Search
Close this search box.

Höfundakvöld í Gunnarshúsi 6. desember

Slide1.JPG

Eygló Jónsdóttir, Eyrún Ósk Jónsdóttir, Lárus Jón Guðmundsson og Bryndís Björgvinsdóttir  kynna nýútkomnar bækur sínar á höfundakvöldi í Gunnarshúsi fimmtudaginn 6. desember.

Bækurnar:

Ljóðabókina Áttun eftir Eygló fjallar um ferðalög, bæði bókstafleg og huglæg. Bókin varð til á ferðalagi og í henni leyfir höfundur sér að kanna ókunnugt landslag og nýjar víddir í sjálfum sér.

Ljóðabókin Í huganum ráðgeri morð eftir Eyrúnu fjallar um sköpunarkraftinn sem lifandi afl er öðlast sjálfstætt líf, heltekur listamanninn og brýst út þegar síst varir, gerir byltingu og uppreisn. Bjartur gefur út.

FLEKASKIL eða nokkrar hugleiðingar út frá jarðfræði og kenningum Alfreds Wegeners sem hvílir frosinn á miðjum aldri djúpt í Grænlandsjökli, eftir Lárus Jón Guðmundsson.

Hvítir miðaldra karlmenn eru mikið í fréttum þessa dagana og ekki alltaf af góðu tilefni. Skemmdu eplin fá verðskuldaða athygli og viðeigandi fordæmingu en fáir velta fyrir sér líðan og ástandi hinna eplanna í tunnunni. Í Flekaskilum er reynt að gægjast undir yfirborðið, skynja líðan ljóðmælanda og velta upp svörum við áleitnum spurningum.

Krossgötur: Álfatrú, álfabyggðir og bannhelgi á Íslandi er afrakstur fjögurra ára rannsóknarvinnu Bryndísar Björgvinsdóttur og Svölu Ragnars ljósmyndara. Í henni er greint frá 54 stöðum um allt land sem mannfólkið má ekki hrófla við samkvæmt hjátrúnni. Rýnt er í ný og gömul dæmi til að varpa ljósi á sögurnar að baki og áhrif þessarar fornu hjátrúar á umhverfi og menningu. Bjartur gefur út.

Höfundarnir:

Eygló Jónsdóttir er með meistaragráðu í ritlist. Hún situr í ritnefnd fyrir tímaritið Mannúð, sem fjallar um frið og mannréttindi. Síðustu jól gaf hún út barnabókina Ljóti jólasveinninn, sem einnig var litabók. Hún hefur skrifað fjölda greina í blöð/tímarit og ljóð eftir hana og sögur hafa birst í safnritum.

Eyrún vann bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2016. Árið 2017 komu út tvær bækur eftir hana, Ferðin til Mars og barnabókin Skrímslin í Hraunlandi. Auk þess að senda frá sér fjórar skáldsögur, fjórar ljóðabækur og eina myndskreytta barnabók hefur Eyrún skrifað leikrit, kvikmyndahandrit, greinar og fyrirlestra, m.a um friðarmál og mannúðarheimspeki búddisma.

Lárus Jón menntaði sig í raungreinum og vísindum fyrir margt löngu og sá fram á átakalítið ævikvöld þegar hann komst að því að hann hafði steingleymt að bólusetja sig gegn ritlistarveirunni. Hann fékk heiftarlegt skriftarkast, var lagður inn á ritlistarálmu Hugvísindasviðs Háskóla Íslands og er fyrst núna þremur árum síðar að útskrifast með ævilanga Magisters greiningu.

Bryndís Björgvinsdóttir þjóðfræðingur og Svala Ragnarsdóttir heimildaljósmyndari. Hugmyndin að verkefninu spratt upp úr verkefni þar sem Svala ljósmyndaði eigin æskustöðvar „í nýju ljósi“. Hún fékk Bryndísi til liðs við sig enda báðar Hafnfirðingar. Þær urðu brátt hugfangnar að þessu verkefni og hafa nú ferðast um allt land til að ljósmynda og rannsaka bannhelg svæði sem hafa áhrif á umhverfi, menningu og landslag.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email