Search
Close this search box.

Rán Flygenring hlýtur barna- og unglingabókaverðlaun Norðurlandaráðs

Rán Flygenring hlaut í gær barna- og unglingabókaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir myndabókina Eldgos sem gefin var út 2022. Útgefandi er Angústúra. Alls voru 14 norrænar myndabækur, barnabækur og unglingabækur tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í ár.

Verðlaunin voru veitt í Norska óperu- og balletthúsinu í Ósló og hlýtur Rán verðlaunagripinn Norðurljós og 300 þúsund danskar krónur.

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs hafa verið veitt frá árinu 2013 og er ætlað að efla og vekja athygli á barna- og unglingabókmenntum á Norðurlöndum.

Rökstuðningur dómnefndar.

Verðlaunahafinn í ár hefur skapað myndabók fulla af sjónrænum sprengikrafti um áhrifin sem villt og óhamin náttúra hefur á fólk. Mynd og texti fléttast listilega saman í fjöruga og sprenghlægilega sögu um sundurleitan hóp ferðamanna við gosstöðvar. Frásögnin iðar af lífsþrótti og bæði fangar og skopast að hrifningu okkar á öfgafullum náttúrufyrirbærum. En hún dregur einnig fram hvernig mótsagnakenndar tilfinningar vakna bæði þegar jörð klofnar, hraun flæðir og ný fjöll verða til og þegar við stöndum frammi fyrir hversdagsógnum á borð við lúsafaraldur eða sjáum nánasta umhverfi okkar yfirfyllast af ferðamönnum. Frásögnin er þannig þrungin spennu sem er sprottin úr samspilinu milli hins ægistóra og hins agnarsmáa.

Myndirnar í bókinni eru sneisafullar af forvitnilegum og fyndnum smáatriðum sem hrífa hinn unga lesanda með sér. Litanotkunin er hnitmiðuð og merkingarhlaðin og endurspeglar viðfangsefnið á markvissan hátt. Biksvart gjallið birtist lesandanum í japönsku bleki og glóandi hraunfljótið kallast á við heita litina í forstofudregli. Við hliðina á þessu marglita sjónarspili verða fölar manneskjurnar eins og áminning um að við erum öll, rétt eins og túristarnir, bara hér í heimsókn. Er náttúran eingöngu til okkur til skemmtunar eða ættum við að taka meiri ábyrgð á samskiptum okkar við hana?

Eldgoskveikir von um að við getum fundið leið til að lifa í sátt við náttúruna.

Sænski rithöfundurinn Joanna Rubin Dranger hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2023 fyrir bókmenntaverkið „Ihågkom oss till liv“. 

Rithöfundasamband Íslands óskar Rán og Joönnu innilega til hamingju með verðlaunin!

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email