Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna

Í gær var tilkynnt við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum um tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2015. Jafnframt voru kynntar þær 5 þýðingar sem tilnefndar eru til Íslensku þýðingaverðlaunanna.

Formenn dómneftilnefningndanna þriggja munu velja einn verðlaunahafa úr hverjum flokki ásamt forsetaskipuðum formanni lokadómnefndar. Íslensku bókmenntaverðlaunin 2015 verða afhent um mánaðarmótin janúar-febrúar á komandi ári af forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni á Bessastöðum. Verðlaunaupphæðin er ein milljón króna fyrir hvern verðlaunahafa.

Eftirfarandi bækur eru tilnefndar í flokki barna- og ungmennabóka:

Arnar Már Arngrímsson – Sölvasaga unglings – Útgefandi: Sögur útgáfa

Gunnar Theodór Eggertsson – Drauga-Dísa – Útgefandi: Vaka Helgafell

Gunnar Helgason – Mamma klikk! – Útgefandi: Mál og menning

Hildur Knútsdóttir – Vetrarfrí – Útgefandi: JPV útgáfa

Þórdís Gísladóttir – Randalín, Mundi og afturgöngurnar – Útgefandi: Bjartur

Dómnefnd skipuðu: Hildigunnur Sverrisdóttir formaður nefndar, Árni Árnason og Sigurjón Kjartansson.

 Eftirfarandi bækur eru tilnefndar í flokki fagurbókmennta:

Auður Jónsdóttir – Stóri skjálfti – Útgefandi: Mál og menning

Einar Már Guðmundsson – Hundadagar – Útgefandi: Mál og menning

Hallgrímur Helgason – Sjóveikur í München – Útgefandi: JPV útgáfa

Hermann Stefánsson – Leiðin út í heim – Útgefandi: Bókaútgáfan Sæmundur

Jón Kalman Stefánsson – Eitthvað á stærð við alheiminn – Útgefandi: Bjartur

Dómnefnd skipuðu: Erna Guðrún Árnadóttir formaður nefndar, Helga Ferdinandsdóttir og Knútur Hafsteinsson

 Eftirfarandi bækur eru tilnefndar í flokki fræðibóka og rita almenns efnis:

Dagný Kristjánsdóttir – Bókabörn – Útgefandi: Háskólaútgáfan

Gunnar Þór Bjarnason – Þegar siðmenningin fór fjandans til – Íslendingar og stríðið mikla 1914 – 1918 – Útgefandi: Mál og menning

Héðinn Unnsteinsson – Vertu úlfur – wargus esto – Útgefandi: JPV útgáfa

Páll Baldvin Baldvinsson – Stríðsárin 1938 – 1945 – Útgefandi: JPV útgáfa

Smári Geirsson – Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915 – Útgefandi: Sögufélag

Dómnefnd skipuðu: Pétur Þorsteinn Óskarsson formaður nefndar, Aðalsteinn Ingólfsson og Hulda Proppé

Íslensku þýðingaverðlaunin

Bandalag þýðenda og túlka hefur frá árinu 2005 veitt verðlaun á alþjóðlegum degi bókarinnar, 23. apríl, fyrir íslenska þýðingu á erlendu skáldverki. Forseti Íslands afhendir verðlaunin á Gljúfrasteini, en svo vill til að dagur bókarinnar er einnig fæðingardagur Halldórs Laxness.
thydenda

Íslensku þýðingaverðlaunin voru sett á fót til að vekja athygli á mikilvægi þýðinga fyrir íslenska menningu og þeim afbragðsverkum sem auðga íslenskar fagurbókmenntir á ári hverju fyrir tilstilli þýðenda. Upphaflega kusu félagsmenn Bandalags þýðenda og túlka um tilnefnd verk, en fljótlega var ákveðið að fela óháðri þriggja manna dómnefnd að tilnefna fimm verk og velja verðlaunahafann. Tilnefningar eru kynntar samhliða tilnefningum til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Eftirfarandi þýðingar eru tilnefndar til Íslensku þýðingaverðlaunanna

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson – Nýsnævi – safn ljóðaþýðinga eftir 15 höfunda – Útgefandi: Dimma

Ásdís R. Magnúsdóttir – Rangan og réttan – þrjú ritgerðarsöfn eftir Albert Camus – Útgefandi: Háskólaútgáfan

Brynja Cortes Andrésdóttir – Ef að nóttu ferðalangur eftir Italo Calvino – Útgefandi: Ugla

Jón Hallur Stefánsson – Spámennirnir í Botnleysufirði eftir Kim Leine – Útgefandi: Bókaútgáfan Sæmundur

Silja Aðalsteinsdóttir – Grimmsævintýri, Philip Pullman tók saman og endursagði – Útgefandi: Mál og menning

Dómnefnd skipuðu: Árni Matthíasson formaður nefndar, María Rán Guðjónsdóttir og Tinna Ásgeirsdóttir

 


Höfundakvöld í Gunnarshúsi – nr. 7

höfundakvöld 7

 

Næstkomandi fimmtudagskvöld, 26. nóvember, kl. 20.00, fer sjöunda höfundakvöld haustsins fram í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins við Dyngjuveg 8. Þá mun Kristján Guðjónsson spjalla við þau Mikael Torfason og Auði Jónsdóttur, auk þess sem höfundarnir lesa úr nýjum bókum sínum: Týnd í Paradís og Stóra skjálfta. Allir eru velkomnir meðan stólar leyfa, aðgangseyrir er 1000 krónur og veitingar innifaldar.

Týnd í Paradís er sjötta skáldsaga Mikaels Torfasonar, en í henni segir hann sögu sína, foreldra sinna og forfeðra. Við sögu koma guð, djöfullinn og Vottar Jehóva. Ennfremur hippar, læknar, sjómenn, bændur, húsmæður, drykkjumenn, reykingafólk og börn. Mikael hefur þá einnig unnið sem blaðamaður og skrifað leikrit og handrit að kvikmyndum.

Auður Jónsdóttir sendir nú frá sér sína sjöunda skáldsögu, Stóra skjálfta. Hún hefur fengið fjölmargar viðurkenningar fyrir ritstörf sín og þá einnig starfað sem sjálfstætt starfandi blaðamaður. Sagan Stóri skjálfti rekur sögu Sögu sem rankar við sér eftir flogakast á gangstétt við Miklubrautina og þriggja ára sonur hennar er á bak og burt. Upp vakna ýmsar spurningar varðandi traust, samskipti og sjálfsþekkingu. Skáldsögur Auðar Jónsdóttur hafa vakið athygli hér heima og erlendis fyrir fágæta blöndu af nístandi einlægni og húmor.

Spyrill kvöldsins er Kristján Guðjónsson, en hann hefur starfað sem blaðamaður á síðustu árum, nú síðast sem menningarritstjóri DV.


Verðlaun Jónasar Hallgrímsonar

GF

Guðjón Friðriksson hlaut í gær verðlaun Jónasar Hallgrímsonar á Degi íslenskrar tungu. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra veitti verðlaunin í Bókasafni Mosfelssbæjar síðdegis. Bubbi Morthens fékk sérstaka viðurkenningu.

Guðjón Friðriksson hefur hin síðari ár skrifað viðamiklar ævisögur manna eins og Einars Benediktssonar, Hannesar Hafstein, Jóns Sigurðssonar forseta og Jónasar frá Hriflu. Þá hefur hann ritað sögu Faxaflóahafna, sögu Reykjavíkur og sögu  Kaupmannahafnar sem höfuðborgar Íslands. Í umsögn dómnefndar segir m.a. að hann hafi með verkum sínum markað eftirminnileg spor í íslenska bókmenntasögu og breytt viðmiðum okkar í ritun sagnfræði og ævisagna. Stíll Guðjóns sé þróttmikill og fágaður í senn, ljóðrænn og skáldlegur, en umfram allt einstaklega læsilegur og heillandi. Það megi telja víst að Jónas Hallgrímsson hefði kunnað að meta þannig stílbrögð.

Bubbi fékk sérstaka viðurkenningu

Þá fékk Bubbi Morthens  sérstaka viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu. Bubbi hafi alla tíð lagt áherslu á vandaða textasmíð á kraftmikilli íslensku, hvort heldur sem hann hafi sungið um verbúðarlífið, ástina eða brýn samfélagsmál.


Höfundakvöld í Gunnarshúsi nr. 6

6-höfundakvöld

Næstkomandi fimmtudagskvöld, 19. nóvember kl. 20.00, fer sjötta höfundakvöld haustsins fram í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins við Dyngjuveg 8. Þá mun Ármann Jakobsson spjalla við skáldin Bergsvein Birgisson, Sjón og Kára Tulinius, auk þess sem höfundarnir lesa úr nýjum bókum sínum. Allir eru velkomnir meðan stólar leyfa, aðgangseyrir er 1000 krónur og veitingar innifaldar.

Bergsveinn Birgisson vakti athygli í Noregi árið 2013 fyrir fræðirit sitt um Geirmund heljarskinn sem hann ritaði á norsku og nefndi Svarta víkinginn. Í skáldsögunni sem Bergsveinn sendir nú frá sér hjá Bjarti er hins vegar loks hægt að lesa stórbrotna sögu Geirmundar sjálfs. Sjón hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2013 fyrir síðustu skáldsögu sína, Mánastein, en hann er ekki síður afkastamikið ljóðskáld og gefur í haust út hjá JPV ljóðabókina Gráspörvar og ígulker. Kári Tulinius hefur fengist lengi við ljóðagerð, sem og önnur skrif, en sendir nú frá sér sína fyrstu sjálfstæðu ljóðabók. Hún kallast Brot hætt frum eind og kemur út hjá Meðgönguljóðum.


Ályktun frá stjórn RSÍ!

Stjórn Rithöfundasambandsins ályktar:
Rithöfundasamband Íslands harmar að eina ferðina enn skuli veist að einni mikilvægustu menningarstofnun þjóðarinnar í tilefni af nýútkominni og umdeildri skýrslu um fjárhag hennar. Ár eftir ár höfum við nú fylgst með skipulegu niðurbroti á stofnun sem heldur utan um eitt af fjöreggjum þjóðarinnar í sögulegu og menningarlegu tilliti. Hvar væri íslensk ritlist, tónlist, myndlist, kvikmyndalist, leikilist í fjölmiðlum ef ekki væri fyrir RÚV? Ríkisútvarpið sinnir öllum þessum listgreinum, auk fjölmargra annarra samfélagslegra þátta sem enginn önnur stöð kemur nálægt. Það er því fyllsta ástæða, einmitt núna, þegar þrýstingurinn á íslenskar listir og tungu hefur aldrei verið meiri, að efla og styrkja Ríkisútvarpið. Það er menningarlegt torg allrar þjóðarinnar og það eina sem við eigum.


Höfundakvöld í Gunnarshúsi

3höfundakvöld

Næstkomandi fimmtudagskvöld, 29. október kl. 20.00, fer þriðja höfundakvöld haustsins fram í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins við Dyngjuveg 8. Þá mun Jón Yngvi Jóhannsson spjalla við rithöfundana Einar Má Guðmundsson og Ólaf Gunnarsson, auk þess sem höfundarnir lesa úr nýjum bókum sínum. Allir eru velkomnir meðan stólar leyfa, aðgangseyrir er 1000 krónur og veitingar innifaldar.

Ný skáldsaga Einars Más Guðmundssonar, Hundadagar, er komin út hjá Mál og menningu og hefur þegar fengið feikigóða dóma. Þetta er ævintýraleg saga þar sem koma fyrir Jörundur hundadagakonungur, Jón Steingrímsson eldklerkur og fleira fólk fyrri alda. Ólafur Gunnarsson gefur út hjá JPV útgáfu skáldsöguna Syndarinn, fjölskyldusögu sem gerist á seinustu áratugum síðustu aldar og er sjálfstætt framhald Málarans sem kom út árið 2012.


Ljóðstafur Jóns úr Vör – Ljóðasamkeppni í Kópavogi: Verðlaunafé tvöfaldað

Lista- og menningarráð Kópavogs efnir í fimmtánda sinn til árlegrar ljóðasamkeppni undir heitinu Ljóðstafur Jóns úr Vör. Öllum skáldum er velkomið að senda ljóð í keppnina en skilafrestur rennur út 10. desember. Veitt verða vegleg verðlaun og fær verðlaunaskáldið auk þess til varðveislu, í eitt ár, göngustaf áletraðan með nafni sínu.

Verðlaunaféð er tvöfaldað frá því í fyrra, þar sem enginn hlaut ljóðstafinn þá og nemur einni milljón króna sem skiptist þannig að 600.000 kr. eru veittar fyrir fyrsta sætið, 300.000 kr. fyrir annað sæti og 100.000 kr. fyrir þriðja sætið.

Greint verður frá niðurstöðum samkeppninnar og verðlaun veitt á afmælisdegi Jóns úr Vör 21. janúar 2016. Jón úr Vör bjó nánast allan sinn starfsaldur í Kópavogi en tilgangur keppninnar er að efla og vekja áhuga á íslenskri ljóðlist.

Ljóðum skal skilað með dulnefni. Nafn, heimilisfang og símanúmer skáldsins skal fylgja með í lokuðu umslagi, sem auðkennt er með sama dulnefni. Ljóðin mega ekki hafa birst áður.

Utanáskrift er: Ljóðstafur Jóns úr Vör,  Fannborg 2, 200 Kópavogur.


Annað höfundakvöld í Gunnarshúsi: Jón Kalman og Sigurjón Bergþór Daðason

jk+sbd

Næstkomandi fimmtudagskvöld, 22. október kl. 20.00, fer annað höfundakvöld haustsins fram í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins við Dyngjuveg 8. Þá mun Halla Þórlaug Óskarsdóttir spjalla við þá Jón Kalman Stefánsson og Sigurjón Bergþór Daðason um nýútkomnar bækur þeirra, auk þess sem höfundarnir lesa úr bókum sínum. Allir eru velkomnir meðan stólar leyfa, aðgangseyrir er 1000 krónur og veitingar innifaldar.

Jón Kalman Stefánsson gefur um þessar mundir út hjá Bjarti skáldsöguna Eitthvað á stærð við alheiminn, en hún er framhald bókarinnar Fiskar hafa enga fætur sem kom út árið 2013. Hér lýkur ættarsögunni sem hófst í þeirri bók og teygir sig frá Norðfirði forðum til Keflavíkur dagsins í dag, með viðkomu á Miðnesheiðinni. Sigurjón Bergþór Daðason gefur út hjá Veröld skáldsöguna Hendingskast, en í henni er sagt frá óvæntum atburðum sem koma róti á líf sögupersónanna. Þetta er fyrsta bók Sigurjóns en hann starfar einnig sem klarinettuleikari.


Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar

Ragnar Helgi Ólafsson hlaut í gær Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2015 fyrir ljóðahandritið  Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri veitti verðlaunin sem nema 700 þúsund krónum. Fyrstu eintök af bókinni komu um leið úr prentun í útgáfu Bjarts.

  • Ragnar Helgi Ólafsson, verðlaunahafi, Elsa Yeoman, formaður menningar- og ferðmálaráðs og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að lokinni athöfninni í Höfða í dag.
    Ragnar Helgi Ólafsson, verðlaunahafi, Elsa Yeoman, formaður menningar- og ferðmálaráðs og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að lokinni athöfninni í Höfða í gær.

Ragnar Helgi las heimspeki við Háskóla Íslands og lagði síðar stund á nám í myndlist í Frakklandi. Hann hefur síðastliðin ár unnið að myndlist og sýnt verk sín víða um heim, meðfram því að sinna grafískri hönnun og kennslu auk þess að spila tónlist með ýmsum hljómsveitum.  Hann er annar forsvarsmanna Tunglsins forlags og situr auk þess í ritstjórn tímaritraðarinnar 1005 og veftímaritsins Skíðblaðnis. ,,Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í sam¬tíma sínum“ er þriðja bók hans, en áður hefur hann sent frá sér skáldsöguna ,,Bréf frá Bútan“ og smásagnasafnið ,,Fundur útvarpsráðs þann 14. mars 1984 og áhrif hans á kynverund drengsins og fleiri sögur“. Ragnar Helgi  býr í Reykjavík.

Alls bárust 48 handrit að þessu sinni. Í dómnefnd sátu Ragnhildur Pála Ófeigsdóttir, Bjarni Bjarnason og Páll Valsson formaður nefndarinnar. Í umsögn dómnefndar kemur fram að henni hafi verið ánægjulegur vandi á höndum, sem var að lokum erfitt val á milli nokkurra góðra handrita. Þegar upp var staðið var hún hins vegar öll sammála um að heildstæðasta handritið og það sem fremst stæði meðal jafningja væri það sem nú er komið á bók undir heitinu Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum. Eitt helsta einkenni hennar væri myndvísi. Hún ber vitni góðri myndgáfu höfundar en hann hefur líka eftirtektarverð tök á að klæða þær myndir í orð. Annað einkenni þessarar bókar væri að tefla saman að því er virðist óskyldum hlutum af vissum óhátíðleika. Þetta skapaði ákveðna spennu sem ljær ljóðunum aukna dýpt. Kæruleysið á yfirborðinu leynir á sér. Fjölbreytileiki er líka einn styrkur bókarinnar, hún er margradda í góðum skilningi; tekist er á við heimspekileg viðfangsefni jafnhliða þeim sem stundum eru kölluð hversdagsleg, en eru auðvitað alveg jafn sígild, hér eru prósaljóð og frásagnir jafnframt knöppum og meitluðum ljóðum. Tilfinningin er sú að lífið leyni á sér, ekkert er sem sýnist, lífið er sem næturveiði og því gildir að skyggnast dýpra í hylinn.