Andri Snær Magnason, Ásta Fanney Sigurðardóttir og Kristín Eiríksdóttir
Verið velkomin á höfundakvöld í Gunnarshúsi miðvikudaginn 4. desember kl. 20:00.
Þar munu þrír höfundar lesa upp úr nýútkomnum bókum sínum – Ásta Fanney Sigurðardóttir les úr ljóðabókinni Eilífðarnón, Kristín Eiríksdóttir úr ljóðabókinni Kærastinn er rjóður, og Andri Snær Magnason úr fræðibókinni Um tímann og vatnið.
Anna Dóra Antonsdóttir og Kristrún Guðmundsdóttir, kynna nýútkomna matreiðslubók sína Uppskriftir stríðsáranna – matur úr íslenskum eldhúsum eftir stríð á höfundakvöldi í Gunnarshúsi þann 3. desember kl. 20.00.
Hér er á ferðinni öðruvísi matreiðslubók með aðkomu fjögurra kvenna. Uppskriftirnar urðu kveikjan að samtali milli höfunda við leit að formi nýrrar matreiðslubókar.
Hvað eiga
fornaldargarðar, kafbátar og revíur sameiginlegt? Því er hægt að komast að á
höfundakvöldi í Gunnarshúsi, fimmtudaginn 28. nóvember kl. 20:00, en þá munu
þrír höfundar, þau Una Margrét Jónsdóttir, Illugi Jökulsson og Árni Einarsson kynna
nýútkomnar bækur sínar í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8.
Þórarinn Eldjárn stýrir
umræðum.
Höfundar árita bækur.
Kaffi og léttar
veitingar.
Allir eru velkomnir.
Verkin sem kynnt verða:
Árni Einarsson
Tíminn sefur. Fornaldargarðarnir miklu á Íslandi.
Bókin fjallar um
umfangsmikið kerfi torfveggja sem nú hefur verið rannsakað í nærfellt tvo
áratugi og eru að miklu leyti frá þjóðveldisöld. Torfveggir þessir hafa legið
svo þúsundum kílómetra skiptir um flestar byggðir landsins. Samanlögð lengd
þeirra jafngildir fjarlægðinni milli Hornafjarðar og Hong Kong.
Illugi Jökulsson
Úr undirdjúpunum til Íslands. Julius Schopka, U-52
og heimsstyrjöldin fyrri.
Árið 1920 kom ungur Þjóðverji
til Íslands, háseti á skonnortu. Hann veiktist og varð eftir þegar skipið hans
sigldi og bjó hér síðan. Hann átti viðburðaríka ævi að baki, hafði verið háseti
á kafbátnum U-52 og átti þátt í að sökkva mörgum skipum og upplifði hræðilega
atburði. Bókin er byggð á minningum Schopka sjálfs en einnig fjölda annarra
heimilda og þar segir ekki aðeins frá Schopka og U-52 heldur einnig frá gangi
stríðsins og heimsmálanna.
Una Margrét Jónsdóttir
Gullöld revíunnar.
Bókin er saga revíunnar á
Íslandi, fyrri hluti sem nær frá 1880 til 1957. Rakinn er söguþráður í öllum
revíum sem Una Margrét hefur fundið frá þessu tímabili, sagt frá revíunum og
viðtökum við þeim, og frá höfundum og helstu leikurum. Einnig er sérstaklega
fjallað um revíusöngvana.
Næstkomandi þriðjudagskvöld 12. nóvember kl. 20:00 verður kynning í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, á nýrri bók um leikskáldið og ljóðskáldið Jóhann Sigurjónsson, en í haust eru liðin hundrað ár frá dauða skáldsins, sem þá var aðeins 39 ára.
Bókin nefnist Úti regnið grætur og er höfundur Sveinn Einarsson, en Hið íslenska bókmenntafélag gefur bókina út.
Í bókinni kemur höfundur fram með nýjar kenningar um áhrif að utan á ljóðskáldskap Jóhanns, einkum frá symbólistum og öðrum módernistum aldamótaáranna um 1900, spyr í hvaða mæli þetta sama andóf frá raunsæisstefnunni setti mót sitt á leikritun Jóhanns og með hvaða hætti.
Höfundur heldur því fram með samanburði, að Jóhann hafi verið fremsta leikskáld Norðurlanda um sína daga og spyr, hvernig honum hafi vegnað bæði í Danmörku og annars staðar í heiminum meðan hann lifði og hvert sé orðspor hans í dag, til dæmis hvernig við Íslendingar höfum ræktað minningu hans.
Sveinn Einarsson er löngu þjóðþekktur fyrir afskipti sín af menningarmálum, meðal annars sem leikstjóri um hálfrar aldar skeið og sem höfundur hátt á annan tug bóka. Meðal rita hans eru Íslensk leiklist í þremur bindum, bók um leikskáldið Kamban og bókin Leiklistin í veröldinni.
Samkoman í Gunnarshúsi hefst kl. 20.00. Þar segir Sveinn frá hvata og tilurð bókarinnar, og situr síðan fyrir svörum, en leikskáldið Hrafnhildur Hagalín stýrir samkomunni og meðal frummælenda í almennu umræðunum verða bókmenntafræðingarnir Dagný Kristjánsdóttir og Eiríkur Guðmundsson.
Á Höfundakvöldi í Gunnarshúsi fimmtudaginn 7. nóvember kl. 20:00 munu þrír höfundar lesa upp úr nýútkomnum bókum; Bragi Ólafsson úr Stöðu pundsins, Guðrún Eva Mínervudóttir úr Aðferðir til að lifa af og Huldar Breiðfjörð úr Sólarhringl. Bækurnar verða á tilboðsverði og höfundar árita. Léttar veitingar í boði. Allir velkomnir.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Árni Snævarr, Soffía Auður Birgisdóttir og Þorbergur Þórsson munu lesa upp úr nýútkomnum verkum sínum og árita bækur í Gunnarshúsi á miðvikudagskvöldið 6. nóvember kl 20.
Verkin sem kynnt verða:
Lífgrös og leyndir dómar. Lækningar, töfrar og trú í sögulegu ljósi eftir Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur. (Vaka-Helgafell/Forlagið).
Madamma, kerling, fröken, frú. Konur í íslenskum bókmenntum, eftir Soffíu Auði Birgisdóttur. (Háskólaútgáfan)
Maðurinn sem Ísland elskaði. Paul Gaimard og Íslandsferðir hans, eftir Árna Snævarr. (Forlagið)
Kvöldverðarboðið, eftir Þorberg Þórisson. (Bókaútgáfan Vesturgata)