Search
Close this search box.

Nýræktarstyrkir Miðstöðvar íslenskra bókmennta 2017

Nýræktarstyrkir Miðstöðvar íslenskra bókmennta voru afhentir í Gunnarshúsi í dag en Nýræktarstyrkina í ár hljóta Fríða Ísberg fyrir Slitförina, safn ljóða, og Pedro Gunnlaugur Garcia fyrir skáldsöguna Ráðstefna talandi dýra. Hvor styrkur nemur 400.000 kr. Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra afhenti styrkina við athöfn í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins og óskaði við það tækifæri nýjum höfundum alls góðs í ritstörfunum. Þetta er í tíunda skipti sem Nýræktarstyrkjum er úthlutað, en alls hafa hátt í fimmtíu höfundar hlotið þessa viðurkenningu frá upphafi.

Pedro Gunnlaugur Garcia, Kristján Þór Júlíusson og Fríða Ísberg
Pedro Gunnlaugur Garcia, Kristján Þór Júlíusson og Fríða Ísberg

Í umsögn bókmenntaráðgjafa um verkin segir:

„Slitförin er safn ljóða sem fjalla á ágengan hátt um togstreituna við að brjótast undan áhrifavöldum bernskunnar og finna leiðina að eigin sjálfi. Leiðarstef verksins er sársaukinn sem sprettur úr nístandi sorg milli barns og foreldris. Ljóðin taka pláss, sýna afstöðu og grípa lesendur föstum tökum.”

„Skáldsagan Ráðstefna talandi dýra er ekkert venjulegt byrjendaverk heldur viðamikil og þroskuð skáldsaga sem fléttar saman ólíka menningarheima á tvennum tímum, líf fólks, drauma og örlög. Frjótt ímyndunarafl í sterklega byggðri frásögn, á lifandi og skemmtilega stílaðri íslensku, mynda einstaka heild í heillandi skáldsögu.”

Í ár bárust 57 umsóknir um Nýræktarstyrki og er það metumsóknarfjöldi á þeim tíu árum sem styrkirnir hafa verið veittir. Verkin sem sótt var um fyrir eru af ýmsum toga s.s. skáldsögur, leikrit, ljóð, barna- og ungmennabækur, smásögur og glæpasögur og eru höfundar á öllum aldri. Eins og fyrr segir hlutu styrkina í ár skáldsaga og ljóðasafn. Að vali styrkhafa standa bókmenntaráðgjafar Miðstöðvar íslenskra bókmennta, sem í ár eru Helga Ferdinandsdóttir og Magnús Guðmundsson. Nýræktarstyrkir eru sérstakir styrkir til útgáfu á fyrstu skáldverkum höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum og til að hvetja þá til frekari dáða á þeirri braut. Átt er við skáldverk í víðri merkingu; sögur, ljóð, leikrit, eða eitthvað allt annað. Meðal höfunda sem hlotið hafa Nýræktarstyrki á liðnum árum eru Arngunnur Árnadóttir, Bergur Ebbi Benediktsson, Bryndís Björgvinsdóttir, Dagur Hjartarson, Halldór Armand Ásgeirsson, Kristín Ragna Gunnarsdóttir, Sigurlín Bjarney Gísladóttir og Sverrir Norland.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email