Verðlaunahafar Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Blóðdropans 2023

Íslensku bókmenntaverðlaunin

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson afhenti Íslensku bókmenntaverðlaunin og Íslensku glæpasagnaverðlaunin Blóðdropann við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í gær, 31. janúar

Skáldverk

Steinunn Sigurðardóttir hlaut bókmenntaverðlaunin í flokki skáldverka fyrir verk sitt Ból. Útgefandi er Mál og menning

Ból er efnismikil saga þrátt fyrir að bókin sé ekki ýkja löng. Viðfangsefnið er ástin í öllum sínum fjölbreyttu myndum, en líka missir, tengsl og tengslaleysi, hvort sem er við sjálfa sig eða aðra, umhverfi sitt og náttúru. Ferðalag söguhetjunnar rammar inn frásögnina sem um leið verður innri ferð hennar og uppgjör við lífið. Það er margt sem kraumar undir, líkt og í náttúrunni sem býr sig undir að gjósa, en ferðinni er heitið heim í unaðsreit fjölskyldunnar, Ból, sem er um það bil að verða náttúruöflunum að bráð. Steinunn vefur blæbrigðaríkan textavef sem heldur lesandanum föngnum allt frá upphafi, sagan snertir við honum og tilfinningarnar malla lengi eftir að lestrinum lýkur. Hið ósagða er oft jafn afhjúpandi og það sem sagt er og, líkt og í fyrri verkum Steinunnar, er leikandi írónía í bland við myndríka ljóðrænu einkennismerki textans. Þótt Ból sé að vissu leyti heimsendasaga ræður fegurðin för og það er hún sem situr fastast eftir,“ segir í umsögn dómnefndar.

Barna- og ungmennabækur

Gunnar Helgason og Rán Flygenring myndhöfundur hlutu verðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka fyrir bókina Alexander Daníel Hermann Dawidsson: Bannað að drepa. Útgefandi er Mál og menning

Í þessari þriðju bók í seríunni um Alexander er tekist á við stórar spurningar eins og titillinn ber með sér. Stríðsátök, sorg og missir eru í brennidepli en sagan hverfist um nýjan félaga Alexanders, Vola frá Úkraínu. Þessi flóknu málefni eru tækluð með húmor og hlýju þar sem sjónarhorn barnsins ræður för og lesandinn verður virkur þátttakandi í vangaveltum Alexanders. Þar tvinnast vel saman alþjóðlegur atburður og áhrif hans á líf venjulegs fólks á átakasvæðinu og hér heima á Íslandi. Þrátt fyrir grafalvarlegt söguefnið einkennist sagan af leiftrandi frásagnargleði, sem fjörlegar myndir Ránar Flygenring ýta svo enn frekar undir. Eins og í fyrri bókunum er persónusafnið fjölbreytt og litríkt og atburðarásin er spennandi. Bannað að drepa er bók sem er skrifuð af skilningi á hugarheimi barna og virðingu fyrir margbreytileika mannlífsins. Hún veitir ekki endilega einhlít svör við öllum spurningum en býður svo sannarlega upp á lifandi samræður barna og fullorðinna sem lesa hana saman,“ segir í umsögn dómnefndar.

Fræðibækur og rit almenns efnis

Haraldur Sigurðsson hlaut verðlaun í flokki fræðibóka og rita almenns efnis fyrir bók sína Samfélag eftir máli: Bæjarskipulag á Íslandi og fræðin um hið byggða umhverfi. Útgefandi er Sögufélag.

Samfélag eftir máli er yfirgripsmikið verk um sögu og þróun skipulagsmála á Íslandi, einkum í Reykjavík. Ritið byggir á langri og ítarlegri rannsóknarvinnu höfundar, framsetningin er aðgengileg og textinn einkar lipur. Skipulagsfræðin eru sett í samhengi við hugmyndasögu hvers tíma, svo og atvinnu- og lýðræðisþróun, einkum á vesturlöndum, og vísanir í íslenskar og alþjóðlegar bókmenntir og listir þétta verkið og gefa því breiðari skírskotun. Höfundur segir hlutlægt frá, en er gagnrýninn á stefnur og strauma og minnir lesendur oft á að engin algild sannindi eru til í þessum fræðum. Samfélag eftir máli er afar áhugaverð bók um manngert umhverfi okkar, sem skiptir sköpum fyrir samfélagsþróunina, umhverfismál og persónulega líðan okkar allra. Hún á erindi jafnt til fagfólks og almennings, er fagurlega hönnuð og ljóst að hugað er að umhverfisþáttum við gerð hennar,“ segir í umsögn dómnefndar.

Blóðdropinn

Eva Björg Ægisdóttir hlaut Blóðdropann fyrir bókina Heim fyrir myrkur. Útgefandi er Veröld.

Heim fyrir myrkur er grípandi sálfræðitryllir sem erfitt er að leggja frá sér. Andrúmsloft óhugnaðar og dulúðar er listilega byggt upp og grunsemdum og efa sáð jöfnum höndum í huga lesanda. Sögusviðið er lifandi og vel er unnið úr sögulegum atburðum í bakgrunni frásagnarinnar. Þessi samfélagslegi vinkill, sem snertir á sögu vistheimila á Íslandi, er fléttaður við fjölskyldudrama og hversdagslíf ungs fólks í borgfirsku dreifbýli upp úr miðri síðustu öld og úr verður sannfærandi og afar spennandi frásögn með fjölbreyttu og breysku persónugalleríi. Frásagnaraðferðin er áhugaverð og ísmeygilega unnið með fyrstu persónu sjónarhorn söguhetju sem berst við að ráða í atburði, drauma og flókinn veruleika í nútíð og fortíð um leið og lesandinn berst við hrollinn sem læðist að honum og grípur hann sífellt fastari tökum.

Rithöfundasamband Íslands óskar höfundunum innilega til hamingju með verðlaunin!