Search
Close this search box.

Halldóra K. Thoroddsen

Engill
 
Síríus blikaði á suðurhimni, hvítari og skærari en allar hinar. Undir óravíddum hvolfsins lá barn á bakinu. Mjóslegið mannabarn undir kvöldhimni. Kyrrðin magnaði krafshljóðið undan sperrtum útlimum sem teiknuðu vængi og kyrtil í mjúka fönnina. Við hlið engilsins skildi barnið eftir teiknaða hörpu og klöngraðist uppá hæð til að líta verk sitt. Frá lífvana engilmynd og þöglu hljóðfæri lá sporaslóð til höfundar sem starði og beið, hátíðlegur og máttfarinn. Þá gerðist undrið sem hann hafði vænst í barnaskapnum. Engillinn rótaði sér, seildist í hljóðfærið, blakaði vængjum og hóf sig á loft inní svart ómælið. Hvítur sem kyndill. Stakir tónar bárust um festinguna.
Halldóra Kristín Thoroddsen/ 2005 Gangandi vegfarandi
 
Allt getur gerst og allt gerist. Sumt er ótrúlegra en annað og það tók okkur öll langa stund að trúa því að hún Halldóra væri flogin burt. Það eru ríflega 40 ár síðan við hittums í fyrsta sinn. Þá vissi ég ekki að hún væri skáld. Ég var bekkjarbróðir Bauju systur hennar í Leiklistarskólanum og fundum okkar bar helst saman ef yfir einhverju þurfti að gleðjast. Og víst var glaðst. Og hlegið hátt. Seinna störfuðum við Eggert náið saman í nokkur ár og ég datt inn á heimili þeirra Dóru af og til. Og þá var glaðst. Og hlegið hátt. En líka kafað djúpt. Því það var alltaf svo óhemju gaman að hitta Dóru og eiga við hana orð um allt og ekkert. Og þá vissi ég loksins að hún var skáld. Og ég skal viðurkenna að það jók enn á gleðina af að þekkja hana. Um leið og verk hennar tóku að birtast almenningi varð öllum það ljóst að þarna var ný og hressileg rödd á ferðinni. Og með hverju verki jókst henni ásmegin, hún var óheyrilega fyndin á sinn hlýlega hátt, kunni eldklárt að greina samfélag okkar og sögu og afhjúpa þau í orðum sem oft fengu mann til að glenna upp augu í furðu og aðdáun. Mörg slík augnablik átti ég með síðustu bók hennar, Katrínarsögu, sem er óhemju mikilvægt framlag til íslenskra bókmennta, og um leið mjög skörp og nauðsynleg þjóðfélagsrýni.
 
Fyrir hönd íslenskra rithöfunda kveð ég Halldóru með miklum trega og harma að hún skyldi ekki fá að ljúka dagsverki sínu, en þakka um leið þær góðu gjafir sem hún gaf. Fyrir hönd sjálfs mín og míns fólks þakka ég góðar og skemmtilegar stundir. Ykkur öllum votta ég dýpstu samúð, elsku Eggert og fjölskylda.
 
Karl Ágúst Úlfsson

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email