Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Kristín Svava Tómasdóttir hlýtur Viðurkenningu Hagþenkis 2018

Kristín Svava Tómasdóttir

Kristín Svava Tómasdóttir

Viðurkenning Hagþenkis var veitt 6. mars í Þjóðarbókhlöðunni við hátíðlega athöfn, og  hana hlaut Kristín Svava Tómasdóttir fyrir ritið, Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar, sem  Sögufélag gaf út.
Í ályktunarorðum Viðurkenningaráðsins sagði um ritið: Brautryðjandaverk um sögu kláms og kynverundar á Íslandi sem byggir á afhjúpandi rannsóknum á vandmeðförnu efni. Viðurkenninguna veitti  formaður Hagþenkis Jón Yngi Jóhannsson, sem felst hún í árituðu skjali og 1.250.000 kr. Tónlist fluttu Tómas R. Einarsson og Sigríður Thorlacius, meðal annars við ljóð Kristínar Svövu.

Hagþenkir hefur frá árinu 1986 veitt Viðurkenningu fyrir fræðirit og námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekin upp sú nýbreytni að tilnefna 10 höfunda og rit sem þykja framúrskarandi og til greina koma. Viðurkenningarráð Hagþenkis, skipað félagsmönnum til tveggja ára í senn, ákvarðar tilnefningarnar og hvaða rit og höfundur hlýtur Viðurkenninguna. Í Viðurkenningarráðinu fyrir útgáfuárið 2018 sátu: Auður Styrkársdóttir, Ásta Kristín Benediktsdóttir, Henry Alexander Henrysson og Svanhildur Kr. Sverrisdóttir.

Rithöfundasamband Íslands óskar Kristínu Svövu innilega til hamingju með viðurkenninguna!

Heimasíða Hagþenkis


Tilnefningar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar 2019

 

tilnefningar2019

Þann 2. mars fór fram athöfn í menningarhúsi Borgarbókasafnsins í Gerðubergi þar sem tilkynnt var hvaða fimmtán bækur eru tilnefndar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar 2019, en verðlaunin verða afhent hefðinni samkvæmt síðasta vetrardag í Höfða.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eru veitt í þremur flokkum og voru fimm bækur tilnefndar í hverjum þeirra; fyrir bestu frumsömdu barna- og unglingabókina, best myndlýstu bókina og bestu þýðingu á barna- og unglingabók sem gefin var út á árinu 2018.

Í flokki frumsamdra barnabóka eru þessar bækur tilnefndar: Ljónið eftir Hildi Knútsdóttur, Rotturnar eftir Ragnheiði Eyjólfsdóttur, Silfurlykillinn eftir Sigrúnu Eldjárn, Svarthol. Hvað gerist ef ég dett ofan í? eftir Sævar Helga Bragason og Sölvasaga Daníelssonar eftir Arnar Má Arngrímsson.

Í flokki myndlýstra bóka eru tilnefndar: Ljóðpundari með myndlýsingum Sigrúnar Eldjárn og ljóðum eftir Þórarin Eldjárn, Sagan um Skarphéðin Dungal sem setti fram nýjar kenningar um eðli alheimsins, myndlýst af Rán Flygenring við texta Hjörleifs Hjartarsonar, Milli svefns og vöku með myndum Laufeyjar Jónsdóttur við texta Önnu Margrétar Björnsson, Sjúklega súr saga, myndlýst af Halldóri Baldurssyni með texta eftir Sif Sigmarsdóttur og að lokum Snuðra og Tuðra eiga afmæli, myndlýst af Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur við texta Iðunnar Steinsdóttur.

Í flokki þýddra bóka eru þýðendur tilnefndir: Guðni Kolbeinsson fyrir þýðingu á Villimærin fagra eftir Philip Pullman, Þórdís Bachmann fyrir bók 2 í bókaflokknum Hvísl hrafnanna eftir Malene Sølvsten, Erla E. Völudóttir fyrir Ferðalagið eftir Timo Parvela og Björn Sortland, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson fyrir Meira af Rummungi ræningja eftir Otfried Preußler og að lokum er það þýðing Jóns St. Kristjánssonar á Seiðmenn hins forna eftir Cressida Cowell.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eiga sér lengsta sögu barnabókaverðlauna á landinu og er helsta markmið þeirra að vekja athygli á því sem vel er gert í bókaútgáfu fyrir unga lesendur og hvetja þá til bóklesturs.

Valnefnd er skipuð Tinnu Ásgeirsdóttur formanni, Helgu Birgisdóttur, Magnúsi Guðmundssyni, Rakel McMahon og Valgerði Sigurðardóttur.


Héðan í frá – vinningssaga

Smásagan Héðan í frá, sem dómnefnd valdi sem bestu söguna í samkeppni sendinefndar Evrópusambandsins, upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, Rithöfundasambands Íslands, Hugvísindastofnun HÍ og Hafnar – HÔTEL DU NORD hefur nú verið birt á vef Sendinefndar ESB á Íslandi. Samkeppnin var haldin í tilefni 70 ára afmælis Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Sögurnar áttu að fjalla um mannréttindi á einhvern hátt og var þátttaka mjög góð (á áttunda tug sagna). Höfundur Héðan í frá er Rúnar Snær Reynisson og hlýtur hann að launum dvöl í gestaíbúð fyrir listamenn í Marseille, Frakklandi. Við þökkum öllum þeim sem tóku þátt, samstarfsaðilum okkar en einkum dómnefndinni, sem samanstóð af þeim Ástráði Eysteinssyni, Gauta Kristmannssyni og Halldóru K. Thoroddsen.

Héðan í frá

Michael Mann sendiherra ESB á Íslandi, Vilborg Davíðsdóttir varaformaður RSÍ og Rúnar Snær Reynisson vinningshafi

Michael Mann sendiherra ESB á Íslandi, Vilborg Davíðsdóttir varaformaður RSÍ og Rúnar Snær Reynisson vinningshafi.


Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

kóogkeSkáld­sag­an Elín, ým­is­legt eft­ir Krist­ínu Ei­ríks­dótt­ur og ljóðabók­in Kóngu­lær í sýn­ing­ar­glugg­um eft­ir Krist­ínu Ómars­dótt­ur hafa verið til­nefnd­ar til Bók­mennta­verðlauna Norður­landaráðs 2019 fyr­ir Íslands hönd. Þetta var til­kynnt í Gunn­ars­húsi fyr­ir stundu.

Lands­bundn­ar dóm­nefnd­ir til­nefna þetta árið sam­tals 13 verk til verðlaun­anna, en sam­eig­in­leg nor­ræn dóm­nefnd vel­ur vinn­ings­hafa árs­ins og verða verðlaun­in af­hent við hátíðlega at­höfn í Stokk­hólmi 29. októ­ber í tengsl­um við þing Norðurlandaráðs. Verðlauna­haf­inn hlýt­ur verðlauna­grip­inn Norður­ljós og 350 þúsund dansk­ar krón­ur sem sam­svar­ar tæp­um 6,4 millj­ón­um ísl. kr.

Frá Álands­eyj­um er til­nefnd skáld­sag­an Det finns inga mon­ster eft­ir Liselott Willén.

Frá Dan­mörku eru til­nefnt smá­sagna­safnið Ef­ter so­len eft­ir Jon­as Eika og skáld­sag­an de eft­ir Helle Helle.

Frá Finn­landi eru til­nefnd­ar skáld­sög­urn­ar Trist­ania eft­ir Mariönnu Kurtto og Där musiken börja­de eft­ir Lars Sund.

Frá Græn­landi er til­nefnd smá­sagna- og ljóðabók­in Arpa­atit qaqortut eft­ir Pi­vinn­gu­aq Mørch.

Frá Nor­egi eru til­nefnd­ar ljóðabók­in Det er ber­re eit spørs­mål om tid eft­ir Eldrid Lund­en og Jeg lever et liv som ligner deres. En lev­nets­beskri­vel­se eft­ir Jan Grue, en bók­in er skil­greind sem sjálfsævi­sögu­leg­ur prósi.

Frá sa­míska málsvæðinu er til­nefnd ljóðabók­in Ii dát leat dat eana eft­ir Ingu Ravna Eira.

Frá Svíþjóð eru til­nefnd­ar ljóðabók­in Non­sen­sprins­ess­ans dag­bok. En sjukskrivn­ing eft­ir Isa­bellu Nils­son og skáld­sag­an Människan är den vackra­ste staden eft­ir Sami Said.

Í um­sögn ís­lensku dóm­nefnd­ar­inn­ar seg­ir um skáld­sög­una Elín, ým­is­legt: „Ríkj­andi þemu í skáld­skap Krist­ín­ar Ei­ríks­dótt­ur eru þrá eft­ir ást og skiln­ingi, bar­átt­an við sam­bands­leysi, ein­mana­leiki, mis­notk­un, of­beldi og óhugnaður. Skáld­sag­an Elín, ým­is­legt er skýrt dæmi um þetta. Þar birt­ist öfl­ug rödd ungr­ar konu í list­ræn­um og mark­viss­um texta.“

Um Kóngu­lær í sýn­ing­ar­glugg­um seg­ir: „Í ljóðum Krist­ín­ar Ómars­dótt­ur lít­ur sak­leysið út eins og skyrsletta á vegg, bréfið und­ir kodd­an­um spyr: ertu þarna? Speg­ill­inn hand­sam­ar mynd ljóðmæl­and­ans þegar hann greiðir morg­un­bleikt hárið, landd­reymn­ar haf­meyj­ar stinga höfði upp úr sjón­um, gler­brjóst eru aug­lýst og torgið snarað með sjón­deild­ar­hringn­um. Krist­ín Ómars­dótt­ir hef­ur alltaf reynt hressi­lega á þanþol tungu­máls­ins. Frum­leg­ar ljóðmynd­ir henn­ar eru óvænt­ar og stund­um súr­realísk­ar.“

Bók­mennta­verðlaun Norður­landaráðs hafa verið veitt síðan 1962 og eru veitt fag­ur­bók­mennta­verki sem er samið á einu af nor­rænu tungu­mál­un­um. Það get­ur verið skáld­saga, leik­verk eða ljóða-, smá­sagna- eða rit­gerðasafn sem upp­fyll­ir strang­ar kröf­ur um bók­mennta­legt og list­rænt gildi. Mark­miðið með verðlaun­un­um er að vekja áhuga á bók­mennt­um og tungu­mál­um grannþjóðanna sem og menn­ing­ar­legri sam­kennd þeirra.

Skrif­stofa beggja bók­mennta­verðlauna Norður­landaráðs hef­ur verið til húsa í Nor­ræna hús­inu frá 2014. Náið sam­starf skrif­stof­unn­ar við bóka­safnið í Nor­ræna hús­inu skil­ar sér í því að all­ar til­nefndu bæk­ur árs­ins voru aðgengi­leg­ar á frum­mál­un­um á bóka­safn­inu í Nor­ræna hús­inu frá og með deg­in­um í dag. Einnig eru all­ar vinn­ings­bæk­urn­ar frá upp­hafi aðgengi­leg­ar til út­láns á safn­inu.


Íslensku þýðingaverðlaunin 2019 afhent á Gljúfrasteini

Íslensku þýðingaverðlaunin 2019 voru veitt á Gljúfrasteini laugardaginn 16. febrúar kl. 14:00. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin.
Í ár hlutu verðlaunin þau Ingibjörg Haraldsdóttir og Gunnar Þorri Pétursson fyrir þýðingu sína á Hinum smánuðu og svívirtu eftir Fjodor Dostojevskí. Forlagið gefur út.
Í dómnefnd sátu Steinþór Steingrímsson (formaður), Hildur Hákonardóttir og Brynja Cortes Andrésardóttir.

Íslensku þýðingaverðlaunin voru sett á stofn til að minna á mikilvægi þýðinga fyrir íslenska tungu og menningu og til að heiðra þýðendur sem sinna því vandasama verki að færa okkur vandaðar erlendar bókmenntir á móðurmáli okkar.


Gestadvöl í Ljubljana

f0owb28s_400x400Ljubljana, sem hefur verið Bókmenntaborg UNESCO síðan 2015, býður nú upp á gestadvöl fyrir rithöfunda í fyrsta sinn. Tvisvar á ári er höfundi boðið að dvelja í einn mánuð í hinni nýuppgerðu Švicarija/Swisshouse menningarmiðstöð sem er hluti af alþjóðamiðstöð grafískra lista (International Centre of Graphic Arts).

Hvenær?
1. – 31. október 2019 eða 20. nóvember – 20. desember 2019.

Fyrir hverja?
Gestadvölin er ætluð erlendum útgefnum höfundum sem tengjast einhverri annarri Bókmenntaborg UNESCO en Ljubljana. Þessi tengsl þurfa að koma fram í umsókn. Þetta þýðir að viðkomandi þarf að búa eða hafa búið í einhverri hinna 27 Bókmenntaborga eða tengjast einhverri þeirra í gegnum verk sín. Lista yfir Bókmenntaborgir UNESCO má sjá hér

Umsækjandinn þarf að hafa gefið út a.m.k. eitt skáldverk (prósa, ljóð eða leikverk) á móðurmáli sínu. Engar hömlur eru varðandi aldur, kyn, kynþátt eða þjóðerni. Þótt tekið sé við umsóknum frá höfundum hvers kyns skáldverka að þessu sinni, kann að vera að eitthvert annað ár verði tiltekin bókmenntagrein í brennidepli.

Hvað er innifalið?
Gesturinn fær 1000 evrur í farareyrir (upplýsingar um hugsanlegan millifærslukostnað og annan kostnað koma fram í samningi). Gesturinn dvelur í fullbúinni séríbúð í Švicarija/Swisshouse (hluti af MGLC – alþjóðlegri miðstöð grafískra lista í Ljubljana) í samfélagi við aðra alþjóðlega gesti (hver og einn hefur sína íbúð með eldhúsaðstöðu). Kostnaður við almenningssamgöngur innan borgarinnar er einnig greiddur. Frír aðgangur að interneti. Gestirnir fá hjálp við að tengjast listalífinu í borginni eftir því sem við á og höfundurinn er kynntur á opnum viðburði. Einnig er veitt aðstoð við að komast í samband við þýðendur og/eða útgefendur ef við á og tækifæri gefast. Gesturinn getur átt von á að þurfa að taka þátt í fundum á meðan dvölinni stendur, svo sem með viðburðahöldurum, útgefendum eða öðrum. Gestir bera sjálfir ábyrgð á sjúkratryggingum, fæði og umhirðu íbúðar. Ekki er hægt að hýsa aðra gesti en höfundinn.

Hvers er vænst af höfundinum?
Þótt engar kröfur séu gerðar um innihald eða tegund verkefnis sem unnið er að á dvalartímanum eru höfundar beðnir að skrifa stuttan bókmenntatexta (sögu, essayu, ljóð) sem á einhvern hátt tengist kjarnahugtaki Švicarija/Swisshouse, sem er “samfélag, list og náttúra” (community, art and nature) og Bókmenntaborginni Ljubljana, sem þeir eru tilbúnir til að flytja (lesa upp) á viðburði í borginni. Textinn verður þýddur á slóvensku og birtur með einhverjum hætti (í bókmenntatímariti eða öðru riti, hvort sem er prentuðu eða rafrænu, dagblöðum o.s.frv.). Bókmenntaborgin Ljubljana gerir að öðru leyti ekki tilkall til neinna réttinda varðandi textann. Gesturinn er hvattur til að sýna áhuga á og taka þátt í bókmenntaviðburðum í borginni, eftir því hvað hentar hverjum og einum, en þess er í það minnsta vænst að hann komi fram á einum bókmenntaviðburði (og lesi fyrrnefndan texta). Ekki er greitt sérstaklega fyrir þetta nema um annað sé samið.

Staðsetning
Švicarija/Swisshouse er menningar-, mennta- og samfélagsmiðstöð í hjarta almenningsgarðs í miðborg Ljubljana. Þar er boðið upp á dagskrá fyrir almenning, vinnurými fyrir listamenn borgarinnar og gestadvöl fyrir alþjóðlega listamenn og sérfræðinga. Setrið er líka heimili víðtæks samfélagsverkefnis sem vinnur út frá þemanu “samfélag, list og náttúra”. Það er hluti af MGLC – alþjóðlegri miðstöð grafískra lista sem safnar og framleiðir prentefni og samtímalist, rekur gestaprógramm fyrir alþjóðlega listamenn og byggir á arfleifð prentlistar 20. aldarinnar. Tvíæringur grafískrar listar Ljubljana (Biennial of Graphic Arts) er elsti tvíæringu heims á sviði prentlistar en hann hefur verið haldinn frá árinu 1955.

Um gestgjafana
Ljubljana, höfuðborg Slóveníu, var Höfuðborg bóka / World Book Capital 2010. Þegar borgin hlaut útnefningu sem Bókmenntaborg UNESCO 2015 varð hún hluti af neti Bókmenntaborga UNESCO um allan heim sem nú telur 28 borgir. Sem Bókmenntaborg skuldbindur borgin sig til að styðja við bókmenntir og lestur og taka þátt í verkefnum sem auka samvinnu á sviði ritlistar og útgáfu. Ljubljana er lifandi menningarborg og þar er fjöldi bókmenntaviðburða af alls kyns toga, frá grasrót og jaðarviðburðum til stórra alþjóðlegra hátíða. Gestadvölin veitir frið og ró til að skrifa en um leið tækifæri til að taka þátt í bókmenntalífi borgarinnar.

Umsókn og umsóknarfrestur
Umsókn sendist til damjan@ljubljanacityofliterature.com fyrir 31. mars 2019.
Fyrirspurnir sendist á sama netfang og eins er hægt að hringja í síma +386 41 541 306.
Hægt er að óska eftir sýnishorni af samningi.

Umsóknarform:
Name:
Address:
Nationality:
Date of birth:
Originating UNESCO City of Literature:
Relation to originating UNESCO City of Literature:
Books published (most recent; at least one; if translated, list languages):
Current interests and projects (up to 150 words):
What will you most likely focus on during the residency: manuscript/project/networking/other:
Preferred month (October/December/no preference):

Gestadvöl í Ljubljana er studd af Menningarsviði Ljubljanaborgar og MGLC – International Centre of Graphic Arts.