Search
Close this search box.

Höfundakvöld í Gunnarshúsi helgað Látra-Björgu í samtímanum

latra-bjorgHöfundakvöld í Gunnarshúsi fimmtudaginn 20. október verður helgað Látra-Björgu (1716-1784) og sterkri innkomu hennar hennar á 300 ára afmæli sínu sem er í ár. Umsjónarmaður höfundakvöldsins er Halldóra Thoroddsen, ljóðskáld, smáprósa- og skáldsagnahöfundur.

Höfundar og kvæðamenn:

Valgarður Egilsson, sem árið 2014 sendi frá sér bókina Steinaldarveislan þar sem Látra-Björg og hennar heimaslóðir koma við sögu. Valgarður hefur sent frá sér fjölda skáldverka og til margra ára farið sem leiðsögumaður frá heimaslóðum sínum um Látraströnd og Fjörður, enda manna fróðastur um lífið þar.

Sigurlín Bjarney, sem í haust sendir frá sér ljóðabókina Tungusól og nokkrir dagar í maí, sem skiptist í þrjá hluta en í þeim fyrsta birtist okkur kraftaskáldið Látra-Björg í ímyndaðri dagbók. Sigurlín Bjarney hefur vakið athygli fyrir ljóðabækur sínar, örsögur og smásögur. Hún er búsett í Svíþjóð og kemur fram í gegnum Skype.

Hermann Stefánsson, sem í haust sendir frá sér skáldsöguna Bjargræði sem hefur Látra-Björgu að sögumanni og geymir fjölda kvæða hennar. Hermann hefur gefið út fjölda skáldverka og lærir nú til kvæðamanns.

Ragnheiður Ólafsdóttir kveður rímur við kvæði Látra-Bjargar. Ragnheiður er söngkona og doktor í rímnahefðinni.

Hugsanlegur leynigestur, ef lukkunni og Skype þóknast, er Heimir Freyr Hlöðversson sem vinnur að gerð heimildamyndar um Látra-Björgu.

Í hléi er ætlunin að bjóða upp á kæstan hákarl og eitt lítið brennivínsstaup.

Dagskráin hefst kl. 20.00. Allir velkomnir.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email