Search
Close this search box.

Kosningar til stjórnar RSÍ 2017

Aðalfundur Rithöfundasambands Íslands verður haldinn í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, fimmtudaginn 27. apríl n.k. kl. 19.30.

Framboðsfrestur til stjórnar rann út 23. mars s.l.

Kosnir verða tveir meðstjórnendur og einn varamaður. Kosningarnar munu nú í fyrsta sinn fara fram rafrænt. Kjörfundur hefst 12. apríl og lýkur á miðnætti 26. apríl. Allir skuldlausir félagsmenn (einnig heiðursfélagar og gjaldfrjálsir félagsmenn) munu fá sendan hlekk á kjörseðil áður en kjörfundur hefst.

Í framboði til meðstjórnenda eru: Margrét Tryggvadóttir, Óskar Magnússon og Vilhelm Anton Jónsson.

Til varamanns: Halla Gunnarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir.

Meðfylgjandi kynningar hafa borist frá frambjóðendum.

Til meðstjórnanda:

MVT

Ég heiti Margrét Tryggvadóttir og býð mig fram til starfa í stjórn Rithöfundasambandsins. Nýlega voru SÍUNG – Samtök íslenskra barna- og unglingabókahöfunda endurvakin og þar sit ég í stjórn. Okkur hefur verið bent á að æskilegt sé að fulltrúi frá SÍUNG sitji í stjórn RSÍ og sá háttur var á áður.

Ég hef skrifað nokkrar bækur, flestar fyrir börn en þýtt eða ritstýrt enn fleiri verkum. Það veganesti sem ég vil taka með mér er þó ekki síður meistararitgerð sem ég vann á síðasta ári um opinbera stefnumótun og stuðning (eða stuðningsleysi) við barnabækur á Íslandi í samanburði við Noreg, Svíþjóð og Danmörku (sjá nánar http://skemman.is/handle/1946/26777 ).

Blómlegri barnabókaútgáfa er ekki bara hagsmunamál barnabókahöfunda eða ungra lesenda heldur okkar allra. Þeir sem ekki lesa sér til yndis og ánægju sem börn munu vart taka upp á því síðar á lífsleiðinni. Áfram barnabækur!

Til meðstjórnanda:

VAJ

Vilhelm Anton Jónsson hefur sent frá sér sex bækur. Hann hefur verið virkur í menningar- og listalífi landsins undanfarin ár. Hann er forsprakki hljómsveitarinnar 200.000 naglbítar, hefur leikið í fjölda sjónvarpsþátta og fjórum kvikmyndum. Hann hefur samið eða verið tónlistarstjóri í fjórum leiksýningun, m.a. samdi hann tónlist fyrir leikritið Horn á Höfði sem vann Grímuverðlaun sem besta barnaleikritið. Vilhelm hefur auk þess unnið sem dagskrárgerðarmaður í mörg ár og komið að skipulagningu stórra viðburða ýmisskonar. Vilhelm var tilnefndur til íslensku bókmenntaverðlaunana fyrir Vísindabók Villa sem var fyrsta bókin í þeirri ritröð sem hefur hlotið frábærar viðtökur.

„Ég held að reynsla mín og áhugi á starfi listamanna muni nýtast mér afar vel sem stjórnarmaður í Rithöfundasambandinu, eins þau tengsl við fólk í ólíkum geirum sem snerta starf og hag rithöfunda á einn eða annan hátt.“

Til varamanns:

HallaÉg heiti Halla Gunnarsdóttir og hef verið félagi í Rithöfundasambandinu frá árinu 2008. Eftir mig liggja fjórar útgefnar bækur, tvær ljóðabækur, fræðibók og ævisaga.

Ég er menntuð sem kennari og með meistarapróf í alþjóðastjórnmálum. Ég starfaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu frá 2003–2008 og síðan sem aðstoðarmaður ráðherra fram til ársins 2013 þegar ég fluttist til Bandaríkjanna. Ég er nú búsett í Bretlandi þar sem ég starfa fyrir þverpólitískan stjórnmálaflokk, Women’s Equality Party, en stefni að heimflutningi á næstunni. Ég tel að reynsla mín úr fjölmiðlum og þekking á íslenskri stjórnsýslu og stjórnmálum geti komið að góðu gagni í þeim baráttumálum sem framundan eru hjá Rithöfundasambandinu. Ég myndi leggja mig alla fram í hagsmunabaráttunni, sem að mínu mati snýst ekki einvörðungu um rithöfunda heldur líka um listir og menningarlíf í víðu samhengi.

Til varamanns:

bjarneyÉg heiti Sigurlín Bjarney Gísladóttir. Ég hef gefið út fjórar ljóðabækur, eina nóvellu og eitt smásagnasafn. Fyrsta bókin, Fjallvegir í Reykjavík, kom út fyrir tíu árum.

Ég hef fengist við ýmislegt eins og kennslu, leiðsögustörf, aðstoð á Bókmenntahátíð í Reykjavík o.fl. Ég hef meðal annars numið ritlist og íslenskar bókmenntir í Háskóla Íslands en þessa dagana fæst ég við lestur og skrif um hugmyndaheim sautjándu aldar.

Í mörg ár starfaði ég á Einkaleyfastofunni og síðan hjá STEFi (Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar) og hef því þekkingu á höfundarétti. Ég hef setið sem varamaður í stjórn RSÍ frá 2015 og hef ásamt Kristínu Ómarsdóttir séð um að birta bréfaskrif höfunda/listamanna á höfundavef sambandsins.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email