með að beizla augnaráðið, gæti hafa eignast heimili í lögreglunni hefði ég haft þörf fyrir að gera réttvísinni gagn, og greiða, haft skoðun og vit á hvað réttast og venjulegast er að aðhafast í flestum málefnum, og þannig helgað líf mitt njósnum – sem ég geri að mörgu leyti – ekið á milli bæjanna í Árneshreppi um daginn og leitað að meintum svonefndum lögheimilisflökkurum sem grunaðir voru um að taka sér stjórnmálafólk til fyrirmyndar og skrá lögheimili á eyðibýlum og öðrum bæjum. En á meðan á aðgerðinni fyrir norðan stóð sat ég uppá Akropólis og ákallaði stríðsgyðjuna sem mælti:

Fátt í heiminum skiptir jafn mikilvægu máli og að elska, minna um vert er að vera elskuð, mest um vert er að elska –

Nú hvað segirðu, mælti ég, ég hélt að ástin væri herfang.

Auðvitað er hún líka herfang – og – elskir þú herfang þitt þarftu ekki að áorka mörgu fleiru á lífsins ferli.

Nú – hm, svaraði ég þegar andvari lavenderblóma strauk vangann.

En hvað ef maður er sjálfur herfang, spurði ég næst.

Snúðu bara útúr, svaraði gyðjan, það er sama aðgerð er herfang elskar og hinn.

Ó – mig langaði til að hlæja en gyðjan vildi græta mig og sagði:

Það er alltaf auðveldast, ódýrast og huglausast að láta einsog fífl en það er of margt annað óhugnanlegra í heiminum, ég hef ekki tíma í hjal –

Ó! Ég hef e e e e e e  lskað – ég e e e e e r – söng andvarinn.

Stjórnmála-

fólk

ljóð

skáld

og

elskhugar

nota tungumálið til að lokka og táldraga – kjósendur, lesendur, elskendur – blekkja, svindla, látast, fíflast, háfleygast – í sömu lotu lofa þau manni sannleikanum – ég verð þín að eilífu. Enginn biður þau samt um að réttlæta list sína og leik með sannleiksvopninu en með einhverjum aðferðum býr maður til þörfina fyrir sig og einhvern tímann f löngu ákvað ég um áramót að heita því að segja alltaf satt – og nú er ég að tala um sjálfa mig sem persónu sem býr ekki í lokuðu herbergi fyrir framan óteljandi dúkkuhús og auðar merkur. Ákvörðunin reyndist heillavænleg. Þegar kom að nýjum áramótum og mér hafði gengið vel að halda heitið í eitt ár, ætlaði ég að fara að slaka á kröfunum, en þörfin fyrir sannleikann var orðin að fíkn, sannleiksást, ég fann enga þörf til tilslakana, með árunum byrjaði ég svo að segja meira satt en nauðsyn bar oft til, svo satt að særði, og nú er reynsla mín önnur: maður verður einmana af því að segja satt – ætli einsemd hverfi eða líði undir lok með lygi?

Þetta var útúrdúr, þetta var útúrdúr með póltitískum boðskap, ég sit enn uppá Akrópólis. Við ætluðum, hélt ég, að ræða hvort ástin væri stríðsrekstur en gyðjan grípur fram í og segir að ég sé líka óvinur minn, blóðflokkarnir þeir sömu, líf mitt njóti góðs af arðráni foringja minna, líf mitt grundvallist á herfangi vinningsliðs og vilji ég breyta því skuli ég stroka út allt sem ég hafi skrifað hingað til og byrja upp á nýtt –

Hm.

Djók.

Ég vil fá að þakka Álfrúnu, Maríu, Vigdísi –  Sigríði /Siggu Rögg, Emilíu og Úu á Forlaginu – Óttari, Þórdísi, Zoe, Yrsu, Ólafi, Árna Birni, Borghildi, Huldu Siggu, Mugga, Sveinbjörgu, Höllu, Gurru, Steinari, Soffíu Dögg, Höllu Dóru, Susan, Grétu, Haraldi, Gunnhildi, Soffíu og freyðivínsklúbbnum, og foreldrum mínum, þau hétu Hrafnhildur og Ómar, og bókin er tileinkuð þeim, Launasjóði rithöfunda og Maístjörnunum Elísabetu, Bergþóru, Eydísi og Jónasi Reyni og öllum hinum ljóðskáldunum í heiminum – öllum – lifandi og dánum – takk fyrir mig – svo vil ég líka fá að þakka hröfnunum á Stór Reykjavíkursvæðinu – á svæðinu eru um tíu hrafnslaupur og ekkert þeirra nýtur verndar, það virðist mega eyðileggja hreiður hrafns ef einhverjum aðila dettur það til hugar. Án fugla verða ekki til ljóð – og ekki bara ljóð – fuglarnir eru aðal fyrirmynd skálda og þeir eru líka lögmætir íbúar landsins, hér er lögheimili þeirra en ekkert ráðuneyti.