Search
Close this search box.

Eva Rún Snorradóttir hlýtur Maístjörnuna

Eva Rún Snorradóttir handhafi Maístjörnunnar 2018

Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn veita verðlaun fyrir ljóðabók sem kom út á árinu 2018. Verðlaunin, sem bera heitið Maístjarnan, voru afhent í þriðja sinn við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni þann 20. maí.

Maístjörnuna fyrir ljóðabók ársins 2018 hlýtur Eva Rún Snorradóttir fyrir ljóðabók sína Fræ sem frjóvga myrkrið.

Í umsögn dómnefndar um verðlaunabókina segir:

„Fræ sem frjóvga myrkrið (Benedikt bókaútgáfa, 2018) er frumleg og fjölbreytt ljóðabók þar sem skáldið Eva Rún Snorradóttir bregður á leik með ýmis form, allt frá örleikritum til prósaljóða. Fyrri hluti bókarinnar er margradda lýsing á ferð vinkvenna til sólarlanda sem reynist í senn nöturleg og fyndin. Síðari hlutinn er einlægari og myndrænni og þar eru ljóð sem lýsa vináttu, sársauka, sjálfsuppgötvun og annarlegum heimi á áleitinn hátt. Þannig beitir Eva Rún ólíkum sjónarhornum og formum sem sameina hið ljóðræna og leikræna og nær með því að draga upp sterka og margræða mynd af heiminum sem hreyfir við lesandanum.“

Eva Rún Snorradóttir er fædd í Reykjavík 9. apríl 1982. Hún byrjaði snemma að yrkja en átta ára gömul var hún með kennara sem lét alla gera ljóð og færði hún foreldrum sínum heftaða bók sem bar titilinn Hamarinn og var „mjög dramatísk, sorgleg, myndskreytt ljóðabók í einriti.“ Eva Rún eyddi sínum bernsku- og unglingsárum í Breiðholtinu og fjalla fyrri ljóðabækur hennar öðrum þræði um þann tíma; Heimsendir fylgir þér alla ævi 2013 og Tappi á himninum 2016. Eva Rún Snorradóttir er sjálfstætt starfandi sviðslistakona og rithöfundur. Hún er meðlimur í sviðslistahópunum Kviss búmm bang og 16 elskendur. Nýverið tók hún við sem annar listrænn stjórnandi Alþjóðlegu leiklistarhátíðarinnar LÓKAL. Eva Rún útskrifaðist með BA gráðu frá sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands árið 2008 Gjaldgengar voru allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2018 sem skilað var til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

Í dómnefnd sátu Sveinn Yngvi Egilsson tilnefndur af Rithöfundasambandinu og Eva Kamilla Einarsdóttir tilnefnd af Landsbókasafni Íslands – Háskólasafni.

Tilnefndar voru bækurnar:

Ásdís Ingólfsdóttir – Ódauðleg brjóst (Partus)

Eva Rún Snorradóttir – Fræ sem frjóvga myrkrið (Benedikt bókaútgáfa

Gerður Kristný – Sálumessa (Mál og menning)

Haukur Ingvarsson – Vistarverur (Mál og menning)

Linda Vilhjálmsdóttir – Smáa letrið (Mál og menning)

Sigfús Bjartmarsson – Homo economicus I (MTH útgáfa)

Rithöfundasamband Íslands óskar Evu Rún innilega til hamingju með verðlaunin!

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email