Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


BARNABÓKAVERÐLAUN REYKJAVÍKURBORGAR 2019

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 2019 voru afhent í Höfða þann 24. apríl sl. og í fyrsta sinn voru einnig afhent Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur fyrir óbirt handrit.

Hildur Knútsdóttir fær verðlaunin fyrir Ljónið

Verðlaun fyrir bestu frumsömdu bókina á árinu 2018 koma í hlut Hildar Knútsdóttur fyrir bókina Ljónið sem er fyrsta bókin í nýjum þríleik. Ljónið er hörkuspennandi ungmennasaga sem gerist í samtímanum en teygir anga sína aftur til ógnvekjandi atburða. Sagan fjallar um Kríu sem er að byrja í Menntaskólanum í Reykjavík. Þar þekkir hún engan og hún hefur litlar væntingar til skólans. Að mati dómnefndar er Ljónið lágstemmd unglingabók sem virkilega leynir á sér, bókin sjálf sé bæði undurfalleg og mikil, textinn einkar vel skrifaður og nostursamlega unninn.
Útgefandi Ljónsins er JPV forlagið.

Guðni Kolbeinsson fyrir vandaða þýðingu á Villimærinni fögru fyrstu bókinni í bókaflokknum Bækur duftsins

Guðni Kolbeinsson fær verðlaun fyrir þýðingu á Villimærinni fögru eftir Philip Pullman og er þetta í þriðja skipti sem hann hlýtur barnabókaverðlaunin fyrir þýðingar sínar. Í rökstuðningi dómnefndar segir að hér sé á ferðinni í senn vönduð, falleg og hugvitssöm þýðing sem færir íslenskum lesendum ævintýrabókmenntir eins og þær gerast bestar á okkar ástkæra og ylhýra máli. Útgefandi Villimærinnar fögru er JPV forlagið.

Rán Flygering fyrir myndlýsingar í bókinni Skarphéðinn Dungal sem setti fram nýjar kenningar um eðli alheimsins

Rán Flygering fær nú í annað sinn Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar sem myndhöfundur, að þessu sinni fyrir bókina Sagan um Skarphéðin Dungal sem setti fram nýjar kenningar um eðli alheimsins sem hún gerði með Hjörleifi Hjartarsyni. Í umsögn dómnefndar segir að myndir Ránar Flygenring í bókinni séu stílhreinar, grafískar og á tíðum abstrakt. Þær sýni heiminn út frá sjónarhorni flugunnar Skarphéðins og dragi vel fram áherslur sögunnar. Samspil lita og uppsetningar skapi fallega og kraftmikla heild sem einnig fangar ljóðræna frásögn bókarinnar. Útgefandi verðlaunabókarinnar er Angústúra.

Dómnefnd Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar er skipuð  þeimTinnu Ásgeirsdóttur formanni, Helgu Birgisdóttur, Magnúsi Guðmundssyni, Rakel McMahon og Valgerði Sigurðardóttur. 

Fimmtán bækur voru tilnefndar til verðlaunanna, fimm bækur í hverjum flokki og má lesa um tilnefndar bækur hér en þær voru kynnta í Gerðubergi þann 2. mars sl. 

Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur fyrir óbirt handrit hlýtur Bergrún Íris Sævarsdóttir

Bergrún Íris Sævarsdóttir er fyrsti handhafi nýrra barnabókaverðlauna sem kennd eru við Guðrúnu Helgadóttur og eru veitt fyrir frumsamið handrit að barna- eða ungmennabók. Hún fær þau fyrir handritið Kennarinn sem hvarf.

Fjölmörg handrit bárust í samkeppni um verðlaunin og var úr vöndu að ráða fyrir dómnefnd en Kennarinn sem hvarf eftir Bergrúnu varð að lokum fyrir valinu. Sagan ber um margt einkenni úr höfundarverki Guðrúnar Helgadóttur með sér, hún er hlý og talar beint til barna, inn í þeirra heim og dæmir ekki. Að mati dómnefndar tekst höfundi áreynslulaust að skapa atburðarás sem er í senn beint úr raunveruleika barna en samt svo sérstök og ævintýraleg að það vekur athygli og spennu.

Lesa meira


Kosning til stjórnar 2019

Aðalfundur Rithöfundasambands Íslands verður haldinn í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, fimmtudaginn 2. maí n.k. kl. 19.30.

Framboðsfrestur til stjórnar rann út 18. mars s.l.

Kosnir verða tveir meðstjórnendur. Kosningarnar munu fara fram rafrænt. Kjörfundur hefst 17. apríl og lýkur á miðnætti 1. maí. Allir skuldlausir félagsmenn (einnig heiðursfélagar og gjaldfrjálsir félagsmenn) munu fá sendan hlekk á kjörseðil áður en kjörfundur hefst.

Í framboði til meðstjórnenda eru: Hermann Stefánsson, Margrét Tryggvadóttir, Sindri Freysson og Vilhelm Anton Jónsson.

Meðfylgjandi kynningar hafa borist frá frambjóðendum.

Til meðstjórnanda

Sindri Freysson
Sindri Freysson

Kæru félagar,

Ég býð mig fram í embætti meðstjórnanda í þeirri von að geta lagt mitt af mörkum í þágu sambands allra rithöfunda á Íslandi, óháð því fyrir hvaða miðil þeir skrifa. Ég vil  skerpa á hlutverki RSÍ sem stéttarfélags sem starfar í þágu ALLRA félagsmanna og tryggja að festa og ákveðni ríki í samningagerð við hið opinbera, útgefendur, framleiðendur, leikhúsin og aðra viðsemjendur. RSÍ verður að standa vörð um alla bókmenntasköpun í landinu, auka þarf nýliðun innan þess og styrkja tekjustofna, félagsmönnum til hagsbóta.

Ég hef unnið ýmis verk í þágu stéttarinnar í gegnum árin, var t.d. einn af stofnendum og í stjórn Hjálparsveitar skálda sem stóð fyrir lestrarátakinu Alvara málsins 2012, og í undirbúningsnefnd fyrir landslestrarátakið Allir lesa 2014, á vegum Miðstöðvar íslenskra bókmennta og Reykjavíkur- Bókmenntaborgar. Sat í stjórn Rithöfundasjóðs RÚV 2001 og var formaður dómnefndar bókmenntaverðlaunanna Ljóðstafur Jóns úr Vör 2014. Ég hef verið fulltrúi RSÍ í stjórn Fjölís, hagsmunafélags handhafa höfundarréttar á Íslandi, seinustu ár og í samninganefnd RSÍ við RUV 2015-2019. Ég bið um traust félaga minna í RSÍ og heiti því að gera mitt allra besta til að verða þess trausts verðugur.

Sindri Freysson

Til meðstjórnanda

Vilhelm Anton Jónsson
Vilhelm Anton Jónsson

Sælir kæru félagar.

Með þessum stutta texta býð ég mig fram til stjórnar RSÍ. Þar hef ég setið í tvö ár og lært gríðarlega margt og óska nú eftir ykkar umboði og stuðningi til að sitja þar annað kjörtímabil og vinna að málefnum höfunda.

Ég er höfundur níu barna- og fjölskyldubóka. Þekktastar þeirra eru Vísindabækur Villa. Auk þess hef ég fengist við margskonar handrits- og textagerð alla mína ævi. Ég hef líka mikla reynslu af tónlist og þar liggur minn styrkur í þessu sambandi öllu, því þær áskoranir sem rithöfundar, tónlistarmenn og fleiri sem starfa í skapandi greinum standa frammi fyrir eru um margt svipaðar.

Það er alveg viðbúið að bókaútgáfa, rétt eins og hljómplötuútgáfa, breytist á næstu árum með tilkomu nýrra miðla. Þar ríður á að varðveita farminn frekar en farartækið og tryggja rétt þeirra sem listina skapa.

Hagsmunir rithöfunda og pappírsframleiðenda fara oft saman, þó alls ekki alltaf.

Það allra heilagasta sem við eigum er höfundaréttur okkar og réttur til sanngjarnra tekna af sköpunarverkum okkar og styrkur okkar er hæfileikinn til að skapa.

Sögur verða sagðar, ljóð ort og fróðleik og reynslu miðlað um alla tíð eins og hingað til, hvort heldur sem er á prenti, söng, leikriti eða hverju sem kann að vera.

Undirstaða alls þessa er skáldið, skaparinn.

Við semjum ekki fyrir blaðsíðurnar, þær eru miðillinn farartækið.

Mér þætti vænt um ykkar stuðning til áframhaldandi setu í stjórninni.

Hafið það sem allra best og gleðilega páska.

Vilhelm Anton Jónsson

Til meðstjórnanda

Margrét Tryggvadóttir
Margrét Tryggvadóttir

Kæru félagar,

síðustu tvö ár hef ég setið í stjórn Rithöfundasambandsins. Mér hafa fundist stjórnarstörfin skemmtileg og menntun mín, þekking og reynsla nýtast RSÍ vel. Því hef ég ákveðið að bjóða fram krafta mína aftur. Ég á einnig sæti í stjórn SÍUNG – Samtaka íslenskra barna- og unglingabókahöfunda og hef verið tengiliður SÍUNG við RSÍ. Það skiptir máli að gott talsamband sé þar á milli.

Ég hef komið víða við í heimi bókanna, hef skrifað nokkrar bækur, flestar fyrir börn, en þýtt eða ritstýrt enn fleiri verkum. Ég hef líka starfað hjá bókaforlagi, skrifað bókagagnrýni og kennt bókmenntir. Störf mín í stjórnmálum hafa einnig komið RSÍ að gagni. Ég er bókmenntafræðingur að mennt með framhaldsmenntun í menningarstjórnun. Í því námi rannsakaði ég opinbera stefnumótun og stuðning (eða stuðningsleysi) við bókmenntir á Íslandi í samanburði við Noreg, Svíþjóð og Danmörku (sjá nánar http://skemman.is/handle/1946/26777 ). Mér finnst mikilvægt að sú samantekt nýtist nú þegar stuðningur við bókmenntir og bókaútgáfu á Íslandi er loks að aukast. Séríslenskar lausnir á almennum vanda eru sjaldnast gáfulegar og til eru stuðningskerfi í nágrannalöndum okkar sem hafa gefist vel og gagnast rithöfundum mun betur en hinir nýju styrkir til bókaútgefenda. Mikilvægt er að RSÍ haldi áfram að hamra járnið á meðan það er heitt og þar vil ég leggja mitt að mörkum. 

Margrét Tryggvadóttir

Til meðstjórnanda

Hermann Stefánsson
Hermann Stefánsson

Hermann Stefánsson er rithöfundur, einkum höfundur skáldsagna, og hefur mjög lengi verið við ritstörf. Hann leggur áherslu á algeran aðskilnað ríkis og rithöfunda þegar kemur að ritlaunum, að RSÍ skipti sér hvergi af úthlutun ritlauna, sem og eðlilegt er. Hann leggur áherslu á stjórnsýslulega formfestu, heiðarleika og fagmennsku og gefur ekkert fyrir vinsældir viðkomandi rithöfunda, vill að sannleikurinn ráði, ekki kjörfylgi. Með nærveru Hermanns í stjórn má vænta festu og fagurfræðilegrar áherslu í samskiptum ríkis og rithöfunda, einkum þar sem aukastarf Hermanns er að skrifa niður þingræður á Alþingi — án þess að hafa með þingmönnum neina sérstaka samúð. Hermanni Stefánssyni er satt að segja ekkert gefið um kjarabaráttu barnabókahöfunda umfram aðra — þeir eru ágætir fyrir sitt leyti en yfir hverju hafa þeir að kvarta umfram aðra? Hermann hefur áður setið í stjórn Rithöfundasambandsins í eitt ár. Hermann hatar spillingu af lífi og sál — það nánast háir honum. Sennilega boðar Hermann bjartari tíma. Kannski er Hermann eina von hins almenna félagsmanns í baráttunni fyrir bættum kjörum og má þar nefna til sögunnar sönglag Jóns Halls Stefánssonar (sem svo skemmtilega vill til að er bróðir Hermanns Stefánssonar) í kosningabaráttu fyrir fáeinum árum: Kjósið Hermann Stefánsson!

Ó, kjósum hann, sem ljósið fann.


Starfsstyrkir, umsóknarfrestur til 7. maí

Opið er fyrir umsóknir um starfsstyrki úr Höfundasjóði RSÍ. Styrkirnir eru veittir til ritstarfa og áhersla er lögð á að styrkja höfunda til að ljúka verkum sem eru langt komin. Sótt er um á rafrænu eyðublaði á heimasíðu RSÍ. Til úthlutunar eru 3.500.000 kr. Veittir verða allt að tíu styrkir. Umsóknarfrestur t.o.m. 7. maí 2019.


Alþjóðleg bókmenntahátíð í Reykjavík í fjórtánda sinn

Fjórtánda Bókmenntahátíðin í Reykjavík verður sett miðvikudaginn 24. apríl og stendur til 27. apríl. Verður hún sannkölluð hátíð lesenda og höfunda og fer fram í Iðnó, Norræna húsinu og Veröld, húsi Vigdísar. Degi fyrir opnun eða 23. apríl á degi bókarinnar verður blásið til spennandi bókmenntadagskrár norðan heiða í menningarhúsinu Hofi á Akureyri þar sem erlendir og innlendir höfundar taka þátt.

Fjöldi íslenskra og erlendra rithöfunda hefur boðað komu sína á Bókmenntahátíð í Reykjavík, og munu margar nýjar þýðinga á erlendum bókum verða gefnar út af íslenskum forlögum í kringum hátíðina. Höfundahópurinn er afar fjölbreyttur og lesendur ættu allir að finna áhugaverða dagskrárliði við sitt hæfi; lesið verður upp úr nýjum bókum af ýmsu tagi og höfundaviðtöl verða á sviði. Þá verða höfundasamtöl um glæpasögur, kvikmyndaaðlögun, fjölskyldusögur og fleira. Sem fyrr er hátíðin öllum opin, aðgangur er ókeypis og auk þess verður hægt að fylgjast með dagskránni í streymi í gegnum vefsíðu.

Til viðbótar fjölda rithöfunda er einnig von á stórum hópi erlendra bókaútgefenda og blaðamanna sem koma á hátíðina til þess að kynna sér fjölbreytta flóru íslenskra bókmennta og höfunda.


Dagskrá fyrir alla: upplestrar, kvikmyndasýning, ball og sögustundir

Auk höfundasamtala og upplestra verður á hátíðinni sérstök barnadagskrá. Fimmtudaginn 25. apríl, á sumardaginn fyrsta, verður börnum flóttamanna og hælisleitenda boðið að fagna sumri með bóklestri og smiðjum í barnabókasafni Norræna hússins í samstarfi við Rauða krossinn, IBBY á Íslandi og Norræna húsið. Leiðsögn verður um sýninguna Barnabókaflóðið á arabísku og lesið verður úr bókum Áslaugar Jónsdóttur á arabísku en Barnabókaflóðið verður öllum opið í barnabókasafninu þann dag og eins og aðra daga hátíðarinnar. Laugardaginn 27. apríl verður einnig boðið upp á smiðjur og sögustundir fyrir börn og mun norski rithöfundurinn Maja Lunde vera með sögustund fyrir yngstu börnin sem fram fer á norsku en einnig verður lesið á íslensku. Sagnaþulur mætir og segir krökkunum sögur svo eitthvað sé nefnt.

Höfundar Bókmenntahátíðar munu heimsækja bókaklúbba og leshringi nú sem áður og hefur skapast skemmtileg stemning í heimahúsum þegar höfundar sækja lesendur sína heim.

Dagskrá um pólskar bókmenntir fer fram í Menningarhúsinu Gerðubergi í samstarfi við Borgarbókasafnið. Þar mun Jacek Godek flytja erindi um íslenskar bókmenntir í pólskum þýðingum og pólskar bókmenntir sem njóta nú mikillar hylli í heiminum en hafa þó lítið verið þýddar á íslensku enn sem komið er. Jacek hefur þýtt fjölda höfunda af íslensku á pólsku. Sunnudagskvöldið 28. apríl verður sýnd í sal Norræna hússins bíómyndin Jalouse eftir þá David og Stéphane Foenkinos, en myndin byggir á skáldsögu eftir David. David mun kynna myndina og svara spurningum áhorfenda. Hér er um að ræða gamanmynd um ástríka móður sem finnur skyndilega til mikillar afbrýðissemi gagnvart dóttur sinni.

Alþjóðleg bókmenntaverðlaun kennd við Halldór Laxness afhent í fyrsta sinn

Á sumardaginn fyrsta verður haldið alþjóðlegt þing um Halldór Laxness í Veröld, húsi Vigdísar. Í vetur sem leið var þing helgað Halldóri Laxness haldið í Osló og var þá þegar ákveðið að þingið færi fram bæði í Osló og Reykjavík. Þingið er haldið í samvinnu við Gljúfrastein, sendiráð Noregs á Ísland, Stofnun Vigdísar, Fritt ord og Kulturrådet í Noregi. Fram koma íslenskir og erlendir fyrirlesarar sem fjalla um Laxness í fjölbreyttu samhengi. Fyrirlesararnir eru Gerður Kristný, John Freemen, Mímir Kristjánsson, Auður Jónsdóttir, Halldór Guðmundsson, Karin Haugen og Tore Renberg. Þingið fer fram á ensku.

Á þinginu verður jafnframt tilkynnt hver hlýtur Alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness í fyrsta sinn en til þessara verðlauna var stofnað nú í vetur. Verðlaunin nema 15.000 evrum og eru veitt alþjóðlega þekktum rithöfundi fyrir að stuðla að endurnýjun sagnalistar með verkum sínum, en fyrir það hlaut Halldór sjálfur Nóbelsverðlaunin á sínum tíma. Að verðlaununum standa skrifstofa forsætisráðherra, menntamálaráðuneytið, Íslandsstofa, Bókmenntahátíð í Reykjavík, Gljúfrasteinn og Forlagið og verða þau hér eftir veitt á Bókmenntahátíð í Reykjavík.

Orðstír, heiðursverðlaun þýðenda á erlend mál

Orðstír, heiðursverðlaun þýðenda af íslensku á erlend mál verða afhent í þriðja skiptið föstudaginn 26. apríl og hljóta tveir afbragðsþýðendur verðlaunin fyrir ötult starf sitt sem sendiherrar íslenskra bókmennta úti í heimi. Að verðlaununum standa embætti forseta Íslands, Bandalag þýðenda og túlka, Miðstöð íslenskra bókmennta og Íslandsstofa auk Bókmenntahátíðar í Reykjavík. Dagskrá með verðlaunahöfunum verður í Veröld, húsi Vigdísar, sunnudaginn 28. apríl og verður sú dagskrá brú yfir í þýðendaþing sem Miðstöð íslenskra bókmennta stendur fyrir og hefst mánudaginn 29. apríl.

Kauptu bók og mættu á ballið!

Bækur allra höfunda sem taka þátt í Bókmenntahátíð í Reykjavík verða fáanlegar í Eymundsson. Eymundsson stendur jafnframt fyrir bóksölu á öllum viðburðum hátíðarinnar og það er kjörið að nota tækifærið og biðja höfunda að árita eftir dagskrárliði eða á Bókabarnum í Iðnó.

Formlegri dagskrá Bókmenntahátíðar í Reykjavík lýkur laugardagskvöldið 27. apríl með hinu stórskemmtilega Bókaballi. Þar er tilvalið fyrir lesendur og gesti hátíðarinnar að stíga nokkur spor með uppáhaldshöfundinum sínum.

Dagskrána verður hægt að sjá á ensku og íslensku á vefsíðunni www.bokmenntahatid.is og á samfélagsmiðlum og verður hún auk þess birt í Reykjavík Grapevine. Ókeypis er inn á alla viðburði hátíðarinnar og lesendur hjartanlega velkomnir.


Silfurlykillinn og Rotturnar tilnefndar fyrir Íslands hönd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2019

14 verk eru tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2019. Átta norræn tungumál eiga fulltrúa meðal þeirra verka sem tilnefnd eru í ár, en tilnefningarnar voru kynntar á alþjóðlegu bókamessunni í Bologna 2. apríl.

Ein af eftirtöldum myndabókum, teiknimyndasögum, skáldsögum og ljóðabókum mun svo hljóta verðlaunin í haust:

Danmörk

Da Mumbo Jumbo blev kæmpestor eftir Jakob Martin Strid. Myndabók/teiknimyndasag…Styrke. Karanagalaksen. Log I eftir Cecilie Eken. Skáldsaga, Høst & Søn, 2018.

Finnland

Breven från Maresi eftir Mariu Turtschaninoff. Skáldsaga, Förlaget, 2018.Ruusun matka eftir Mariku Maijala. Myndabók, Etana Editions, 2018.

Færeyjar

Miljuløtur eftir Rakel Helmsdal & Kathrinu Skarðsá (myndskr.). Sögubók, Bókadei…

Grænland

Tuttuarannguaq eftir Camillu Sommer & Pernille Kreutzmann (myndskr.). Myndabók,…

Ísland

Rotturnar eftir Ragnheiði Eyjólfsdóttur. Skáldsaga, Forlagið / Vaka-Helgafell, …Silfurlykillinn eftir Sigrúnu Eldjárn. Skáldsaga, Forlagið / Mál og menning, 20…

Noregur

Alle sammen teller eftir Kristin Roskifte. Myndabók, Magikon, 2018.Det var ikke en busk eftir Eli Hovdenak. Myndabók, Ena, 2018.

Samíska málsvæðið

Šiellaspeajal eftir Karen Anne Buljo. Ljóðabók, Davvi Girji, 2017.

Svíþjóð

Den förskräckliga historien om Lilla Hon eftir Lenu Ollmark og Per Gustavsson (…Risulven Risulven eftir Ninu Ivarsson. Skáldsaga, Rabén & Sjögren, 2017.

Álandseyjar

På en trollsländas vingar eftir Ann-Christin Waller & Anni Wikberg (myndskr.). …

Dómnefnd skipuð fulltrúum frá löndunum hefur tilnefnt verk til barna- og unglingabókmenntaverðlaunanna.

Verðlaunin veitt 29. október

Handhafi barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2019 verður kynntur þann 29. október í Stokkhólmi í tengslum við þing Norðurlandaráðs. Verðlaunahafinn hlýtur verðlaunagripinn Norðurljós og 350 þúsund danskar krónur.

Um barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Barna- og unglingabókmenntaverðlaunin voru veitt í fyrsta sinn á þingi Norðurlandaráðs 2013 um leið og önnur verðlaun ráðsins, að ósk norrænu menningarmálaráðherranna sem höfðu um árabil viljað efla og vekja athygli á barna- og unglingabókmenntum á Norðurlöndum.

Um verðlaun Norðurlandaráðs

Norðurlandaráð veitir fimm verðlaun á ári hverju: bókmenntaverðlaun, kvikmyndaverðlaun, tónlistarverðlaun, umhverfisverðlaun og barna- og ungmennabókmenntaverðlaun. Markmið verðlaunanna er að auka áhuga á norrænu menningarsamfélagi og samstarfi um umhverfismál, svo og að vekja athygli á verkefnum sem skarað hafa fram úr á sviði lista eða umhverfismála.


Umsóknir um dvöl í íbúð fræðimanns í Kaupmannahöfn 2019–2020

Íbúð fræðimanns í Kaupmannahöfn, samkvæmt reglum um hús Jóns Sigurðssonar, er laus til afnota tímabilið 28. ágúst 2019 til 25. ágúst 2020. Umsóknir um íbúðina skulu hafa borist skrifstofu Alþingis eigi síðar en þriðjudaginn 23. apríl næstkomandi. Nánari upplýsingar er að finna á vef Jónshúss

Fræðimenn, sem hyggjast stunda rannsóknir eða vinna að verkefnum í Kaupmannahöfn, geta sótt um afnot af íbúðinni, sem er á 2. hæð Jónshúss. Íbúðin er tveggja herbergja og fylgir henni allur nauðsynlegasti heimilisbúnaður. Afnotin eru endurgjaldslaus en þeim sem fá úthlutað ber þó að greiða fyrir þrif íbúðarinnar og rekstrarkostnað, alls kr. 60.000. 

Dvalartími í íbúðinni fer eftir umfangi verkefnis og öðrum atvikum en er þó venjulega ekki lengri en tveir mánuðir. Úthlutunarnefnd ætlast til að dvalargestir nýti úthlutaðan tíma sinn að fullu við störf í Kaupmannahöfn. Við úthlutun íbúðarinnar er höfð hliðsjón af eftirfarandi atriðum: 

1. Að verkefnið hafi fræðilegt eða hagnýtt gildi og þyki áhugavert. 

2. Að umsókn sé vandlega unnin. 

3. Að sem eðlilegust skipting sé milli kynja og fræðigreina.

4. Að verkefnið verði ekki unnið annars staðar en í Kaupmannahöfn eða nágrenni.

Þeir sem eru í námi, þar á meðal doktorsnámi, eiga að jafnaði litla möguleika á úthlutun. Þá er höfð hliðsjón af því hvort sótt er um dvöl í fyrsta skipti en þegar umsækjendur eru jafnsettir skulu þeir ganga fyrir sem sækja um dvöl í fyrsta skipti. 

Úthlutunarnefnd ráðgerir að ljúka störfum í maí. 

Umsóknir um íbúðina skulu vera á sérstöku eyðublaði  sem nálgast má á vef Jónshúss og skulu berast skrifstofu Alþingis eigi síðar en þriðjudaginn 23. apríl nk. 

Umsóknir merkist: 

Umsókn um fræðimannsíbúð
b.t. Jörundur Kristjánsson
Skrifstofu Alþingis
101 Reykjavík.


INNANFÉLAGSKRÓNIKA

Það er ekki vorlegt um að litast í kringum aðsetur RSÍ þegar ég set þessar línur á blað (reyndar á tölvuskjá, en hvað um það), glórulaus bylur, alhvít jörð og hryssingslegt hvert sem litið er. Samt eru vorverkin hafin hér í Gunnarshúsi.

Frá menntamálaráðuneytinu berast ýmis plögg, tillögur og reglugerðir sem okkur er vissara að lúslesa, því satt að segja skín alltof oft út úr þeim gögnum skilningsleysi á hlutverki listamanna í samfélaginu, svo ekki sé minnst á kjör þeirra.

Áður hef ég drepið á Frumvarp til laga um stuðning við útgáfu bóka á íslensku og tilgreint hvaða athugasemdir stjórn RSÍ vildi gera við það. Ennþá er brýnt að við höldum vöku okkar og gætum hagsmuna höfunda þegar regluverkið í kringum þau lög tekur gildi.

Okkur hefur einnig borist þingsályktunartillaga með titlinum Íslenska sem opinbert mál á Íslandi. Stjórnin hafði eitt og annað við þá tillögu að athuga og lét ráðuneytisfólk vita af því. Einkum furðuðum við okkur á því að í tillögunni skyldi lítið sem ekkert vikið að hlutverki höfunda sem skrifa á íslensku. Einhverjum hefði fundist það liggja í augum uppi að íslenskar bókmenntir og ritlistir hvers konar væru einn af hornsteinum íslenskrar tungu. Með bættum kjörum rithöfunda og eflingu þeirra sjóða sem fæða af sér íslensk verk, hvort sem er á bók, á leiksviði, í sjónvarpi, útvarpi, kvikmyndum eða á öðru formi, tryggjum við best veg og hag íslenskunnar. Í framhaldi var stjórnarfólk kallað á fund allsherjarnefndar Alþingis til að skýra mál sitt. Við verðum að vona að sjónarmið rithöfunda og annarra listamanna verði tekin til greina

Málefni Hljóðbókasafns hafa borið ótt og títt á góma undanfarnar vikur. Einkum er það óhófleg dreifing á verkum safnsins sem veldur okkur rithöfundum angri. Guðmundur Andri Thorsson þingmaður hefur nú beint fyrirspurn til menntamálaráðherra varðandi Hljóðbókasafn, þar sem hann spyr meðal annars hvort til standi að skoða starfsemi safnsins í ljósi breyttra markaðsaðstæðna. Einnig hvort ráðherra telji að sanngjarnar greiðslur fyrir afnot komi til höfunda og annarra rétthafa. Ráðherra hefur enn ekki svarað fyrirspurninni, en við bíðum spennt, þar sem öllum má vera ljóst að þær greiðslur sem berast til höfunda eru ekki í nokkru samræmi við þann feykistóra hóp sem notar Hljóðbókasafnið að staðaldri.

Starfshópur sem stofnaður var af RSÍ og Félagi leikskálda og handritshöfunda (FLH) hefur nú unnið um nokkurt skeið að því að móta rammasamning handritshöfunda og framleiðenda í kvikmyndum og sjónvarpi. Hópurinn hefur rýnt í sambærilega samninga frá öðrum löndum og það er von beggja félaganna sem að honum standa að hægt verði að ná kvikmyndaframleiðendum að samningaborðinu áður en langt um líður.

Stjórn RSÍ sat nýlega samráðsfund með stjórn Félags íslenskra bókaútgefaenda (FÍBÚT). Þar lýstum við yfir nauðsyn þess að teknar verði upp samningaviðræður við útgefendur. Það eru bæði samningar höfunda og þýðenda sem taka þarf til gagngerrar endurskoðunar. Þeir samningar sem nú eru í gildi eru komnir til ára sinna og bera þess merki að búið er að lappa uppá þá æ ofan í æ. Þeir eru því óhentugur bútasaumur þar sem eitt er til prýði en annað ekki. Nú er komið að því að skipa í samninganefndir og setja saman kröfugerðir.

Samningar höfunda við RÚV hafa ekkert þokast frá síðasta pistli formanns, einfaldlega vegna þess að samninganefnd RÚV hefur ekki gefið kost á viðræðum og heldur ekki svarað tillögum RSÍ að rammasamningi. Nú eru að verða tvö ár síðan þessar viðræður fóru af stað og við erum orðin langþreytt á biðinni. Ég vonast svo sannarlega eftir að geta fært einhverjar fregnir af þessu máli áður en alltof langt um liður. Hóflega bjartsýnn samt.

Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna var haldinn í febrúar. Fulltrúar RSÍ sátu fundinn. Það þarf engum að koma á óvart að bág kjör og strembið starfsumhverfi er það sem helst brennur á íslenskum listamönnum nú sem fyrr. Enn og aftur krefur BÍL stjórnvöld um aukinn skilning á stöðu listamanna og listarinnar í landinu og marktækar kjarabætur með eflingu starfslaunasjóða og fjölgun listamanna á launum.

Gunnarshús er félagsheimili og þjónustumiðstöð rithöfunda, eins og allir vita. Ég hvet félaga til að nýta sér húsið sem best, líta hingað inn til skrafs og ráðagerða eða halda hér kynningar og upplestra. Höfundar eru sígrænar plöntur sem ekki spretta einungis upp úr jörðinni í jólavertíðinni og við viljum endilega að hér í húsi sé líf allt árið.

Bestu kveðjur úr Gunnarshúsi

Karl Ágúst