Search
Close this search box.

Halldóra K. Thoroddsen hlýtur Bókmenntaverðlaun ESB í ár fyrir Tvöfalt gler

Halldóra K. Thoroddsen, rithöfundur Ljósmynd: Ásdís Thorodssen
Halldóra K. Thoroddsen, rithöfundur Ljósmynd: Ásdís Thorodssen

Rithöfundurinn Halldóra K. Thoroddsen hlýtur Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins í ár fyrir skáldsögu sína Tvöfalt gler (2016). Í bókinni leitar Halldóra á nýjar slóðir bæði í efnistökum og stíl, og veitir meðal annars innsýn í viðfangsefni sem sjaldan er fjallað um í íslenskum bókmenntum, ástarlíf eldra fólks. Bókin veltir upp áhugaverðri spurningum sem sjaldan er orðuð: Hvenær erum við of gömul til að verða ástfangin? Annað mikilvægt efni bókarinnar er rofið milli kynslóða. En Tvöfalt gler fjallar öðrum þræði um hvernig kynslóðirnar hafa einangrast hver frá annarri og bernskan og ellin orðið út undan í samfélaginu.

Í myndheimi bókarinnar er fléttað saman beittu innsæi og tilfinningaþrungnum lýsingum sem falla vel að efni sögunnar og skapa jafnvægi sem hentar frásögninni fullkomlega. Höfundi tekst einkar vel að fanga stórar tilfinningar í ljóðrænum og nákvæmum lýsingum, hvert orð er gaumgæfilega valið út frá merkingu og formi,“ segir í umsögn dómnefndar: „Tvöfalt gler er stór saga sögð í fáum orðum. Hún fjallar um tilvist okkar og tilgang, er barmafull af kvenlegri visku og skarpri innsýn í líf og dauða.“

Halldóra Kristín Thoroddsen er fædd 1950 og er menntaður kennari en einnig útskrifuð frá Myndlista og handíðaskólanum. Hún hefur numið sálfræði við Kaupmannahafnarháskóla og myndlist í Englandi. Bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi gefur bókina út.

Tibor Navracsics, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins í menningar- og menntamálum, mun afhenda verðlaunin við hátíðlega athöfn í Brussel þann 23. maí.

Nánar um verðlaunin.

Creative Europe – Kvikmynda- og menningaráætlun ESB

Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins eru veitt þátttökuríkjum Creative Europe, menningaráætlun Evrópusambandsins. Verðlaunin eiga að hampa framúrskarandi hæfileikafólki sem er að þreifa sig áfram á bókmenntavellinum, 12 höfundum á ári hverju. Áður hafa þau Ófeigur Sigurðsson og Oddný Eir Ævarsdóttir hlotið verðlaunin fyrir Íslands hönd. Verðlaunin vekja athygli á menningarauði evrópskra samtímabókmennta sem og tungumálum og menningu álfunnar, en tungumálastefna Evrópusambandsins snýst ekki síst um að vernda fjölbreytileika evrópskra tungumála. Creative Europe styður bókmenntaþýðingar og kom á árunum 2014-2016 að þýðingum 1.400 bóka.

Mikill ávinningur er af því að vera hluti að bókamarkaði Evrópska efnahagssvæðisins, bæði menningarlegur og efnahagslegur. Veltir hann milli 22-24 milljörðum evra á ári hverju eða allt að 2.800 milljörðum króna á núverandi gengi. Við hann starfa um hálf milljón manns sem búa til, dreifa og selja eitthvað í kringum 575.000 nýjar bækur á ári, miðað við árið 2015.

Creative Europe styrkir alls 250.000 listamenn og starfsfólk í menningargeiranum, t.d. með því að koma listaverkum á framfæri á alþjóðavísu. Á árunum 2014-2020 verða veittar í áætlunina 1,46 milljarðar evra, eða um 173 milljarðar króna.

Creative Europe – Kvikmynda- og menningaráætlun ESB – er ætlað að styrkja samkeppnishæfni hinna skapandi og menningarlegu greina og efla menningarlega fjölbreytni.

Rannís hefur umsjón með upplýsingastofu Creative Europe á Íslandi, en hún veitir fagfólki í kvikmynda- og listageiranum aðstoð og ráðgjöf.

 

Nánari upplýsingar:

Rannís: www.creative-europe.is

Creative Europe: www.ec.europa.eu/programmes/creative-europe/

Bókmenntaverðlaun ESB: www.euprizeliterature.eu/

Sendinefnd ESB: www.esb.is & www.facebook.com/Evropusambandid

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email