Search
Close this search box.

Vilborg Dagbjartsdóttir minning

Vilborg Dagbjartsdóttir skáldkona. Sjaldan segi ég nafn hennar upphátt án þess að titillinn skáldkona fylgi því. Ekki frá því ég fyrst las ljóð hennar í safnhefti um það bil sem ég var að ljúka unglingaskólanámi.

Nú breiðir María ullina sína hvítu

á himininn stóra.

María sem á svo mjúkan vönd

að hirta með englabörnin smáu.

Það hrundu fáein blóm úr vendinum hennar í vor,

þau vaxa síðan við hliðið ljómandi falleg og blá.

Fuglinn sem á hreiður

við lækinn í hlíðinni sunnan við bæinn

er kallaður eftir henni.

Það er Maríuerla.

Þegar ég verð stór og ræ á sjó með pabba

gef ég henni Maríu fyrsta fiskinn minn.

Í kirkjunni er mynd af Maríu

með gull utan um hárið.

Mamma segir að það sé vegna þess

að María á dreng svo undurgóðan.

Ég hafði reyndar oft lesið ljóð sem höfðu vakið hjá mér hugsun og nýjar hugmyndir, en nú olli Vilborg Dagbjartsdóttir skáldkona nýjar gárur í vitundarlífi mínu og ljóðið hennar um Maríu hvarf ekki úr minni. 

Fáeinum árum seinna henti mig það happ að fá að lesa ljóð á sömu samkomu og Vilborg. Þá tókum við tal saman og síðan hlustaði ég agndofa á skáldkonuna fara með ljóðið Morgunverk, þar sem hún segir meðal annars:

Kvöldið eftir bað ég Drottin um rok

í næturhúminu lá ég andvaka

og heyrði kulið vagga greinum plómutrésins

– örlítið hvassara Drottinn minn góður –
bað ég auðmjúk

Hvenær hefur himnafaðirinn skeytt um morgunsult fátæklins?

Enda kom mér ekki í hug að dekstra karlinn

heldur lét það verða mitt fyrsta verk í morgunsárið

að reka sópinn upp í plómutréð

þar sem það slútti yfir vegginn

– ekki samdi Drottinn Jahve boðorðin
handa þjónum vinnukonum eða kvenfólki yfirleitt

Framlag Vilborgar til lífs þessa tiltekna unglings var umtalsvert, en framlagið til íslenskra bókmennta var ekkert minna en magnað og verður seint fullþakkað. Verk hennar eru  ómetanlegar gersemar  sem hún valdi að færa þjóð sinni að gjöf.  Sem ungur höfundur átti ég því láni að fagna að starfa með henni fyrir Rithöfundasamband Íslands snemma á níunda áratug síðustu aldar. Þá vakti það óblendna aðdáun mína hvað hún fylgdist grannt með grasrótinni og var vel heima í verkum yngstu skáldanna. Það var nánast sama hvað nafn bar á góma, titill nýrrar ljóðabókar eða stuttur prósi sem birst hafði í blaði eða tímariti, alltaf vissi Vilborg hvað klukkan sló og gat uppfrætt okkur sem ekki vorum jafnvel með á nótunum. Aðdáun mín á henni stigmagnaðist við samstarf okkar og hefur engan enda tekið.

Nú kveðjum við Vilborgu Dagbjartsdóttur skáldkonu og heiðursfélaga í Rithöfundasambandi Íslands. Hjartans þakkir, kæra Vilborg, fyrir allt það gagn sem þú hefur unnið okkur rithöfundum, okkur lesendum og aðdáendum alls þess sem vel er gert í bókmenntum.

Karl Ágúst Úlfsson formaður Rithöfundasambands Íslands

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email