Search
Close this search box.

INNANFÉLAGSKRÓNIKA

Það er ekki vorlegt um að litast í kringum aðsetur RSÍ þegar ég set þessar línur á blað (reyndar á tölvuskjá, en hvað um það), glórulaus bylur, alhvít jörð og hryssingslegt hvert sem litið er. Samt eru vorverkin hafin hér í Gunnarshúsi.

Frá menntamálaráðuneytinu berast ýmis plögg, tillögur og reglugerðir sem okkur er vissara að lúslesa, því satt að segja skín alltof oft út úr þeim gögnum skilningsleysi á hlutverki listamanna í samfélaginu, svo ekki sé minnst á kjör þeirra.

Áður hef ég drepið á Frumvarp til laga um stuðning við útgáfu bóka á íslensku og tilgreint hvaða athugasemdir stjórn RSÍ vildi gera við það. Ennþá er brýnt að við höldum vöku okkar og gætum hagsmuna höfunda þegar regluverkið í kringum þau lög tekur gildi.

Okkur hefur einnig borist þingsályktunartillaga með titlinum Íslenska sem opinbert mál á Íslandi. Stjórnin hafði eitt og annað við þá tillögu að athuga og lét ráðuneytisfólk vita af því. Einkum furðuðum við okkur á því að í tillögunni skyldi lítið sem ekkert vikið að hlutverki höfunda sem skrifa á íslensku. Einhverjum hefði fundist það liggja í augum uppi að íslenskar bókmenntir og ritlistir hvers konar væru einn af hornsteinum íslenskrar tungu. Með bættum kjörum rithöfunda og eflingu þeirra sjóða sem fæða af sér íslensk verk, hvort sem er á bók, á leiksviði, í sjónvarpi, útvarpi, kvikmyndum eða á öðru formi, tryggjum við best veg og hag íslenskunnar. Í framhaldi var stjórnarfólk kallað á fund allsherjarnefndar Alþingis til að skýra mál sitt. Við verðum að vona að sjónarmið rithöfunda og annarra listamanna verði tekin til greina

Málefni Hljóðbókasafns hafa borið ótt og títt á góma undanfarnar vikur. Einkum er það óhófleg dreifing á verkum safnsins sem veldur okkur rithöfundum angri. Guðmundur Andri Thorsson þingmaður hefur nú beint fyrirspurn til menntamálaráðherra varðandi Hljóðbókasafn, þar sem hann spyr meðal annars hvort til standi að skoða starfsemi safnsins í ljósi breyttra markaðsaðstæðna. Einnig hvort ráðherra telji að sanngjarnar greiðslur fyrir afnot komi til höfunda og annarra rétthafa. Ráðherra hefur enn ekki svarað fyrirspurninni, en við bíðum spennt, þar sem öllum má vera ljóst að þær greiðslur sem berast til höfunda eru ekki í nokkru samræmi við þann feykistóra hóp sem notar Hljóðbókasafnið að staðaldri.

Starfshópur sem stofnaður var af RSÍ og Félagi leikskálda og handritshöfunda (FLH) hefur nú unnið um nokkurt skeið að því að móta rammasamning handritshöfunda og framleiðenda í kvikmyndum og sjónvarpi. Hópurinn hefur rýnt í sambærilega samninga frá öðrum löndum og það er von beggja félaganna sem að honum standa að hægt verði að ná kvikmyndaframleiðendum að samningaborðinu áður en langt um líður.

Stjórn RSÍ sat nýlega samráðsfund með stjórn Félags íslenskra bókaútgefaenda (FÍBÚT). Þar lýstum við yfir nauðsyn þess að teknar verði upp samningaviðræður við útgefendur. Það eru bæði samningar höfunda og þýðenda sem taka þarf til gagngerrar endurskoðunar. Þeir samningar sem nú eru í gildi eru komnir til ára sinna og bera þess merki að búið er að lappa uppá þá æ ofan í æ. Þeir eru því óhentugur bútasaumur þar sem eitt er til prýði en annað ekki. Nú er komið að því að skipa í samninganefndir og setja saman kröfugerðir.

Samningar höfunda við RÚV hafa ekkert þokast frá síðasta pistli formanns, einfaldlega vegna þess að samninganefnd RÚV hefur ekki gefið kost á viðræðum og heldur ekki svarað tillögum RSÍ að rammasamningi. Nú eru að verða tvö ár síðan þessar viðræður fóru af stað og við erum orðin langþreytt á biðinni. Ég vonast svo sannarlega eftir að geta fært einhverjar fregnir af þessu máli áður en alltof langt um liður. Hóflega bjartsýnn samt.

Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna var haldinn í febrúar. Fulltrúar RSÍ sátu fundinn. Það þarf engum að koma á óvart að bág kjör og strembið starfsumhverfi er það sem helst brennur á íslenskum listamönnum nú sem fyrr. Enn og aftur krefur BÍL stjórnvöld um aukinn skilning á stöðu listamanna og listarinnar í landinu og marktækar kjarabætur með eflingu starfslaunasjóða og fjölgun listamanna á launum.

Gunnarshús er félagsheimili og þjónustumiðstöð rithöfunda, eins og allir vita. Ég hvet félaga til að nýta sér húsið sem best, líta hingað inn til skrafs og ráðagerða eða halda hér kynningar og upplestra. Höfundar eru sígrænar plöntur sem ekki spretta einungis upp úr jörðinni í jólavertíðinni og við viljum endilega að hér í húsi sé líf allt árið.

Bestu kveðjur úr Gunnarshúsi

Karl Ágúst

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email