Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Ísnálin 2018

Ljósmynd: Eliza Reid forsetafrú afhenti Bjarna Gunnarssyni Ísnálina 2018 á glæpasagnahátíðinni Iceland Noir í Reykjavík.

Ljósmynd: Eliza Reid forsetafrú afhenti Bjarna Gunnarssyni Ísnálina 2018 á glæpasagnahátíðinni Iceland Noir í Reykjavík.

Ísnálina 2018 hljóta rithöfundurinn Jo Nesbø og þýðandinn Bjarni Gunnarsson fyrir glæpasöguna Sonurinn (Sønnen).

Bjarni Gunnarsson tók við verðlaununum á alþjóðlegu glæpasagnahátíðinni Iceland Noir í Iðnó í Reykjavík. Ísnálin er veitt fyrir bestu þýddu glæpasöguna á íslensku, þar sem saman fara góð þýðing og góð saga.

Þetta er fimmta árið sem verðlaunin eru veitt, og í annað sinn sem þeir Nesbø og Bjarni hreppa verðlaunin, en þau fengu þeir einnig árið 2015 fyrir bókina Blóð í snjónum. Að verðlaununum standa Iceland Noir glæpasagnahátíðin, Hið íslenska glæpafélag og Bandalag þýðenda og túlka.

Dómnefnd skipa Katrín Jakobsdóttir, Kolbrún Bergþórsdóttir, Jóhann R. Kristjánsson og Ragnar Jónasson.

Rithöfundasamband Íslands óskar Bjarna Gunnarssyni til hamingju með verðlaunin!


Skáld í skólum fær viðurkenningu á degi íslenskrar tungu

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, skáld og rithöfundur.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, skáld og rithöfundur.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta-og menningarmálaráðherra, veitti verkefninu Skáld í skólum sérstaka viðurkenningu í tilefni af degi íslenskrar tungu árið 2018. Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson er upphafsmaður Skálda í skólum og tók hann við viðurkenningunni fyrir hönd Höfundamiðstöðvar RSÍ við hátíðlega athöfn á Höfn í Hornafirði.

Rithöfundasambandið fagnar þessari viðurkenningu og þakkar Aðalsteini frumkvæðið og gott og gjöfult samstarf við verkefnið Skáld í skólum í rúman áratug.

Í greinargerð ráðgjafanefndar segir:

Verkefnið Skáld í skólum hefur verið starfrækt frá árinu 2006 á vegum Höfundamiðstöðvar Rithöfundasambands Íslands. Þar hefur grunnskólum um allt land boðist að brjóta upp hefðbundna kennslu með heimsóknum frá rithöfundum, handritshöfundum, skáldum og myndasöguhöfundum. Dagskráin er ætíð fjölbreytt og eitthvað í boði fyrir hvert skólastig, bæði styttri fyrirlestrar og kveikjur en einnig ritsmiðjur sem geta spannað nokkra daga. Í dagskránni í ár má til dæmis finna fyrirlestur um „Veiðilendur ævintýranna“, þar sem nemendur í 1.-4. bekk fá hjálp við að veiða hugmyndir og kveikjuna „Ef ég mætti ráða …“ þar sem nemendur í 5.-7. bekk fá hjálp við að búa til sína eigin myndasögubók. Öll erindin byggja þó á sama grunni: Skáldin ræða sögur og lestur, sköpun og skrif og hjálpa nemendum að fá hugmyndir að sínum eigin sögum.

Það er skemmst frá að segja að Skáld í skólum hefur hlotið góðar viðtökur bæði nemenda og kennara. Skemmtilegt, fróðlegt og gagnlegt eru orð sem kennarar nota í umsögnum um verkefni. Skáldin eiga því sannarlega erindi í skólana. Hæfileikinn til að segja og skrifa sögur er nátengdur hæfileikanum til að setja sig í spor annarra, sem er mikilvægur hluti af þroska allra ungmenna. Á tímum þar sem bóklestur á undir högg að sækja hlýtur einnig að vera hvetjandi fyrir unga lesendur að komast í beint samband við höfunda, en eitt af markmiðum verkefnisins er einmitt að „smita nemendur af ólæknandi lestrar- og sköpunargleði!“ Sú sköpunargleði er eldsneyti fyrir unga málnotendur og lífsnauðsynleg tungumáli sem þarf að vaxa og dafna andspænis nýjum áskorunum.

Ávarp Aðalsteins Ásbergs:

Aðalsteinn Ásberg

Aðalsteinn Ásberg

„Það er mér heiður og sérstök ánægja að veita viðtöku þessari viðurkenningu fyrir verkefnið Skáld í skólum sem Höfundamiðstöð Rithöfundasambandsins hefur haft veg og vanda af í 13 ár og má segja að hafi eðli málsins samkvæmt verið í stöðugri framsókn og þróun. Ástæða þess að ég stend hér fyrir hönd miðstöðvarinnar er sú að hugmyndin að verkefninu og titill voru á sínum tíma hugarfóstur mitt og mér síðan falið að vera við stjórnvölinn á skútu skólaskáldanna í áratug.

Í upphafi studdi Reykjavíkurborg við verkefnið á tilraunastigi, en síðan mennta- og menningarmálaráðuneytið og fleiri opinberir aðilar, auk menningarsjóða. Ég vil nefna sérstaklega framkvæmdastjóra rithöfundasambandsins og höfundamiðstöðvarinnar, Ragnheiði Tryggvadóttur, sem tók þátt í því af lífi og sál að koma verkefninu á koppinn og hefur átt drjúgan þátt í nauðsynlegri eftirfylgni. Eftir því sem ég kemst næst hafa hátt í 100 höfundar, lífs og liðnir, átt hlut í verkefninu og um 70 mismunandi dagskrár litið dagsins ljós. Sumar þeirra hafa reynst skammlífar en aðrar orðið eins konar framhaldsþættir og flust á milli ára hvað eftir annað. Höfundarnir eiga að sjálfsögðu stóran þátt í því að verkefnið hefur vaxið og dafnað í áranna rás. Ennfremur eiga skólarnir allir sem hafa sýnt verkefninu áhuga allt frá fyrsta misseri og fram til dagsins í dag þakkir skildar.“

Ráðgjafanefnd vegna Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar skipa að þessu sinni Ingunn Ásdísardóttir, formaður, Einar Falur Ingólfsson og Dagur Hjartarson.


Eiríkur Rögnvaldsson fær verðlaun Jónasar Hallgrímssonar

35298530_10155828237988871_4367835964547006464_n
Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar voru afhent á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, veitti Eiríki Rögnvaldssyni, prófessor emeritus, Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2018.
Rithöfundasamband Íslands óskar Eiríki innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Í greinargerð ráðgjafanefndar segir:

Prófessor emeritus Eiríkur Rögnvaldsson hefur með frumkvæði, elju og ást á íslenskri tungu, verið í framlínu þeirra sem vekja athygli þjóðar og stjórnvalda á þeirri hættu sem steðjar að íslenskri tungu og hinu smáa málsamfélagi okkar. Af atorku hefur hann útskýrt og gert grein fyrir hvílík lífsnauðsyn það er að efla máltækni á íslensku, hvað í því felst og hvaða áhrif það getur haft sé það ekki gert með hraði.

Í umræðu um þetta málefni hefur Eiríkur sýnt víðsýni og verið opinn fyrir eðlilegri þróun tungumálsins en jafnframt sýnt fram á það af rökfestu að viðbúið sé, ef svo heldur fram sem horfir, að íslensk tunga sé farin að þróast óeðlilega og eigi á hættu að hverfa í gin enskunnar, og að nú séu síðustu forvöð að spyrna við fótum ef ekki á illa að fara.

Eiríkur hefur jafnframt verið óþreytandi að ítreka hve lífsnauðsynlegt það er fyrir tungumálið og vitund okkar sem þjóðar, að viðhalda tungunni, efla og styrkja móðurmálskennslu og vekja fólk til umhugsunar um að tungumálið sé sameiningartákn, sá strengur sem tengir okkur við söguna og lífið í landinu, bæði fyrr og nú, en ekki síður að sá strengur verði að ná til framtíðarinnar líka.

Lesa meira


Auður Ava fær bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir Ör

aua

Tilkynnt var um verðlaunin á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs í Ósló í Noregi.

Skáldsagan Ör segir frá Jónasi Ebeneser, 49 ára fráskildum, valdalausum og gagnkynhneigðum karlmanni. Jónas sér fátt framundan í lífi sínu annað en að binda enda á það. Af tillitssemi við sína nánustu, einkum einkadótturina Guðrúnu Vatnalilju, ákveður hann að fara úr landi til að fullkomna ákvörðun sína og hann tekur með sér borvél.

Áður hefur Norðurlandaráð verðlaunað Ólaf Jóhann Sigurðsson (1976), Snorra Hjartarson (1981), Thor Vilhjámsson (1988), Fríðu Á. Sigurðardóttur (1992), Einar Má Guðmundsson (1995), Sjón (2005) og Gyrði Elíasson (2011).

Ör er fimmta skáldsaga Auðar Övu Ólafsdóttur. Hún er listfræðingur að mennt. Árið 1998 sendi hún frá sér sína fyrstu skáldsögu, Upphækkuð jörð. Bókin þótti óvenjuleg bæði hvað varðar efni og efnistök. Önnur skáldsaga hennar, Rigning í nóvember, leit dagsins ljós sex árum síðar. Hún vakti mikla athygli fyrir sína þriðju, Afleggjarann, sem kom út árið 2007.

Auður hefur bæði skrifað leikrit og sent frá sér eina ljóðabók auk þess sem hún hefur skrifað söngtexta fyrir hljómsveitina Milky Whale. Bækur Auðar hafa einnig verið gefnar út í öðrum löndum og hafa átt góðu gengi að fagna, einkum á Ítalíu, Spáni og í Frakklandi.


Ljóðstafur Jóns úr Vör

JúrV

Lista- og menningarráð Kópavogs efnir í átjánda sinn til ljóðasamkeppninnar um Ljóðstaf Jóns úr Vör. Ljóðunum skal skilað í fjórum eintökum undir dulnefni ekki síðar en 7. desember. Með hverju ljóði þarf að fylgja lokað umslag merkt dulnefninu sem inniheldur upplýsingar um nafn, símanúmer og netfang skáldsins. Einungis umslög sem tilheyra vinnings- og viðurkenningarljóðum verða opnuð en öllum öðrum gögnum eytt. Athugið að ljóðin mega ekki hafa birst áður.

Ljóðstafurinn verður afhentur ásamt viðurkenningum sunnudaginn 20. janúar 2019 við hátíðlega athöfn í Salnum.

Utanáskrift er: Ljóðstafur Jóns úr Vör, Menningarhúsin í Kópavogi, Digranesvegi 1, 200 Kópavogur.


Haukur Ingvarsson hlýtur b​​​ókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2018

Haukur Ingvarsson, rithöfundur og ljóðskáld, að lokinni afhendingu ásamt Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, starfandi borgarstjóra, Þórarni Eldjárn, sem átti sæti í dómnefnd og Úlfhildi Dagsdóttur, formanni dómnefndar.dsc01822

Haukur Ingvarsson er fæddur árið 1979. Hann lauk meistaraprófi í íslenskum bókmenntum árið 2005 og hefur síðan fengist við ritstörf og dagskrárgerð í útvarpi. Hann leggur nú stund á doktorsnám í íslenskum bókmenntum og skrifar um viðtökur Williams Faulkner á Íslandi.
Fyrsta ljóðabók Hauks, Niðurfall og þættir af hinum dularfulla Manga, kom út 2005 og í kjölfarið komu fræðibókin Andlitsdrættir samtíðarinnar: Síðustu skáldsögur Halldórs Laxness (2009) og skáldsagan Nóvember 1976 (2011).

Alls bárust 60 óbirt ljóðahandrit undir dulnefni. Dómnefndina skipuðu Úlfhildur Dagsdóttir formaður, Þórarinn Eldjárn og Börkur Gunnarson.

Í niðurstöðu dómnefndar segir: ,, Í ljóðabók Hauks Ingólfssonar eru margar Vistarverur. Orðið sjálft, vistarvera, gefur til kynna tilfinningu fyrir stað og íbúa auk þess að vísa til tilvistarinnar sjálfrar og stöðu verunnar í henni. Allt þetta kemur saman í ljóðunum en þau einkennast af vangaveltum um tengsl hins efnilega og hins andlega, með áherslu á samfellu þessa.
Þannig verða byggingar og skip framlenging af sjálfi ljóðmælanda, minningar og draumar taka á sig áþreifanlega mynd í hinum ýmsu vistarverum og veruleikinn sjálfur er jafnframt bundin upplifunum og tengslum við stað og stundir. Ljóðmælandi er á stundum líkt og einskonar draugur í eigin tilveru, hann veltir fyrir sér stöðu sinni í umhverfi sínu og sjálfsmynd og gluggar í stórar spurningar jafnt sem smáar.


Viltu verða verðlaunahöfundur?

Rithöfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson stofnuðu í fyrra til sérstakra glæpasagnaverðlauna sem nefnast Svartfuglinn í samvinnu við útgefanda sinn, Veröld. Eva Björg Ægisdóttir hlaut verðlaunin í ár fyrir sögu sína Marrið í stiganum sem kom út í apríl. Bókin fór strax í efsta sæti á mestölulista Eymundsson og hefur verið á metsölulistanum síðan. Verðlaunin eru veitt fyrir handrit að áður óbirtri glæpasögu og er við það miðað að sagan komi út hjá Veröld í upphafi Viku bókarinnar í apríl ár hvert. Verðlaunin nema 500.000 krónum auk hefðbundinna höfundarlauna samkvæmt rammasamningi Félags íslenskra bókaútgefenda og Rithöfundasambands Íslands. Einnig býðst þeim sem sigur ber úr býtum samningur við umboðsmanninn David H. Headley en tímaritið Bookseller útnefndi hann sem einn af 100 áhrifamestu mönnum breskrar bókaútgáfu árið 2015.

Yrsa og Ragnar skipa dómnefndina ásamt Bjarna Þorsteinssyni, útgáfustjóra Veraldar. Handitum skal skilað í þríriti til Veraldar að Víðimel 38, 107 Reykjavík, fyrir 1. janúar næstkomandi. Þau eiga að vera merkt dulnefni en rétt nafn höfundar fylgi með í lokuðu umslagi. Höfundurinn má ekki hafa gefið út glæpasögu áður. Þegar dómnefndin hefur lokið störfum sínum verður haft samband við verðlaunahöfundinn. Handritunum sem bárust í keppnina verður síðan eytt.

Yrsa og Ragnar segjast með þessum verðlaunum vilja hvetja höfunda til að spreyta sig á þessu bókmenntaformi, greiða þeim leið til útgáfu og stuðla að því að fleiri skrifi bækur á íslenskri tungu. Jafnframt vonast þau til að verðlaunin hjálpi nýjum höfundum að komast að hjá erlendum bókaforlögum.

svartfuglinn.w

Lesa meira