Tilkynnt var hvaða níu bækur eru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna þann 5. desember sl.
Eftirfarandi höfundar og bækur hlutu tilnefningar:
Fagurbókmenntir
- Flórída eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur
- Slitförin eftir Fríðu Ísberg
- Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur
Dómnefnd skipuðu Bergþóra Skarphéðinsdóttir, Guðrún Lára Pétursdóttir og Salka Guðmundsdóttir.
Fræðibækur og rit almenns eðlis
- Íslenska lopapeysan: Uppruni, saga og hönnun eftir Ásdísi Jóelsdóttur
- Leitin að klaustrunum: Klausturhald á Íslandi í fimm aldir eftir Steinunni Kristjánsdóttur
- Undur Mývatns: Um fugla, flugur, fiska og fólk eftir Unni Jökulsdóttur
Dómnefnd skipuðu Helga Haraldsdóttir, Sigurrós Erlingsdóttir og Þórunn Blöndal.
Barna- og unglingabókmenntir
- Lang-elstur í bekknum eftir Bergrúnu Íris Sævarsdóttur
- Gulbrandur Snati og nammisjúku njósnararnir eftir Brynhildi Þórarinsdóttur
- Vertu ósýnilegur, flóttasaga Ishmaels eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur
Dómnefnd skipuðu Arnþrúður Einarsdóttir, Sigrún Birna Björnsdóttir og Þorbjörg Karlsdóttir.
Rithöfundasambandið óskar höfundum til hamingju með tilnefningarnar.
Rökstuðningur dómnefnda
Fagurbókmenntir
Elín, ýmislegt. Kristín Eiríksdóttir (Forlagið, 2017)
Í skáldsögunni Elín, ýmislegt fléttar höfundur saman sögu tveggja kvenna sem eru dregnar sterkum og trúverðugum dráttum. Leikmunahönnuðurinn Elín og leikskáldið unga Ellen standa sitt hvoru megin við fullorðinsárin en á margslunginn og djúpstæðan hátt kallast tilvera þeirra þó á. Í bókinni er tekist á við höggbylgjurnar sem ríða yfir eftir alvarleg áföll og halda áfram sínu nötrandi ferðalagi um lífið á djúpstæðri tíðni. Á einkar næman og áhrifaríkan hátt er hér fjallað um skynjun manneskjunnar á veruleikanum, um flóttaleiðir hugans, einsemd, hið gleymda og falda. Frásagnartæknin er í senn úthugsuð og áreynslulaus og endurspeglar persónur jafnt sem umfjöllunarefni. Í takt við leiðarstef bókarinnar skapar höfundur myndir sem höfða til allra skynfæra og nýtir meðal annars sterk tákn sem þó eru aldrei augljós eða yfirborðskennd frekar en bókin sjálf. Elín, ýmislegt er gríðarlega vel skrifuð skáldsaga sem lifir áfram með lesandanum.
Flórída. Bergþóra Snæbjörnsdóttir (Benedikt, 2017)
Rétt eins og hinar kenjóttu persónur bókarinnar er Flórída verk sem víkur sér undan einföldum skilgreiningum. Í knöppum prósa höfundar er engu ofaukið. Form verksins hæfir heimi þess og umfjöllunarefni fullkomlega; bókin samanstendur af stuttum brotum sem mynda þó heildstæðan boga og lýsa mætti sem prósaljóðverki. Höfundur skapar gróteska og nánast yfirþyrmandi veröld þar sem öll lögmál smám saman skekkjast, sífellt þrengir að og hnignun aðalpersónunnar verður óhjákvæmileg. Afstaðan í textanum einkennist þó af írónískri fjarlægð sem gerir það að verkum að nístandi ástand og átakanlegt niðurbrot verður hvorki melódramatískt né klisjukennt þótt lesandinn dragist dýpra og lengra inn í veruleika persónanna með hverri blaðsíðunni. Hér koma saman vel valið form, magnað innihald og firnasterk stílbrögð og útkoman er ákaflega gott skáldverk.
Slitförin. Fríða Ísberg (Partus, 2017)
Slitförin er afar vönduð ljóðabók þar sem í tæplega fjörutíu ljóðum eru dregnar upp fjölmargar litlar myndir af augnablikum úr tilverunni, mannlegum samskiptum, brestum og tilfinningalegu ástandi. Skáldið segir þó um leið mun stærri sögu af samböndum og arfleifð kynslóðanna, vítahringjunum sem verða til upp úr erfiðu fjölskyldumynstri og hinni vandrötuðu leið sem unglingsstúlka þarf að feta til að öðlast sjálfstæða vitund ungrar konu. Eftirtektarvert er hve örugg tök höfundurinn hefur á fjölbreyttu myndmáli og hvernig hún nær með nálgun sinni að forðast tilgerð og koma hverri hugsun til skila á beinskeyttan hátt. Þrískipting bókarinnar og kaflaheitin Skurður, Slitförin og Saumar endurspegla þroskaferli ljóðmælandans og verkið er gjöful lesning í heild sinni en þó stendur hvert ljóð einnig sem sjálfstætt listaverk. Slitförin er vel uppbyggð og áhrifarík bók sem ber hæfileikum ljóðskáldsins gott vitni.
Fræðibækur og rit almenns eðlis
Íslenska lopapeysan. Uppruni, saga og hönnun. Ásdís Jóelsdóttir (Háskólaútgáfan, 2017)
Hún er falleg og hlý bókin Íslenska lopapeysan. Uppruni, saga og hönnun eftir Ásdísi Jóelsdóttur og geymir feikimikinn fróðleik um prjón og lopapeysur. Í bókinni rannsakar Ásdís sögu og þróun íslensku lopapeysunnar og rannsóknin leiðir í ljós athyglisverð tengsl samfélagsbreytinga og iðnþróunar. Unnin ull var lengi helsta útflutningsvara Íslendinga en á 19. öld dró úr ullarvinnslunni. Í bókinni rekur Ásdís hvernig ullarvinnsla öðlast vinsældir á ný á 20. öld með lopapeysunni og hvernig hönnuðir, og aðrir skapandi einstaklingar, nýta þennan efnivið. Heimildir Ásdísar eru af margvíslegum toga svo sem prjónabæklingar, uppskriftablöð og auglýsingar auk þess sem Ásdís tekur fjölmörg viðtöl við fólk. Frásagnir prjónakvennanna eru sérlega áhugaverðar og viðtöl Ásdísar eru mikilvæg heimild um störf kvenna inni á heimilum. Það er mikill fengur að bókinni og nú þurfa prjónakonur og – karlar að leggja frá sér prjónana um stund og lesa þessa bók.
Leitin að klaustrunum. Klausturhald á Íslandi í fimm aldir. Steinunn Kristjánsdóttir (Sögufélagið og Þjóðminjasafn Íslands, 2017)
Í bókinni Undur Mývatns – um fugla, flugur, fiska og fólk lýsir Unnur Jökulsdóttir samlífi ólíkra lífvera á einkar næmlegan hátt og fléttar saman fræðilegar staðreyndir, munnmælasögur og örsögur úr eigin lífi í þessari stórbrotnu náttúru. Lesandi sér og skynjar töfra staðarins gegnum augu höfundar en hún er fróðleiksfús fastagestur sem vill vita allt stórt og smátt um náttúruna og lífið við vatnið. Unnur hefur greiðan aðgang að fræðafólki sem starfar við rannsóknir á lífríkinu við Mývatn og það svalar forvitni hennar þegar spurningar vakna. Bókin er þannig byggð á fræðilegum grunni en miðlað af leikmanni með næmt fegurðarskyn og djúpa virðingu fyrir náttúrunni. Niðurstaðan verður læsileg bók, skrifuð af ástríðu og hrifningu, þar sem rétt er farið með staðreyndir en þannig um þær búið að allir geta haft af þeim gagn og gaman. Látlausar og fallegar vatnslitamyndir eftir Árna Einarsson og Margaret Davies prýða bókina.
Undur Mývatns – um fugla, flugur, fiska og fólk. Unnur Jökulsdóttir (Mál og menning, 2017)
Leitin að klaustrunum. Klausturhald á Íslandi í fimm aldir eftir Steinunni Kristjánsdóttur er voldugt rit og skemmtilega skrifað. Lesandinn fær ekki einungis góða innsýn í klausturhald á Íslandi í kaþólskum sið heldur einnig í vinnubrögð fornleifafræðinga og annarra sérfræðinga. Textinn er lipurlega skrifaður og höfundur bregður upp áhugaverðum myndum úr vinnunni við uppgröftinn, bæði í orðum og ljósmyndum sem sumar segja meira en mörg orð. Þetta veldur því að lesanda finnst hann vera þátttakandi í öllu amstrinu. Saga klaustranna er heillandi viðfangsefni sem Steinunn nær að gera góð skil. Hún leitar víða fanga og styðst við örnefni, gömul skjöl og munnmælasögur sem stundum vísa veginn en eiga það líka til að afvegaleiða fornleifafræðinga. Lesturinn vekur áhuga á því að heimsækja klausturstaðina með bókina í farteskinu. Sums staðar má sjá ummerki um klausturhald, annars staðar hafa öll spor máðst út en sagan lifir.
Barna- og unglingabókmenntir
Allar eiga þessar bækur það sameiginlegt að vera skrifaðar á blæbrigðaríku og fallegu máli en um leið fá þær lesendur til að efla málvitund og auka lesskilning sinn. Fjölbreytni þeirra gefur fögur fyrirheit um aukið úrval lesefnis fyrir aldurshópinn sem tilheyrir barna- og ungmennabókum.
Lang-elstur í bekknum. Bergrún Íris Sævarsdóttir (Bókabeitan, 2017)
Eyja er sex ára feimin skólastúlka. Hún er nýflutt, þekkir því engan í skólanum og finnst erfitt að eignast vini. Sessunautur hennar er hins vegar 96 ára og fer sínar eigin leiðir bæði í nestis- og námsvali. Rögnvaldur og Eyja hjálpast að við það sem þeim finnst erfiðast og uppskera bæði. Eyja kennir Rögnvaldi stafina en þar sem hann er tregur til þarf hún að leysa ýmsar þrautir sem hann leggur fyrir hana. Skólalífið verður þeim þannig léttara og skemmtilegra en um leið lærdómsríkt og uppbyggilegt. Sagan kennir okkur að samvinna og það að þora aðeins út fyrir þægindarammann skiptir oft máli til að auka lífsgæði okkar.
Frásögnin af skólasystkinunum er einkar skemmtileg og fyndin og ekki skemma myndir höfundarins fyrir sem glæða söguna lífi. Bókin er léttlestrarbók með þægilegu letri, stuttum köflum og hentar byrjendum og öllum þeim sem þurfa að æfa sig í lestri.
Gulbrandur Snati og nammisjúku njósnararnir. Brynhildur Þórarinsdóttir (Mál og menning, 2017)
Gunnar og Gyða fara með mömmu sinni í eyðiþorp og verja sumrinu án nútímatækja eins og snjallsíma og nets. Hvað gera börn þá? Þau þurfa að finna sjálf upp á einhverju til að skemmta sér og komast að því að það er hægt að komast af án allra skjáa og sælgætis. Við sögu kemur dýr sem mjoffar og börnin koma sér ekki saman um hvort er hundur eða köttur. Skepnan reynist hjálpsöm og vinur í raun.
Frásögnin er lipur, myndræn og vel byggð, persónusköpun er lifandi og eru börnin dregin skýrum dráttum þar sem sumarfríið reynist þeim þroskandi og er lesandi ekki frá því að tognað hafi ærlega úr þeim eftir ævintýrin. Börnin tvö eru aðalpersónurnar og kastljósinu beint að þeirra hugðarefnum en fullorðnir aðeins til stuðnings framvindunnar, börn þurfa jú að nærast og hafa einhvern ramma en annars leika þau lausum hala.
Myndskreytingar Bergrúnar Írisar Sævarsdóttur glæða söguna lífi en er stillt í hóf svo ímyndunaraflið fær að njóta sín.
Vertu ósýnilegur, flóttasaga Ishmaels. Kristín Helga Gunnarsdóttir (Mál og menning, 2017)
Ishmael er sýrlenskur drengur frá Aleppo. Þegar heimili hans hrynur í sprengjuregni og mamma hans og systir deyja flýja hann og afi hans hörmungarnar enda möguleikar á eðlilegu lífi engir. Við fylgjum þeim á flóttanum og eru lýsingar atburða og umhverfis raunsæjar og myndrænar. Á sama tíma er sögð saga flóttafjölskyldu í Kópavogi sem er að reyna að fóta sig í nýju landi. Sagan segir ekki aðeins frá hörmungum heldur fjölskylduböndum, draumum, vináttu og von.
Frásögnin af flóttanum er hröð og spennandi en hún hægist þegar í Kópavoginn er komið enda mun öruggara umhverfi. Sagan er þroskasaga þar sem Ishmael upplifir æðimargt á skömmum tíma en hann lærir líka að þekkja tilfinningar sínar og treysta innsæinu. Persónur eru raunsæjar þannig að auðvelt er fyrir lesanda að finna til samhygðar.
Uppbygging bókarinnar er einstök þar sem hver kafli er afmarkaður af ljósmynd og klausu úr Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem tengist umfjöllunarefninu og er óhætt að segja að það hafi talsverð áhrif á upplifun lesandans.