Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Bóksalaverðlaunin 2016

bokabud-eymundssonBóksalar verðlauna bækur ár hvert sem starfsfólk bókaverslana á Íslandi velur sem bestu bækur ársins. Tilkynnt var um úrslitin 2016 í sjónvarpsþættinum Kiljunni á RÚV í gær, miðvikudaginn 14. desember.

Eftirtaldar bækur þykja bestar meðal bóksala í ár:

Íslensk skáldverk

1. sæti. Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur
2. sæti. Codex 1962 eftir Sjón
3. sæti. Drungi eftir Ragnar Ólafsson

Þýdd skáldverk

1. sæti.      Næturgalinn eftir Kristinu Hannah í þýðingu Ólafar Pétursdóttur
2.-3. sæti. Hafbókin eftir Morten Ströksnes í þýðingu Höllu Kjartansdóttur
2.-3. sæti. Það sem ég tala um þegar ég tala um hlaup eftir Haruki Murakami í þýðingu Kristjáns Hrafns Guðmundssonar

Ljóð

1. sæti.          Ljóð muna rödd eftir Sigurð Pálsson
2. sæti.         Óvissustig eftir Þórdísi Gísladóttur
3. – 4. sæti.  Núna eftir Þorstein frá Hamri
3. – 4. sæti.  Af ljóði ertu komin eftir Steinunni Sigurðardóttur

Ungmennabækur

1. sæti. Vetrarhörkur eftir Hildi Knútsdóttur
2. sæti. Skrímslið kemur eftir Patrick Ness í þýðingu Ingunnar Snædal
3. sæti. Víghólar eftir Emil Hjörvar Petersen

Ævisögur

1. sæti. Heiða eftir Steinunni Sigurðardóttur
2. sæti. Tvísaga eftir Ásdísi Höllu Bragadóttur
3. sæti. Elsku Drauma mín eftir Vigdísi Grímsdóttur

Íslenskar barnabækur

1. sæti. Flökkusaga eftir Láru Garðarsdóttur
2. sæti. Þín eigin hrollvekja eftir Ævar Þór Benediktsson
3. sæti. Doddi: bók sannleikans eftir Hildi Knútsdóttur og Þórdísi Gísladóttur

Þýddar barnabækur

1. sæti. Vonda frænkan eftir David Williams í þýðingu Guðna Kolbeinssonar
2. sæti. BFG eftir Roald Dahl í þýðingu Sólveigar Sifjar Hreiðarsdóttur
3. sæti. Bangsi litli í sumarsól eftir Benjamin Chad í þýðingu Guðrúnar Vilmundardóttur

Fræðibækur / handbækur

1. sæti. Andlit norðursins eftir Ragnar Axelsson
2. sæti. Þjóðminjar eftir Margréti Hallgrímsdóttur
3. sæti. Jón lærði eftir Viðar Hreinsson


ÁSKORUN TIL STJÓRNVALDA FRÁ RSÍ OG ÞOT VEGNA PISA

Rithöfundasamband Íslands og Bandalag þýðenda og túlka harma sorglegar niðurstöður PISA-prófanna þar sem lesskilningur hrapar enn meðal skólabarna og hratt dregur sundur milli pilta og stúlkna. Menn hafa borið fyrir sig áhrif frá ensku í gegnum tölvuleiki og annað efni ætlað börnum og unglingum sem þau hafa greiðan aðgang að. Það er þó ljóst að þessi áhrif væru sýnu minni ef mun meira væri til af þýddu og frumsömdu barnaefni fyrir alla miðla. Einnig hefur á undanförnum árum verið búið afar illa að skólabókasöfnum sem hafa víða verið í langvarandi svelti hjá fátækum sveitarfélögum. Stórauka þarf innkaup á lesefni fyrir börn og unglinga til skóla- og héraðsbókasafna.

Umfjöllun undanfarið um ástand læsis meðal skólabarna hefur varpað ljósi á það hve illa ráðamenn búa að íslenskum börnum og Menntamálastofnun er þar ekki undanskilin. Öflug útgáfa á þýddu og frumsömdu fræðslu- og kennsluefni fyrir börn og unglinga á öllum skólastigum er mikilvæg fyrir fámenna þjóð til að styrkja innlent fræðastarf og auðga íslenska tungu af hugtökum og íðorðum á öllum sviðum.

RSÍ og ÞOT skora á stjórnvöld að setja á fót margþætta neyðaráætlun foreldra, skólastofnana, félagasamtaka, fyrirtækja, menningarstofnana, sveitarfélaga og stjórnvalda með forsætisráðuneyti og forsetaembætti í fylkingarbrjósti. Í þessa neyðaráætlun þarf að leggja fjármagn sem er ekki táknrænt heldur raunverulegt og sýnilegt. Rithöfundasamband Íslands og Bandalag þýðenda og túlka telja að einungis með öflugu átaki og tafarlausum aðgerðum stjórnvalda sé hægt að sporna við þessari nöturlegu þróun og bjarga íslenskri tungu frá niðurlægingu og úreldingu sem óhjákvæmilega hlýtur að verða ef ekki er spyrnt við fótum. Við minnum á góðan árangur Norðmanna sem hafa sérstakan innkaupasjóð til að tryggja að allir íbúar hafi greiðan aðgang að nægu og fjölbreyttu nýju lesefni á bókasöfnum um allt land. Bækur þurfa ekki einasta að vera mun aðgengilegri fyrir börn og unglinga á skóla- og almenningsbókasöfnum með öflugri innkaupum, heldur þurfa þær að vera skattfrjálsar. Ný ríkisstjórn þarf að afnema virðisaukaskatt af bókum hið allra fyrsta og sýna þannig í verki að lesefni sé nauðsynjavara sem á að vera öllum aðgengileg, óháð efnahag.

Íslensk tunga á undir högg að sækja. Hér á landi er fjöldinn allur af fagfólki, þar á meðal rithöfundar, þýðendur og útgefendur, sem er reiðubúið að leggjast á árar með yfirvöldum til að bæta ástandið. Rithöfundasamband Íslands og Bandalag þýðenda og túlka lýsa sig fús til að vera væntanlegri ríkisstjórn innan handar við verkefni sem gætu skilað góðum árangri. Læsi er höfuðverkfæri mennskunnar, grunnurinn að samfélagslegum skilningi og á að vera forgangsmál hjá stjórnvöldum á öllum tímum.


Blóðdropinn 2017: tilnefningar

bloddropinn-tilnefningar-2016Á mynd: Tilnefndir höfundar og staðgenglar þeirra.
Frá vinstri: Pétur Már Ólafsson (fyrir hönd Yrsu Sigurðardóttur), Jónína Leósdóttir, Ragnar Jónasson, Úa Matthíasdóttir (fyrir hönd Arnaldar Indriðasonar) og Lilja Sigurðardóttir.

Tilnefningar til Blóðdropans, íslensku glæpasagnaverðlaunanna 2017, voru kynntar á Borgarbókasafninu í Grófinni miðvikudaginn 7. desember. Það er Hið íslenska glæpafélag sem veitir verðlaunin.

Fram til þessa hefur ekki verið tilnefnt sérstaklega til verðlaunanna, heldur hafa allar íslenskar glæpasögur komið til greina á hverju ári. Með sívaxandi útgáfu hefur þessu fyrirkomulagi nú verið breytt og fimm glæpasögur tilnefndar, en sjálfur Blóðdropinn verður afhentur í vor. Sú glæpasaga sem hlýtur verðlaunin er þar með tilnefnd til Glerlykilsins, norrænu glæpasagnaverðlaunanna.

Tilnefningar til Blóðdropans 2017 eru eftirfarandi:

Arnaldur Indriðason: Petsamo (Vaka-Helgafell)
Jónína Leósdóttir: Konan í blokkinni (JPV útgáfa)
Lilja Sigurðardóttir: Netið (JPV útgáfa)
Ragnar Jónasson: Drungi (Veröld)
Yrsa Sigurðardóttir: Aflausn (Veröld)

Í dómnefnd voru þau Kristján Jóhann Jónsson, Guðrún Ögmundsdóttir og Vera Knútsdóttir.

Pétur Már Ólafsson tók við tilnefningu fyrir hönd Yrsu Sigurðardóttur og Úa Matthíasdóttir veitti viðtöku fyrir hönd Arnaldar Indriðasonar.


Höfundakvöld – Hallveig Thorlacius

Hallveig Thorlacius les upp úr nýútkomnum bókum í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, þriðjudaginn 13. desember kl. 17.

Bækurnar MARTRÖÐ, svo AUGAÐ og nú SVARTA PADDAN eru hörkuspennandi bækur fyrir aldurshópinn 9 til 109 ára og notalegt í skammdeginu að skríða með þær undir sæng.

Bækurnar verða til sölu með áritun höfundar.

Upplestur, veitingar, samvera og rúsínan sem leynist í pylsuendanum: Sigríður Thorlacius ætlar að syngja fyrir frænku sína og gesti. Allir velkomnir.

martrod-augad-svarta-paddan


Sæmundargleði í Gunnarshúsi

allar_kapurcover3_adalst_svFöstudaginn 9. desember koma forleggjarar Sæmundar til Reykjavíkur og efna til lítillar bókamessu í Gunnarshúsi við Dyngjuveg 8. Húsið opnar klukkan 18 en áætluð samkomuslit eru um 21.

Höfundar segja frá bókum sínum í spjalli við gesti og bækur verða seldar á kjarapöllum. Þá stígur sönghópur Listaháskóla Íslands á stokk og í boði verða léttar veitingar, fastar og fljótandi.

Bókaforlagið Sæmundur á Selfossi hefur fært verulega út kvíarnar á síðustu árum og gaf út 20 titla á þessu ári en frá því félagið hóf útgáfu 2001 hafa komið út liðlega 70 titlar.

Sæmundur fagnar þessum umsvifum í húsi Gunnars Gunnarssonar skálds og býður öllum velunnurum og bókavinum að gleðjast og njóta meðan húsrúm leyfir.