Search
Close this search box.

Höfundakvöld í Gunnarshúsi 5. desember

Hvað er betra á aðventunni en að koma og hlusta á rithöfunda lesa úr verkum sínum og gæða sér á léttum veitingum í einu fallegasta húsi landsins? Fimmtudagskvöldið 5. desember kl. 20.00 verður einmitt höfundakvöld í Gunnarshúsi, allir velkomnir, léttar veitingar í boði. Höfundarnir sem munu lesa úr verkum sínum eru Sigurlín Bjarney Gísladóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Eyrún Ósk Jónsdóttir, Hildur Kristín Thorstensen og Eygló Jónsdóttir.  

Sigurlín Bjarney Gísladóttir hefur gefið út ljóðabækur, smásagnasafn og nóvellu og nýjasta ljóðabókin, Undrarýmið, kom út fyrr á þessu ári. Undrunin og óravíddir tilverunnar eru meginstefin í ljóðunum sem spretta hér fram og tengjast á óvæntan hátt myndum úr aldagömlum ritum um náttúrufræði og læknisfræði.

Ragnheiður Harpa Leifsdóttir er rithöfundur og sviðslistakona. Hún hefur samið og unnið að leiksýningum, gjörningum og innsetningum hérlendis og erlendis. Ritverk hennar og ljóð hennar hafa birst í ýmsum útgáfum og heyrst í útvarpi. Hún er hluti af ljóðakollektívinu Svikaskáld, en saman hafa þær gefið út þrjár ljóðabækur. Ljóðabók hennar Sítrónur og náttmyrkur er hennar fyrsta í fullri lengd og kom út 21. nóvember.   

Eyrún Ósk Jónsdóttir vann bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2016. Auk þess að senda frá sér fjórar skáldsögur, fimm ljóðabækur og eina myndskreytta barnabók hefur Eyrún skrifað leikrit, kvikmyndahandrit, greinar og fyrirlestra, m.a um friðarmál og mannúðarheimspeki búddisma. Nýverið sendi hún frá sér ljóðabókina ,,Mamma má ég segja þér?“  

Hildur Kristín er 27 ára gömul listakona. Hún kláraði leiklistabrautina við Fjölbrautarskólann í Garðabæ 2014 og fór því næst í sviðslistarnám við Länsi-Suomen opisto í Finnlandi. Hún kláraði framhaldsprófið í klassískum söng og tónlist við Söngskólann í Reykjavík árið 2017. Hún lærði leiklist við Cours florent í París og síðar í Rose Bruford í London. Hún hefur gefið út ljóðabók og barnabók. Auk þess hefur hún skrifað leikrit og starfað við þýðingar. Hún hefur einnig leikstýrt verkum fyrir listahópinn Kvist. Hildur gaf út barnabókina Töfraloftbelgurinn nú á dögunum.  

Eygló Jónsdóttir er með meistaragráðu í ritlist. Hún situr í ritnefnd fyrir tímaritið Mannúð, sem fjallar um frið og mannréttindi. Hún hefur gefið út barnabókina Ljóti jólasveinninn og ljóðabókina Áttun. Hún hefur skrifað fjölda greina í blöð/tímarit og ljóð eftir hana og sögur hafa birst í safnritum. Í ár var hún fengin til þess að semja 17. júní-ljóð fjallkonunar fyrir Hafnarfjarðarbæ og þessa dagana er hún að undirbúa útgáfu á smásagnasafni sínu sem Bókabeitan mun gefa út.  

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email