Það gleður Höfundamiðstöð RSÍ að kynna dagskrána fyrir Skáld í skólum 2018!
Haustið 2018 bjóða 10 skáld frá Höfundamiðstöð RSÍ nemendum og kennurum í grunnskólunum landsins með sér í leiðangur um veiðilendur ævintýranna í leit að álfum, draugum, dvergum, ninjum, ofurhetjum og undarlegum forynjum. Höfundarnir frá Skáldum í skólum mæta með agnarsmátt hugmyndafræ sem þeir gróðursetja og láta blómstra þangað til að það hefur vaxið og orðið að heilum hugmyndaskógi. Um leið spyrja þeir sig að því hvernig heimurinn liti út ef þeir réðu öllu og Búkolla væri jafnvel vængjuð flug-belja með ofurkrafta. Hvað gerist eiginlega þá?
Árlega býður Höfundamiðstöð RSÍ grunnskólum um land allt upp á bókmenntadagskrána Skáld í skólum þar sem höfundar heimsækja skólana til að fjalla um bókmenntir af ýmsu tagi. Skáld í skólum hefur löngu sannað sig sem ómissandi þáttur í kynningu nútímabókmennta í grunnskólum landsins en vel yfir 60 mismunandi dagskrár hafa orðið til innan vébanda verkefnisins frá því það hóf fyrst göngu sína 2006. Í ár bjóðum við upp á hinar vinsælu hefðbundnu dagskrár fyrir öll grunnskólastig en erum líka með nýjung, kveikjur fyrir mið- og unglingastig. Hefðbundnu dagskrárnar henta fyrir litla sem stóra hópa í kennslustofu eða á sal en kveikjurnar eru fyrir smærri hópa. Allar dagskrárnar sem boðið er upp á í Skáldum í skólum eru metnaðarfullar og spennandi, höfundar koma í heimsókn til að tala um bækur og lestur, sköpun og skrif, ævintýri sögupersóna jafnt sem skapara þeirra og síðast en ekki síst til að smita nemendur af ólæknandi lestrar- og sköpunargleði!
Tímabilið stendur yfir 15. október – 16. nóvember 2018. Boðið er upp á hefðbundnar höfundaheimsóknir fyrir öll grunnskólastig og einnig kveikjuheimsóknir fyrir smærri hópa. Frestur til að panta dagskrá er til 28. september.
Allar upplýsingar og pantanir í síma 568 3190 eða á netfangið tinna@rsi.gagnaver.is.