Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Tilnefningar til Fjöruverðlaunanna 2017

c2ba3e1b-dfa4-4f7d-ac15-ca3df81d0ffe

Níu bækur voru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna 6. desember 2016.

Eftirfarandi höfundar og bækur hlutu tilnefningar:

Fagurbókmenntir

  • Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur
  • Kompa eftir Sigrúnu Pálsdóttur
  • Raddir úr húsi loftskeytamannsins eftir Steinunni G. Helgadóttur

Fræðibækur og rit almenns eðlis

  • Heiða – fjalldalabóndinn eftir Steinunni Sigurðardóttur
  • Hugrekki – saga af kvíða eftir Hildi Eiri Bolladóttur
  • Barðastrandarhreppur – göngubók eftir Elvu Björgu Einarsdóttur

Barna- og unglingabókmenntir

  • Doddi: Bók sannleikans! eftir Hildi Knútsdóttur og Þórdísi Gísladóttur; myndir og kápa Elín Elísabet Einarsdóttir.
  • Íslandsbók barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur.
  • Úlfur og Edda: Dýrgripurinn, höfundur texta og mynda er Kristín Ragna Gunnarsdóttir

Lesa meira


80 ára útgáfuafmæli Aðventu – nýjar útgáfur, málstofa og upplestrar

Um þessar mundir eru liðin 80 ár frá því að skáldasaga Gunnars Gunnarssonar Aðventa kom í fyrsta sinn út hjá Reclam í Þýskalandi og Gyldendal í Danmörku. Sagan af Benedikt og eftirleit hans á Mývatnsöræfum með sínum trygglyndu félögum, Eitli og Leó er klassísk og tímalaus. Á síðustu árum hefur hún verið þýdd á ný tungumál og kemur til að mynda út fyrir þessi jól á hollensku, ítölsku, arabísku og norsku.

Er Benedikt kominn til byggða? – málstofa í Gunnarshúsi

Í tilefni útgáfuafmælisins efna Gunnarsstofnun og Rithöfundasamband Íslands til málstofu um söguna að kvöldi miðvikudags 7. desember á Dyngjuvegi 8 í Reykjavík. Málstofan hefur yfirskriftina Er Benedikt kominn til byggða? Þar munu fjórir fræðimenn fjalla um söguna frá ólíkum sjónarhornum. Þeir eru: Jón Yngvi Jóhannsson bókmenntafræðingur, Halla Kjartansdóttir þýðandi og kennari, Trausti Jónsson veðurfræðingur og Hjalti Hugason guðfræðingur. Að loknum stuttum framsögum mun Vésteinn Ólason prófessor emeritus stýra umræðum. Málstofan hefst kl. 20.00 og er öllum opin.

Aðventa lesin  víða um land þann 11. desember

Síðastliðin áratug hefur Gunnarsstofnun í samvinnu við aðra staðið fyrir upplestri á Aðventu í desember, bæði hérlendis og erlendis. Aðventa verður að þessu sinni lesin á þremur stöðum sunnudaginn 11. des. Í Reykjavík les Gunnar Helgason rithöfundar söguna á Dyngjuvegi 8 hjá Rithöfundasambandinu. Á Akureyri les Pétur Halldórsson fyrrum útvarpsmaður í setustofu Icelandair Hótel Akureyri og á Skriðuklaustri hljómar önnur góðkunnug útvarpsrödd en þar les Gunnar Stefánsson söguna. Upplesturinn hefst á öllum stöðunum kl. 14.


Jæja í desember

Jæja! þá eru margir félagsmenn á fleygiferð í jólabókaflóði og aðrir spinna sína þræði í fjölbreyttum miðlum ritlistarinnar. Höfundar koma enda víða við og hafa breiðvirk áhrif á samtímann með verkum sínum. Félagarnir sópa að sér vegtyllum og tilnefningum þessa dagana og þeir fá hér með hamingjuóskir. Upplestrarhrinan nær hámarki nú í desember og við minnum höfunda á mikilvægi þess að fá greitt fyrir vinnu sína, minnum aftur og aftur á nauðsyn þess að fá greitt fyrir að koma fram og troða upp!  Taxti RSÍ, sem sjá má á vefsíðu okkar, er afar hófsamur og ætlaður sem lágmarksviðmið.

Í Gunnarshúsi er þeytingur að venju. Við höfum fundað með útgefendum vegna hljóðbókamála, en RSÍ er með gildandi samning við menntamálaráðuneyti á grundvelli 19. greinar höfundalaga sem fjallar um réttindi prentleturshamlaðra. Víst er að margt er gallað við samninginn og við höfum óskað eftir viðræðum um endurupptöku svo laga megi ýmis ákvæði og setja í samhengi við tæknivæðingu og þróun rafrænna miðla, ásamt öðru sem uppfæra má og samræma í þessum samningi. Þessi vinna er að hefjast og munum við færa félagsmönnum fregnir eftir því sem línur skýrast.

Varðandi önnur samningamál þá má vænta þess að samningaviðræður við RÚV hefjist eftir áramótin. Útgáfu- og þýðendasamningar eru í skoðun.

Við Ragnheiður fórum nýverið á aðalfund Evrópusamtaka höfunda, EWC, í Brussel og urðum margs vísari. Þar var meðal annars rætt um bókasafnssjóði höfunda, en víða hefur ekki tekist að efla þessa sjóði svo þeir skili höfundum réttmætum afnotagjöldum. Nærtækt dæmi er frá Írlandi, en fulltrúi írskra höfunda sagði bókasafnssjóðinn þar nánast vera að hverfa og kallaði eftir stuðningi frá EWC. Við getum glaðst yfir stöðu sjóðsins hér á landi þótt hann sé enn langt frá okkar setta marki.  Á Evrópufundinum var einnig rætt um e-bækur og sýndist okkur fæstir vera komnir með nothæft og skilvirkt útlánakerfi fyrir þær. Vandinn felst víða í því að ná bókasöfnum samhæfðum að samningaborði. Hér á landi gegnir öðru máli. RSÍ hefur átt samstarf við  forsvarsmenn bókasafna og útgefenda um að koma á rafrænu útlánakerfi bókasafnanna. Borgarbókavörður hefur kynnt fyrir okkur kerfi sem til stendur að taka í gagnið og grunnhugsunin er að útlán rafbókar sé í engu frábrugðin útlánum bréfbóka, þ.e.a.s. eitt leyfi – eitt útlán.

Í Brussel var einnig tæpt á hlutverki ritlistarinnar þegar vernda skal tungumál á örtungusvæðum. Fulltrúi félags katalónskra höfunda sagði róðurinn þungan við verndun katalónskrar tungu á þeirra smáa málsvæði. Þó eru ríflega tíu milljónir manna mælandi á katalónska tungu. Norðmenn skilgreina sig líka sem örtunguþjóð og því má svo sannarlega reyna að finna nýja skilgreiningu fyrir málsvæði íslenskunnar. Evrópska samstarfið er afar mikilvægt og fulltrúar höfunda í EWC sérhæfa sig í því að rata um reglugerðarskóga Evrópusambandsins.

Gunnarshús er jólahús. Félagsmenn hafa svo sannarlega nýtt sér samkomuhúsið fyrir útgáfuteiti og upplestra undanfarnar vikur. Framundan er svo hið árlega jólaboð sambandsins. Það verður haldið fimmtudaginn 15. desember kl 17:00. Þá skreytum við húsið í einum grænum og fögnum lífinu og listinni. Félagsmenn eru vinsamlegast beðnir að taka daginn frá og fjölmenna á þann viðburð.

Ein er sú uppákoma í Gunnarshúsi í desember sem er löngu orðin ómissandi í jólahaldinu hér, en það er árlegur upplestur félagsmanna á Aðventu Gunnars Gunnarssonar. Þá kyndum við upp í arninum og hitum kakó. Aðventa tekur ríflega tvo tíma í upplestri og er ljúft tækifæri til að hverfa inn á Mývatnsöræfin með Bensa, Eitli og Leó. Í þetta sinn verður það félagi Gunnar Helgason sem les. Það er tilvalið að líta inn, hlusta á sögubrot og ná sér í stutta kyrrðarstund, eða sitja söguna á enda. Sumir taka með sér handavinnu og allir eru hjartanlega velkomnir.  Þessi einstaka stund verður að venju þriðja sunnudag í aðventu, þann 11. desember,  og hefst stundvíslega kl. 14:00.

Og enn af Aðventu því um þessar mundir eru 80 ár liðin frá því að sagan kom fyrst út í Þýskalandi og Danmörku. Nýverið hefur hún verið þýdd á fleiri tungumál og kemur út nú fyrir jólin á hollensku, arabísku, ítölsku og norsku. Í tilefni af útgáfuafmælinu efna Gunnarsstofnun og RSÍ til málstofu um söguna í Gunnarshúsi miðvikudagskvöldið 7. desember næstkomandi, kl 20.00. Málstofan ber yfirskriftina Er Benedikt kominn til byggða? Fjórir fræðimenn munu fjalla um söguna frá ólíkum sjónarhornum og er málstofan öllum opin.

Þann 20. desember skellum við skytturnar þrjár í lás hér í húsi og förum heim að halda jól. Nýja árið kemur svo með alls konar fyrir alla og við hlökkum til að glíma við þau stóru verkefni sem bíða ritlistamanna og erum svo sannarlega tilbúnar að taka slaginn fyrir land, sögu og tungu!

Hjartans kveðjur til ykkar allra og megi þessi jól verða okkur gleðileg bókajól!

Kristín Helga

 


Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna

index

 

Auður Ava Ólafsdóttir, Guðrún Eva Mínervudóttir, Sigurður Pálsson, Sjón og Steinar Bragi eru tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2016 fyrir skáldsögur sínar, smásagnasöfn og ljóðabækur.

Þá voru fimm verk tilnefnd í flokki fræðirita og bóka almenns eðlis sem og í flokki barna- og unglingabóka.

Tilnefningarnar voru tilkynntar á Kjarvalsstöðum í gær en forseti Íslands afhendir verðlaunin um mánaðamótin janúar og febrúar. Þetta er í 28. sinn sem Íslensku bókmenntaverðlaunin eru veitt.

Eftirfarandi bækur eru tilnefndar í flokki fræðirita og bóka almenns efnis:

Árni Heimir Ingólfsson
Saga tónlistarinnar
Útgefandi: Forlagið

Bergsveinn Birgisson
Leitin að svarta víkingnum
Útgefandi: Bjartur

Guðrún Ingólfsdóttir
Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellíngar
Útgefandi: Háskólaútgáfan

Ragnar Axelsson
Andlit norðursins
Útgefandi: Crymogea

Viðar Hreinsson
Jón lærði og náttúrur náttúrunnar
Útgefandi: Lesstofan

Dómnefnd skipuðu:
Aðalsteinn Ingólfsson, formaður nefndar, Hulda Proppé og Þórunn Sigurðardóttir

Eftirfarandi bækur eru tilnefndar í flokki barna- og ungmennabóka:

Hildur Knútsdóttir
Vetrarhörkur
Útgefandi: JPV útgáfa

Hildur Knútsdóttir og Þórdís Gísladóttir
Doddi : bók sannleikans!
Útgefandi: Bókabeitan

Margrét Tryggvadóttir og Linda Ólafsdóttir
Íslandsbók barnanna
Útgefandi: Iðunn

Þórhallur Arnórsson og Jón Páll Halldórsson
Vargöld : fyrsta bók
Útgefandi: Iðunn

Ævar Þór Benediktsson
Vélmennaárásin
Útgefandi: Mál og menning

Dómnefnd skipuðu:
Árni Árnason, formaður nefndar, Hildigunnur Sverrisdóttir og Sigurjón Kjartansson.

Eftirfarandi bækur eru tilnefndar í flokki fagurbókmennta:

Steinar Bragi
Allt fer
Útgefandi: Mál og menning

Sjón
Ég er sofandi hurð (Co Dex 1962)
Útgefandi: JPV útgáfa

Guðrún Eva Mínervudóttir
Skegg Raspútíns
Útgefandi: Bjartur

Auður Ava Ólafsdóttir
Ör
Útgefandi: Benedikt bókaútgáfa

Sigurður Pálsson
Ljóð muna rödd
Útgefandi: JPV útgáfa

Dómnefnd skipuðu:
Knútur Hafsteinsson, formaður nefndar, Helga Ferdinandsdóttir og Jórunn Sigurðardóttir


Höfundakvöld í Gunnarshúsi – Kristrún Guðmundsdóttir

passamynd

Kristrún Guðmundsdóttir

Kristrún Guðmundsdóttir ljóðskáld veltir fyrir sér í flæðiskenndu samtali ljóðs, radda og hljóma, tilurð nýrrar ljóðabókar í tengslum við sköpunarferlið.  Áheyrendur fá innsýn í vinnubrögð Kristrúnar og hugmyndir hennar um ferli sköpunar sem hún álítur vera sjálft málið. Ljóðabók Kristrúnar Eldmóður- neðanmálsgreinar við óskrifuð ljóð lítur dagsins ljós þessa dagana. Eldmóður … er í raun ekkert annað en neðanmálsgreinar að verki sem enn hefur ekki verið skrifað og snýr þannig veru sinni á hvolf og öllu því sem í vændum er.  Anna Dóra Antonsdóttir rithöfundur mun þræða ferlið saman af festu og loks les Kristrún upp við undirleik hljóðfæraleikaranna Ólafs B. Sigurðssonar og Sigurðar B. Ólafssonar og flæðiljóðhljómur mun að öllum líkindum streyma fram.

Eldmóður – neðanmálsgreinar við óskrifuð ljóð er 6. ljóðabók Kristrúnar en auk þess hefur hún sent frá sér tvær skáldsögur. Árið 2012 tók hún þátt í höfundasmiðju Þjóðleikhúss og félags íslenskra leikskálda þar sem  Kristrún vann að verki sínu Englatrompeti . Norski rithöfundurinn og leikskáldið Torunn Ystaas hefur sýnt því verki áhuga með þýðingu í huga.

Dagskráin hefst klukkan 20:00 þann 1. desember í Gunnarshúsi við Dyngjuveg 8.

Léttar veitingar verða í boði og bókin sjálf á tilboðsverði.


Tilnefningagleði á Bókatorgi

tilnefnFimmtudaginn 24. nóvember efnir Bandalag þýðenda og túlka til gleði á Bókatorgi í Menningarhúsinu Grófinni (Borgarbókasafni Reykjavíkur) kl. 16.30, en þá verða kynntar tilnefningar til Íslensku þýðingaverðlaunanna. Eins og endranær eru fimm bækur tilnefndar til verðlaunanna sem hafa verið veitt frá árinu 2005 og voru stofnuð til að vekja athygli á ómetanlegu framlagi þýðenda til íslenskrar menningar.

Þegar formlegri dagskrá lýkur verður boðið upp á léttar veitingar. Viðburðurinn er opinn almenningi og allir eru hjartanlega velkomnir.

Við vonumst til að sjá þig!

Með bókmenntakveðju,

logo

 


Hollenska glæpasagan Konan í myrkrinu eftir Marion Pauw hlaut Ísnálina 2016

Á glæpasagnahátiðinni Iceland Noir voru veitt verðlaun fyrir bestu þýddu glæpasöguna á Íslandi árið 2016, Ísnálin, og hlaut hollenska glæpasagan Konan í myrkrinu eftir Marion Pauw í þýðingu Rögnu Sigurðardóttur verðlaunin.

Þær bækur sem tilnefndar voru til verðlaunanna, auk Konunnar í myrkrinu, voru Hin myrku djúp eftir Ann Cleeves í þýðingu Þórdísar Bachmann, Kólibrímorðin eftir Kati Hiekkapelto í þýðingu Sigurðar Karlssonar, Meira blóð eftir Jo Nesbø í þýðingu Bjarna Gunnarssonar og Sjöunda barnið eftir Erik Valeur í þýðingu Eiríks Brynjólfssonar.

Konan í myrkrinu fjallar um Írisi og Ray. Íris er ungur lögfræðingur og einstæð móðir sem reynir að fóta sig á framabrautinni samhliða því að sjá um erfiðan son sinn. Ray, sem er ekki eins og fólk er flest, er lokaður inni á stofnun eftir að hafa verið dæmdur fyrir hrottalegt morð á ungri konu og dóttur hennar. Leiðir Írisar og Rays liggja óvænt saman sem verður til þess að af stað fer atburðarás sem gjörbreytir lífi þeirra.

Marion Pauw er drottning hollenskra spennusagna og hlaut hin virtu spennusagnaverðlaun Gullnu snöruna fyrir bókina. Nú þegar hefur verið gerð kvikmynd eftir sögunni sem hlotið hefur fjölda verðlauna og bandarísk stórmynd byggð á bókinni er í burðarliðnum.


Höfundar í Gunnarshúsi – Auður Ava Ólafsdóttir ,Kristín Ómarsdóttir, Sigurbjörg Þrastardóttir

3skaldkonur

Kristín Ómarsdóttir rithöfundur tekur á móti tveimur taugatrekktum höfundum jólabókaflóðsins, Auði Övu Ólafsdóttur og Sigurbjörgu Þrastardóttur, og segir þeim að þetta verði allt í lagi. Auður og Sigurbjörg lesa úr bókunum Ör og Óttaslegni trompetleikarinn og aðrar sögur. Þess á milli mun Kristín spyrja þær spurninga sem einungis dýralæknar kunna rétt svör við. Sjálf mun Kristín lesa brot úr bókmenntum framtíðarinnar.
Þungar veitingar verða á boðstólnum en kona í Drápshlíð hefur boðist til að baka stríðstertu.

Veislan fer fram fimmtudaginn 24. nóvember í Gunnarshúsi við Dyngjuveg, húsi Rithöfundasambands Íslands. Frítt inn. Húsið opnar klukkan 17. Dagskrá hefst kl. 17.30 og varir í klukkustund.

„Bestu stundirnar í lífi mínu eru þegar ég ligg einn uppi á heiði, ofan
í svefnpoka, með byssuna eldsnemma morguns, og bíð eftir að fuglarnir vakni. Maður þegir og horfir á hjarnið. Það er eins og að vera innan í kvenmannslegi. Maður er öruggur. Maður þarf ekki að fæðast. Maður þarf ekki að koma út.“
–úr Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur

Auður Ava Ólafsdóttir skrifar skáldsögur, leikrit og ljóð. Hún er líka textahöfundur popphljómsveitarinnar Milkywhale.

Kristín Ómarsdóttir skrifar skáldsögur, ljóð og leikrit. Hún ritar ennfremur höfundaviðtöl í Tímarit Máls og menningar.

Sigurbjörg Þrastardóttir skrifar ljóð, leikrit og skáldsögur. Hún flytur einnig fasta pistla í útvarpsþættinum Víðsjá.


Bókamessa í Bókmenntaborg

bokamessaFélag íslenskra bókaútgefenda og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO standa fyrir Bókamessu í Bókmenntaborg í sjötta sinn helgina 19. og 20. nóvember. Messan hefur nú fært sig um set og verður haldin í Hörpu í fyrsta sinn. Sýningarsvæðið verður í Flóa á fyrstu hæð hússins og fjölbreytt dagskrá fyrir börn og fullorðna verður á sýningarsvæðinu og í sölum sem að því liggja. Flói er norðvestan megin í húsinu, fyrir innan veitingahúsið Smurstöðina.

Bókamessan er opin frá kl. 11 – 17 báða dagana. Þar geta gestir kynnt sér blómlega útgáfu ársins, hitt höfunda og útgefendur og notið fjölbreyttrar og lifandi dagskrár. Sérstakt krakkahorn verður á svæðinu þar sem boðið verður upp á smiðjur og föndur. Börnin geta einnig tekið þátt í ratleik með Snuðru og Tuðru, hitt Vísinda-Villa og Stjörnu-Sævar eða litið í nýjar bækur í bókahorninu.

Sjá heildardagskrá á vef Bókmenntaborgarinnar – bokmenntaborgin.is


Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar

spRithöfundurinn Sigurður Pálsson hlýtur verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2016. Þá var Ævari Þór Benediktssyni, eða Ævari vísindamanni, einnig veitt sérstök viðurkenning í tilefni dagsins. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra veitti verðlaunin við hátíðlega athöfn í Hörpu í dag.

Í rökstuðningi ráðgjafanefndar segir meðal annars að óhætt sé „að fullyrða að fáir Íslendingar hafi farið jafnlangt og víða um ljóðvegina og Sigurður. Það sést vel á fjölbreyttum yrkisefnum skáldsins sem hefur velt fyrir sér höfundi Njálu og nóttinni sem „er til þess að gráta í“. Sigurður hefur boðið lesendum upp í ljóðlínudans en líka beðið þá um að fara með sér „inn í Reykjavíkur Apótek og biðja um venjulega herraklippingu. Leggja áherslu á að hún eigi bara að vera venjuleg ef bið verður á þjónustunni“ (Úr „Nokkrar verklegar æfingar í atburðaskáldskap“, Ljóð námu völd).“

Fyrir fyrstu bókina í endurminningaþríleik sínum, Minnisbók (2007), hlaut Sigurður Íslensku bókmenntaverðlaunin. Sigurður er einnig eitt vinsælasta leikskáld þjóðarinnar en hann hlaut Grímuverðlaunin fyrir handrit sitt að Utan gátta (2008). Hann hefur auk þess verið mikilvirkur þýðandi og má þar nefna ljóð eftir Paul Éluard og Jacques Prévert og nú síðast skáldsögu franska Nóbelsverðlaunahafans Patricks Modiano. Árið 2007 sæmdi Frakklandsforseti Sigurð riddarakrossi Frönsku Heiðursorðunnar (Chevalier de l’Ordre National du Mérite. Sigurður er heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands.

„En það er sama hvort Sigurður Pálsson skrifar skáldsögur, leikrit eða gengur upp Bankastræti: Hann er alltaf ljóðskáld. Ljóðabækur hans eru nú orðnar 16 talsins og heitir sú nýjasta Ljóð muna rödd. Strax í þeim fyrstu orti skáldið um ljóðvegina. En ólíkt venjulegri vegagerð sem stefnir að því að fletja út og fara stystu leið taka vegirnir sem Sigurður hefur lagt um tungumálið óvænta stefnu. Í stað þess að líða hugsunarlaust gegnum landslagið staldra lesendur við og sjá það sem þeir sáu ekki áður.“

— Úr niðurstöðu ráðgjafarnefndar

Sigurður Pálsson er fæddur 30. júlí 1948 á Skinnastað. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og nam leikhúsfræði og bókmenntir í Sorbonne og lauk þaðan maîtrise-gráðu og D.E.A. (fyrri hluti doktorsgráðu). Sigurður kenndi við Leiklistarskóla Íslands 1975–1978 en hefur síðustu ár sinnt kennslu við ritlistardeild Háskóla Íslands.

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar eru veitt einstaklingum sem hafa með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu eða riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar. Í ráðgjafarnefnd um Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar sátu að þessu sinni Baldur Hafstað, prófessor emerítus sem var formaður nefndarinnar, Guðrún Ingólfsdóttir íslenskufræðingur og Dagur Hjartarson kennari og rithöfundur.

Verðlaunahafi fær í verðlaun 700 þúsund krónur, Íslensku teiknibókina og skrautritað verðlaunaskjal.

Ævar Þór Benediktsson hlýtur sérstaka viðurkenningu

Að tillögu ráðgjafanefndarinnar var einnig veitt ein viðurkenning í tilefni dagsins og hana hlaut Ævar Þór Benediktsson, einnig þekktur sem Ævar vísindamaður. Í greinargerð nefndarinnar segir meðal annars:

„Ævar Þór Benediktsson (Ævar vísindamaður) er landsþekktur fyrir hugsjónastarf í þágu barna og unglinga, t.d. vísindaþætti í útvarpi og sjónvarpi og lestrarátak í skólum. Þannig er hvatning til skapandi hugsunar og bóklesturs áberandi þáttur í starfi Ævars Þórs…Lestrarátak Ævars er mikilvæg hvatning til eflingar lesskilnings grunnskólanemenda. Þennan þátt í starfi hans má tengja útgefnum verkum hans sjálfs, t.d. bókunum Þín eigin þjóðsaga og Þín eigin goðsaga, þar sem farnar eru óhefðbundnar leiðir til að efla sköpunargleði barna og styrkja tilfinningu þeirra fyrir máli og stíl.“

Samkvæmt áliti nefndarinnar hefur Ævar Þór Benediktsson unnið „afar mikilvægt starf í þágu móðurmálsins og skapandi hugsunar meðal barna og unglinga.“