Search
Close this search box.

Jæja í september

Jæja, félagar. Þá eru nú haustverkin hafin í Gunnarshúsi. Einhverjir eru búnir að sækja um starfslaun. Margir hafa skilað inn handriti til útgáfu eða birtingar og aðrir eru á lokasprettinum. Sumir eru með handrit í bígerð. Eins og gengur. Þeir sem sóttu snemma um starfslaun tóku væntanlega eftir nýjum reit í umsókninni þar sem umsækjanda var gert að semja greinargerð sem sérlega væri ætluð til opinberrar birtingar ef með þyrfti. RSÍ, ásamt BÍL, gerði alvarlegar athugasemdir við þennan nýja lið og dró Stjórn listamannalauna þessa kröfu til baka úr umsókninni.

Skáld í skólum eru að hefja flugið og grunnskólayfirvöld eru duglega að bóka höfundaheimsóknir. Davíð Stefánsson hefur stjórnað verkefninu í ár, ásamt Tinnu Ásgeirsdóttur verkefnisstjóra RSÍ. Þetta haustið er lögð áhersla á skapandi skrif og skapandi hugsun og við bendum félagsmönnum á að kynna sér verkefnið á heimasíðu félagsins: https://rsi.is/hofundamidstod/skald-i-skolum/

Að baki er afar gagnlegur framhalds-aðalfundur sem haldinn var til að ljúka við að manna stjórn RSÍ. Það tókst vel og rækilega því þeir Hermann Stefánsson og Davíð Stefánsson tóku sæti í stjórn og er þá fullt stjórnarhúsið og valinn maður í hverju rúmi.  Útgefendur heimsóttu félagsmenn í Gunnarshús og ræddu stöðuna á útgáfumarkaði. Sitt sýndist hverjum, en ljóst að mun meira sameinar höfunda og útgefendur en sundrar þeim.

Verkefnin eru mörg . Við höldum áfram að berjast gegn virðisaukaskatti á bókum og munum ekki linna látum fyrr en sú ómenningarlega skattpíning leggst af í sjálfu bókmenntalandinu.

Stjórn og bústýrur RSÍ funduðu nýverið með menntamálaráðherra. Slíkir fundir hafa verið reglubundnir, enda mikilvægt að forsvarsmenn sambandsins eigi stöðugt samtal við menningarmálayfirvöld. Að mati viðstaddra var fundurinn gagnlegur. Stjórnarmenn lýstu áhyggjum vegna virðisaukaskattsins. Fram kom að undanfarin ár hefur orðið mikill samdráttur í bóksölu og þá ekki síst eftir að hækkunin tók gildi. Ráðherra deildi þessum áhyggjum og sagði baráttunni alls ekki lokið.  Á fundinum var einnig rætt um mikilvægi þess að standa vörð um Bókasafnssjóð og auka framlög í hann. Vinna við að koma sjóðnum í stöðugra umhverfi stendur enn í ráðuneytinu og stjórn RSÍ mun fylgja því eftir. Ráðherra upplýsti á fundinum að miklar líkur væru á því að frumvarp um innheimtumiðstöð gjalda, IHM, yrði að lögum í haust og er það mikið fagnaðarefni.Þá var rætt um að styðja við skrif fyrir börn og ungmenni með ýmsum aðferðum. Sumsé, góður fundur með ráðherra og þótt hann hverfi til annarra verka höldum við áfram að hamra járnið og vinna með nýjum ráðherra og því ágæta fólki sem áfram starfar í menntamálaráðuneytinu.

Þá höfum við undanfarið verið að skoða hljóðbókasamninginn í samráði við lögmenn, enda löngu tímabært að endurskoða hann með hliðsjón af breyttu landslagi. Sú vinna heldur áfram og við upplýsum félagsmenn um gang mála.

Síðla í október mun RSÍ standa að málþingi um gildi orðlistar í samstarfi við Reykjavík Bókmenntaborg. Það verður jafnframt afmælishátíð Bókmenntaborgar og höfundar eru hvattir til að fjölmenna.

Það er mikið að gera á stóru heimili. Gunnarshús iðar af lífi. Allar vinnustofur eru í fullri notkun og Sögufélagið hefur hreiðrað um sig í Norðurstofu á neðri hæð. Þá er ys og þys á skrifstofunni þar sem þær Ragnheiður og Tinna spila tvíhendis. Í vetur verða höfundakvöld í stofunni á fimmtudagskvöldum. Sú nýbreytni verður að nú skipuleggja höfundar kvöldin sín sjálfir en RSÍ aðstoðar við að auglýsa eftir leiðum sambandsins. Að lokum viljum við minna á að Höfundasjóður auglýsir til umsóknar ferðastyrki höfunda. Umsóknarfrestur er til fyrsta október. Kæru félagar, þetta er nú svona það helsta að sinni. Gangi ykkur vel við ritverkin.

Bestu kveðjur,

Kristín Helga

 

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email