Search
Close this search box.

Jæja frá formanni

Jæja, kæru félagar.

Gunnarshús iðar af lífi. Höfundar halda hér útgáfuteiti og standa fyrir eigin uppákomum. Þannig er félagsheimilið í fullri notkun. Við höfum líka tekið upp þá nýbreytni að halda stutta og snarpa fundi í hádeginu um mál sem brenna á fólki. Við héldum tvo upplýsandi hádegisfundi um hljóðbækur á haustdögum og nýverið komum við saman í hádeginu til að ræða um taxta vegna upplestra og brýna fyrir höfundum að taka laun fyrir vinnu sína. Í kjölfarið höfum við staðið fyrir átaki þar sem við hvetjum fyrirtæki, félög og stofnanir til að greiða höfundum fyrir upplestra auk þess sem við höfum sent áminningu til grunnskóla um greiðslur til höfunda og gjaldskrá. Þá höfum við hrint af stað verkefninu Bókaveisla barnanna, en þar gefst félagsmönnum tækifæri til að skrá sig með bókartitil á lista sem sendur er á grunnskólana. Minnt er á gildi þess að fá höfunda í heimsókn og að auki vísað í gjaldskrá RSÍ. Er það von okkar að þetta geti orðið árleg sending frá RSÍ og markmiðið er að auðvelda aðgengi að höfundum og greiða leiðir bókmenntanna inn í skólana.

Framkvæmdastjórinn fór á dögunum utan til fundar við fulltrúa bókasafnssjóða höfunda um víða veröld. Þar var mál manna að staða norrænu sjóðanna væri góð miðað við önnur lönd. Víða er hart sótt að höfundaréttinum og því ljóst að aðilar samtaka um bókasafnssjóði þurfa að standa enn þéttar vörðinn og gæta að hagsmunum höfunda þegar margir seilast eftir réttindum þeirra.

Hér heima þokast samningar. Þriggja manna nefnd RSÍ hefur um langa hríð glímt við að lenda samningum við RÚV um sjónvarp, útvarp og stafræna miðlun. Þeirri vinnu miðar ágætlega undir stjórn lögmanns RSÍ, Sigríðar Rutar Júlíusdóttur. Verið er að undirbúa lokasamningalotu sem vonast er til að geti hafist innan skamms.

Verkefnið Skáld í skólum gekk vel þetta haustið. Níu höfundar fóru í 75 skólaheimsóknir á öllum grunnskólastigum með sögur og ljóð, rapp og höfundasmiðjur.

Stóra verkefnið á skrifstofunni þessa dagana eru launaútreikningar. Unnið er að kortlagningu á kjörum rithöfunda. Markmiðið með þessari vinnu er að vera tilbúin með upplýsingapakka og vel nestuð fyrir viðræður við næsta menntamálaráðherra.

Að lokum ber að geta þess að nefnd um bókmenningarstefnu mun skila af sér tillögum til menntamálaráðherra fyrir 1. desember næstkomandi. Nefndarmenn eru nokkuð sammála og einhuga um hvað gera þarf til að styðja við og styrkja tungumál, læsi og bókmenningu þjóðar. RSÍ talar fyrir hugmyndum eins og innkaupastefnu fyrir bókasöfnin að norskri fyrirmynd, stuðningi við útgáfu myndskreyttra barnabóka, og kraftmikilli innspýtingu í Bókasafnssjóð höfunda og launasjóð rithöfunda. Stoðkerfið er til staðar, en stórauka þarf fjárframlögin eftir langtíma svelti svo bókmenntirnar blómstri.

RSÍ og FÍBÚT stóðu saman að fjölmennum fundi með frambjóðendum í Safnahúsinu um aðgerðir til bjargar tungumáli og bókmenntum nú fyrir kosningar. Krafa um afnám virðisaukaskatts af bókum virðist orðin að þverpólitísku verkefni og það verður ánægjulegt að fylgjast með nýrri ríkisstjórn sem lætur það verða sitt fyrsta verk að afnema skattinn.

Að þessu sögðu er rétt að minna á jólaboðið hér í húsi. Það er nú ekki lítið mikilvægt að hafa gaman af þessu! Boðið verður haldið þann fjórtánda desember næstkomandi og  það er skyldumæting kl. 17:00.

Njótið daganna, Kristín Helga

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email