Search
Close this search box.

Skýrsla formanns á aðalfundi RSÍ 24. september 2020

Kæru félagar

Eins og allir vita er það vonum seinna sem okkur tekst að halda aðalfund RSÍ að þessu sinni, en fundurinn var upphaflega fyrirhugaður í apríl. Heimsfaraldurinn hefur haft margvísleg áhrif á starf sambandsins og mun ég víkja að þeim af og til í þessar skýrslu, eins og eflaust segir sig sjálft. Eitt af þeim súru eplum sem við höfum þurft að bíta í er að halda aðalfund okkar við þessar aðstæður, þar sem hætt er við að fjöldi félaga veigri sér við að safnast saman vegna smithættu og reglna sem hún hefur haft í för með sér. Við getum þó ekki beðið lengur með að afgreiða þau mál sem lög sambandsins segja fyrir um – og því erum við hér. Velkomin öll og gott að sjá ykkur.

Frá síðasta aðalfundi hafa eftirtaldir félagar okkar fallið frá: Atli Magnússon, Símon Sigurmonsson, Guðjón Ármann Eyjólfsson, Andrés Indriðason, Halldóra Kr. Thoroddsen, Hallfríður Ólafsdóttir og heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands, Birgir Sigurðsson.

Ég vil biðja fundarmenn að rísa úr sætum og minnast þeirra með einnar mínútu þögn.

Engum þarf að segja þau tíðindi að blessuð Corona veiran og ferðalag hennar um heimsbyggðina hefur haft gríðarleg áhrif á líf og afkomu listamanna um víða veröld. Rithöfundar eru þar engin undantekning. Handritshöfundar sjónvarpsefnis og kvikmynda hafa mátt horfa uppá verkefni sín sigla í strand, verk leikskálda hafa steitt á skerjum í leikhúsum, útgáfusamningar hafa lent í frosti og þannig mætti áfram barma sér.

Ástandið sem faraldurinn hefur skapað hefur kallað á víðtækt samstarf á milli samtaka listamanna í hinum ýmsu greinum, bæði innanlands og yfir sjó og land. Á vettvangi Bandalags íslenskra listamanna hefur víðtækt samráð og umræða átt sér stað og var ekki vanþörf á. Það kom fljótt á daginn þegar harðnaði á dalnum í samfélaginu að íslenska velferðarkerfið gerir ekki ráð fyrir listamönnum þegar grípa þarf til þeirra bjargráða sem það hefur tiltæk. Hjá Vinnumálastofnun var umsóknum listamanna um atvinnuleysisbætur umsvifalaust ýtt út af borðinu, enda reyndust þeir upp til hópa með litlar og óreglulegar tekjur sem excelskjölin áttu erfitt með að kyngja. Kerfið greip reyndar til ráðstafana sem fengu einhverjum hóp hækjur að staulast við, með því að veita auknu fé til starfslauna og verkefnastyrkja, en þær lausnir gerðu um leið þær kröfur að listamenn finndu sér ný verkefni að vinna og sæktu uppá von og óvon um laun og styrki út á þau. Hins vegar bíðum við enn eftir því samfélagslega öryggisneti sem grípur þá sem verða fyrir ótvíræðu tekjutapi og eiga þess ekki kost að snúa sér að nýjum verkum sem hljóta náð fyrir augum úthlutunarnefnda.

Þetta „foræmalausa ástand“, svo ég taki mér nú þá jórturtuggu í munn, hefur ennþá einu sinni minnt okkur óþyrmilega á að listamenn eru jaðarsettur hópur þegar velferðarkerfið er annars vegar. Þau réttindi sem öllum þegnum þjóðfélagsins eiga að vera tryggð samkvæmt stjórnarskrá, þar með talinn réttur til aðstoðar vegna atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika, sem skilgreindur er í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins, svo ekki sé minnst á jafnræðisregluna frægu, virðist ekki eiga við þegar listamenn eiga í hlut. Þetta er misrétti sem ekki á að viðgangast og lífsnauðsynlegt er að breytist ef viðburðir eins og heimsfaraldur COVID19 eiga ekki að geta gengið að íslenskri menningu dauðri.

En fleira setti svip sinn á þetta ár en þessi afdrifaríka ágjöf, sem enn sér ekki fyrir endann á. Eftir talsvert japl og jaml og jafnvel nokkurt fuður í kaupbæti tókst að draga bókaútgefendur að samningaborðinu, sem var löngu orðið tímabært að mati RSÍ, þó að viðsemjendum okkar þætti lítið liggja á. Gildandi samningar voru frá 2013 og í þeim voru allnokkur atriði sem rithöfundar höfðu fulla ástæðu til að amast við. Einnig var til kominn umtalsverður stuðningur ríkisins við bókaútgáfu á íslensku, sem fólst í endurgreiðslu kostnaðar til útgefenda, en virtist ekki eiga að skila neinum kjarabótum til höfunda. Sú var að minnsta kosti túlkun Fíbút.

Samningaviðræður hófust reyndar í apríl 2019 og í samninganefnd fyrir hönd RSÍ sátu Vilborg Davíðsdóttir, Dagur Hjartarson og Auður Jónsdóttir, en síðar í ferlinu tók Sigríður Rut Júlíusdóttir lögmaður RSÍ sæti Auðar. Ég ætla ekki að rekja gang samningaviðræðnanna, hvorki í grófum né fínum dráttum, en læt nægja að segja að þetta var erfitt og langdregið ferli. Eins og gengur og gerist í samningum af þessu tagi náðist ekki sá fullkomni árangur sem við stefndum að með upphaflegri kröfugerð, en samninganefnd okkar sýndi fáheyrða þrautseigju, þolinmæði og útsjónarsemi og tókst loks að landa nýjum rammasamningi, sem undirritaður var 2. september síðastliðinn. Ég fer ekki í saumana á þeim samningi hér og nú, enda var haldinn kynningarfundur um hann fyrir félagsmenn fyrir réttum 10 dögum, en eftir það fór hann í rafræna atkvæðagreiðslu. Það kemur svo í ljós seinna á þessum fundi hvort félagsmenn hafa samþykkt hann eður ei. Sjálfur vil ég lýsa ánægju minni með þann árangur sem náðist á endanum og þakka samninganefnd okkar innilega fyrir vel unnin störf.

Nú þegar ljóst verður hvort nýgerður samningur við Fíbút hlýtur náð fyrir augum félagsmanna, verður næsta verkefni stjórnar RSÍ að hrinda af stað nýjum samningaviðræðum við bókaútgefendur, sem ætlað er að endurskoða þýðendasamninga félaganna. Þar má sitt af hverju betur fara.

Hvað önnur samningamál varðar er því miður ekki eins mikið að frétta og við hefðum helst kosið. Nú eru liðnir ríflega 18 mánuðir síðan samninganefnd RSÍ skilaði fullbúinni tillögu að rammasamningi til RÚV, en sambærileg nefnd á vegum RÚV hefur ekki séð sér fært að svara því tilboði, og enn síður að boða fund til að ræða innihald samningsins. Samningur sem allir héldu að væri á lokaspretti fyrir tveimur árum er því ennþá í gíslingu, og hefur verið í tvöfaldan mannlegan meðgöngutíma. Sjálfur hef ég sent ítrekaðar áskoranir til tveggja útvarpsstjóra um að ljúka þessu máli, sem þegar er orðið stofuninni til skammar vegna seinagangs. Ég sat fund með nýráðnum útvarpsstjóra núna í ágúst, ásamt formönnum þeirra samtaka listamanna sem eiga viðskipti við RÚV. Á þeim fundi lýsti Stefán Eiríksson því yfir að stefnt væri að því að ljúka öllum óklárum samningum RÚV við listamenn innan árs. Aðrir fundamenn tjáðu ánægju sína og óskuðu eftir því að fá í hendur verkáætlun sem sýndi hvernig þessu markmiði yrði náð. Sú áætlun hefur enn ekki borist. Á sama fundi báru forvígismenn listamanna upp ýmis umkörtunarefni og var á máli þeirra að skilja að öllum þætti þeim fagmennsku innan veggja RÚV hafa hrakað til mikilla muna frá því fyrirtækið var gert að hlutafélagi. Einnig kvörtuðu þeir yfir þverrandi virðingu sem listamenn nytu eftir að sú sama ráðstöfun varð að veruleika. Fulltrúum RÚV á fundinum fannst ómaklega að vinnustað sínum vegið og lögðu kapp á að sýna fram á hið gagnstæða. Þrátt fyrir það hefur RSÍ nú fengið inn á borð til sín hvert málið á fætur öðru, þar sem í ljós kemur að höfundar hafi verið hlunnfarnir og virðing fyrir verkum þeirra og höfundarétti til lítillar fyrirmyndar. Þetta er vitaskuld óþolandi, enda höfum við nú þegar látið til skarar skríða fyrir hönd viðkomandi höfunda og krafist bæði leiðréttinga, afsökunarbeiðna og jafnvel skaðabóta.

Samstarfshópur RSÍ og Félags leikskálda og handritshöfunda starfaði með hléum á þessu ári og því síðasta við að setja saman nothæfan rammasamning handritshöfunda við kvikmyndaframleiðendur. Formenn beggja félaga sitja í hópnum og auk þeirra nokkrir reyndir höfundar á sviði sjónvarps og kvikmynda. Uppúr þessari vinnu var skipuð samninganefnd, en í henni sitja Karl Ágúst, Margrét Örnólfsdóttir og Sigríður Rut. Útkoman  er heildstæður samningur, sem til stendur að leggja fyrir kvikmyndaframleiðendur, en COVID hafa sett strik í þann reikning eins og fleiri. Sami hópur er nú í startholum að fara yfir sjónvarpssamninga handritshöfunda á sama hátt og gert var með kvikmyndasamningana. Vonandi sést árangur af þeirri vinnu áður en alltof langt um líður.

Og svo eru það önnur kjarmál rithöfunda en þau sem samið er um í kjarasamningum. Þar er ég vitaskuld að tala um starfslaun, en á þeim vettvangi verður það æ brýnna að berjast fyrir bættum kjörum. Undangengnir þrengingatímar hafa sýnt okkur það svart á hvítu að starfsumhverfi listamanna á Íslandi er óviðunandi að stórum hluta. Ein af ástæðum þess að velferðarkerfið gagnast ekki okkur skapandi listamönnum þegar í harðbakkann slær er sú að við náum ekki máli í samanburði við þjóðfélagsþegna sem vinna eðlilegan vinnutíma og þiggja fyrir það eðlileg laun.

Við verðum að berjast fyrir því að starf rithöfundarins verði skilgreint sem fullt starf, en ekki hlutastarf, eins og það telst samkvæmt lögum um starfslaun. Það er alvöru vinna að vera rithöfundur, hvort sem fólk kýs að skrifa bækur, leikrit, kvikmyndir, vefefni eða eitthvað enn annað. Það er alvöru starf, sem skapar raunveruleg verðmæti, hvort sem þau verðmæti eru skilgreind í krónum, evrum, pundum eða einhverju óefniskenndu sem hægt er að kalla andleg verðmæti, menningarverðmæti. Það er skapandi hugsun og listsköpun, sem á endanum dregur okkur uppúr því volæði sem við nú stöndum andspænis. Þess vegna er það lífsspursmál fyrir samfélagið að halda listamönnum sínum á lífi og við þokkaleg kjör.

Um leið og við krefjumst þess að starfslaun verði hækkuð til samræmis við launakjör í landinu eigum við líka að vinna að því að fleiri skapandi einstaklingar eigi þess kost að njóta starfslauna. Við eigum líka að keppa að samfellu í starfi höfunda og það verður aðeins gert með því að stærri hópur sé á launum allt árið. Við skulum vona að þau nöturlegu sannindi um lífskjör og aðstöðu listamanna sem heimsfaraldurinn er að birta okkur um þessar mundir verði okkur öllum að kenningu – bæði okkur listamönnum og ekki síður stjórnvöldum.

En á sama tíma og það ætti að vera að renna upp fyrir yfirvöldum um víða veröld hvers virði menningin er berast okkur þau undarlegu tíðindi af vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar að nú standi fyrir dyrum gagngerar tilfærslur í styrkjakerfi Norðurlanda, þar sem fyrirhugað sé að færa umtalsverða fjármuni frá málaflokki menningar yfir á málaflokk sem tengist umhverfismálum, loftslagsmálum og sjálfbærni. Í hópi listamanna má finna eitthvert ötulasta baráttufólk fyrir hagsmunum náttúru og sjálfbærrar þróunar, auk þess sem listsköpun er einhver umhverfisvænsta iðja sem hugsast getur. Eða ætlar einhver að halda því fram að það fé sem varið er til menningarstarfsemi sé ávísun á djúpt kolefnisspor? Tæplega. Því hefði maður haldið að skapandi hugsun innan listgreinanna og öflug menningarstarfsemi væri einmitt leiðin til að berjast gegn þeim öflum sem hafa skaðlegust áhrif á umhverfi okkar og samfélag. Okkur þykir því skjóta afar skökku við að yfirvöld hafi nú í hyggju að kippa fótum undan norrænni menningarsamvinnu, einmitt á þeim tímum sem kalla á aukna samstöðu. RSÍ berst af heilum hug gegn þessum makalausu hugmyndum og þykir afar brýnt að stöðva þetta fyrirhugaða skemmdarverk áður en það verður um seinan. Í þessu máli eins og mörgum öðrum stöndum við með systrasamtökum okkar á Norðurlöndum og öðrum samtökum listamanna.

Eitt af þeim eilífðarmálum sem nauðsynlegt er að drepa á á hverjum aðalfundi og jafnvel oftar og víðar þar sem höfundar koma saman, er málefni Hljóðbókasafns Íslands. Það óþolandi ástand að ófullnægjandi hömlur séu á notkun safnsins, er mál sem fáránlega lengi hefur viðgengist án þess að úrbætur hafi nokkru sinni virst í sjónmáli. RSÍ hefur þrástagast á því við Mennta- og menningarmálaráðuneytið að við þetta verði ekki unað, en ráðuneytið hefur í þessu máli, eins og reyndar of mörgum öðrum, svarað okkur með þögninni. Það var ekki fyrr en Rithöfundasambandið setti ráðuneytinu úrslitrakosti og hótaði stjórnsýslukæru á hendur því að svar barst og nú hefur verið boðaður fundur þar sem hafist verður handa við endurskoðun RSÍ og ráðuneytisins fyrir hönd Hljóðbókasafnsins.

Við vonum heitt og innilega að loks verði bundinn endi á þetta vandræðalega ófremdarástand.

Þetta var ár fjarfundanna. Allar alþjóðlegar og fjölþjóðlegar ráðstefnur rithöfunda sem RSÍ sendir fulltrúa á að öllu eðlilegu voru færðar yfir á tölvuskjái, þar sem hver sat í sínu lokaða rými og reyndi eftir bestu getu að taka þátt í umræðum sem teygðu sig yfir hnöttinn þveran og endilangan. Formaður og framkvæmdastjóri tóku þátt í fundum alþjóðasamtakanna International Authors’ Forum og Evrópusamtakanna Europian Writers Councel í gegnum fjarfundabúnað. Báðir fundirnir báru skýr merki ástandsins – þeir voru fjölmennir og svolítið þungir í vöfum, og lítið var hægt að skiptast á hugmyndum um bókmenntir og listir á líðandi stund, heldur lögðu skipuleggjendur allt kapp á að mál væru afgreidd snaggaralega og vafningalítið. Enn sem fyrr er þessi alþjóðlega samvinna okkur höfundum afar mikilvæg og aldrei hefur verið brýnna að við höldum vöku okkar og störfum þétt með kollegum okkar í öðrum löndum, til þess að verja höfundarétt okkar. Og það er ekki síður mikilvægt að við miðlum reynslu okkar sem höfundar á örmarkaði til hinna sem vanir eru víðáttumeiri veiðilendum.

Þá á eftir að minnast á mannréttindi höfunda, en RSÍ reynir að fylgjast með baráttu rithöfunda í öðrum löndum fyrir tjáningarfelsi, sem oft á tíðum er reynt að bæla með valdníðslu og ofbeldi. Nú síðast lögðumst við á árar með Evrópuráði rithöfunda til stuðnings höfundum í Hvíta-Rússlandi. Þar í landi er ritskoðunin grímulaus og Nóbelsverðlaunahöfundurinn Svetlana Alexievich er ofsótt af yfirvöldum. Eins og öllum er kunnugt er pólítískt ástand þar í landi afar tvísýnt um þessar mundir og hafa þarlendir rithöfundar beitt sér sterkt gegn sitjandi einræðisherra, Alexander Lukashenko. Rithöfundasamband Íslands styður baráttuna fyrir frelsi og lýðræði hvar sem er í heiminum.

Maístjarnan, ljóðaverðlaun Rithöfundasambandsins og Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns voru veitt í fjórða sinn þann 27. maí síðastliðin, en tilnefningar voru kynntar í Gunnarshúsi skömmu áður. Fimm ljóðabækur frá síðasta ári hlutu tilnefningu, en Maístjörnuna hlaut Jónas Reynir Gunnarsson fyrir bók sína Þvottadag.

Ekki verður sagt skilið við málefni rithöfunda þetta árið án þess að minnast á þær stóru breytingar sem nú eru að verða á starfsumhverfi okkar, einkum í útgáfu bóka. Það þótti nokkrum tíðindum sæta þegar sænska stórfyrirtækið Storytel AB keypti meirihluta í Forlaginu, stærstu bókaútgáfu landsins. Afar skiptar skoðanir voru um það á meðal höfunda hvort Rithöfundasambandinu kæmi þetta yfirleitt við, en stjórn RSÍ ákvað að álykta um málið, þar sem hún taldi þetta mikil tíðindi og ekki endilega fagnaðarefni. Í ályktun stjórnarinnar segir:

Stjórn Rithöfundasambands Íslands lýsir áhyggjum sínum af kaupum Storytel AB á 70% hlut í Forlaginu, stærsta útgáfufyrirtæki landsins. Stjórnin fagnar nýrri tækni og auknum tækifærum fyrir lesendur til að njóta bókmenntaverka. Flestir rithöfundar vilja líka sækja fram á því sviði og ná til nýrra lesenda. Hins vegar hefur stjórnin áhyggjur af enn meira valdaójafnvægi á bókamarkaði ef kaupin ganga í gegn þar sem stærsta bókaútgáfa landsins og eina streymisveita hljóðbóka verði í eigu sama aðila. Samruni stórra aðila á markaði leiðir iðulega til skerðingar á virkri samkeppni sem kemur neytendum og öðrum á markaði illa. Þegar um er að ræða fákeppni á sviði menningar verður að stíga sérstaklega gætilega til jarðar.

Stjórn RSÍ vantreystir hinu sænska móðurfélagi og stjórnendum þess því reynsla höfunda af dótturfélaginu Storytel á Íslandi er ekki góð og sömu sögu má heyra frá félögum okkar á hinum Norðurlöndunum. Samkvæmt kjarakönnun sem Rithöfundasambandið hefur gert meðal félagsmanna sem eiga verk hjá Storytel á Íslandi eru greiðslur til þeirra afar lágar og tekjumódelið ógegnsætt. Stjórnin óttast að tilgangur eiganda Storytel á Íslandi, Storytel AB í Svíþjóð, sé að komast nær höfundaverki íslenskra höfunda og eyða allri samkeppni á hljóðbókamarkaði. Margir félagsmenn hafa haft samband við stjórn og skrifstofu RSÍ og viðrað áhyggjur sínar. Höfundar og útgefendur ytra hafa borið því vitni að frelsi þeirra og menningarleg áhersla hafi beðið hnekki með eignarhaldi Storytel AB. Slíkt vekur ugg í brjósti höfunda hér á landi, sporin ytra hræða, en reynslan ein mun leiða í ljós hvort sama öfugþróun verði hérlendis. Komi upp slík staða á Íslandi telur stjórn RSÍ sýnt að hún myndi þrengja verulega að höfundum og möguleikum þeirra til útgáfu á fjölbreyttum og burðugum bókamarkaði. Aldrei má vega að listrænu frelsi þannig að litið sé á bókmenntir sem framleiðsluvöru sem þarf að skila hagnaði en ekki listræna tjáningu sem hefur gildi í sjálfu sér.

Við þetta er því að bæta að ekki er ennþá ljóst hvort samkeppnisyfirvöld á Íslandi leyfa að þessi kaup fari fram, en það kemur í ljós að fáeinum mánuðum liðnum. Hitt er deginum ljósara að nú gerast breytingar á starfsvettvangi okkar hraðar og margvíslegar. Það kemur í hlut samtaka rithöfunda að fylgjast grannt með þróun mála og vekja á því athygli þegar hætta er á að hagsmunum höfunda verði fórnað fyrir gróðavon framleiðenda af öllu tagi.

Góðir félagar. Þó að tónninn í þessari skýrslu hafi etv. verið þyngri en ég hefði sjálfur óskað, vil ég lýsa einlægri ánægju minni með starfið innan RSÍ þetta árið. Það fólk sem tekið hefur að sér trúnaðarstörf fyrir sambandið hefur rækt starf sitt af krafti og samviskusemi og innan stjórnarinnar hefur ríkt góður vinnuandi og eindrægni. Framkvæmdastjórinn okkar, hún Ragnheiður, og verkefnastjórinn Tinna hafa síðan rekið skrifstofuna eins og endranær af einstakri röggsemi, myndarskap og stakri umhyggju fyrir íslenskum rithöfundum. Ég vil fá að þakka öllu þessu fólki gott og skemmtilegt samstarf og glæsilegan árangur í þeim verkefnum sem það hefur tekið að sér.

Rithöfundasamband Íslands er stéttarfélag allra rithöfunda, óháð því í hvaða miðlum verk þeirra koma fyrir almenningssjónir. Við viljum kappkosta að hér eigi allir vísan stuðning, hvort sem um ræðir þá sem skrifa bækur, skáldverk, leikrit, handrit að kvikmyndum, útvarps eða sjónvarpsefni, ljóð, smásögur eða önnur verk sem fallið geta undir ritlist. Í Gunnarshúsi er rekin skrifstofa, þjónustumiðstöð og félagsheimili rithöfunda. Þetta vita auðvitað allir sem hér sitja, en ég vil eftir sem áður hvetja félagsmenn til að nýta sér þjónustu Rithöfundasambandsins hiklaust, hvenær sem uppá kunna að koma vafamál sem gott er að fá aðstoð við að greiða úr. Við veitum lögfræðiaðstoð þegar það á við, við búum yfir sérþekkingu í málum sem snerta réttindi höfunda, við þiggjum með þökkum allar ábendingar um það sem betur má fara í starfsemi sambandsins, við bjóðum aðstöðu á Dyngjuveginum til fundahalda, upplestra og hvers kyns samkomuhalds félagsmanna okkar. Og svo er yfirleitt heitt á könnunni og oft ráðrúm til að tylla sér og spjalla um hvaðeina sem snertir lífið og listina.

Sem sagt: Verið alltaf velkomin í Gunnarshús.

Kærar þakkir,

Karl Ágúst Úlfsson formaður

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email