Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Skáld í skólum 2019

Skáld í skólum – Bókmenntadagskrár til flutnings í grunnskólum og leikskólum

Á hverju hausti býður Höfundamiðstöð RSÍ grunnskólum um land allt upp á bókmenntadagskrár undir nafninu Skáld í skólum þar sem höfundar heimsækja skólana til að fjalla um bókmenntir af ýmsu tagi. Dagskrárnar í Skáld í skólum eru metnaðarfullar og fræðandi, höfundar koma í heimsókn til að tala um bækur og lestur, sköpun og skrif, ævintýri sögupersóna jafnt sem skapara þeirra og síðast en ekki síst til að smita nemendur af ólæknandi lestrar- og sköpunargleði.

Haustið 2019 fara sex skáld frá Höfundamiðstöð RSÍ í ævintýraleiðangur með nemendum og kennurum um undraheima bókmennta, þau gera tilraunir til að búa til vísindatrylli, uppgötva leynistaði þar sem maður getur verið maður sjálfur og þefa uppi kynngimagnaðar bækur sem geta breytt heiminum til hins betra.

Skáld í skólum er á sínu 14. starfsári og hefur fyrir löngu sannað sig sem ómissandi þáttur í kynningu nútímabókmennta í grunnskólum landsins, en hátt í 70 mismunandi dagskár hafa orðið til innan vébanda verkefnisins frá því það hóf fyrst göngu sína 2006.

Í ár fara einnig tvö skáld á vegum Höfundamiðstöðvar RSÍ í ævintýraleiðangur um leikskóla. Það er fagnaðarefni að Höfundamiðstöð geti boðið fyrsta skólastiginu vandaða og líflega bókmenntadagskrá, rétt eins og grunnskólunum.

Dagskrár 2019 

SKÁLD Í SKÓLUM – Á HÖFUÐBORGARSVÆÐINU | 2019

SKÁLD Í SKÓLUM – UM LANDIÐ ALLT | 2019

SKÁLD Í LEIKSKÓLUM | 2019

Verð kr. 40.000.
Upplýsingar og pantanir í síma 568 3190
tinna@rsi.is


Skáld í skólum fær viðurkenningu á degi íslenskrar tungu

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, skáld og rithöfundur.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, skáld og rithöfundur.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta-og menningarmálaráðherra, veitti verkefninu Skáld í skólum sérstaka viðurkenningu í tilefni af degi íslenskrar tungu árið 2018. Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson er upphafsmaður Skálda í skólum og tók hann við viðurkenningunni fyrir hönd Höfundamiðstöðvar RSÍ við hátíðlega athöfn á Höfn í Hornafirði.

Rithöfundasambandið fagnar þessari viðurkenningu og þakkar Aðalsteini frumkvæðið og gott og gjöfult samstarf við verkefnið Skáld í skólum í rúman áratug.

Í greinargerð ráðgjafanefndar segir:

Verkefnið Skáld í skólum hefur verið starfrækt frá árinu 2006 á vegum Höfundamiðstöðvar Rithöfundasambands Íslands. Þar hefur grunnskólum um allt land boðist að brjóta upp hefðbundna kennslu með heimsóknum frá rithöfundum, handritshöfundum, skáldum og myndasöguhöfundum. Dagskráin er ætíð fjölbreytt og eitthvað í boði fyrir hvert skólastig, bæði styttri fyrirlestrar og kveikjur en einnig ritsmiðjur sem geta spannað nokkra daga. Í dagskránni í ár má til dæmis finna fyrirlestur um „Veiðilendur ævintýranna“, þar sem nemendur í 1.-4. bekk fá hjálp við að veiða hugmyndir og kveikjuna „Ef ég mætti ráða …“ þar sem nemendur í 5.-7. bekk fá hjálp við að búa til sína eigin myndasögubók. Öll erindin byggja þó á sama grunni: Skáldin ræða sögur og lestur, sköpun og skrif og hjálpa nemendum að fá hugmyndir að sínum eigin sögum.

Það er skemmst frá að segja að Skáld í skólum hefur hlotið góðar viðtökur bæði nemenda og kennara. Skemmtilegt, fróðlegt og gagnlegt eru orð sem kennarar nota í umsögnum um verkefni. Skáldin eiga því sannarlega erindi í skólana. Hæfileikinn til að segja og skrifa sögur er nátengdur hæfileikanum til að setja sig í spor annarra, sem er mikilvægur hluti af þroska allra ungmenna. Á tímum þar sem bóklestur á undir högg að sækja hlýtur einnig að vera hvetjandi fyrir unga lesendur að komast í beint samband við höfunda, en eitt af markmiðum verkefnisins er einmitt að „smita nemendur af ólæknandi lestrar- og sköpunargleði!“ Sú sköpunargleði er eldsneyti fyrir unga málnotendur og lífsnauðsynleg tungumáli sem þarf að vaxa og dafna andspænis nýjum áskorunum.

Ávarp Aðalsteins Ásbergs:

Aðalsteinn Ásberg

Aðalsteinn Ásberg

„Það er mér heiður og sérstök ánægja að veita viðtöku þessari viðurkenningu fyrir verkefnið Skáld í skólum sem Höfundamiðstöð Rithöfundasambandsins hefur haft veg og vanda af í 13 ár og má segja að hafi eðli málsins samkvæmt verið í stöðugri framsókn og þróun. Ástæða þess að ég stend hér fyrir hönd miðstöðvarinnar er sú að hugmyndin að verkefninu og titill voru á sínum tíma hugarfóstur mitt og mér síðan falið að vera við stjórnvölinn á skútu skólaskáldanna í áratug.

Í upphafi studdi Reykjavíkurborg við verkefnið á tilraunastigi, en síðan mennta- og menningarmálaráðuneytið og fleiri opinberir aðilar, auk menningarsjóða. Ég vil nefna sérstaklega framkvæmdastjóra rithöfundasambandsins og höfundamiðstöðvarinnar, Ragnheiði Tryggvadóttur, sem tók þátt í því af lífi og sál að koma verkefninu á koppinn og hefur átt drjúgan þátt í nauðsynlegri eftirfylgni. Eftir því sem ég kemst næst hafa hátt í 100 höfundar, lífs og liðnir, átt hlut í verkefninu og um 70 mismunandi dagskrár litið dagsins ljós. Sumar þeirra hafa reynst skammlífar en aðrar orðið eins konar framhaldsþættir og flust á milli ára hvað eftir annað. Höfundarnir eiga að sjálfsögðu stóran þátt í því að verkefnið hefur vaxið og dafnað í áranna rás. Ennfremur eiga skólarnir allir sem hafa sýnt verkefninu áhuga allt frá fyrsta misseri og fram til dagsins í dag þakkir skildar.“

Ráðgjafanefnd vegna Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar skipa að þessu sinni Ingunn Ásdísardóttir, formaður, Einar Falur Ingólfsson og Dagur Hjartarson.


Skáld í skólum 2018

Það gleður Höfundamiðstöð RSÍ að kynna dagskrána fyrir Skáld í skólum 2018!

Skald-i-skolum-2018-forsidumyndHaustið 2018 bjóða 10 skáld frá Höfundamiðstöð RSÍ nemendum og kennurum í grunnskólunum landsins með sér í leiðangur um veiðilendur ævintýranna í leit að álfum, draugum, dvergum, ninjum, ofurhetjum og undarlegum forynjum. Höfundarnir frá Skáldum í skólum mæta með agnarsmátt hugmyndafræ sem þeir gróðursetja og láta blómstra þangað til að það hefur vaxið og orðið að heilum hugmyndaskógi. Um leið spyrja þeir sig að því hvernig heimurinn liti út ef þeir réðu öllu og Búkolla væri jafnvel vængjuð flug-belja með ofurkrafta. Hvað gerist eiginlega þá?

Árlega býður Höfundamiðstöð RSÍ grunnskólum um land allt upp á bókmenntadagskrána Skáld í skólum þar sem höfundar heimsækja skólana til að fjalla um bókmenntir af ýmsu tagi. Skáld í skólum hefur löngu sannað sig sem ómissandi þáttur í kynningu nútímabókmennta í grunnskólum landsins en vel yfir 60 mismunandi dagskrár hafa orðið til innan vébanda verkefnisins frá því það hóf fyrst göngu sína 2006. Í ár bjóðum við upp á hinar vinsælu hefðbundnu dagskrár fyrir öll grunnskólastig en erum líka með nýjung, kveikjur fyrir mið- og unglingastig. Hefðbundnu dagskrárnar henta fyrir litla sem stóra hópa í kennslustofu eða á sal en kveikjurnar eru fyrir smærri hópa. Allar dagskrárnar sem boðið er upp á í Skáldum í skólum eru metnaðarfullar og spennandi, höfundar koma í heimsókn til að tala um bækur og lestur, sköpun og skrif, ævintýri sögupersóna jafnt sem skapara þeirra og síðast en ekki síst til að smita nemendur af ólæknandi lestrar- og sköpunargleði!

Tímabilið stendur yfir 15. október – 16. nóvember 2018. Boðið er upp á hefðbundnar höfundaheimsóknir fyrir öll grunnskólastig og einnig kveikjuheimsóknir fyrir smærri hópa. Frestur til að panta dagskrá er til 28. september.

Allar upplýsingar og pantanir í síma 568 3190 eða á netfangið tinna@rsi.is.


Höfundamiðstöð RSÍ auglýsir eftir bókmenntadagskrám til þátttöku í Skáld í skólum 2018 – umsóknarfrestur til 4. maí

Árlega býður Höfundamiðstöð RSÍ grunnskólum um land allt upp á bókmenntadagskrár undir heitinu Skáld í skólum þar sem rithöfundar hitta nemendur á aldrinum 6-16 ára til að fjalla um bókmenntir. Skáld í skólum er ómissandi þáttur í kynningu nútímabókmennta í grunnskólum landsins en yfir 60 mismunandi dagskrár hafa orðið til innan vébanda verkefnisins frá því það hóf göngu sína 2006. Dagskrárnar sem boðið er upp á í Skáld í skólum eru metnaðarfullar og spennandi; rithöfundar koma í heimsókn til að fjalla um bækur og lestur, sköpun og skrif, ævintýri sögupersóna jafnt sem skapara þeirra og síðast en ekki síst til að smita nemendur og kennara af ólæknandi lestrargleði!

Höfundamiðstöð RSÍ auglýsir nú eftir bókmenntadagskrám til þátttöku í Skáld í skólum 2018 en sótt er um á heimasíðu RSÍ og er umsóknarfrestur framlengdur t.o.m. 4.  maí.


Höfundamiðstöð RSÍ auglýsir eftir bókmenntadagskrám til þátttöku í Skáld í skólum 2018

Árlega býður Höfundamiðstöð RSÍ grunnskólum um land allt upp á bókmenntadagskrár undir heitinu Skáld í skólum þar sem rithöfundar hitta nemendur á aldrinum 6-16 ára til að fjalla um bókmenntir. Skáld í skólum er ómissandi þáttur í kynningu nútímabókmennta í grunnskólum landsins en yfir 60 mismunandi dagskrár hafa orðið til innan vébanda verkefnisins frá því það hóf göngu sína 2006. Dagskrárnar sem boðið er upp á í Skáld í skólum eru metnaðarfullar og spennandi; rithöfundar koma í heimsókn til að fjalla um bækur og lestur, sköpun og skrif, ævintýri sögupersóna jafnt sem skapara þeirra og síðast en ekki síst til að smita nemendur og kennara af ólæknandi lestrargleði!

Höfundamiðstöð RSÍ auglýsir nú eftir bókmenntadagskrám til þátttöku í Skáld í skólum 2018 en sótt er um á heimasíðu RSÍ og er umsóknarfrestur t.o.m. 30 apríl.


Skáld í skólum 2017 – dagskráin komin

Skald-i-skolum-2017-forsida-myndHaustið 2017 draga 10 skáld frá Höfundamiðstöð RSÍ nemendur í grunnskólunum landsins með sér í puttaferðalag gegnum platorð og flækjusögur, leiðinlegar sögur, leiðinleg ljóð og skemmtilegar sögur og skemmtileg ljóð. Sum skáldin segja frá leyndarmálum úr dagbókum frá unglingsárunum, gæludýrum og ógeðslega víðum unglingafötum. Önnur skáld útskýra hvernig maður getur smíðað sér sinn eiginn heim og átt heima á hafsbotni, úti í geimi, í ævintýraveröld, hversdagslífinu eða á stað sem er hvergi til. Maður verður bara að átta sig á hvar er best að vera. Skáldin frá Höfundamiðstöðinni eru líka öll hálærðir sérfræðingar í hugmyndaveiðum. Það er nefnilega nauðsynlegt að kunna að veiða, verka, krydda og matreiða girnilegar hugmyndir ofan í sjálfan sig og gráðuga lesendur. Allt í kringum okkur eru hugmyndir á sveimi, hver sem er má fanga þær og stinga í pottinn sinn. Maður þarf ekkert veiðileyfi, bara réttu veiðarfærin!

Bókmenntaverkefnið Skáld í skólum hóf göngu sína haustið 2006. Allt frá upphafi tóku grunnskólar landsins því fagnandi og hefur verkefnið löngu sannað sig sem ómissandi þáttur í kynningu nútímabókmennta í grunnskólum landsins. Þegar hafa yfir 60 mismunandi dagskár orðið til innan vébanda verkefnisins og er það í stöðugri þróun. Í fyrra kynntum við nýjung sem margir höfðu kallað eftir, ritsmiðjuheimsóknir þar sem vanir rithöfundar leiða nemendur inn í ævintýraheim skapandi skrifa. Þær heppnuðust vonum framar og í ár bjóðum við upp á spennandi ritsmiðjur fyrir bæði miðstig og unglingastig þar sem skólar geta valið um hvort höfundarnir hitta nemendur einu sinni, tvisvar eða þrisvar sinnum í ritsmiðjum. Hinar hefðbundnari rithöfundaheimsóknir eru að venju afar metnaðarfullar og spennandi, sumar eru framsæknar en aðrar sækja í menningararfinn.

Skoða dagskrá 2017


Skáld í skólum 2016

skald-i-skolum-2016-forsidaDagskráin fyrir Skáld í skólum 2016 er komin út! Þetta árið kynnum við nýjung sem margir hafa kallað eftir, en það eru ritsmiðjuheimsóknir þar sem vanir rithöfundar leiða nemendur inn í ævintýraheim skapandi skrifa. Skólar geta valið um það hvort höfundarnir hitta nemendur einu sinni, tvisvar eða þrisvar sinnum í ritsmiðjum og bjóðast þær nemendum á öllum skólastigum. Hinar hefðbundnari rithöfundaheimsóknir eru einnig afar metnaðarfullar og spennandi, sumar eru framsæknar en aðrar sækja í menningararfinn. Við höldum til að mynda áfram að kynna meistara bókmenntasögunnar fyrir nemendum en þetta árið er boðið upp á skemmtilega fræðslu- og tónlistarstund um Tómas Guðmundsson fyrir nemendur á miðstigi.

Bókmenntaverkefnið Skáld í skólum er tíu ára í haust, en það hóf göngu sína haustið 2006. Allt frá upphafi tóku grunnskólar landsins því fagnandi, enda um margt nýstárlegt þar sem ólíkum höfundum er teflt saman og dagskárnar sem í boði hafa verið úr ýmsum áttum. Þegar hafa yfir 50 mismunandi dagskár orðið til innan vébanda verkefnisins og það er í stöðugri þróun.

Bæklinginn má kynna sér með því að smella á myndina fyrir ofan.