Search
Close this search box.

Hollenska glæpasagan Konan í myrkrinu eftir Marion Pauw hlaut Ísnálina 2016

Á glæpasagnahátiðinni Iceland Noir voru veitt verðlaun fyrir bestu þýddu glæpasöguna á Íslandi árið 2016, Ísnálin, og hlaut hollenska glæpasagan Konan í myrkrinu eftir Marion Pauw í þýðingu Rögnu Sigurðardóttur verðlaunin.

Þær bækur sem tilnefndar voru til verðlaunanna, auk Konunnar í myrkrinu, voru Hin myrku djúp eftir Ann Cleeves í þýðingu Þórdísar Bachmann, Kólibrímorðin eftir Kati Hiekkapelto í þýðingu Sigurðar Karlssonar, Meira blóð eftir Jo Nesbø í þýðingu Bjarna Gunnarssonar og Sjöunda barnið eftir Erik Valeur í þýðingu Eiríks Brynjólfssonar.

Konan í myrkrinu fjallar um Írisi og Ray. Íris er ungur lögfræðingur og einstæð móðir sem reynir að fóta sig á framabrautinni samhliða því að sjá um erfiðan son sinn. Ray, sem er ekki eins og fólk er flest, er lokaður inni á stofnun eftir að hafa verið dæmdur fyrir hrottalegt morð á ungri konu og dóttur hennar. Leiðir Írisar og Rays liggja óvænt saman sem verður til þess að af stað fer atburðarás sem gjörbreytir lífi þeirra.

Marion Pauw er drottning hollenskra spennusagna og hlaut hin virtu spennusagnaverðlaun Gullnu snöruna fyrir bókina. Nú þegar hefur verið gerð kvikmynd eftir sögunni sem hlotið hefur fjölda verðlauna og bandarísk stórmynd byggð á bókinni er í burðarliðnum.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email