Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Höfundakvöld í Gunnarshúsi 2. nóvember.

Fjórum vorboðum boðið til vetursetu

Vorfuglar

Fimmtudaginn 2. nóvember munu fjögur skáld sem gáfu út að vori kynna bækur sínar.

 Bergur Ebbi les úr ritgerðasafninu Stofuhiti.

Halldóra K. Thoroddsen les úr ljóðabókinni Orðsendingar.

Kári Tulinius les úr skáldsögunni Móðurhugur.

Soffía Bjarnadóttir les úr ljóðabókinni Ég er hér.

Vorboðunum fjórum verður boðið til vetursetu af haustskáldinu Heiðrúnu Ólafsdóttir sem verður kynnir og mun lesa ljóð úr nýútkominni bók sinni Ég lagði mig aftur.

Fimmtudagur 2. nóv. kl. 20 í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, 108 Reykjavík


Halldóra K. Thoroddsen hlýtur Bókmenntaverðlaun ESB í ár fyrir Tvöfalt gler

Halldóra K. Thoroddsen, rithöfundur Ljósmynd: Ásdís Thorodssen

Halldóra K. Thoroddsen, rithöfundur Ljósmynd: Ásdís Thorodssen

Rithöfundurinn Halldóra K. Thoroddsen hlýtur Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins í ár fyrir skáldsögu sína Tvöfalt gler (2016). Í bókinni leitar Halldóra á nýjar slóðir bæði í efnistökum og stíl, og veitir meðal annars innsýn í viðfangsefni sem sjaldan er fjallað um í íslenskum bókmenntum, ástarlíf eldra fólks. Bókin veltir upp áhugaverðri spurningum sem sjaldan er orðuð: Hvenær erum við of gömul til að verða ástfangin? Annað mikilvægt efni bókarinnar er rofið milli kynslóða. En Tvöfalt gler fjallar öðrum þræði um hvernig kynslóðirnar hafa einangrast hver frá annarri og bernskan og ellin orðið út undan í samfélaginu.

Í myndheimi bókarinnar er fléttað saman beittu innsæi og tilfinningaþrungnum lýsingum sem falla vel að efni sögunnar og skapa jafnvægi sem hentar frásögninni fullkomlega. Höfundi tekst einkar vel að fanga stórar tilfinningar í ljóðrænum og nákvæmum lýsingum, hvert orð er gaumgæfilega valið út frá merkingu og formi,“ segir í umsögn dómnefndar: „Tvöfalt gler er stór saga sögð í fáum orðum. Hún fjallar um tilvist okkar og tilgang, er barmafull af kvenlegri visku og skarpri innsýn í líf og dauða.“

Halldóra Kristín Thoroddsen er fædd 1950 og er menntaður kennari en einnig útskrifuð frá Myndlista og handíðaskólanum. Hún hefur numið sálfræði við Kaupmannahafnarháskóla og myndlist í Englandi. Bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi gefur bókina út.

Tibor Navracsics, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins í menningar- og menntamálum, mun afhenda verðlaunin við hátíðlega athöfn í Brussel þann 23. maí.

Nánar um verðlaunin.

Continue reading


Höfundakvöld í Gunnarshúsi helgað Látra-Björgu í samtímanum

latra-bjorgHöfundakvöld í Gunnarshúsi fimmtudaginn 20. október verður helgað Látra-Björgu (1716-1784) og sterkri innkomu hennar hennar á 300 ára afmæli sínu sem er í ár. Umsjónarmaður höfundakvöldsins er Halldóra Thoroddsen, ljóðskáld, smáprósa- og skáldsagnahöfundur.

Höfundar og kvæðamenn:

Valgarður Egilsson, sem árið 2014 sendi frá sér bókina Steinaldarveislan þar sem Látra-Björg og hennar heimaslóðir koma við sögu. Valgarður hefur sent frá sér fjölda skáldverka og til margra ára farið sem leiðsögumaður frá heimaslóðum sínum um Látraströnd og Fjörður, enda manna fróðastur um lífið þar.

Sigurlín Bjarney, sem í haust sendir frá sér ljóðabókina Tungusól og nokkrir dagar í maí, sem skiptist í þrjá hluta en í þeim fyrsta birtist okkur kraftaskáldið Látra-Björg í ímyndaðri dagbók. Sigurlín Bjarney hefur vakið athygli fyrir ljóðabækur sínar, örsögur og smásögur. Hún er búsett í Svíþjóð og kemur fram í gegnum Skype.

Hermann Stefánsson, sem í haust sendir frá sér skáldsöguna Bjargræði sem hefur Látra-Björgu að sögumanni og geymir fjölda kvæða hennar. Hermann hefur gefið út fjölda skáldverka og lærir nú til kvæðamanns.

Ragnheiður Ólafsdóttir kveður rímur við kvæði Látra-Bjargar. Ragnheiður er söngkona og doktor í rímnahefðinni.

Hugsanlegur leynigestur, ef lukkunni og Skype þóknast, er Heimir Freyr Hlöðversson sem vinnur að gerð heimildamyndar um Látra-Björgu.

Í hléi er ætlunin að bjóða upp á kæstan hákarl og eitt lítið brennivínsstaup.

Dagskráin hefst kl. 20.00. Allir velkomnir.