Search
Close this search box.

Rúnar Snær Reynisson sigurvegari í smásagnasamkeppni í tilefni af 70 ára afmæli Mannréttindayfirlýsingarinnar

Í dag, þann 10. desember, eru liðin 70 ár síðan Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt af 48 aðildarríkjum SÞ, þar á meðal Íslandi. Til að fagna þessum merku tímamótum stóðu sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi, upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu, Rithöfundasamband Íslands og Hugvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir smásagnasamkeppni um mannréttindi og bárust alls 75 sögur í keppnina. Vilborg Davíðsdóttir, varaformaður RSÍ, tilkynnti um sigurvegara í dag á opnum hátíðarfundi um Mannréttindayfirlýsinguna í Veröld – húsi Vigdísar.

Rúnar Snær Reynisson bar sigur úr býtum og tók við viðurkenningarskjali frá sendiherra ESB á Íslandi, Michael Mann, og las upp úr smásögu sinni ,,Héðan í frá“.

Rithöfundasamband Íslands óskar Rúnari innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Umsögn dómnefndar um söguna:

,,Höfundur leyfir ímyndunaraflinu að takast á við stöðu sem gæti beðið jarðarbúa ef fram heldur sem horfir. Þetta er efnismikil og vel skrifuð framtíðarsaga.

Sagan fjallar um gjörbreyttan heim í náinni framtíð, eftir menningarhrun og náttúruhamfarir sem enn setja mark á lífið sem sagan lýsir. Vindar gnauða á kaldranalegum berangri og grímuklætt fólk skýst á milli skýla, á flótta undan eilífum sandstormi.

Sykurhúðuð harðstjórn ræður ríkjum hjá kynslóðinni sem tekur við völdum eftir hrunið og refsar hún foreldrum sínum í kerfisbundum sýndarréttarhöldum.

Gerð er tilraun til að endurrækta mannkyn í þessum breytta heimi, með hjálp hugleiðslu og sjálfsdáleiðslu, til að eyða óæskilegum hneigðum en þeim fylgja jafnframt fleiri mannlegar tilfinningar sem við álítum hluta mennskunnar. Mannréttindi einstaklinga víkja fyrir heildarhagsmunum en mannréttindabrotum er framfylgt af þeirri mannúð sem efni standa til.“

Dómnefnd skipuðu þau Ástráður Eysteinsson prófessor, Gauti Kristmannsson prófessor og Halldóra K. Thoroddsen rithöfundur. Alls bárust hvorki fleiri né færri en 75 sögur í samkeppnina.

Vinningshafinn hlýtur í verðlaun þriggja vikna dvöl á dvalarsetri á meginlandi Evrópu.

Sagan verður birt á næstu dögum.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email