Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur veitt Miðstöð íslenskra bókmennta 38 milljóna viðbótarfé, samkvæmt þingsályktun um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak stjórnvalda til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.
Veittir verða styrkir sem styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði lista og menningar með áherslu á sköpun og virka þátttöku listamanna í menningarlífi landsmanna.
Evrópska rithöfundaráðið (EWC) stendur fyrir herferð á Degi bókarinnar þann 23. apríl 2020 undir myllumerkjunum #behindeverybook og #worldbookday2020 til að vekja athygli á höfundum og þýðendum og framlagi þeirra til menningar og lista.
Leiðbeiningar:
Höfundur tekur tvær ljósmyndir af sér með eigin verki, skáldsögu, teiknimyndasögu, þýðingu, leikverki, handriti o.s.frv. Á þeirri fyrri er andlit höfundar falið aftan við verkið og á næstu mynd sést framan í höfund við hlið verksins.
Myndirnar eru svo birtar saman á öllum samfélagsmiðlum, facebook, instagram, twitter o.fl. með myllumerkjunum: #behindeverybook og #worldbookday2020
14 verk eru tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2020 þar á meðal eru íslensku bækurnar Egill spámaður eftir Lani Yamamoto og Villueyjar eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur.
Lani Yamamoto og Ragnhildur Hólmgeirsdóttir, Ljósmyndir: Lani Yamamoto/Patricia Anna Þormar
Egill spámaður er einstaklega falleg og vel útfærð myndabók. Textinn er knappur og framvinda sögunnar fer að miklu leyti fram í myndunum sem hafa meira vægi í frásögninni án þess þó að segja of mikið. Litir og birta skipta miklu máli í myndunum eins og önnur hrynjandi náttúrunnar. Sagan er fámál, eins og aðalpersónan, en hún býr yfir heimspekilegri íhugun.
Villueyjar er fantasía sem segir frá Arildu, 14 ára stelpu í Norður-evrópska konungsdæminu Eylöndunum, og bróður hennar Maurice. Arilda er feimin en mjög tilfinningarík og greind stúlka. Systkinin eru munaðarlaus og búa hjá afa sínum á herragarði. Þau eru af bláfátækri aðalsætt. Á hverju hausti eru börnin send til eyjar þar sem aðeins eitt hús stendur, heimavistarskólinn þeirra. Af hverju er ekkert annað hús á eyjunni? Af hverju mega börnin ekki fara upp á heiðarnar og af hverju þagna allir þegar talað er um hina horfnu Koparborg?
Ræktum lesandann og setjum fyrsta heimsmetið í lestri
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hleypir í dag af stokkunum lestrarverkefni fyrir þjóðina, þar sem börn og fullorðnir eru hvött til að nýta til lesturs þann tíma sem gefst við núverandi aðstæður.
Lestur er sérstaklega mikilvægur fyrir börn, enda ræðst námsárangur barna að stórum hluta af lesskilningi sem eykst með auknum lestri. Lestur veitir fullorðnum örvandi hvíld frá amstri og áhyggjum dagsins og með lestri aukum við saman veg íslenskrar tungu. Orðaforði eykst, nýjar hugmyndir kvikna, skilningur á lesmáli eykst og þannig skilningur á heiminum öllum. Þá styður aukinn lestur við skapandi stétt rithöfunda, skálda og þýðenda. Því meira sem við lesum því betra!
Lestrarverkefnið kallast Tími til að lesa. Heitið er dregið af aðstæðunum sem nú eru uppi, þar sem margir hafa meiri tíma en áður til að lesa og þörfin á hugarleikfimi hefur sjaldan verið meiri. Þá er afraksturinn mældur í tíma, þar sem Íslendingar eru hvattir til að skrá sinn lestur í mínútum á vefsíðunni timitiladlesa.is. Þar geta þátttakendur skráð sinn lestur reglulega og fylgst með sameiginlegum árangri þjóðarinnar frá degi til dags. Á næstu fjórum vikum munu þar safnast upp ýmsar upplýsingar um lestur, hugmyndir að lesefni fyrir ólíka aldurshópa, hvatningarmyndbönd frá rithöfundum og öðrum sem segja okkur hvað og hvar þeim finnst gaman að lesa.
Verkefnið mun standa til 30. apríl og að því loknu munum við freista þess að fá afraksturinn skráðan í Heimsmetabók Guinnes. Slíkt hefur ekki verið gert áður og því yrði hér um að ræða fyrsta heimsmet sinnar tegundar. Metið gæti orðið viðmið annarra þjóða, eða okkar sjálfra til að bæta með tíð og tíma.
Umgjörð og útlit verkefnisins tekur mið af markmiðinu, þar sem ætlunin er að virkja keppnisskap þjóðarinnar. Merki verkefnisins svipar til merkja íþróttafélaga, keppnistreyjur verða veittar heppnum þátttakendum í lok verkefnisins og leitað verður samstarfs víða til að virkja sem flesta. Ef vel tekst til, gæti verkefnið orðið góður vitnisburður bókaþjóðarinnar Íslendinga um allan heim.
Tuttugu bækur í fjórum flokkum voru tilnefndar til Íslensku hljóðbókaverðlaunanna, Storytel Awards 2020. Verðlaunin verða afhent í fyrsta sinn 22. apríl í Hörpu. Greint var frá tilnefningunni í dag í bókastofu Hótel Holts. Rithöfundar, leikarar og þýðendur hljóta verðlaun fyrir verk sín. Eliza Reid forsetafrú afhendir sérstök heiðursverðlaun. Verðlaunagripurinn er glerlistaverk eftir sænska listamanninn Ludvig Lofgren.
Eftirfarandi rithöfundar, þýðendur og lesarar hljóta tilnefningu fyrir verk sín til Íslensku hljóðbókaverðlaunanna, Storytel Awards:
Vinsamlegast athugið að þeir höfundar sem hafa orðið að sæta sóttkví geta sótt um laun í sóttkví hjá Vinnumálastofnun og eins geta þeir höfundar sem hafa orðið fyrir tekjuskerðingu frá 15. mars sótt um atvinnuleysisbætur vegna minnkaðs starfshlutfalls.
Tilkynning frá skattinum:
Samþykkt hefur verið á Alþingi að greiða sjálfstætt starfandi einstaklingum launatap vegna þess að viðkomandi hafi orðið að sæta sóttkví. Umsóknum um laun í sóttkví skal beint til Vinnumálastofnunar.
Einnig er hægt að sækja um til Vinnumálastofnunar atvinnuleysisbætur vegna minnkaðs starfshlutfalls sjálfstætt starfandi manna. Heimildin er til staðar frá 15. mars til 1. júní 2020. Ekki þarf að stöðva reksturinn til þess að eiga rétt á umræddum bótum heldur þarf að tilkynna Skattinum um skerta starfsemi. Rekstraraðilar eru því enn skráðir bæði á launagreiðendaskrá og virðisaukaskattsskrá ef eingöngu er um að ræða tímabundnar breytingar.
Notast er við eyðublað RSK 5.02 til að tilkynna um slíkar breytingar. Eyðublaðið má senda, undirritað, í tölvupósti á rsk@rsk.is.
Höfundar fimmtán barna- og unglingabóka voru tilnefndir til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar þann 9. mars, en verðlaunin eru veitt í þremur flokkum: flokki barna- og ungmennabóka frumsaminna á íslensku, flokki þýddra barna- og ungmennabóka og flokki myndlýstra bóka. Athöfnin fór fram í Okinu, nýju rými fyrir ungmenni í Borgarbókasafninu í Gerðubergi.
Bækurnar fimmtán sem tilnefndar voru komu allar út á liðnu ár og þykja bera af í barnabókaútgáfu. Við athöfnina í Gerðubergi flutti Skúli Helgason, formaður skóla og frístundaráðs, ávarp og dómnefnd kynnti tilnefndar bækur og rökstuðning fyrir valinu. Verðlaunin verða svo afhent hefðinni samkvæmt síðasta vetrardag í Höfða.
Eftirtaldir rithöfundar, myndhöfundar og þýðendur eru tilnefndir til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar 2020 fyrir eftirtaldar bækur.
Barnabækur frumsamdar á íslensku
Gunnar Helgason: Draumaþjófurinn. Mál og menning gaf út.
Margrét Tryggvadóttir: Kjarval: málarinn sem fór sínar eigin leiðir. Iðunn gaf út.
Hildur Knútsdóttir Nornin. JPV gaf út.
Ragnhildur Hólmgeirsdóttir: Villueyjar. Björt gaf út.
Snæbjörn Arngrímsson: Rannsóknin á leyndardómum eyðihússins. Vaka-Helgafell gaf út.
Myndlýsingar í barnabókum
Bergrún Íris Sævarsdóttir: Ró – fjölskyldubók um frið og ró. Töfraland gaf út.
Blær Guðmundsdóttir: Sipp, Sippsippanipp og Sippsippanippsúrumsipp: systurnar sem ætluðu sko ekki að giftast prinsum! Bókabeitan gaf út.
Jón Páll Halldórsson: Vargöld, 2. bók. Iðunn gaf út.
Lani Yamamoto: Egill spámaður. Angústúra gaf út.
Rán Flygenring: Vigdís: bókin um fyrsta konuforsetann. Angústúra gaf út.
Þýddar barnabækur
Illugi Jökulsson: Bók um tré eftir Piotr Socha og Wojciech Grajkowski. Sögur útgáfa gaf út.
Jón St. Kristánsson: Villinorn: Bækurnar Blóð Viridíönu og Hefnd Kímeru eftir Lene Kaaberbøl. Angústúra gaf út.
Silja Aðalsteinsdóttir: Snjósystirin eftir Maju Lunde. Mál og menning gaf út.
Þórarinn Eldjárn: Hver vill hugga krílið? eftir Tove Jansson. Mál og menning gaf út.
Þórdís Gísladóttir: Múmínálfarnir: Minningar múmínpabba eftir Tove Jansson. Mál og menning gaf út.
Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eiga sér lengsta sögu barnabókaverðlauna á landinu og er helsta markmið þeirra að vekja athygli á því sem vel er gert í bókaútgáfu fyrir unga lesendur svo og að hvetja þá til bóklesturs. Dómnefnd er skipuð Tinnu Ásgeirsdóttur formanni, Ásmundi Kristberg Örnólfssyni, Helgu Birgisdóttur, Karli Jóhanni Jónssyni og Valgerði Sigurðardóttur.
Rithöfundasamband Íslands óskar höfundum, myndhöfundum og þýðendum til hamingju með tilnefningarnar.
Rithöfundasamband Íslands veitir félagsmönnum ferðastyrki til utanlandsferða úr Höfundasjóði RSÍ. Rétt til að sækja um ferðastyrk hafa þeir sem hafa verið félagsmenn í RSÍ í a.m.k. eitt ár og eru skuldlausir við sambandið. Úthlutað er eftir úthlutunarreglum og sótt er um á rafrænu eyðublaði á heimasíðu RSÍ.
Opið er fyrir umsóknir og umsóknarfrestur er t.o.m. 1. apríl 2020.
Aðalfundur RSÍ verður haldinn fimmtudaginn 30. apríl 2020. Framboðsfrestur vegna stjórnarkjörs er til 17. mars nk. Kjósa þarf formann, varaformann, einn meðstjórnanda og einn varamann, skv. 5. grein laga Rithöfundasambands Íslands.
Skrifleg framboð til stjórnarkjörs berist skrifstofu RSÍ eigi síðar en kl. 14.00 þriðjudaginn 17. mars n.k