Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Arnaldur Indriðason fékk Blóðdropann árið 2017

Arnaldur Indriðason með Blóðdropann

Arnaldur Indriðason með Blóðdropann

Blóðdropinn, íslensku glæpasagnaverðlaunin, var afhentur í 11. sinn 22. júní sl. en Arnaldur Indriðason hlaut verðlaunin fyrir bókina Petsamo (2016). Að sögn Guðrúnar Ögmundsdóttur fulltrúa dómnefndar fellur hún í flokk með allra bestu íslenskum glæpasögum. Petsamo fer sem framlag Íslands í keppnina um bestu norrænu glæpasöguna, Glerlykilinn, en þau verðlaun hefur Arnaldur unnið tvisvar sinnum áður.

Petsamo er þriðja bók Arnaldar í seríunni um lögreglumennina Flóvent og Thorsson. Hinar eru Skuggasund (2013) og Þýska húsið (2015). Sagan gerist árið 1943 í Reykjavík og fjallar um atburði sem gerast eftir að lík rekur á fjörur í Nauthólsvík.

Rithöfundasamband Íslands óskar Arnaldi til hamingju með Blóðdropann 2017!


Guðrún Helgadóttir borgarlistamaður

Guðrún Helgadóttir, rithöfundur, var útnefnd borgarlistamaður Reykjavíkur þann 17. júní sl. Útnefningin  er heiðursviðurkenning til listamanns sem með listsköpun sinni hefur skarað fram úr og markað sérstök spor í íslensku listalífi.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Guðrún Helgadóttir rithöfundur og borgarlistamaður ásamt Elsu Hrafnhildi Yeoman formanni menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar. Mynd: Reykjavíkurborg.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Guðrún Helgadóttir rithöfundur og borgarlistamaður ásamt Elsu Hrafnhildi Yeoman formanni menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar. Mynd: Reykjavíkurborg.

Guðrún gaf út sína fyrstu bók, Jón Odd og Jón Bjarna, árið 1974 og hefur upp frá því verið einn vinsælasti og virtasti barnabókahöfundur Íslands. Guðrún hefur sent frá sér 25 bækur sem þúsundir íslenskra barna hafa alist upp við og notið auk leikhandrita, kvikmynda og sjónvarpsþátta. Helsti styrkur Guðrúnar sem rithöfundar felst að mati gagnrýnenda í þeirri virðingu sem hún ber fyrir börnum jafnframt því að geta séð spaugilegar hliðar á flestum málum. Verk hennar hafa verið þýdd á fjölmörg tungumál í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu. Bækur Guðrúnar hafa hlotið góða dóma heima og erlendis þar sem menn hafa skipað henni á bekk með barnabókahöfundum á borð við Astrid Lindgren og Thorbjörn Egner. Guðrún Helgadóttur hefur þá náðargáfu að geta sett sig í spor barns og sagt frá heiminum eins og það sér hann.  Bækur hennar bera alltaf með sér góðan boðskap og réttur og staða þeirra sem minna mega sín eru henni hjartfólgin.  Guðrún er enn að skrifa fyrir börn á öllum aldri og því er fjársjóður okkar alltaf að stækka.  Árið 2005 kom út safn greina um verk Guðrúnar Helgadóttur eftir ýmsa fræðimenn undir heitinu Í Guðrúnarhúsi.

Lesa meira


Nýræktarstyrkir Miðstöðvar íslenskra bókmennta 2017

Nýræktarstyrkir Miðstöðvar íslenskra bókmennta voru afhentir í Gunnarshúsi í dag en Nýræktarstyrkina í ár hljóta Fríða Ísberg fyrir Slitförina, safn ljóða, og Pedro Gunnlaugur Garcia fyrir skáldsöguna Ráðstefna talandi dýra. Hvor styrkur nemur 400.000 kr. Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra afhenti styrkina við athöfn í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins og óskaði við það tækifæri nýjum höfundum alls góðs í ritstörfunum. Þetta er í tíunda skipti sem Nýræktarstyrkjum er úthlutað, en alls hafa hátt í fimmtíu höfundar hlotið þessa viðurkenningu frá upphafi.

Pedro Gunnlaugur Garcia, Kristján Þór Júlíusson og Fríða Ísberg

Pedro Gunnlaugur Garcia, Kristján Þór Júlíusson og Fríða Ísberg

Í umsögn bókmenntaráðgjafa um verkin segir:

„Slitförin er safn ljóða sem fjalla á ágengan hátt um togstreituna við að brjótast undan áhrifavöldum bernskunnar og finna leiðina að eigin sjálfi. Leiðarstef verksins er sársaukinn sem sprettur úr nístandi sorg milli barns og foreldris. Ljóðin taka pláss, sýna afstöðu og grípa lesendur föstum tökum.”

„Skáldsagan Ráðstefna talandi dýra er ekkert venjulegt byrjendaverk heldur viðamikil og þroskuð skáldsaga sem fléttar saman ólíka menningarheima á tvennum tímum, líf fólks, drauma og örlög. Frjótt ímyndunarafl í sterklega byggðri frásögn, á lifandi og skemmtilega stílaðri íslensku, mynda einstaka heild í heillandi skáldsögu.”

Lesa meira


Vorvindaviðurkenningar IBBY á Íslandi afhentar

 

Sunnudaginn 21. maí veitti Íslandsdeild IBBY sínar árlegu viðurkenningar fyrir framlög til barnamenningar, Vorvinda, við athöfn í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambands Íslands.

Vorvindum er ætlað að vekja athygli á verkum og starfsemi sem hleypir ferskum og endurnærandi vindum inn í íslenska barnamenningu. Að þessu sinni voru Vorvindahafarnir fjórir.

Lára Garðarsdóttir, mynd- og rithöfundur fékk viðurkenningu fyrir bók sína Flökkusögu, en hún greinir frá hættuför lítillar hvítabirnu sem verður að flýja heimkynni sín og leita að nýju heimili. KrakkaRÚV hlaut Vorvinda fyrir starf sitt við framleiðslu efnis fyrir börn og með börnum, einkum fréttaefnis fyrir börn, og fyrir að gera eldra efni aðgengilegt. Jenny Kolsöe rithöfundur hlaut viðurkenningu fyrir bækurnar um ömmu óþekku og afa sterka, sem flétta fræðslu um landið okkar og þjóðsögurnar inn í fyndna samtímafrásögn. Loks var Töfrahurð tónlistarútgáfa verðlaunuð fyrir að opna börnum gátt inn í heim tónlistar með fjölbreyttu og metnaðarfullu útgáfustarfi og tónleikahaldi.

Íslandsdeild IBBY óskar verðlaunahöfum til hamingju og hvetur þá alla til frekari dáða.

Ljósmynd: Sigríður Wöhler Frá hægri: Pamela De Sensi, listrænn stjórnandi Töfrahurðar, Sigyn Blöndal og Sindri Bergmann Þórarinsson frá KrakkaRÚV, Jenný Kolsöe og Lára Garðarsdóttir.

Ljósmynd: Sigríður Wöhler. Frá hægri: Pamela De Sensi, listrænn stjórnandi Töfrahurðar, Sigyn Blöndal og Sindri Bergmann Þórarinsson frá KrakkaRÚV, Jenný Kolsöe og Lára Garðarsdóttir.


Sigurður Pálsson hlýtur Maístjörnuna

Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn veita ný verðlaun fyrir ljóðabók sem kom út á árinu 2016. Verðlaunin, sem bera heitið Maístjarnan, voru afhent í fyrsta sinn við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni í dag 18. maí á Degi ljóðsins.

Maístjörnuna fyrir ljóðabók ársins 2016 hlýtur

Sigurður Pálsson fyrir ljóðabók sína Ljóð muna rödd

Í umsögn dómnefndar um verðlaunabókina segir:

„„Hér af spássíu Evrópu“ heitir eitt ljóð í bókinni Ljóð muna rödd, bók sem er rík af röddum, ljósi, skuggum, nálægð og fjarlægð. Spássían getur á óvæntan hátt verið auðugt svæði og það lýsir vel skáldinu sem svo yrkir. Í þessari bók birtist auðugur ljóðheimur Sigurðar Pálssonar, skálds sem hefur sannarlega lagt sitt fram til endurnýjunar og krafts íslensks ljóðmáls. Ljóð muna rödd er sterk bók þar sem glímt er við stórar spurningar. Röddin í titlinum er áleitin, ljóðin eru myndræn, tregafull og magnþrungin, en eru jafnframt óður til lífsins og lífsgleðinnar.“

Sigurður Pálsson

Sigurður Pálsson

Ávarp Sigurðar Pálssonar:

Góðir samkomugestir!

Hjartans þakkir, ég tek við þessum verðlaunum með  auðmýkt og stolti. Maístjarnan, ljóðabókaverðlaun RSÍ og Landsbókasafnsins er frábær hugmynd og mikilvæg.

Í ár eru fimmtíu ár liðin frá því að ljóðtextar eftir mig komu fyrst fyrir almenningssjónir, það var í tímaritinu Birtingi, ritstjórarnir Einar Bragi og Thor Vilhjálmsson tóku þessum átján ára dreng ákaflega vel og voru svo vinsamlegir og uppörvandi að ekki gleymist. Þeim skal þakkað enn og aftur. Nokkrum árum síðar gaf ég út mína fyrstu bók, Ljóð vega salt, útgefandinn var Sigfús Daðason, ég stend í eilífri þakkarskuld við hann. Hann var reyndar meira en útgefandi, hann var ídol mitt og fyrirmynd í ljóðlist ásamt Þorsteini frá Hamri og Hannesi Péturssyni.

En nokkur erlend skáld voru ekki síður mikilvæg sem fyrirmyndir og viðmið, þau las ég fyrst í splunkunýjum íslenskum þýðingum á þessum árum, frönsk skáld í þýðingu Jóns Óskars, Vladimir Majakovskí og bók hans Ský í buxum í þýðingu Geirs Kristjánssonar, svo var það Goðsaga eftir gríska nóbelsskáldið Giorgos Seferis í þýðingu Sigurðar A. Magnússonar. Ástæða er til að þakka þýðendunum, brúarsmíði þeirra er ákaflega mikilvæg.

Ljóðaþýðingar minna okkur á að ljóðlistin er alþjóðleg, Lýðveldi ljóðsins nær yfir allan heiminn. Í okkar heimshluta nær það tvö þúsund og sex hundruð ár aftur í tímann þegar forngríska skáldkonan Saffó var á dögum.

Ljóðlistin er innri rödd bókmenntanna.

Rödd ljóðsins er rödd mennskunnar sem aldrei gefst upp í heimi sem böðlast áfram. Rödd friðar í ofbeldisdýrkandi heimi.

Rödd mannréttinda og jöfnuðar í heimi þar sem átta menn  eiga jafnmikil auðæfi og 50% af mannkyninu.

Rödd frelsis og lýðræðis í heimi sem er dauðþreyttur á misnotkun á hugtökunum frelsi og lýðræði.

Rödd ljóðsins vinnur gegn ofstopafullri einsleitni í notkun tungumálsins, hún býr yfir margræðni og blæbrigðum, býr til hugrenningartengsl, tilfinningatengsl, allan fínvefnað tungumálsins.

En umfram allt er rödd ljóðsins hin heilaga innri rödd hvers og eins, röddin sem gerir okkur að einstaklingum í samfélagi annarra.

Portúgalska stórskáldið Fernando Pessoa sagði að eitt mikilvægasta hlutverk ljóðlistarinnar væri að standa vörð um hið huglæga samhengi veru okkar, standa vörð um þessa veru innra með hverjum og einum, veruna sem varð til á bernskuárunum, veruna sem tilheyrir hinu magíska, goðsagnatengda og draumvirka svæði innra með okkur.

Rödd ljóðsins. Við getum leitað til hennar á dimmum dögum þegar ráðamenn stærstu ríkja heims standa fyrir iðnvæðingu lyga, mannfyrirlitningar og ofbeldisdýrkunar.

Rödd ljóðsins í Bandaríkjunum, hverjir eru fulltrúar hennar? Walt Whitman, Allen Ginsberg, Bob Dylan, Ilya Kaminsky og tugþúsundir annarra. Það er hin raunverulega rödd Bandaríkjanna.

Og í Rússlandi: alla leið frá Púshkín er óstöðvandi breiðfylking:  Vladimir Majakovski, Anna Akhmatova, Osip Mandelstam, Marína Tsvetajeva, Boris Pasternak, Evgení Evtusjenkó, Jósef Brodský. Það er hin raunverulega rödd Rússlands og hún mun heyrast ótrufluð eftir að mislukkaðir ráðamenn eru löngu horfnir.

Og þannig gæti ég farið land úr landi. Því Lýðveldi ljóðsins er alþjóðlegt, á landamærum er ekkert eftirlit, engir veggir, engir múrar, bara brýr, ekkert nema hjálpsamir hugsjónamenn sem reyna að koma textum og röddum af einu tungumáli á annað, það góða fólk kallast þýðendur.

Fyrir fimmtíu árum kynntist ég nýju stórskáldi á hálfs mánaðar fresti, flest þeirra hafa verið ferðafélagar mínir æ síðan. Hin síðari ár hefur þeim fækkað sem ég uppgötva en þeim mun stórkostlegri er tilfinningin að uppgötva stórskáld. Fyrir fimm árum kynntist ég einu slíku á ljóðlistarþingi, hann heitir Ilya Kaminsky.

Fæddur í Úkraínu, flutti barn að aldri með fjölskyldunni til Bandaríkjanna og skrifar á ensku. Ég er að þýða ljóðabók hans Dansað í Ódessa. Ég ætla að lokum að leyfa ykkur að heyra eitt ljóð úr henni, það er úr ljóðaflokknum Musica Humana, sem er óður til Osip Mandelstam. Það hefst á stuttum inngangi sem hljóðar svo:

[Sumarið 1924 fór Osip Mandelstam með unga eiginkonu sína til Sankti Pétursborgar. Nadezhda var það sem Frakkar kalla laide mais charmante, ófríð en sjarmerandi. Var hann sérvitringur? Auðvitað var hann það. Hann kastaði stúdenti niður stiga fyrir að kvarta undan því að hann væri ekki gefinn út. Osip öskraði: Var Saffó gefin út? Var Jesús Kristur gefinn út?] – inngangi lýkur og ljóðið hefst:

 

Skáld er rödd, segi ég, eins og Íkarus,

hvíslandi að sjálfum sér meðan hann fellur til jarðar.

 

Já, líf mitt er brotin trjágrein í vindinum,

fellur til jarðar í norðrinu.

Ég er núna að skrifa sögu um snjó,

lampaljósið baðar skipin

sem sigla um blaðsíðuna.

 

En stundum síðdegis

opnast Sálmalýðveldið

og ég verð skelfingu lostinn að ég hafi ekki lifað, dáið, ekki nóg

til þess að hripa þessa alsælu niður sem sérhljóða, heyra

skvampið í skýrri, biblíulegri orðræðu.

 

Ég les Platón, Ágústínus, einsemd atkvæða þeirra

meðan Íkarus heldur áfram að falla.

Og ég les Akhmatovu, hennar frjósama þyngd jarðbindur mig,

hnetutréð á veröndinni andar

að sér þurru lofti, dagsljósinu.

 

Já, ég var lifandi. Ríkið hengdi mig upp á fótunum, ég sá

dætur Sankti Pétursborgar, svani,

lærði málfræði mávafylkinga

og lenti fyrir fullt og allt á Púskínstræti, meðan minnið

sat úti í horni og strokaði mig út með svampi.

 

Ég hef gert mistök, já: í rúminu

líkti ég ríkisstjórninni

við vinkonu mína.

Ríkisstjórnin! Hönd hrokafulls rakara

sem rakar skinnið af.

Öll dönsum við hamingjusamlega kringum hann.

Lesa meira


Maístjarnan veitt 18. maí

8stjarna9Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn bjóða félagsmönnum RSÍ að vera viðstaddir afhendingu Maístjörnunnar vegna ársins 2016 en Maístjarnan verður veitt í fyrsta sinn við athöfn í Þjóðarbókhlöðunni þann 18. maí, á degi ljóðsins, kl. 17.

 

Dagskrá:

Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður býður gesti velkomna og kynnir dagskrá afhendingar ljóðaverðlaunanna.

Kári Tulinius segir frá tildrögum Maístjörnunnar.

Fulltrúi dómnefndar kynnir verðlaunahafann og flytur rökstuðning fyrir vali sínu.

Verðlaunahafinn ávarpar samkomuna.

Sigurður Skúlason leikari les ljóð úr verðlaunabókinni.

Sýning á verðlaunabókinni og fyrri verkum höfundar opnuð.

Lesa meira


Maístjarnan – ný ljóðabókaverðlaun

Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn hafa stofnað til nýrra ljóðabókaverðlauna sem bera heitið Maístjarnan og verða veitt árlega 18. maí, á degi ljóðsins. Það er Rithöfundasambandinu og Landsbókasafninu sönn ánægja að ýta Maístjörnunni úr vör. Verðlaunin eru einu verðlaun á Íslandi sem eingöngu eru veitt fyrir útgefna íslenska ljóðabók og eru löngu tímabær viðurkenning á útgefnum ljóðabókum. Fram að þessu hafa einungis verið veitt sérstök verðlaun fyrir stök ljóð og handrit að ljóðabókum og þrátt fyrir að útgefnar ljóðabækur séu gjaldgengar til annarra verðlauna hafa þær oftar en ekki orðið út undan við tilnefningar og verðlaunaveitingar.

Verðlaununum er ætlað að hvetja skáld til að yrkja og koma ljóðum sínum í útgáfu en frumkvæði að stofnun Maístjörnunnar (og nafngift!) átti Kári Tulinius, skáld og rithöfundur. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Rithöfundasambandið tóku tillögu hans fagnandi og leggur Rithöfundasambandið árlega til verðlaunafé að upphæð 350.000 kr. Allar íslenskar ljóðabækur sem komið hafa út á almanaksárinu á undan og skilað hefur verið til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns eru gjaldgengar til verðlaunanna og fær dómnefnd þær til umfjöllunar.

Fyrstu tilnefningar til Maístjörnunnar voru kynntar við athöfn í Gunnarshúsi 25. apríl sl. Við sama tækifæri undirrituðu Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir, landsbókavörður, og Kristín Helga Gunnarsdóttir, formaður Rithöfundasambandsins samning milli Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafns og Rithöfundasambands Íslands.