Matthías Johannessen, skáld, rithöfundur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, lést á líknardeild Landspítalans 11. mars. Hann var 94 ára að aldri, fæddur í Reykjavík 3. janúar 1930.
Matthías lauk Cand. -mag.-prófi í norrænum fræðum frá Háskóla Íslands árið 1955, með íslenskar bókmenntir sem aðalgrein. Hann lagði stund á almenna bókmenntasögu og leiklistarfræði í Kaupmannahöfn um tíma og rannsakaði m.a. verk Gríms Thomsen. Lengst af starfaði hann við Morgunblaðið, fyrst sem blaðamaður frá 1951-1959 og síðan sem ritstjóri fram í ársbyrjun 2001 þegar hann lét af störfum.
Eftir Matthías liggur fjöldi bóka, ljóðabækur, leikrit, ritgerðir, viðtalsbækur og ævisögur. Síðasta ljóðabók hans, Undir mjúkum væng, kom út 2023.
Hann hlaut, ásamt fleirum, Íslensku bókmenntaverðlaunin 2005 fyrir Kjarval. Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 1999 og viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins 1961. Bækur Matthíasar voru þrisvar sinnum tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs: Tveggja bakka veður (1983), Dagur af degi (1990) og Vötn þín og vængur (1998).
Matthías var virkur í félagsstörfum rithöfunda og sat m.a. í stjórnum Félags íslenskra rithöfunda, Rithöfundasambands Íslands hins eldra, Rithöfundaráðs og Norræna rithöfundaráðsins.
Hann var heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands frá 2001, hlaut heiðurslaun Alþingis frá 1984 og var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Háskóla Íslands 2010.
Rithöfundasamband Íslands þakkar Matthíasi samfylgdina og sendir fjölskyldu hans og vinum samúðarkveðjur.